Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kann enginn að spara?

Það sló Púkann að í þessum útreikningum um hvað fólk þyrfti að hafa í mánaðartekjur til að hafa efni á íbúð er ekki gert ráð fyrir neinum sparnaði.

Engum virðist koma til hugar að fólk gæti hafa lagt til hliðar einhverjar krónur frá því að það byrjaði að vinna og þangað til að íbúðarkaupum kom, en þannig er raunveruleikinn í dag - allir kunna að eyða, en enginn kann að spara.

Það er að vísu hægt að fara út í öfgar með sparnað - Japanir spara það mikið að það stendur efnahagslífinu þar hreinlega fyrir þrifum, en Púkinn er nú á þeirri skoðun að það geti allir launamenn lagt til hliðar eitthvað ofurlítið af mánaðarkaupinu.

Sumir barma sér yfir því að eiga aldrei peninga aflögu, en ef málið er athugað koma oft í ljós ógáfulegir og ónauðsynlegir útgjaldaliðir, eins og reykingar eða lottómiðar.  Síðan er líka sá ósiður margra Íslendinga að kaupa hluti á raðgreiðslum, í stað þess að spara fyrir þeim, safna vöxtunum og fá síðan staðgreiðsluafslátt þegar hluturinn er keyptur.

Nei, fólk hefði gott af að venja sig á að spara meira en það gerir.  Kannski hefur sparnaður fengið á sig óorð vegna sögunnar, þegar sparnaður fólks brann upp á verðbólgubálinu og fólk varð að koma peningunum í lóg sem fyrst, en sú afsökun gildir ekki í dag.


mbl.is Launin 680.000 til íbúðarkaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir rasistar og aðrir aumingjar

racistÞað er því miður staðreynd að rasismi er eitt af þeim vandamálum sem fer vaxandi hér á Íslandi og kemur meðal annars fram í nýlegri opnun tiltekinnar vefsíðu.

Það er að sjálfsögðu möguleiki að þessi vefsíða (skapari.com) sé bara ætluð sem brandari - svona einhver misheppnaður unglingahúmor til að athuga hvað hægt er að fá marga til að æsa sig upp yfir þessu, en Púkinn er hálf-hræddur um að sú sé ekki raunin - þessum greyjum sem standa að síðunni gæti verið fúlasta alvara.

Það er nú annars spurning hverjir raunverulega standa að síðunni, því skráður eigandi hennar er þekktur bandaríkur rasisti: 

 Hal Turner Radio Show 
  1906 Paterson Plank Road
   North Bergen, NJ 07047
   US

Hal þessi er frekar ómerkilegur og óskemmtilegur náungi, frægur fyrir hótanir og að hvetja til ofbeldis, eins og til dæmis þegar hann birti heimilisfang Joan Lefkow, dómara í máli gegn Sköpunarkirkirkjunni, en skömmu síðar var brotist inn hjá dómaranum og eiginmaður hennar og móðir skotin til bana.  "Sköpunarkirkja" þessi er reyndar tæplega kirkja sem slík, heldur bara samtök rasista sem hika ekki við að beita ofbeldi, en tengslin milli hennar og skapari.com eru nokkuð augljós.

Væntanlega eru nú einhverjir stuðningsmenn þeirra hér á Íslandi, því efnið er á íslensku, þótt ekki beri orðaforðinn né málfarið nú vott um að nein andleg mikilmenni sé að ræða.

Þetta er í stuttu máli frekar ógeðfelldur félagsskapur einstaklinga með minnimáttarkennd -  en Púkanum sýnist ekki minni ástæða til að hafa áhyggjur af þeim en t.d. þessum útsendurum Hell's Angels sem voru gerðir afturrækir nýlega.

Halló, Björn Bjarnason, hvernig væri nú að skoða þetta mál?


Viljum við fólkið heim?

Einn kunningi Púkans hefur undanfarin ár kennt við bandarískan háskóla, en er nú að hugsa um að koma heim til Íslands.  Þróun húsnæðismála setur þó svolítið strik í reikninginn.   Hann keypti sér lítið hús í Bandaríkjunum, sem hefði sjálfsagt selst á $300.000 fyrir nokkrum árum, en miðað við gengi dollarans þá hefðu það verið um 30 milljónir íslenskra króna, sem hefðu dugað vel á þeim tíma til húsakaupa.

Nú hefur fasteignaverð hins vegar lækkað í Bandaríkjunum, þannig að hann fær sjálfsagt ekki nema $250.000 fyrir húsið þar, og vegna gengislækkunar dollarans eru það 15 milljónir.  Það fæst ekki mikið fyrir þá upphæð á fasteignamarkaðinum á Íslandi í dag, eins og verðlagið hefur þróast hér.

Samt ætlar þessi maður að koma heim - hann er nefnilega ennþá þeirrar skoðunar að það sé gott að búa á Íslandi.

Púkinn er hins vegar hræddur um að margir aðrir hugsi sig tvisvar um - mun fólk sem hefur farið í framhaldsnám og á lítið annað en námslán á bakinu hafa áhuga á að koma aftur inn í þann okurmarkað sem nú er hér?

Er þjóðfélagið að hrekja unga, menntaða fólkið úr landi?


Öryrkjar og aðrir auðmenn

Öllum (nú, nema kannski ráðamönnum) er orðið ljóst að tekjutengingar í bótakerfinu eru komnar í óefni, því núverandi kerfi festir fólk í raun í gildru.

Það er unnt að breyta bótakerfinu á marga vegu, en sé ekki vilji fyrir því að endurhugsa það frá grunni, er lágmark að tekjutengingakerfið sé endurskoðað.

Það eru nefnilega ekki allar tekjur jafngildar - nokkuð sem auðmenn þessa lands hafa uppgötvað fyrir löngu.

Tillaga Púkans er sú að öðrum tekjum öryrkja verði skipt í þrjá flokka.

I - Tekjur sem ekki skerði bætur

Í þessum flokki séu tryggingabætur, t.d. skaðabætur vegna tjóns sem fólk verður fyrir og miskabætur sem fólk hlýtur samkvæmt dómi eða samkomulagi.  Í þessum tilvikum er verið að bæta eitthvað sem hefur tapast, en tengist ekki lágmarksframfærslu örorkubótanna.  Námsstyrkir ættu einnig að vera í þessum flokki - það er þjóðhagslega hagkvæmt að öryrkjar afli sér menntunar, sem ef til vill gæti gefið þeim betri starfsmöguleika.

II - Tekjur sem skerði bætur að hluta

Í þessum flokki séu hefðbundnar launatekjur.  Sumir öryrkjar geta t.d. unnið hlutastarf (sem er þjóðhagslega hagkvæmt) en kerfið verður að vera þannig að það sé hagkvæmara fyrir fólk að vinna heldur en að sitja heima og lifa á bótagreiðslum.  Púkinn myndi vilja sjá bótaskerðinguna vaxa með auknum launatekjum, þannig að örorkubæturnar féllu niður þegar mannsæmandi launum væri náð.

III - Tekjur sem skerði bætur að fullu (eftir skatt)

Í þessum flokki séu fjármagnstekjur, arðgreiðslur, erfðatekjur, happdrættisvinningar og þvíumlíkt.

Þessar tillögur fela að sjálfsögðu ekki í sér fullkomna lausn vandamálsins, en myndu lagfæra nokkra verstu hnökrana á núverandi kerfi.


mbl.is Stórtapaði á að þiggja bætur eftir slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvöru seðlabanki óskast!

500krStundum líður Púkanum eins og sérvitringi sem stendur á trékassa í almenningsgarði og hrópar einhvern boðskap um yfirvofandi heimsendi, en áheyrendur labba framhjá og hrista í mesta lagi höfuðið - segja að allt sé í lagi.

Púkinn er nefnilega þeirrar skoðunar að stefna Seðlabankans sé eins arfavitlaus og unnt er.

Vandamálið er að hér á Íslandi er í raun bullandi, falin verðbólga.  Klassísk einkenni falinnar verðbólgu lýsa sér í minnkandi vörugæðum eða vöruúrvali, en hér er verðbólgan falin með því að láta krónuna styrkjast langt út fyrir öll velsæmismörk.  Ef gengi krónunnar væri "eðlilegt" myndu innfluttar vörur snarhækka í verði, sem kæmi fram sem verðbólga - en það ber Seðlabankanum að forðast umfram allt, samkvæmt þeim lögum sem gilda um hann.

Á meðan okurvaxtastefna Seðlabankans heldur ofurkrónunni uppi, þá blæðir útflutningsfyrirtækjunum.  Sum þeirra eru betur sett en önnur - álfyrirtækin borga fyrir hráefni með ódýrum gjaldeyri og fá orkuna á niðurgreiddu verði, þannig að þau kvarta nú ekkert sérstaklega - en sjávarútvegurinn er í vondum málum og versnandi.

Verst af öllu eiga þó þau fyrirtæki sem eru með alla starfsemi sína hér á Íslandi og allan launakostnað í íslenskum krónum, en tekjurnar í dollurum og evrum.  Seðlabankinn mun sjálfsagt ná fram markmiðum sínum að kæla efnahagslífið með því að slátra þeim fyrirtækjum eða hrekja þau úr landi, en það virðist ljóst að stefna stjórnvalda sé að héðan megi ekkert flytja út annað en ál og fisk.

Nei, svona fer þegar Seðlabankanum er stjórnað af afdönkuðum pólitíkusum samkvæmt lögum sem eru meingölluð.

Það er margt sem hægt er að gera - Púkinn vill nefna tvennt - setja þak á vexti Seðlabankans - þeir megi t.d. ekki vera meira en 5 prósentustigum hærri en sambærilegir vextir í helstu viðskiptalöndum.  Það sem er hins vegar mikilvægast er að forgangsröð Seðlabankans verði endurskoðuð.  Nú undanfarin ár hefur forgangurinn verið að halda verðbólgu niðri - sem hefur tekist þokkalega, en hefur í raun ekki skilað neinu í vasa fólks, en aðeins valdið gífurlegri aukningu á innflutningi, fáránlegri eyðslu í "ódýrar" innfluttar vörur (pallbíla, flatskjái o.s.frv.) og gengdarlausum tekjum innflytjenda.

Verði haldið áfram á sömu braut, blasir hrun margra útflutningsfyrirtækja við.  Er ekki eitthvað að peningastefnu sem veldur svona röskun?

Eftir nokkur ár geta menn síðan skoðað brunarústirnar af efnahagslífinu og velt fyrir sér hvers vegna íslenskt atvinnulíf sé svona einhæft, samanborið við atvinnulíf nágrannalandana - velt fyrir sér hvað hafi orðið af öllum þeim fyrirtækjum sem ætluðu að flytja út eitthvað annað en ál.

Er ekki bara kominn tími til að flýja land - fara til einhvers lands með alvöru seðlabanka?


mbl.is Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um 0,45%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útför íslensku krónunnar

100000Að fylgjast með umræðunni um krónuna þessa dagana er eins og að horfa á lélegt leikrit um hóp fégráðugra ættingja sem sitja í kringum sjúkrabeð ríka frændans og bíða eftir því að hann gefi upp öndina, þannig að þeir geti skipt eignunum á milli sín.

Sá grunur læðist að Púkanum að bankarnir séu að reyna að halda gengi krónunnar uppi, þangað til þeir er sjálfir búnir að skipta yfir í evrur og séu með allt sitt á hreinu.

Þá verður gengi krónunnar leyft að hrynja, þannig að almenningur situr eftir með sárt ennið, verðlitlar krónur í vasanum og gengistryggð lán.  Bankarnir eru jú ekki góðgerðastofnanir og að sjálfsögðu hugsa þeir fyrst og fremst um eigin hag, eins og önnur fyrirtæki.

Sökina á þessum krónuvandræðum á auðvitað hin arfavitlausa efnahagsstjórnun sem er hér á Íslandi.  Púkinn vill helst kenna um því að fasteignaverð skuli vera tekið inn í vísitöluna.  Hækkað fasteignaverð bjó síðan til ímyndaða verðbólgu sem Seðlabankinn reyndi að berja niður með síhækkandi vöxtum, sem leiddi til gengdarlausrar hækkunar krónunnar og innflæðis á erlendu fjármagni, sem er núna að murka líftóruna úr útflutningsfyrirtækjunum.  

Vera má að "Hvað fór úrskeiðis á fyrsta áratug 21. aldar á Íslandi?" verði kennsluefni í hagfræðibókum framtíðarinnar, en við Íslendingarnir munum væntanlega sitja uppi með að þegar hrunið verður munu sömu aðilar verða látnir "bjarga" því og ollu vandræðunum í upphafi.


mbl.is Kaupþing breytir starfrækslugjaldmiðli í evrur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bláa kortið - Ísland situr eftir

Á Indlandi útskrifast árlega fleiri tölvu- og tæknimenntaðir einstaklingar en sem nemur öllum íbúafjölda Íslands.  Allnokkur hluti þessa hóps vill flytja til Vesturlanda, þar sem krónískur skortur er á fólki með svona menntun.  Nokkur lönd hafa reynt að laða þennan hóp til sín, með því að auðvelda þeim að fá vegabréfaáritanir og atvinnuleyfi, en þar eru Ástralía, Kanada og Bandaríkin efst á blaði, en í Ástralíu eru t.d. 9.9% alls aðkomufólks menntaðir sérfræðingar. 

Evrópusambandið er nú að fara að leika sama leik, en hlutfallið þar er víst innan við eitt prósent sem stendur.

Og hvað gerist?

Ísland situr eftir.

Það er illgerlegt að koma svona fólki til landsins, og ef það tekst virðist Útlendingastofnun gera sitt besta til að hrekja viðkomandi starfsmenn úr landi aftur.  

Púkinn telur hér um að ræða enn eina sönnun þess að íslenskum stjórnvöldum er ekki alvara með að vilja þekkingariðnað á Íslandi - margt fleira mætti tína til, en það er efni í annað blogg síðar.


Útlendingarnir mínir

Það er enginn maður með mönnum nema hann hafi útlendinga í vinnu þessa dagana - já og helst heilan hóp.  Ýmsir kvarta yfir mörgu sem þessu fylgir - sumir tala um undirboð á íslenskum vinnumarkaði, en aðrir kvarta yfir því að fá ekki lengur viðunandi afgreiðslu í verslununum sínum þar sem afgreiðslufólkið talar ekki íslensku.

Í gegnum tíðina hefur Púkinn unnið með fólki frá mörgum löndum - Argentínu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Búlgaríu, Filippseyjum, Kanada, Póllandi, Rússlandi, Þýskalandi og sjálfsagt fleiri löndum.   Oft er þetta fólk ráðið þar sem ekki finnast Íslendingar með þekkingu á því viðfangsefni sem um ræðir.

Það er hins vegar vandamál þegar ekki finnast heldur umsækjendur innan EES.  Nýlega auglýsti fyrirtæki Púkans nokkur störf og tveir hæfustu umsækjendurnir voru frá Indlandi.

Uss-fuss, það má ekki ráða "þannig fólk" til landsins.  Ef atvinnuleyfi fengist yfir höfuð, þá myndi það taka marga mánuði.  Púkinn getur ekki beðið eftir því.  Niðurstaðan - starfinu er núna sinnt af starfsmenni búsettum erlendis.  Þekkingarsköpunin verður eftir erlendis og skattarnir líka, en það er víst þannig sem Útlendingastofnun vill hafa það.

Önnur lönd sem einnig búa við skort á sérfræðingum hafa sveigjanlegra kerfi - í Danmörku mun reglan t.d. vera sú að ef laun starfsmanna eru yfir ákveðnum mörkum er litið á viðkomandi sem "sérfræðing" og atvinnuleyfisumsóknin fær flýtimeðferð gegnum kerfið.


Er spilaborgin að hrynja?

house of cards fallingSlúður dagsins í fjármálageiranum mun víst vera að tveir aðilar sem hafa flogið hátt og mikið hefur borið á í íslensku viðskiptalífi séu í rauninni ekki eins stöndugir og flestir telja.

Sagt var að Glitnir og Landsbankinn ynnu nú að því að bjarga þessum aðilum fyrir horn, því ef þeir myndu rúlla er hætt við að fleiri fylgdu á eftir.

Eins og einhver sagði, "Ef þú ert með milljón í vanskilum þá ert þú í vandræðum, en ef þú ert með milljarð í vanskilum, þá er það bankinn sem er í vandræðum".

Púkinn ætlar ekki að nafngreina þessa aðila, enda hefur hann engar forsendur fyrir því að meta hvort þessi saga sé sönn.  Það sem er hins vegar  athyglivert að margir eru þeirrar skoðunar að  þótt þessir aðilar gætu bjargast  í þetta sinn, þá sé það aðeins spurning um tíma hvenær þeir, eða einhverjir aðrir álíka stórir aðilar lendi með stórum skell.

Eru einhverjar spilaborgir að hruni komnar?


Hvað myndir þú gera við 320 milljónir?

peningarEf þú mættir ráðstafa þessum 320 milljónum sem ríkisstjórnin vill setja í framboð Íslands í Öryggisráðið, hvað myndir þú gera?

Myndir þú taka sömu ákvörðun og ríkisstjórnin, eða er þessum peningum betur varið annars staðar?

Púkinn er sjálfur þeirrar skoðunar að verið sé að varpa þessum peningum á glæ - orðstír Íslands er einfaldlega ekki þannig að margir utan Norðurlanda myndu vilja kjósa okkur.

  • Hvalveiðar og íslenska sérákvæðið í Kyoto sáttmálanum hafa skemmt fyrir okkur í umhverfismálum.
  • Aðgerðaleysi í friðarmálum (það að leyfa Yoko Ono að setja upp ljósasúlu í Viðey telst ekki með) gefur okkur ekki mörg atkvæði þar.
  • Við erum ein ríkasta þjóð heims, en verjum skammarlega litlu í þróunaraðstoð - Púkinn efast um að fátækari þjóðir telji þessa ríku, nísku og snobbuðu Íslendinga góðan valkost í Öryggisráðið.
Það er reyndar eitt sem við höfum með okkur - við erum frekar meinlaus - höfum móðgað fáa í gegnum tíðina.
mbl.is Fá dæmi um jafn lítinn tilkostnað við framboð til öryggisráðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband