Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eitur fyrir útlendinga!

heavy-machineEf hér á landi yrði umhverfisslys þar sem hópur íslenskra manna fengi í sig hættulegt efni, í því magni að líklegt væri að þeir myndu bíða heilsutjón af, þá yrði allt vitlaust.  Það yrðu umræður á Alþingi um vinnuöryggi, fjölmiðlar myndu slá upp stórfrétt um málið og lögfræðingar færu á stúfana til að krefjast skaðabóta.

En hvað ef um útlendinga væri að ræða?  Púkanum er kunnugt um eitt dæmi þar sem hópur erlendra verkamanna lenti í því að anda að sér ákveðnu efni í því magni að það fór langt yfir öll leyfileg mörk.

Vakti það athygli?  Nei.  Gerðu fjölmiðlar veður úr málinu? Nei. Var mönnunum veitt besta mögulega læknisþjónusta, eða voru þeir bara sendir úr landi og nýir þræl...eh...erlendir verkamenn fengnir í staðinn?

Það virðist nefnilega ekki sama hverjir lenda svona uppákomum hér á landi.   Heilbrigðiseftirlitinu er kunnugt um þetta atvik og gerði athugasemd, en málið fékk ekki meiri athygli.  Það skyldi þó aldrei vera af því að engir Íslendingar urðu fyrir þessu?


Sænskt sýndarsendiráð

HOUSE-OF-SWEDEN-1Í tilefni af umræðunni um óheyrilegan kostnað við byggingu og rekstur íslenskra sendiráða erlendis, er ef til vill við hæfi að  benda á það sem Svíar gerðu núna í vikunni.

Fyrsta sýndarsendiráðið er nú opið á netinu.  Nánar til tekið er það í Second Life tölvuleiknum, en sá leikur er í raun heill heimur - heimur þar sem fólk getur átt samskipti hvert við annað á margvíslegan hátt.

Sænsks sýndarsendiráðið þjónar reyndar einnig hlutverki landkynningarmiðstöðvar og er tilgangurinn væntanlega að hvetja fólk til að heimsækja Svíþjóð ... í raunveruleikanum, ekki tölvuspilinu.


Reykingamenn eru líka fólk (bara ekki eins lengi)

Púkinn er ekki hrifinn af reykingum og reynir eftir fremsta megni að forðast þá staði þar sem reykt er.  Það kemur þó fyrir að Púkinn neyðist til að sætta sig við reykingar annarra - nú síðast gerðist það á Stranglers-tónleikum sem voru haldnir hérlendis í vor. en þar reyndi Púkinn að njóta tónleikanna, þrátt fyrir loftmengunina, sem fór versnandi eftir því sem leið á kvöldið.

Þegar heim var komið lyktaði Púkinn eins og öskubakka, þannig að ekki var annað til ráða en að fara í sturtu og henda fötunum í hreinsun.

Svona uppákomur heyra nú vonandi sögunni til og fagnar Púkinn því að hér á landi muni aðrir ekki framar eyðileggja fyrir honum skemmtanir eða máltíðir með því að menga loftið umhverfis Púkann.

Sumir reykingamenn telja brotið á réttindum sínum og vilja halda uppteknum hætti, sem betur fer eru fleiri og fleiri komir á þá skoðun að þótt erfitt sé að banna fólki að reykja þar sem það skaðar enga aðra en sig sjálft, þá séu þeir tímar liðnir að fólk megi komast upp með að eitra fyrir öðrum.

Ja...nema þá börnunum sínum.

Það eru nefnilega ýmsir sem telja það eðlilegt að reykja innandyra heima hjá sér, þótt í fjölskyldunni séu börn eða aðrir aðilar sem ekki reykja.   Skítt með það að fólk kjósi að stytta sitt eigið líf - en þeir sem spúa tóbaksreyk yfir sín eigin börn eru einfaldlega óhæfir foreldrar - svo einfalt er það.


Lambakjöt...og alvöru lambakjöt

lamb-chopsPúkinn er mikill áhugamaður um góðan mat, eins og sést kannski best á því að hann hefði nú bara gott af því að losa sig við nokkur kíló.

Hvað um það - eitt það besta sem Púkinn fær er gott lambakjöt, hvort sem það er grillað eða matreitt á annan hátt.

Púkinn hefur hins vegar stöku sinnum orðið þeirrar ógæfu aðnjótandi að vera boðið upp á nýsjálenskt lambakjöt.  Reynslan af því er að annað hvort séu allir kokkar óhæfir sem matreiða það, eða að þetta hráefni sé einfaldlega vont - já, hreint út sagt virkilega vont - það besta var með yfirgnæfandi "ullarbragði", en það verst var eins og eitthvað undarlegt kjötlíki - svo vont að Púkinn skildi það eftir á diskinum sínum, borðfélögum til mikillar undrunar - nokkuð sem gerist nánast aldrei.

Nú er Púkinn í sjálfu sér ekki mótfallinn því að leyft verði að flytja inn nýsjálenskt lambakjöt - en hann mun forðast að kaupa slíkt og hreinlega ekki kaupa lambakjöt í íslenskum verslunum nema það sé tryggilega merkt sem íslensk afurð af íslenskum lömbum.

Púkinn hefur það einnig fyrir venju að gefa hundinum sínum lambakjötsbita einu sinni á ári - á jóladag, en það mun vera áfram íslenskt lambakjöt - Púkinn vill ekki gera hundinum sínum það að gefa honum þennan nýsjálenska óþverra sem gengur undir sama nafni.

Nei, ef menn vilja flytja inn erlent kjöt, þá ættu þeir að horfa á nautakjötið - Púkinn myndi gjarnan vilja sjá alvöru argentínskar nautalundir á boðstólum hér.


mbl.is Ekki fullreynt með lambakjötið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullandi, falin verðbólga

100000Enn heldur krónan áfram að styrkjast - eða hvað?

Það er nefnilega ekki svo einfalt að við séum raunverulega með sterkan gjaldmiðil, heldur stendur þessi blessaða íslenska króna á óttalegum brauðfótum.

Seðlabankinn er fastur í vítahring.   Það vita allir að útflutningsfyrirtækjum, bæði í sjávarútvegi og öðrum greinum er að blæða út, vegna gengis krónunnar, en ef Seðlabankinn myndi lækka vexti gæti það leitt til samdráttar í útgáfu jöklabréfanna, gjaldeyrir myndi hætta að flæða inn í landið og krónan snarfalla, sem aftur myndi leiða til hækkunar á innfluttum varningi, sem á endanum myndi koma fram sem verðbólga, en forgangsmarkmið seðlabankans er einmitt að halda verðbólgunni niðri.

Vandamálið er bara það að sú verðbólga er í rauninni þegar til staðar - hún er bara falin vegna  hágengisins.

Púkinn vill í raun fullyrða að hávaxtastefna Seðlabankans sé í rauninni afar gagnslítið stjórntæki.   Þeir sem vilja taka lán í erlendum gjaldmiðli á mun lægri vöxtum gera það, þannig að háir vextir slá ekki á þensluna - það eina sem þeir gera er að valda röskun í efnahagslífinu - háir vextir gera útgáfu jöklabréfa áhugaverða, sem styrkir krónuna, sem gerir innflutning "ódýran" - innflytjendur og heildalar græða sem aldrei fyrr, meðan útflutningsfyrirtækin lepja dauðann úr skel.

Hágengisstefnan er að leggja staði eins og Flateyri í eyði og hrekur hátæknifyrirtækin úr landi.  
Ef svo fer fram sem horfir mun þessi spilaborg hrynja á endanum og íslenskt efnahagslíf verður þá sem brunarúst, þar sem ekkert stendur eftir nema fjármálafyrirtækin.


mbl.is Styrking krónunnar hefur ekki skilað sér út í verðlagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættleiðingar samkynhneigðra

flamingosCarlos og Fernando hafa verið par síðan þeir komu út úr skápnum fyrir fimm árum síðan.

Þar sem þeir geta af augljósum ástæðum ekki eignast afkvæmi saman, en hafa báðir mikinn áhuga á að sinna foreldrahlutverkinu er úr vöndu að ráða. 

Sem betur fer fyrir þá þurfa þeir ekki að standa í stríði við neinn varðandi þær óskir - þeir eru nefnilega flamingóar. 

Undanfarin ár hafa þeir rænt eggjum annarra fugla og ungað þeim út, en í ár bar svo við að ákveðið var að leyfa þeim að "ættleiða" egg sem foreldrarnir höfðu yfirgefið.

Að sögn dýravarða við Wildfowl & Wetlands Trust í Slimbridge, Englandi, eru Carlos og Fernando umhyggjusamir, skiptast á um að fóðra ungana sem þeir ala upp.

Nánari upplýsingar má finna á pinknews.co.uk, en starfsmenn munu víst vera nokkuð forvitnir um hvort ungar þeirra muni hneigjast til síns kyns eða þess gagnstæða - spurningin um erfðir og uppeldi.


"Jákvæð áhrif á gengi krónunnar"

Svo afskráning Actavis á að hafa jákvæð áhrif á gengi krónunnar...en jákvæð fyrir hverja?

Áhrifin verða ekki jákvæð fyrir útflutningsfyrirtæki og ferðaþjónustuaðila á íslandi, svo mikið er víst.  

Púkinn hefur nú aldrei verið hrifinn af þeirri hugmynd að hætta með íslensku krónuna, en ef íslenska örhagkerfið er svo viðkvæmt að sala á einu fyrirtæki hefur umtalsverð áhrif á gengi gjaldmiðilsins er kannski best að hætta bara þessu kjaftæði - hætta að þykjast vera með alvöru gjaldmiðil og finna leið til að tengjast evrunni.


mbl.is Afskráning Actavis gæti haft áhrif á gengi krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta pólitíska blogg Púkans (í bili)

greenguyPúkinn er orðinn þreyttur á stjórnmálaumræðunni, en jafnvel enn þreyttari á því að vera í vandræðum með að ákveða hvað hann eigi að kjósa.  Frá því að Púkinn fékk kosningarétt hefur valið verið auðvelt - Púkinn hefur nánast alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn.  

Þetta er í sjálfu sér ekkert skrýtið - Púkinn passar nefnilega mjög vel við "prófílinn" af hinum dæmigerða Sjálfstæðismanni - karlkyns, "40-something", með góða menntun, eigið fyrirtæki og þokkalegar tekjur og enn fremur hefur Púkinn alltaf verið þeirrar skoðunar að þjóðfélagið eigi að hvetja þá áfram sem sýna dugnað - leyfa þeim að njóta sín, frekar en að berja alla í sama mót í nafni einhvers "jöfnuðar".

Samt, fyrir þessar kosningar hefur Púkinn átt í verulegum vandræðum - það eru of margar ástæður fyrir því að hann getur hreinlega ekki kosið sinn gamla flokk.

Þær helstu (en ekki í neinni sérstakri röð)

  • Árni Johnsen.  Hvernig er hægt að bera trausts til flokks sem teflir fram siðblindum manni, jafnvel þótt það sé í öðru kjördæmi og þótt hann hafi tekið út sína refsingu.  Það eru sumir sem bara eiga ekki erindi á þing.
  • Íraksstríðið. Íslensk stjórnvöld voru höfð að fíflum, en þegar ljóst var að rök Bandaríkjamanna voru uppspuni og að innrásin hafði leitt meiri hörmungar yfir Íraka en áframhaldandi völd Saddams, hefðu stjórnvöld átt að biðja Íraka afsökunar á upphaflegum stuðningi sínum.  Slík afsökunarbeiðni hefði að vísu aðeins haft táknrænt gildi, en hún hefði sýnt að ráðamenn væru nógu miklir menn til að viðurkenna mistök sín.
  • Ofurkrónan.  Stjórnvöld misstu tökin á efnahagsmálum og juku þensluna í þjóðfélaginu á þeim tíma sem hagkerfið mátti ekki við því.  Niðurstaðan er ofurkróna, með slæmum afleiðingum fyrir útflutningsfyrirtækin.  Stjórnvöld kalla þetta "ruðningsáhrif", en frá sjónarhóli Púkans er þetta atlaga að lífsviðurværi hans.
  • Hálendið og mengunin.  Púkinn vill eiga heima í hreinu landi.  Það er ein af ásæðum þess að Púkinn er hér, en ekki úti í heimi, þar sem flestar aðrar aðstæður eru betri.
  • Eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra.  Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það.
  • Menntunar- og heilbrigðiskerfi sem er að þróast í þá átt að gæði þjónustunnar ráðast alfarið af efnahag viðkomandi.  Púkinn hefur skömm á bandaríska módelinu og vill ekki sjá Íslendinga færast nær því.

En hvað á Púkinn að kjósa?  Eini flokkurinn sem hentar hægri-grænum Púka er Íslandshreyfingin, en nær hún 5%?  Skoðanakannanir benda ekki til þess, en Púkinn vonar að einhver hluti óákveðinna sé óákveðinn vegna þess að þeim hugnast engir "gömlu" flokkanna og ákveði að greiða Ómari og Margréti atkvæði sitt á kjördag.


Sjálfstæðisflokkur til sölu (á eBay)

xdEf leitað er á eBay, má þar finna eftirfarandi auglýsingu: "

"Spilltur og þreyttur valdaflokkur, sem verið hefur í ríkisstjórn alltof lengi, fæst fyrir lítið fé - óskast sóttur. Varúð: getur reynst hættulegur öldruðum, öryrkjum, barnafólki og fátækum. Myndi sóma sér vel í flestum bananalýðveldum, enda þaulvanur í þjónkun við bandarísk stjórnvöld og aðra valdahópa.

Forystumenn geðþekkir, en tala slæma ensku. Öflugt tengslanet fylgir með, inniheldur helstu stjórnendur í íslensku viðskiptalífi og a.m.k. einn kvikmyndaleikstjóra og háskólaprófessor."

Með tilliti til þess að seljandi heitir "vg-konan", grunar Púkann sterklega einhvern húmorista í ungliðahreyfingu VG, en það er hins vegar öllu stærri spurning hver sá aðili er sem hefur boðið $1000 í flokkinn.

Hin spurningin er hvort við fáum að sjá eitthvað svar frá ungliðum innan Sjálfstæðisflokksins.


Yahoo og sæstrengurinn

Fréttin um mögulegt netþjónabú Yahoo er svolítið villandi.  Sagt er að lagning nýs sæstrengs sé forsenda fyrir verkefninu, og því bætt við að gífurlega flutningsgetu þurfi, eða um 10 Gb/s.

 Þetta er hvort tveggja rétt, en það lítur út eins og nýjan streng þurfi vegna gagnamagnsins.  Það er bara ekki málið.

Farice-1 strengurinn sem þegar er í notkun hefur hámarksflutningsgetu upp á 720 Gb/s, þannig að 10 Gb/s til eða frá hafa í raun lítið að segja.

Nei, ástæða þess að það þarf annan streng kemur flutningsgetunni ekkert við, heldur er það spurning um öryggi, öryggi og aftur öryggi.  Það er ekki ásættanlegt að sambandið rofni, jafnvel þótt í skamman tíma sé, þannig að tveir óháðir strengir eru nauðsyn.

Púkinn á reyndar bágt með að trúa því að Yahoo sætti sig við að Ísland hafi enga beina tengingu vestur um haf, heldur þurfi að beina öllum samskiptum hingað í gegnum Evrópu, og sömuleiðis að strengirnir tveir séu reknir af sama aðila, en hvort það er vandamál eða ekki kemur síðar í ljós.

Ef af þessu netþjónabúi yrði, þá er vonandi að verð á gagnaflutningum yfir strenginn verði lækkað, þannig að íslensk fyrirtæki með mikla gagnaumferð þurfi ekki lengur að fara með netþjónana sína úr landi - en staðan í dag er sú að það er allt að tífalt dýrara að dreifa gögnum héðan heldur en ef þjónarnir eru erlendis.


mbl.is Yahoo kannar möguleika á netþjónabúi hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband