Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 7. september 2007
Hverjir eru Íslendingar?
Það er svo sem gott og blessað að segja að Íslendingar hafi orðið 311.396 um mitt árið, en gallinn er bara sá að það er ekki rétt - raunveruleg tala er og hefur alltaf verið á reiki, að hluta vegna þess að það er ekki alveg fullkomlega ljóst hverjir eru í rauninni Íslendingar, en að hluta vegna þess að skráningin er ófullkomin
Hin opinbera tala er fengin úr skrám Hagstofunnar, en þótt þau gögn séu uppfærð samviskusamlega varðandi fæðingar og andlát fólks hér á landi, er það ekki endilega raunin varðandi Íslendinga búsetta erlendis. Tökum sem dæmi að ef íslenskir námsmenn eignast barn erlendis er ekki sjálfgefið að þau gögn skili sér samstundis heim til Íslands - það geta liðið mánuðir eða jafnvel ár þangað til börnin rata inn í kerfið á Íslandi. Sama á við um einstaklinga sem hafa flutt úr landi fyrir mörgum áratugum - þeir geta hangið inni í Þjóðskránni árum eða jafnvel áratugum eftir andlát sitt, því upplýsingarnar berast ekki endilega hingað.
Ástandið verður síðan enn flóknara þegar skoðaðir eru Vestur-Íslendingar eða aðrir útflytjendur - hvenær hætta menn að vera Íslendingar?
Ríkisborgararéttur segir heldur ekki allt - þess eru dæmi að aðilar hafi fengið hraðafgreiðslu á ríkisborgararétti, svona til að þeir gætu leikið með íslenskum landsliðum, en um leið og þeir fá íslenskt vegabréf í hendur eru þeir farnir - eru þessir aðilar Íslendingar?
Nei, málið er flóknara en svo að hægt sé að segja að Íslendingar séu nákvæmlega 311.396 - nema þá að telja upp alla nauðsynlega fyrirvara.
![]() |
Íslendingar orðnir 311 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 4. september 2007
Réttindalausir unglingar á torfæruhjólum
Púkinn hefur verið að velta fyrir sér hvað sé að hjá þeim foreldrum sem leyfa börnum sínum að aka réttindalaus á torfæruhjólum, en verður að viðurkenna að hann hefur ekki komist að niðurstöðu.
Það er hins vegar eitt sem Púkinn er viss um og það er að foreldrarnir verða argir ef þeir heyra að Púkanum finnist ekki allit í lagi með viðkomandi, og líta sennilega bara þannig á að þetta séu "bara strákar að leika sér."
Púkinn lítur hins vegar þannig á að þarna séu óábyrgir foreldrar að kenna börnum sínum að það sé allt í lagi að hafa lög og reglur að engu og það sé allt í lagi þótt maður slasi sig - það verður bara lappað upp á mann á kostnað samfélagsins.
Er ekki eitthvað að þessu? Eru foreldrarnir bara að bíða efir alvarlegra slysi?
![]() |
Unglingsdrengur slasaðist á torfæruhjóli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 31. ágúst 2007
Að byrja 19..18..17..16..15 ára í háskóla
Möguleikar nemenda til að stytta nám sitt hafa aukist á undanförnum árum. Púkinn er fylgjandi þeirri þróun, enda var hann sjálfur 18 ára þegar hann hóf háskólanám.
Spurningin er samt hvort þetta sé komið út í öfgar - hvort allir nemendur hafi félagslegan þroska til að hefja háskólanám á þeim aldri - vitsmunalegur þroski er ef til vill ekki nægjanlegur einn og sér.
Það má vera að einhverjir hvái yfir því að unnt sé að byrja háskólanám 15 ára, en það er ekki svo fáránlegt.
- Hluti nemenda er færður upp um bekk strax við upphaf skólagöngu, eða fær að hefja skólagöngu ári á undan jafnöldrum. Þar sparast eitt ár.
- Sumir nemendur fá að hlaupa yfir 10. bekk - eru teknir inn í menntaskóla strax eftir þann 9., en þar sparast annað ár.
- Í menntaskólum með áfangakerfi er unnt að ljúka námi í menntaskóla á 2.5 árum, jafnvel þótt nemendur fái engar einingar metnar inn. (Þetta var a.m.k. mögulegt þegar Púkinn var í menntaskóla og hefur tæplega breyst). Hefji nemendur nám með einhverjar einingar metnar inn, gætu þeir mögulega stytt námið um hálft ár til viðbótar og lokið því á 2 árum. Nú, svo er auðvitað menntaskólinn Hraðbraut. Hér er unnt að spara tvö ár til viðbótar.
- Að lokum (já, það er svolítið svindl) getur fólk átt afmæli í lok árs og verið því ári yngra á pappírnum þegar skólaárið hefst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 30. ágúst 2007
Björgum björgunarsveitunum
Fréttir undanfarinna daga af umsvifamikilli leit björgunarsveita að horfnu Þjóðverjunum ættu að duga til að minna landsmenn á hve mikilvæg starfsemi þeirra er. Starfsemi björgunarsveitanna kostar hins vegar sitt en flugeldasala þeirra er langsamlegasta mikilvægasta tekjulindin - það er ekki svo gott að björgunarsveitir landsins byggi á styrkjum frá ríki eða sveitarfélögum.
Vandamálið er hins vegar það að á undanförnum árum hafa ýmsir aðrir verið að seilast inn á svið flugeldasölu - íþróttafélög, trúarhópar, já og jafnvel einkaaðilar sem standa í þessu í hreinu gróðaskyni.
Nú má ekki skilja Púkann þannig að hann sé á móti því að menn græði - síður en svo. Hins vegar gerir Púkinn kröfu um ákveðið siðferði í þessum málum og þegar flugeldasalar eru farnir að villa á sér heimildir, þannig að fólk heldur að það sé að versla hjá björgunarsveitunum þegar það er í raun að styðja einkaaðila, þá finnst Púkanum nóg komið.
Það er að vísu langt til næstu áramóta, en Púkanum finnst samt rétt að minna fólk á mikilvægi björgunarsveitana og vill hvetja alla flugeldakaupendur til að kaupa kaupa hjá þeim.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 29. ágúst 2007
Eitt lítið dæmi um hækkun fasteignaverðs
Einu sinni átti Púkinn (og frú Púki) hús. Það hús var keypt fyrir um 14 milljónir og selt síðar fyrir aðeins hærri upphæð. Þetta var árið 1994.
Núna var þetta sama hús að koma aftur á sölu, nema hvað nú eru settar litlar 69 milljónir á húsið.
Þegar maður sér svona dæmi þá verða þessar hækkanir einhvern veginn mun áþreifanlegri en áður.
Þriðjudagur, 28. ágúst 2007
Of vægt tekið á ölvunarakstri
Púkinn auglýsir hér með eftir alþingismönnum (eða konum) sem þora að leggja fram fumvarp um verulega hertar refsingar við akstri undir áhrifum.
Það er ljóst að núverandi kerfi er ekki að virka, miðað við fjölda þeirra ökumanna sem eru teknir nánast daglega - já og sumir oftar en einu sinni á dag.
Sumir hafa verið sviptir ökuréttindum ævilangt en eru samt teknir aftur og aftur.
Hvað er til ráða?
Hér eru nokkrar tillögur:
1) Meðferð. Það mætti skikka þá sem eru teknir undir áhrifum í meðferð. Ef eina ráðið til að fólki skiljist að það á við vandamál að stríða er að vera sendir í meðferð á viðeigandi stofnun, þá verður bara svo að vera.
2) Kyrrsetning bifreiða. Púkinn er þeirrar skoðunar að sé einhver tekinn undir áhrifum, eigi skilyrðislaust að kyrrsetja bifreiðina um tíma - það myndi a.m.k. koma í veg fyrir að menn séu teknir oftar en einu sinni á dag á sömu bifreiðinni. Lögreglan hefur í dag heimild til að kyrrsetja eða leggja hald á bifreiðar, en það er ekki nóg - Púkinn vill sjá þeirri heimild breytt í skyldu.
3) Upptaka bifreiðar. Það má rökstyðja að bílar þeir sem um ræðir séu ekkert annað en tæki sem notuð eru til að fremja með afbrot. Púkans vegna mætti gera bílana upptæka og selja á uppboðum - fá þannig einhverjar krónur í kassann til að standa undir kostnaðinum við þær aðgerðir sem hér er lýst. Það þarf að vísu að hafa undantekningar þegar um bílþjófnað er að ræða og einnig þarf að huga að stöðu bílasala sem lána bíla til aðila sem aka þeim síðan undir áhrifum. Það að fyrri eigendurnir verða áfram að borga af bílalánunum eftir að hafa misst bílana er að sjálfsögðu bagalegt fyrir viðkomandi, en það er nú einu sinni tilgangurinn.
4) Fangelsisvist. Glæfraakstur undir áhrifum er að mati Púkans lítið annað en tilraun til manndráps. Refsingar ættu að vera í samræmi við það - ef það eina sem dugir til að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi er að henda þeim bak við lás og slá, þá verður svo að vera.
Púkinn vill benda á að hækkaðar sektir eru ekki á ofanfarandi lista, enda eru einhverjir stútanna væntanlega eignalausir aumingjar. Það mætti þó beita hærri sektum, jafnvel í hlutfalli við tekjur viðkomandi - sekta menn um 5-10% árstekna til dæmis.
Ef ekkert verður gert munum við bara halda áfram að heyra sömu fréttirnar aftur og aftur, ásamt fréttum af dapurlegum dauðaslysum inn á milli.
Hvaða alþingismenn þora að gera eitthvað í þessu máli?
![]() |
Ofurölvi ökumaður stöðvaður í Hvalfjarðargöngum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 27. ágúst 2007
Illa siðaðir hundaeigendur
Púkinn er búinn að fá sig fullsaddan á lausagöngu hunda í Reykjavík. Það eru nefnilega margir hundaeigendur sem eru svo illa siðaðir að þeir telja sig hafna yfir allar reglur og að þeim leyfist að sleppa hundum lausum á stöðum eins og Miklatúni.
Púkinn hefur séð til manns sem leggur bíl sínum við Kjarvalsstaði í lok vinnudags og sleppir tveimur hundum lausum, svona til að þeir geti hreyft sig aðeins og gert þarfir sínar þar sem þeir vilja. Púkinn hefur líka séð til hóp fólks sem hittist þar reglulega og sleppir hundunum sínum, svona til að leyfa þeim að hreyfa sig aðeins.
Sé þessu fólki bent á að bannað sé að vera með lausa hunda á túninu, er almennt svarað með skætingi - "Mér finnast svona reglur heimskulegar", eða "Þar sem ég átti heima áður var þetta leyft".
Púkinn var að velta fyrir sér hvað væri að þessu fólki, en komst að lokum að niðurstöðu - það var rangur aðili sendur á hlýðninámskeið - það hefði átt að vera eigandinn, ekki hundurinn.
Það versta við þetta - svona heimska getur leitt til þess að fleiri kvarti yfir hundunum og ætli afleiðingin yrði þá ekki að með öllu yrði bannað að vera með hunda í garðinum - nokkuð sem líka myndi bitna á þeim hundaeigendum sem hafa rænu á að vera með hundana sína í ól.
Miðvikudagur, 22. ágúst 2007
Drukknar konur og aðrir hálfvitar
Eins og margir aðrir hefur Púkinn fylgst með umræðunni um byttuna sem var neydd til að láta af hendi þvagsýni og satt best að segja hefur Púkinn nú ósköp litla samúð með viðkomandi.
Það er nefnilega skoðun Púkans að fólk verði að taka afleiðingum þess þegar það hegðar sér eins og hálfvitar og það á við í þessu tilviki. Konunni var í sjálfsvald sett að vera samvinnuþýð, en hún tók þann kost að gera það ekki.
Skoðum aðeins hvað hefði getað gerst ef lögreglan hefði bara hætt við og konan ekki verið neydd til að láta sýnið af hendi. Fyrir dómi hefði konan getað haldið því fram að hún hafi ekki hafið drykkju fyrr en eftir að akstri lauk. Blóðsýnið eitt og sér hefði ekki dugað til að hrekja þá fullyrðingu, þannig að hugsanlega hefði konan verið sýknuð af ölvunarakstri.
Ef fólki er stætt á því að neita að láta af hendi sýni í málum eins og þessum er það uppáskrift á að hafa fleiri drukkna hálfvita keyrandi um göturnar án þess að hægt sé að koma lögum yfir þá.
Púkanum finnast þeir hagsmunir mikilvægari en einhver auðmýking sem fullur hálfviti verður fyrir vegna eigin háttalags. Konan tók þá ákvörðun að keyra drukkin og hún hafnaði samvinnu við lögreglu. Það þarf að stöðva svona fólk - eg ef það felur í sér auðmýkingu, þá verður bara svo að vera - það var ekki eins og hún hefði ekki getað komist hjá þessu.
![]() |
Konu haldið niðri og þvagsýni tekið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 17. ágúst 2007
Becromal og ammoníakið
Púkinn hefur verið að kynna sér starfsemi Becromal, og verður nú að segja að þetta virðist skömminni skárra en eitt álver í viðbót.
Púkinn vonar hins vegar að Becromal hafi tekið sig á í mengunarmálum, því sambærilegar verksmiðjur þeirra erlendis losuðu umtalsvert magn af ammoníaki út í andrúmsloftið og Púkinn trúir því nú varla að Eyfirðingar myndu vilja slíkt. Þær tölur sem Púkinn hefur eru hins vegar frá 2005 og varða gamla verksmiðju, þannig að vonandi er staðan betri í dag.
Þessar tölur um ammoníakslosunina má sjá á þessum hlekk.
Það er nefnilega ekki bara koltvísýringslosun sem skiptir máli - menn þurfa líka að hafa í huga losun á öðrum efnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.8.2007 kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. ágúst 2007
Íslenska jó-jó krónan
Púkinn hefur margoft bloggað um íslensku ofurkrónuna og þann skaða sem léleg efnahagsstjórn hefur gert útflutningsfyrirtækjum. Það er hins vegar ekki svo einfalt að þau fyrirtæki fagni falli krónunnar og geti nú unnið eins og allt sé með feldu.
Nei - vandamálið er það að þessar sveiflur á gengi krónunnar gera áætlanagerð erfiða. Smávægileg breyting á gengi krónunnar getur þýtt stórar breytingar á hagnaði útflutningsfyrirtækja - hvernig er hægt að gera raunverulegar áætlanir þegar enginn veit hversu margar krónur fyrirtækin fá fyrir evrurnar eða dollarana sína eftir nokkra mánuði?
Það koma tímabil þegar krónan styrkist og styrkist og þá verða fyrirtækin að skera niður, því ólíkt innflutningsfyrirtækjum sem geta hækkað vöruverð þegar illa árar, þá eru útflutningsfyrirtækin gjarnan í bullandi samkeppni og geta ekki hækkað hjá sér vöruverðið þegar krónan er sterk.
Það myndi leysa vandamálið ef starfsmenn fengju borgað í erlendri mynt, en þá eru fyrirtækin í raun bara að velta vandanum yfir á starfsmennina - og ætli starfsmenn myndu ekki fara að hugsa sér til hreyfings ef laun þeirra lækkuðu stöðugt að raungildi á þeim tímabilum sem krónan er að styrkjast.
Púkinn hefur aldrei verið hlynntur þeirri hugmynd að ganga í Evrópubandalagið og taka upp evruna, en hann er hins vegar þeirrar skoðunar að Seðlabankinn sé einfaldlega ekki fær um að viðhalda jafnvægi. Eitthvað verður að breytast.
![]() |
Krónan hefur veikst um 12,6% á tæpum mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |