Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 7. mars 2008
Kunna Íslendingar ekki að gera áætlanir?
Grímseyjaferjan. Kárahnjúkavirkjun. KSÍ stúkan.
Eru Íslendingar upp til hópa gjörsamlega óhæfir til að gera áætlanir sem standast? Af hverju er það regla fremur en undantekning að verkefni fari langt fram úr áætlunum og kostnaðurinn lendi á ríkinu eða borginni og á endanum á skattgreiðendum?
Af hverju gerist það aldrei að neinn taki ábyrgð á að klúðra áætlanagerðinni gjörsamlega?
Er þetta bara enn ein birtingarmynd almenns agaleysis í íslensku þjóðfélagi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 4. mars 2008
Er byggingabólan sprungin?
Það kom fáum á óvart að byggingafyrirtæki nokkurt skyldi segja upp 95 Pólverjum. Það kæmi ennfremur ekki á óvart þótt svipaðar fréttir myndu heyrast frá öðrum fyrirtækjum í sama geira. Þótt allir reyni að bera sig vel, er nokkuð ljóst að sum byggingafyrirtæki standa illa, en sérstaklega þau sem fóru seint af stað með framkvæmdir og standa nú uppi með hálfbyggð hús og enga trygga kaupendur.
Aðrir sem luku framkvæmdum á síðasta ári, seldu sín hús og litu svo á að nóg væri byggt í bili eru hins vegar í góðum málum.
Það vita allir að mikið hefur verið byggt síðustu ár og ný- eða hálfbyggð hús hafa sprottið upp eins og gorkúlur eftir vætutíð um haust. Hingað til hefur ekki skort kaupendur, en verulega hefur dregið úr sölu á nýjum og notuðum íbúðum síðustu mánuði. Fólk er hrætt við að taka innlend lán vegna hárra vaxta, sem væntanlega eiga eftir að hækka enn frekar og einnig eru margir hræddir við erlend lán ef alvarlegt gengisfall krónunnar er yfirvofandi.
Það sem helst heldur aftur af fólki er þó væntanlega sú staðreynd að íbúðaverð hefur hækkað umfram öll velsæmismörk. Sökudólgurinn er auðfundinn - bankarnir. Þegar þeir fóru að bjóða hagstæð íbúðalán, sem léttu greiðslubyrði fólks þýddi það í raun ekkert annað en að fólk hafði meiri pening á milli handanna og var reiðubúið til að borga hærra verð fyrir íbúðirnar, þangað til verðið var komið á það stig að greiðslubyrðin af lánum fólks var svipuð og hún hafði verið fyrir aðkomu bankanna.
Munurinn var bara sá að erfiðara var fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð, fasteignaskattar hækka og fólk var í mun verri stöðu gagnvart hækkandi vöxtum en áður. Engir græða á þessu, jú nema bankarnir - svo framarlega sem fólk verður ekki gjaldþrota umvörpum og bankarnir neyðast til að leysa til sín illseljanlegar eignir.
Þetta er sú staða sem þjóðin er að vakna upp við núna - eins og að vakna í vafasömu ástandi morguninn eftir tryllt partí með dúndrandi timburmenn.
![]() |
Byggingafyrirtæki segir upp 95 manns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 27. febrúar 2008
Endurskoðun vopnalaga
Nú vill dómsmálaráðherra láta endurskoða vopnalögin, enda finnst honum sjálfsagt hið versta mál hve miklar hömlur eru settar á eign almennings á skriðdrekum og sprengjuvörpum.
Það gengur hreinlega ekki hversu erfitt það er fyrir Íslendinga að verða sér úti um almennileg vopn til að meiða eða drepa hvern annan.
Tökum til dæmis Taser rafstuðbyssurnar. Bandarískur almúgi getur keypt þær í mörgum gerðum, litum og stærðum - já, meira að segja með innbyggðum MP3 spilara (sjá þessa frétt) en hér á Íslandi voga sumir landsmenn sér meira að segja að efast um rétt lögreglunnar til að ganga um með svona leikföng.
Þeir fáu sem halda því fram að vopnalögin hér á landi séu ekki nægjanlega ströng og að harðar þurfi að taka á þeim sem eru að smygla vopnum til landsins eða eru teknir með óskráðar afsagaðar haglabyssur eru auðvitað óalandi og óferjandi með öllu og nánast hreinir föðurlandssvikarar.
Bang! Bang! Herinn hans Bjössa vill fá alvöru byssur.
![]() |
Dómsmálaráðherra skipar nefnd til endurskoða vopnalög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Út með álver, inn með...gagnaver?
Púkinn fagnar því að samið hefur verið við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar vegna fyrirhugaðrar byggingar gagnavers (sem hljómar væntanlega betur en "netþjónabú") í Keflavík.
Reyndar verður Púkinn að viðurkenna að hann hafði vissar efasemdir um að af þessum framkvæmdum yrði og kemur þar ýmislegt til. Eitt af því er kostnaðurinn við gagnaflutningana, eða réttara sagt, verðskrá Farice.
Fyrirtæki Púkans dreifir meiri gögnum en flest önnur íslensk fyrirtæki. Þegar málið var athugað á sínum tíma kom í ljós að kostnaður við að dreifa gögnunum frá Íslandi var tífaldur kostnaður við að setja upp netþjóna í Bandaríkjunum og dreifa gögnunum þaðan. Þessi kostnaður, ásamt óáreiðanleika netsambandsins frá Íslandi var einnig ástæða þess að CCP ákvað að staðsetja sína leikjaþjóna erlendis.
Vandamálið með óáreiðanleikann leysist að mestu með tilkomu Danice strengsins og Púkinn gerir ráð fyrir því að Verne Holdings hafi í krafti stærðar fyrirhugaðrar netumferðar náð mun hagkvæmari samningum en öðrum hafa boðist.
Hvað um það, það er ánægjulegt að sjá þennan vísi að orkufrekri, "grænni" starfsemi.
Fleiri gagnaver, færri álver, takk fyrir.
![]() |
20 milljarða fjárfesting |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 20. febrúar 2008
Góður dagur fyrir svartsýnismenn
Samkvæmt þeim fréttum sem dynja á okkur, þá er loðnustofninn hruninn, bankakerfið að hrynja, krónan og hlutabréfin á góðri leið með a falla niður úr öllu. Já, og svo er líka tunglmyrkvi að skella á.
Svartara getur það varla orðið.
Það er annars merkilegt með Íslendinga, að þegar þeim er sagt að allt sé á uppleið þá stökkva allir til, spreða peningum (sem þeir eiga ekki) í hlutabréf, fasteignir, nýja jeppa og fleira í þeim dúr, en þegar sömu mönnum er sagt að allt sé á niðurleið,, þá yppa sömu menn bara öxlum og lýsa yfir bjargfastri trú að að þetta muni allt reddast einhvern veginn.
Eru Íslendingar upp til hópa óforbetranlegir og óraunsæir bjartsýnismen?
Mánudagur, 18. febrúar 2008
Kosovo og mörk lýðræðisins
Hvenær er réttlætanlegt að þjóðarbrot fái að ráða sér sjálf, í stað þess að vera hluti stærra ríkis þar sem önnur tungumál eða trúarbrögð ríkja?
Hvenær er réttlætanlegt að endurskilgreina landamæri til að sameina þjóð sem býr beggja megin landamæra sem voru dregin af misvitrum mönnum?
Myndu þær þjóðir sem nú styðja sjálfstæði Kosovo bregðast eins við ef Baskar, eða minnihlutahópar í landamærahéruðum Póllands, Búlgaríu, Rúmeníu, Moldavíu, Georgíu eða Grikklands gerðu slíkt hið sama?
Hvað ef spænskumælandi íbúar í Texas og suðurhluta Kaliforníu lýstu yfir sjálfstæði?
Í þetta sinn hefur Púkinn engin svör, aðeins spurningar.
![]() |
Bretar, Frakkar, Ítalar og Þjóðverjar viðurkenna Kosovo |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 11. febrúar 2008
Valdataflið
Skákmenn þurfa stundum að fórna manni til að vinna taflið. Sú hugsun sækir nú að Púkanum að svipaðar hugleiðingar séu meðal sumra Sjálfstæðismanna þessa dagana - þeir séu að velta fyrir sér hvort besti leikurinn í stöðunni sé að fórna Villa til að halda völdum og vinna leikinn.
Púkinn er í sjálfu sér ekki sannfærður um að Villi eigi að víkja - heldur sé jafnvel mikilvægara að hreinsa til innan Orkuveitunnar og henda þeim út sem virðast hafa gleymt því sem ætti að mati Púkans að vera hið raunverulega hlutverk þeirra - að veita þjónustu.
Hverjar eru líkurnar á að það gerist? Snýst málið kannski bara um hvort það eigi að fórna peði eða öflugri manni?
Fimmtudagur, 24. janúar 2008
Borgarpólitík...eða Spaugstofan?
Púkinn bíður næsta þáttar af Spaugstofunni með eftirvæntingu - það er ekki oft sem jafn mikið af góðu "hráefni" er í boði handa þeim félögum, enda hafa atburðir undanfarinna daga verið með hreinum ólíkindum og það ætti engum að koma á óvart þótt hnífastungur, launráð og dularfull jakkaföt kæmu þar við sögu.
Undanfarið hefur pólitíkin minnt á farsa í leikhúsi - verk sem skilur ósköp lítið eftir, en leyfir fólki að skemmta sér um stund.
Nei, það er ekki skrýtið að aðeins 12% þjóðarinnar treysti stjórnmálamönnum meira en öðrum - og reyndar finnst Púkanum sú tala furðulega há.
Mánudagur, 21. janúar 2008
6 orða saga úr íslenskri pólitík

![]() |
Keyptu föt fyrir tæpa milljón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 17. janúar 2008
Hverjum er treystandi?
Púkanum finnst það góð frétt að Íslendingar treysti kennurum betur en öðrum starfstéttum og að trúarleiðtogar séu neðstir á listanum - já, neðar en stjórnmálamennirnir.
Það er einnig athyglivert að skoðun Íslendinga á því hverjum sé treystandi er ekki í nokkru samræmi við það hvað þjóðfélagið er tilbúið til að greiða viðkomandi fyrir sína vinnu - laun stjórnmálamanna eru verulega miklu hærri en laun kennara og trúarleiðtogar hafa nú oft ekki yfir neinu að kvarta að þessu leyti heldur.
Það er eitthvað athugavert við þetta, en ... tja, svona er Ísland í dag.
![]() |
Kennurum treyst best á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)