Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 11. janúar 2008
Miðbæjarvígvöllurinn
Enn og aftur er umræðan komin aftur í sama farið - að hér á landi séu of margir útlendingar með sakaferil, sem stundi það að berja mann og annan og það ætti að senda þá alla úr landi. Já, og að þátttaka Íslands í Schengen hafi verið mistök.
Þetta er bara ekki málið.
Fólk fær það á tilfinninguna að útlendingar beri ábyrgð á óeðlilega stórum hluta ofbeldisglæpa og alvarlegri afbrota hérlendi, enda hika fjölmiðlar ekki við að flagga því í hvert sinn sem útlendingar eiga í hlut.
Þetta er ekki aðalmálið heldur.
Það sem Púkinn telur aðalmálið er að ástandið í miðbænum virðist vera orðið þannig að fólki er varla óhætt þar á vissum tímum nema í fylgd lífvarða. Lögreglan segir stefnuna að hreinsa upp miðbæinn, en hún er undirmönnuð og lögreglumennirnir undirborgaðir. Meðan það ástand varir er ósennilegt að ástandið batni mikið.
Við höfum að vísu ekki yfir miklu að kvarta miðað við sumar aðrar þjóðir - hér tíðkast ekki götubardagar með bensínsprengjum, eins og sumar nágrannaþjóðir okkar hafa þurft að fást við, en engu að síður eru væntanlega flestir sammála um að ástandið sé ólíðandi.
![]() |
Ráðist á lögreglumenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 10. janúar 2008
Kvótakerfið dautt ... eða bara með skrámu?
Dómurinn í Genf segir að íslenska kvótakerfið uppfylli ekki alþjóðalög og því verði að breyta. Þetta er að mati Púkans ein stærsta frétt það sem af er þessu ári og búast má við því að nú fari umræðan um kosti og galla kvótakerfisins á fullan gang í þjóðfélaginu enn á ný.
Það eru margvísleg vandamál við kvótakerfið, en það sem þetta ákveðna dómsmál snýst um er sú mismunun að nýliðar sitja ekki við sama borð og þeir sem höfðu veiðireynslu við upptöku kerfisins, heldur þurfa að kaupa kvóta af þeim forréttindahópi sem fékk hann "gefins" á sínum tíma (eða þeim sem þeir seldu kvótann).
En hvað geta stjórnvöld gert?
Augljósasti valkosturinn er auðvitað sá að reyna að hunsa úrskurðinn - breyta ekki kerfinu, en borga sjómönnunum einhverjar bætur til að málið detti dautt niður hvað þá varðar.
Annar valkostur er að setja plástur á kerfið. Segja t.d. að 2% kvótans fyrnist á hverju ári og sé endurúthlutað - að hluta endurgjaldslaust til nýliða, en afgangurinn sé seldur á uppboði - sem kæmi þá í stað auðlindaskatts á útgerðirnar. Til að koma í veg fyrir misnotkun þá yrðu að vera einhverjar takmarkanir á framsali "nýliðakvóta" - hann myndi renna aftur til ríkisins sé hann ekki nýttur, og væri ekki framseljanlegur fyrstu 5-10 árin.
Þriðji valkosturinn er að lýsa kerfið dautt og koma með eitthvað betra í staðinn. Púkinn efast um að nokkuð fullkomið fiskveiðistjórnunarkerfi sé til, en þykist nú samt geta séð fyrir sér kerfi sem hefur alla kosti núverandi kerfis en færri galla.
Hvað um það - það er næsta ljóst að þessi þriðja leið verður ekki valin - það er of mikið í húfi hjá of mörgum ráðandi aðilum. Bankarnir sem eiga veð í óveiddum kvóta yrðu t.d. ekki hamingjusamir ef ríkið legði niður núverandi kerfi með einu pennastriki og kvótaveðið yrði verðlaust með öllu - og það gildir einu þótt ríkið hafi fullan rétt til að gera það. Menn munu ekki þora að fara þessa leið.
Nei, Púkinn er nokkuð viss um að sjúklingurinn verður ekki lýstur dauður, heldur verður bara skellt á hann nokkrum plástrum.
![]() |
Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 4. janúar 2008
"Einstæðir" foreldrar að svindla á kerfinu
Púkanum finnst að ákveðinn hluti þjóðarinnar kunni ekki að skammast sín, en þar á meðal eru sumir þeirra einstaklinga sem stunda það að svindla á opinbera kerfinu - ná út úr því hærri bótum en þeir eiga rétt á.
Ein margra leiða til þess er að hjón skilji á pappírnum, eða að sambýlisfólk skrái sig ekki í sambúð og annað þeirra, nánast alltaf konan, sé skráð sem einstætt foreldri með börn á framfæri.
Sumir einstaklingar sem stunda þetta líta sennilega svo á að þetta sé gert af illri nauðsyn - sjálfsbjargarviðleitni til að reyna að nálgast mannsæmandi lífskjör, en skammast sín auðvitað fyrir þessi svik.
Svo eru það þeir sem ekki kunna að skammast sín.
Eins og þeir vita sem þekkja Púkann þá hefur hann allnokkuð með starfrækslu Íslendingabókar að gera. Þar hefur komið fyrir að fólk hafi haft samband, hundfúlt yfir því að á vef Íslendingabókar standi að þau hafi skilið eða slitið samvistum.
Halló...er ekki allt í lagi? Fólk velur að skrá sig úr sambúð og fær fyrir vikið hærri mæðralaun og barnabætur - bætur sem það í raun á ekkert tilkall til og væru betur greiddar þeim sem raunverulega þurfa á þeim að halda - og síðan er fólk reitt yfir því að Íslendingabók vilji ekki taka þátt í því að hylma yfir svikin með þeim.
Púkinn spyr - kann sumt fólk virkilega ekki að skammast sín?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mánudagur, 10. desember 2007
Íslensk fyndni 2008 - frumvarp til fjárlaga
Það er ýmislegt í fjarlagafrumvarpinu sem ekki er hægt annað en að brosa að, en það er jafnvel fleira sem flestir hrista væntanlega hausinn yfir og velta fyrir sér geðheilsu ráðamanna þjóðarinnar.
Margir bestu brandararnir eru í því sem nefnist "Sundurliðun óskiptra liða í A-hluta".
Til dæmis eru veittar 1.500.000 vegna "árs kartöflunnar", en til samanburðar fær Daufblindrafélagið 1.200.000.
Það eru veittar 10.000.000 vegna niðurrifs frystihúss í Flatey, en það er sama upphæð og samanlagðar fjárveitingar til Félags áhugafólks um Downs-heilkenni, Barnaheilla, Félags einstæðra foreldra, Félags heyrnarlausra, Samhygðar og Samtaka áhugafólks um spilafíkn.
Púkinn vill að gefnu tilefni taka fram að hann hefur ekkert á móti selum, en honum finnst athyglivert að Selasetur Íslands og selaskoðunarstaður á Illugastöðum á Vatnsnesi fá samanlagt 20.000.000 - en það er fjórfalt meira heldur en veitt er til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.
Já, það er nú aldeilis gott að forgangsröðunin er á hreinu þegar það kemur að því að úthluta peningum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Áhugasamir geta lesið meira hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 6. desember 2007
Útlendingar á Íslandi
Margir Íslendingar virðast trúa því að þeir séu lausir við fordóma gegn útlendingum, en sé skyggnst aðeins undir yfirborðið verður stundum annað uppi á teningnum.
Það er nefnilega auðvelt að sýna enga fordóma, þegar engir minnihlutahópar eru til staðar í samfélaginu sem fordómarnir geta bitnað á.
Staðan er hins vegar að breytast. Í sumum sveitarfélögum hafa til dæmis sest að hópar fólks frá ákveðnum löndum og vandamál og fordómar hafa sprottið upp í kjölfarið - fordómar sem bitna jafnvel á fólki frá sömu löndum sem höfðu áður búið þar án árekstra og vandræða árum saman.
Besta dæmið um þetta eru væntanlega Pólverjarnir í Reykjanesbæ. Þar hafa árum saman búið nokkrar pólskar fjölskyldur í sátt og samlyndi við nágranna sína frá Íslandi eða öðrum löndum.
Svo gerist það að þangað flytja nokkur hundruð Pólverjar - nánast allt einhleypir ungir karlmenn, og margir með einhvern sakaferil í heimalandinu. Í kjölfarið verður allt vitlaust - slagsmál á skemmtistöðum og blásaklausir Pólverjar eru litnir hornauga af sumum Íslendingum.
Það að skella nokkur hundruð einhleypum, ungum karlmönnum inn í bæjarfélag þar sem þeir eiga ekki rætur er nokkuð líklegt til að valda vandræðum af einu eða öðru tagi, en málið er hins vegar það að það skiptir engu hvaðan mennirnir eru - þetta hefðu allt eins getað verið Íslendingar - það urðu nú oft slagsmál milli heimamanna og aðkomumanna á sumum sveitaböllum hér áður fyrr og þar var nú bara um Íslendinga að ræða.
Þegar aðkomumennirnir eru útlendingar, þá spretta hins vegar upp fordómar gagnvart öllum öðrum af sama þjóðerni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fimmtudagur, 6. desember 2007
Ofsaakstur - hvað þarf að drepa marga?
Það að aka á 212 km/klst er nokkuð sem allir ættu að geta samþykkt að sé ofsaakstur, en því miður heyrist allt of oft að ökumaðurinn hafi áður verið tekinn fyrir slíkt athæfi, eða jafnvel sviptur ökuréttindum ævilangt (þótt svo hafi að vísu ekki verið í þessu tiltekna tilviki).
Púkanum finnst nóg komið - það er greinilegt að núverandi úrræði eru ekki að virka. Á meðan sitja hæstvirtir alþingismenn (og -konur) og gera ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu máli - finnst það greinilega mikilvægara að ræða hluti eins og bleik eða blá föt fyrir ungabörn.
Hvað þarf að gerast til að ráðamenn þjóðarinnar taki við sér? Er verið að bíða eftir að einhver ökuníðingurinn keyri þeirra eigin börn (eða barnabörn) niður?
Nei, Púkanum finnst nauðsynlegt að gripið sé til aðgerða til að draga úr þessari plágu sem ofsaakstur er (svo ekki sé nú minnst á akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna). Þær aðgerðir þurfa að vera í formi lagasetningar frá Alþingi.
Púkinn hefur áður lýst sinni tillögu, en vill nú ítreka hana:
Sé réttindalaus einstaklingur tekinn við akstur skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttindum ævilangt vegna ofsaaksturs eða aksturs undir áhrifum skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttindum tímabundið, sem áður hefur hlotið tímabundna sviptingu skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttundum tímabundið í fyrsta sinn, skal ökutækið kyrrsett meðan sviptingin er í gildi. Sé kyrrsett ökutæki notað við akstur skal það get upptækt og selt á uppboði.
(að vísu verður að hafa undanþágu í þeim tilvikum sem um stolið ökutæki er að ræða)
Já, þetta eru harkalegar reglur. Já, þær munu bitna illa á fólki sem þarf að halda áfram að borga af bílalánunum sínum, þrátt fyrir að bílarnir hafi verið gerðir upptækir. Já, þetta mun bitna illá á þeim sem sýna þann dómgreindarbrest að lána vanhæfum ökumönnum bíla. Æ.Æ - Púkinn vorkennir ekki viðkomandi - það verður að kenna fólki að taka afleiðingum gerða sinna.
Þessar aðgerðir geta hins vegar ekki gert annað en að auka umferðaröryggið.
Það er hins vegar einn galli við hertar aðgerðir - líkurnar á að ökumenn reyni að stinga lögregluna af (með tilheyrandi ofsaakstri) gætu aukist. Spurningin er hins vegar hvort það sé réttlætanlegt ef unnt er að koma ökumönnunum úr umferðinni.
Finnist mönnum upptaka ökutækis of harkaleg, þá mætti beita kyrrsetningu ökutækis í ofangreindum tilvikum - taka lyklana tímabundið.
![]() |
Sautján ára á 212 kílómetra hraða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Af hverju ekki samræmd próf?
Af hverju er svo mörgum kennurum illa við samræmdu prófin? Er hin raunverulega ástæða sú að þeir eru hræddir við að foreldrar beri saman meðaleinkunnir í skólum landsins?
Púkinn er ekki alveg sáttur við samræmdu prófin, enda eru mörg þeirra illa samin og innihalda slæmar villur. Þau gegna hins vegar ákveðnu hlutverki, sérstaklega fyrir nemendur sem hyggja á hefðbundið bóknám í menntaskólum landsins, því þau leyfa þeim skólum að velja inn nemendur á sanngjarnan hátt.
Ef samræmd próf í 10. bekk eru lögð niður, mun það þá ekki þýða að skólarnir verða annað hvort að taka upp inntökupróf eða aka bara mark á skólaeinkunnum, sem eru sennilega ekki fyllilega sambærilegar milli skóla. Er það eitthvað betra?
Samræmdu prófin í 4. og 7. bekk eru einnig nytsamleg fyrir foreldra - leyfa þeim að sjá hvar börnin standa miðað við jafnaldra þeirra á landsvísu - nokkuð sem skólaeinkunnir og umsagnir kennara gera ekki. Af hverju á að taka þessar upplýsingar frá foreldrum?
Foreldrar sem hafa metnað varðandi menntun barna sinna geta í dag valið sér búsetu í nánd við þá skóla sem koma einna best út í samræmdu prófunum - ekki svo að skilja að þær einkunnir segi neitt um gæði kennslunnar við viðkomandi skóla, en þær segja hugsanlega eitthvað um bakgrunn þeirra barna sem stunda nám þar. Þetta verður erfiðara ef samræmdu prófin verða lögð af.
Nei, samræmdu prófin eru ekki fullkomin, en það leysir engin vandamál að henda þeim burt - það er margt að íslenska skólakerfinu og þessi aðgerð gerir ekkert til að bæta það.
![]() |
Samræmd próf aflögð og kennaranám lengt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 25. nóvember 2007
Dópistar, drykkjurútar....og sjúklingar undir stýri
Það er að sjálfsögðu alvarlegt mál að hætta á umferðarslysum vegna sjúkdóma eða neyslu lyfja þeim tengdum sé sambærileg hættunni sem hlýst af ölvun eða neyslu fíkniefna.
Það er hins vegar ekki einfalt að bregðast við þessu. Sagt er að stærsti staki flokkurinn sé þegar fólk með hjartasjúkdóm fær slag undir stýri, en hvað er hægt að gera í því? Hópur þeirra sem er í áhættuhópi vegna hjartasjúkdóma er mjög stór - á að banna þeim öllum að keyra?
Margir aðrir gera sér ekki grein fyrir því að þeir séu í áhættuhópi - á að skikka fólk í læknisskoðanir á 5 ára fresti og láta menn framvísa vottorði til að fá ökuskírteinin sín endurnýjuð? Hefði það verið gert á því tímabili sem hér er rætt um, þá hefði ef til vill mátt koma í veg fyrir hluta dauðsfallanna með því að svipta viðkomandi ökuleyfi, en hætt er við því að hundruð eða jafnvel þúsundir annarra hefðu verið metnir í jafn mikilli áhættu og hefðu líka verið sviptir ökuleyfi. Er það ásættanlegt?
Púkinn er ekki viss, en honum finnst hins vegar ástæða til að taka mun harðar á akstri undir áhrifum áfengis eða fíkniefna en nú er gert. Tillaga Púkans er einföld:
Sé einstaklingur sviptur ökuleyfi vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, skal ökutækið kyrrsett þann tíma sem sviptingin varir. Sé sviptingin ævilöng, eða sé viðkomandi ökumaður réttindalaus, skal ökutækið gert upptækt.
Það þarf að vísu að hafa undantekningarklausu fyrir þau tilvik þegar ökutækinu er stolið, eða það fengið að láni til reynsluaksturs á bílasölu. Það er bara verst að á Alþingi virðist lítill vilji eða áhugi á að gera nokkuð í þessu máli.
![]() |
13 dauðaslys í umferðinni rakin til veikinda ökumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 22. nóvember 2007
Taser drepur trúð
Trúðurinn "Klutzo" er látinn, eftir að hafa verið skotinn með Taser rafstuðbyssu - enn eitt fórnarlamb þessarar tækni, sem sumir vilja innleiða hér á Íslandi.
Klutzo þessi kom fram sem "kristilegur trúður". Á vefsíðu hans mátti lesa að Klutzo og kona hans
...are available for vacation Bible schools, childrens crusades, Sunday school, childrens church, church parties and special occasions. Programs and emphasis can be customized to fit your needs and purpose.
Bible stories, object lessons, gospel magic, skits, gospel balloon illustrations, bible games, and more can be used to present the gospel of Jesus Christ to your children.
In addition, these same techniques can be used to illustrate moral truths and life skills.
Hin opinbera dánarorsök Klutzo er að vísu hjartaáfall, en lögreglumennirnir sem skutu hann tóku eftir því þegar þeir reistu hann við að allur litur hvarf úr andliti hans og hann átti erfitt um andardrátt. Hann var fluttur á sjúkrahús en úrskurðaður látinn skömmu síðar.
Púkann langar hins vegar til að bæta tvennu við þessa frétt.
- Taser byssurnar eru nú boðnar almenningi til sölu í flestum ríkjum Bandaríkjanna. Pöntunarsíðan er hér. Það verður væntanlega mikið stuð....eða þannig.
- Áður en einhverjir syrgja trúðinn of mikið, ber þess að gæta að hann var í haldi lögreglu eftir að hafa verið að skemmta á munaðarleysingjahæli á Filippseyjum. Hann virðist hins vegar aðallega hafa verið að skemmta sjálfum sér, miðað við það magn barnaklámmynda sem hafði tekið þar. Þar fóru þessi "moral truths" fyrir lítið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 21. nóvember 2007
MIlljarðamisferli eða eðlileg viðskipti?
Skoðanir fólks á því hvort eðlilega hafi verið að málum staðið að sölu íbúðanna á varnarsvæðinu eru nokkuð misjafnar, svo ekki sé meira sagt.
Sumir einblína á það hverjir koma að þessu máli - sjá samsæri og misferli í hverju horni en aðrir benda á að það megi ekki útiloka menn frá því að eiga viðskipti, þótt þeir séu tengdir tilteknum ráðamönnum.
Það er hins vegar ljóst að ef einhver ástæða er til að ætla að ásakanir um óeðlileg hagsmunatengsl gætu komið upp, þá verða menn að fara sérstaklega gætilega og gæta þess að allar staðreyndir séu uppi á borðinu frá upphafi.
Það virðist ekki hafa tekist í þessu tilviki.
Nú ætlar Púkinn ekki að leggja dóm á það hvort þau sérlög sem sett voru um skil á varnarsvæðinu stangist á við lög um sölu á eignum hins opinbera - slíkt er deiluefni fyrir lögfræðinga og Púkinn er ekki í þeim hópi. Púkinn er hins vegar þeirrar skoðunar að sé um árekstur að ræða, þá hefðu menn átt að benda á hann fyrr, en ekki rúmum mánuði eftir að Klasi, Glitnir, Þrek, Teigur og Sparisjóðurinn í Keflavík kaupa eignirnar.
Það er einnig deilt um hvort verðið sem greitt var, um 9 milljónir á íbúð, sé eðlilegt. Það er að sjálfsögðu ljóst að það kaupir enginn 1660 íbúðir á markaðsverði - kaupandinn ber jú umtalsverðan fjármagnskostnað, auk þess sem hann ber áhættuna af því að geta ekki selt íbúðirnar aftur þegar að því kemur. Miðað við markaðsverð svipaðra eigna í Keflavík má segja að kaupendur hafi fengið 40-50% afslátt frá markaðsverði. Er það eðlilegt? Púkinn er ekki viss, en vill gagnrýna að ekki skuli hafa verið fenginn óháður utanaðkomandi aðili til að meta það á þann hátt að upphæðin væri hafin yfir alla gagnrýni. Slíkt er einmitt sérstaklega mikilvægt í tilvikum eins og þessum þegar hætta er á ásökunum um misferli vegna tengsla.
Annað sem ergir suma er að ekki kemur fram opinberlega hverjir standa í raun á bak við þessi viðskipti. Eftir að upplýst var að Klasi væri í eigu bróður fjármálaráðherra vaknar spurningin um hverjir eigi Þrek og Teig. Það myndi eyða hluta tortryggninnar ef þær upplýsingar lægju á borðinu.
Það sem er ef til vill það mikilvægasta í þessu máli er að ef menn hafa í raun ekkert að fela, þá verða þeir að gæta þess að hlutirnir líti ekki út eins og eitt stórt samsæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)