Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Skoðanakannanir - að búa til frétt úr engu
Púkinn er væntanlega ekki einn um að vera orðinn leiður á skoðanakönnunum, sér í lagi skoðanakönnunum Capacent Gallup sem gerðar eru daglega, en sýna í raun ekkert merkilegt - aðeins minniháttar mun frá degi til dags - mun sem oftar en ekki er innan skekkjumarka.
Það sem meira er, séu kannanirnar athugaðar yfir lengri tíma, þá er ekkert áhugavert þar heldur. Framsókn hefur verið að styrkjast eftir því sem nær dregur kosningum - en það eru engin tíðindi, sama hefur gerst áður og VG eru að dala - toppuðu á röngum tíma, en það er ekki nýtt heldur - þeir hafa aldrei verið góðir í tímasetningum.
Sem sagt - endalausar ekki-fréttir.
Er nokkur furða að fólki sé farið að leiðast?
![]() |
Samfylking og VG bæta við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Á hvaða braut erum við?
Örugg hverfi - fyrir þá sem hafa efni á að búa þar. Er það framtíðin sem koma skal? Vilja Íslendingar búa í þjóðfélagi þar sem menntun, heilsugæsla og öryggi þegnanna ræðst af efnahag þeirra? Öryggisgæslan í Urriðaholti er því miður skref í þá átt og Púkinn er ekki hrifinn af því - ekki frekar en ýmsu öðru í þjóðfélaginu sem er stöðugt að færast meir og meir í átt að bandaríska módelinu.
Púkinn hefi viljað sjá allt aðrar lausnir hér. Fjölgun þjóðarinnar, sér í lagi á suðvesturhorninu kallar á aukna löggæslu - en hún á að vera á vegum hins opinbera og greitt fyrir hana úr sameiginlegum sjóðum - það á ekki að setja lögregluna í fjársvelti og bjóða síðan upp á sérstakt öryggi fyrir þá efnameiri.
Púkinn saknar þess líka að enginn stjórnmálaflokkanna hefur lagt áherslu á aðgerðir gegn afbrotum. Púkinn er varla sá eini sem er orðinn þreyttur á sífelldum fréttum af síbrotamönnum sem brjóta af sér, eru gómaðir, sleppt að loknum yfirheyrslum og fara þá af stað aftur - brjótast barinn í næsta hús. Það er engum gert gagn með því að láta þessa menn ganga lausa meðan þeir bíða dóms. Púkinn vill sjá dópistana skikkaða í meðferð, en beri ítrekaðar meðferðir ekki árangur og haldi þeir áfram afbrotaferlinum á að að taka þá úr umferð.
![]() |
Urriðaholt verður fyrsta vaktaða hverfi landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Sæstrengur - getur það verið vitlausara?
Enn og aftur kemur í ljós að stjórnvöldum er ekki alvara þegar þau tala um að "...efla hátækni á Íslandi", "...gera Ísland að þekkingarsamfélagi" eða annað í þeim dúr. Þau geta bruðlað með peninga í óþarfa eins og Héðinsfjarðargöng, en að styðja af alvöru við byggingu á undirstöðum þekkingarsamfélags...nei.
Nú á að leggja annan sæstreng til Evrópu og hafa hann í höndum sama rekstraraðila og rekur FarIce í dag. Það skal enginn reyna að telja mér trú um að verðið fyrir notkun strengsins komi til með að lækka við það - frekar hækka ef eitthvað er, því ekki vex notkunin bara við það að nýr strengur sé tekinn í notkun, en fjármagnskostnaðurinn vex hins vegar.
FarIce er dýr og íslenskir aðilar sem dreifa miklum gögnum nota hann ekki nema þau neyðist til. Staðreyndin er sú að kostnaður við að dreifa gögnum yfir Farice er allt að tífaldur kostnaður við að dreifa þeim frá netþjónabúum erlendis, en það, ásamt núverandi óáreiðanleika sambandsins er til dæmis ástæða þess að þjónarnir fyrir EVE Online eru í London, en ekki á Íslandi.
Nú, svo er það sú ákvörðun að leggja bara streng til Evrópu. Þegar Cantat strengurinn verður lagður niður verðum við ekki með neina beina tengingu við Bandaríkin eða Kanada. Ætla menn síðan í alvöru að reyna að sannfæra bandaríska aðila um að Ísland sé góður kostur til að reka netþjónabú? Þá hefði nú verið betra að leggja streng í suður og tengjast Hibernia strengnum sem liggur fyrir sunnan land.
Púkinn getur ekki tekið svona menn alvarlega.
![]() |
Botnrannsóknir vegna nýs sæstrengs í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 7. maí 2007
Óæskilegir útlendingar
Austur-evrópsk glæpagengi að stela fiskveislum og rúmenskir sígaunar að betla á götunum - hvað er eiginlega á seyði - er þetta einhver uppákoma, skipulögð af Frjálslynda flokknum?
Nei, það er nú víst bara það að Ísland er að verða líkara og líkara öðrum Evrópuþjóðum hvað þessi mál varðar.
Það er annars sérstakt að fólk virðist ekki mega ræða um þær neikvæðu afleiðingar sem Schengen/EES hefur varðandi aðstreymi fólks án þess að vera sakað um rasisma.
Setjum sem svo að einhver varpi fram fullyrðingunni "Það verður að hindra að óæskilegir útlendingar komist hingað til Íslands". Myndi sá sem það segir teljast rasisti, eða bara fordómafullur, nú eða er þetta kannski bara eðlileg afstaða?
Málið er að þetta snýst einfaldlega um hvernig við skilgreinum "óæskilega" aðila. Púkinn er til dæmis á þeirri skoðun að þeir sem reyna að smygla eiturlyfjum til Íslands séu óæskilegir og gildir þá einu hvort þeir eru Íslendingar eða útlendingar. Hins vegar hefur Púkinn ekkert á móti því að hingað til lands komi einstaklingar hvaðan sem er úr heiminum, svo framarlega sem þeir eru hér til að vinna (að því gefnu að eftirspurn sé eftir þeirra vinnu), eða sem ferðamenn á eðlilegum forsendum.
Ef hingað kemur hópur af rúmenskum verkamönnum til að byggja (eða rífa) hús, er það gott mál. Ef hingað koma rúmenskir ferðamenn til að skoða Bláa lónið og skreppa út á Jökulsárlón er það gott mál. Ef hingað kemur rúmenskur eiginmaður eða eiginkona Íslendings er það gott mál.
Ef hingað kemur rúmenskur sígauni til að hnupla og betla er það vont mál að mati Púkans - ekki af því að hann er sígauni eða af því að hann er Rúmeni, heldur því hverjar forsendurnar fyrir komu hans hingað eru. Það væri jafn vont mál þótt hann væri Færeyingur eða Finni.
Við eigum ekki að reka þetta fólk úr landi vegna þess að þau eru rúmenskir sígaunar. Við eigum að reka þau úr landi vegna þess að forsendurnar fyrir komu þeirra eru rangar.
Æ, já...að lokum - myndin hér að ofan er af hópi rúmenskra sígauna í Belzec fangabúðunum, sem bíða eftir að röðun komi að þeim í gasklefunum - þau voru víst líka flokkuð sem óæskileg.
![]() |
Nítján Rúmenar fara úr landi í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 7. maí 2007
Höfundarréttarbrot
Tíu ára fangelsi fyrir að brjóta gegn höfundarrétti hugbúnaðarframleiðenda? Púkinn getur nú ekki að því gert að hann veltir fyrir sér hvort sú áhersla sem lögð hefur verið á þetta ákveðna mál sé ekki að hluta vegna þess að Bandaríkjamenn vilji senda út þau skilaboð að þeir muni ekki hika við að beita lögum sínum og krefjast framsals, jafnvel þótt brotin séu framin í öðru landi.
Púkinn veltir því líka fyrir sér hvort ekki sé fyrst og fremst verið að senda Kínverjum og öðrum Asíulöndum þessi boð - en þau lönd bera ábyrgð á stórum hluta ólöglegrar afritunar á bandarískum hugbúnaði og öðrum hugverkum.
Nú er Púkinn ekki að segja að þessi mál séu í góðu lagi hér á Íslandi, síður en svo, en ástandið er þó skárra en það var fyrir 20 árum síðan, þegar stolinn hugbúnað mátti jafnvel finna á tölvum Hæstaréttar.
Hvernig ætli viðbrögðin yrðu hér á Íslandi ef bandarísk stjórnvöld krefðust framsals á Íslendingi vegna svipaðra afbrota?
![]() |
Framseldur til Bandaríkjanna þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 6. maí 2007
Karíus, Baktus og ... Samfylkingin?
Einu sinni var tannburstinn versti óvinur Karíusar og Baktusar...já og svo tannlæknirinn líka.
Þeir tímar virðast vera liðnir, samkvæmt þeim auglýsingum sem dynja á fólki þessa dagana, því nú á það að vera Samfylkingin sem þeir hræðast.
Í stað þess að hlaupa í felur þegar tannburstinn nálgast, þá æpa þeir og skrækja ef þeir heyra í Ingibjörgu Sólrúnu.
Púkinn skilur þetta ekki alveg.
Er það virkilega skoðun Samfylkingarinnar að bág tannheilsa íslenskra barna sé eingöngu að kenna því að foreldrar hafi ekki efni á að senda börnin sín til tannlæknis?
Telja Samfylkingarmenn að yfirgengileg neysla á sykruðum gosdrykkjum hafi ekkert með málið að gera, né heldur skortur á almennri tannhirðu? Íslensk börn tannbursta sig sjaldan og illa og kunna varla að nota tannþráð - mun þetta lagast ef foreldrar þeirra kjósa Samfylkinguna?
Er það skoðun Samfylkingarinnar að í stað þess að ráðast að orsökum vandamálsins sé best að leysa vandann með því að niðurgreiða tannlækningar enn frekar?
Það að halda ótæpilega sælgæti og sykruðum gosdrykkjum að börnum er bara hrein og klár heimska - og heimsku er ekki hægt að eyða með því að kjósa Samfylkinguna. Fólk verður að taka ábyrgð á hlutum eins og sykurneyslu barna sinna, en ekki ætlast til að samfélagið hlaupi til með niðurgreiddar tannlækningar þegar allt er komið í óefni.
Það eru margar ástæður fyrir því að Púkinn mun ekki kjósa Samfylkinguna. Þetta er ein þeirra.
Laugardagur, 5. maí 2007
Hvað á að kjósa? Taktu próf á vefnum.
Púkanum var nýlega bent á þessa slóð á vefnum, en þar er fólki gefið tækifæri á að svara nokkrum spurningum á vefnum og síðan er reiknað út hvaða flokk viðkomandi eigi helst samleið með.
Púkinn tók prófið og fékk út að hann ætti að kjósa Íslandshreyfinguna, sem kom honum nú ekkert svo voðalega á óvart.
Það var hins vegar athyglivert að prófa að segjast enga skoðun hafa á neinum málum ... þá var Púkanum sagt að hann ætti samleið með Samfylkingunni.
Það var nefnilega það.
Laugardagur, 5. maí 2007
Púkinn og þjóðsöngurinn
Púkinn er ekki sáttur við þjóðsönginn og ef hann lendir í þeim ósköpum að vera þar sem ætlast er til að þjóðsöngurinn sé sunginn, þá þegir Púkinn sem fastast.
Þetta er ekki bara af því að þjóðsöngurinn er illsyngjanlegur fyrir fólk með venjulegt raddsvið, heldur bara einhverja söngelítu sem nær öllum þeim tónum sem þarf að ná. Nei, það er allt annað sem gerir það að verkum að Púkinn þegir.
Þjóðsöngvar eiga að mati Púkans að vera sameiningartákn viðkomandi þjóðar, en sá íslenski nær því bara ekki - hann er ekki þjóðernis- eða þjóðræknislegur á nokkurn hátt. Þetta er lofsöngur til guðs kristinna manna. Púkinn er ekki í þeim hópi.
Hvernig er ætlast til að tríleysingjar og þeir sem ekki telja sig kristna geti með góðri samvisku tekið undir frasa eins og "..sem tilbiður guð sinn..", ".. guð faðir, vor drottinn, frá kyni til kyns.."eða "..sem þroskast á guðsríkis braut." ?
"Ísland ögrum skorið" er þó illskárra, því þrátt fyrir trúarlegt ívaf er sá texti að minnsta kosti um Ísland, en helst myndi Púkinn nú vilja sjá eitthvað eins og ´"Island er land þitt" - þjóðsöng fyrir alla.
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Enn um ofurkrónuna
Púkinn á bágt með að skilja hvers vegna ekkert heyrist í talsmönnum útflutnings- og ferðaþjónustufyrirtækja vegna stöðugrar styrkingar krónunnar. Árið 2005 var mörgum þessara fyrirtækja erfitt, þegar undir 60 krónur fengust fyrir hvern dollara, en 2006 sýndust hlutirnir vera að stefna til betri vegar.
Nú er krónan hins vegar stöðugt að styrkjast, þannig að staða þessara fyrirtækja ætti að fara versnandi, en ekki heyrist eitt einasta hljóð frá þeim - hvað er á seyði - hafa Íslendingar týnt niður listinni að kvarta?
Púkanum finnst hann vera voðalega einmanna að barma sér yfir þeim áfrifum sem ofurkrónan og ofurvextirnir hafa á þau íslensk fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á skapa gjaldeyristekjur með því að flytja út þjónustu og hugvit, þegar öllum öðrum virðist standa á sama.
![]() |
Krónan styrkist enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.5.2007 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Er Púkinn áhrifavaldur?
Púkanum þótti athyglivert að lesa hverjir væru skilgreindir áhrifavaldar í þessari könnun. Púkinn er nefnilega háskólamenntaður einstaklingur á aldrinum 35-64 ára, sem fylgist með fjölmiðlum og hefur heildartekjur yfir 400.000 á mánuði, þannig að samkvæmt þessu er Púkinn skilgreindur áhrifavaldur.
Það er einmitt það, já.
Púkinn myndi nú reyndar varla vilja skilgreina sjálfan sig sem áhrifavald - enda eru áhrif hans takmörkuð utan heimilisins og þess fyrirtækis sem hann starfar í. Þegar Púkinn fór að hugleiða yfir hverjum hann hefði mest áhrif var niðurstaðan reyndar sú að áhrif Púkans væru mest gagnvart hundinum hans, en hann virðist telja Púkann vera það stærsta og mikilvægasta í sinni tilveru.
Voff, voff.
![]() |
Treysta ríkisstjórninni betur en viðskiptalífinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |