Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

1. maí - tímaskekkja?

red-flagÁrið 1886 var 1. maí gangan haldin í fyrsta skipti.  Það var í Chicago, en þar voru verkamenn að krefjast átta stunda vinnudags - krafa sem ekki náði fyllilega fram að ganga fyrr en 1938 þar í landi.  Já, þetta var tími kúgaðs og undirokaðs verkalýðs.

Í dag virðist hins vegar skortur á verkalýð í 1. maí göngum.  Nú er Púkinn ekki að segja að allir hafi það afbragðsgott, eins og sumir pólitíkusar vilja meina - nei, það eru hópar sem hafa það virkilega skítt og kröfum þess fólks er haldið á lofti í 1. maí göngunni.

Menn vekja athygli á gloppunum í velferðarkerfinu og því hvernig aldraðir og öryrkjar verða út undan, en göturnar eru ekki fullar af verkafólki - þeim sem "áttu" 1. maí gönguna í upphafi.  Það sjást femínistar við hlið þroskaheftra, ásamt einstaka NATO-andstæðingum, en hvar er hinn kúgaði verkalýður?  Er hann ekki til lengur?

Er 1. maí gjörsamlega búinn að glata hinum upphaflega tilgangi sínum og orðinn að almennum umkvörtunardegi þeirra sem hafa það ekki alveg nógu gott, meðan kúgaði verkalýðurinn samanstendur af innfluttum verkamönnum?


Enn og aftur um hjónabönd samkynhneigðra

gay_marriageEins og Púkinn hefur oft sagt áður er hann hvorki trúaður né samkynhneigður, þannig að þessi umræða snertir hann ekki beint.

Það virðist hins vegar aðeins vera ein ásættanleg lausn á þessu máli til lengri tíma litið.

  • Í fyrsta lagi verði borgaralegar hjónavígslur samkynhneigðra heimilaðar sem slíkar - ekki bara hálf-opinber athöfn til staðfestingar á samvist, heldur verði hlutirnir nefndir sínum réttu nöfnum.  Sumir kirkjunnar menn munu gera athugasemdir við þetta, en staðreyndin er bara sú að það kemur þeim hreinlega ekki við.
  • Í öðru lagi verði (eins og Siðmennt vill) þeim trúfélögum sem þess æskja veitt heimild til að gefa samkynhneigða saman í hjónaband.

Það er hins vegar ekki hægt að skylda trúfélög til að samþykkja og framkvæma hjónavígslur samkynhneigðra.  Trú byggir ekki á því sem rökrétt er, eða því sem samfélagið telur ásættanlegt á hverjum tíma, heldur alda- eða árþúsundagömlum skræðum sem voru samdar við allt aðrar aðstæður en við búum við í dag.  Það verður ekki bæði sleppt og haldið - þeir sem kjósa að lifa eftir slíku geta ekki sveiflast til eins og vindhanar eftir því hvernig tíðarandinn blæs hverju sinni.

Og hvað eiga þeir samkynhneigðu að gera sem eru í þeirri stöðu að vera í trúfélagi sem ekki vill leyfa þeim að giftast?  Er ekki augljósast að þeir viðurkenni að þeir séu á rangri hillu?  Ef trúfélagið þeirra hafnar þeim eiga þeir að gera slíkt hð sama og segja sig úr því.


mbl.is Trúfélög fái heimild til að gefa saman samkynhneigð pör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt mál

Það er ljóst að í máli þessa fimmtán ára pilts hefur eitthvað brugðist.  Nú þekkir Púkinn ekkert til þessa máls, þannig að hann veit ekki hverjar orsakirnar eru fyrir því að hann leiðist út í fíkniefnaneyslu og glæpi, en þær geta auðvitað verið margar - erfðir, fjölskylduaðstæður, uppeldi, ofbeldi eða bara slæmur félagsskapur.

Eftur stendur unglingur sem er á góðri leið með að eyðileggja líf sitt og er orðinn hættulegur samfélaginu.  Hver verður framtíð hans - mun hann eyða stærstum hluta ævi sinnar innan rimla og eyða þeim tíma sem hann dvelur utan fangelsis í heimi eiturlyfja og afbrota?  Eða, er á einhvern hátt unnt að koma honum á rétta braut?

Púkinn getur nú ekki annað en velt því fyrir sér hvort þessi ákveðni einstaklingur sé einn þeirra sem verið hefur á biðlistum á ýmsum stöðum í kerfinu stóran hluta æfi sinnar, en sé svo er ljóst að "kerfið" ber einhvern hluta ábyrgðarinnar á því hvernig komið er.

Aðgerða er þörf til að koma í veg fyrir að svona vandamálum fjölgi, en þær aðgerðir kosta pening, sem ekki virðist alltaf liggja á lausu.  Við erum víst svo blönk í þessu þjóðfélagi....eða þannig.


mbl.is Unglingur í gæsluvarðhald á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir jafnir fyrir lögunum?

Enn einu sinni eru Íslendingar minntir á að ekki eru allir jafnir fyrir okkar lögum.  Nú ma vel vera að einhverjar málefnalegar ástæður hafi verið fyrir þessari undantekningu, þegar umræddri stúlku var veittur ríkisborgararéttur, en Púkanum finnst undarleg lykt af þessu máli.

Þetta er sérstaklega undarlegt þegar hugsað er um 24-ára regluna, sem hefur hreinlega verið beitt til að stía fjölskyldum í sundur, en í þessu tilviki er tekið allt öðruvísi á málunum.  Púkinn vill þó taka fram að hann hefur ekkert á móti umræddri stúlku - þekkir hana ekkert og þetta er vafalaust ágætis manneskja, hvort sem hún er tilvonandi tengdadóttir Jónínu eða ekki.

Púkanum finnst bara að þegar gerð er undantekning frá 7-ára reglunni beri mönnum skylda til að gera grein fyrir ástæðunum.  Það er í sjálfu sér ekkrt nýtt að gerðar séu undantekningar frá þessari reglu - það hefur til dæmis verið gert svo tilteknir erlendir leikmenn gætu leikið með íslenska landsliðinu - það eru e.t.v. ekki allir sáttir við þá undantekningu, en það eru að minnsta kosti rök.

Hér eru engin rök - engin skýring, og þess vegna túlkar þjóðin þetta sem enn eitt dæmið um spillinguna. 

Flokkurinn hennar Jónínu ætlar nú væntanlega að reyna að þegja þetta mál í hel og vonast til að kjósendur verði búnir að gleyma þessu öllu á kosningadag.  Væntanlega verður þeim að ósk sinni, enda virðist minni kjósenda verulega lélegt.


mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirstöðuatvinnugreinar framtíðarinnar

yuppie beachVel launuð störf sem krefjast góðrar menntunar - það er það sem Púkinn vill sjá, en þó eru nokkrir gallar á gjöf Njarðar.

Púkanum þótti jákvætt að heyra að 19.9% telja upplýsinga- og hugbúnaðariðnaðinn vænlegan til að verða drifkraftur atvinnulífsins á næstu áratugum.  Það væri gaman ef þetta yrði raunin, en Púkinn hefur sínar efasemdir.  Hinn öri vöxtur fjármálageirans hefur nefnilega valdið nokkurri röskun í hugbúnaðargeiranum.

Vandamálið er að íslenska menntakerfið er ekki að skila þeim fjölda sem þyrfti til að viðhalda vextinum í þessum greinum, þannig að allnokkur samkeppni er nú þegar um starfsmenn og það ástand virðist ekki fara batnandi.

Til að þær atvinnugreinar sem byggja á hugviti og menntun geti fengið nægjanlega marga hæfa einstaklinga út úr skólakerfinu þarf að bæta ýmislegt, sér í lagi á neðri skólastigum, en það er efni í annan pistil.

Hvað efni fréttarinnar varðar, þá óskar Púkinn fjármálafyrirtækjunum til hamingju með góðan árangur, en viðhorf VG til þeirra er nú ein ástæða þess að "hægri-grænir" eins og Púkinn geta ekki með góðri samvisku stutt VG.  Það er nefnilega ekkert að því að vera grænn en styðja samtímis uppbyggingu kerfis sem leyfir duglegum mönnum að græða.


mbl.is Yfir þúsund störf urðu til í fjármálastarfsemi á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cantat - loksins

fiberopticPúkinn fagnar því að Cantat skuli nú loksins vera kominn aftur í lag.

Léttir Púkans er sjálfsagt meiri en flestra (sem fólk ætti að skilja ef það athugar höfundarupplýsingarnar til að sjá hver stendur á bak við Púkann) því fyrirtæki Púkans byggir jú á því að geta dreift gögnum fljótt og vel yfir Netið.

Meðan Cantat hefur verið bilaður, hefur öll umferðin farið í gegnum FarIce strenginn, sem hefur nú ekki verið til fyrirmyndar hvað bilanir snertir, þannig að síðustu 4 mánuðina hefur Púkinn haft af því verulegar áhyggjur að þessar sæstrengsbilanir gætu kippt fótunum undan fyrirtæki hans.

Eftir sem áður er staðan sú að Cantat er kominn til ára sinna og Teleglobe fyrirtækið er ekki það besta og áreiðanlegasta í þessum geira.

Það eru uppi fyrirætlanir um nýjan streng til Evrópu, en þegar Cantat verður aflagður þá munum við vera í þeirri stöðu að hafa enga beina tengingu vestur um haf.

Það lítur ekki vel út því ef einhverjir ætla að reyna að markaðssetja Ísland sem vænlegan kost til hýsingar á netþjónabúum, þá er hætta á að þeir verði hreinlega ekki teknir alvarlega miðað við núverandi stöðu mála.

Við værum betur sett ef sá kostur hefði verið valinn að leggja streng í suður til að tengjast Hibernia strengnum sem liggur þvert yfir hafið, en Púkanum skilst að Síminn hafi verið því mótfallinn, enda hefur hann lagt í verulegan kostnað við hafsbotnsathuganir annars staðar.

Púkinn vill að lokum lýsa þeirri skoðun sinni að skeytingaleysi varðandi sæstrengina lýsir því betur en margt annað hversu lítið er að marka orð stjórnmálamanna um upplýsingaþjóðfélag.  Ef þeir vilja ekki byggja upp undirstöður slíks þjóðfégs mun það aldrei verða að veruleika.

Nei, þá er nú betra að þeirra mati að byggja nokkur Héðinsfjarðargöng. 


mbl.is Viðgerð á CANTAT-3 sæstrengnum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Straumur-Burðarás fyrstur...hver kemur næst?

Það er í sjálfu sér engin frétt að Straumur -Burðarás skuli birta uppgjör sitt í erlendum gjaldmiðli og bjóða starfsmönnum sínum að þiggja launin einnig þannig.

Leynt og ljóst eru þeir einfaldlega búnir að afskrifa krónuna sem alvöru gjaldmiðil.  Það sem Púkinn er hins vegar að velta fyrir sér er hvort (eða jafnvel hvenær) Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir muni leitast eftir að gera slíkt hið sama.

Meðan gengi krónunnar hangir sæmilega stöðugt gerist kannski lítið, en krónan er of sterk og aðeins spurning um hvenær (og hversu mikið) hún muni falla - og hvað þá?

Verður ekki pressa þá á bankana að fara sömu leið og Straumur-Burðarás?


mbl.is Straumur-Burðarás birtir uppgjör í fyrsta skipti í evrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir skyldu nú tapa?

loanPúkinn er svolítið gamaldags að sumu leyti og eitt einkenna þess er að hann forðast eins og hann getur að taka lán.  Hvað gengistryggðu lánin varðar, þá er hins vegar eitt sem er alveg ljóst - þeir sem eru að bjóða þau eru engar góðgerðarstofnanir og ætla sér ekki að tapa á þeim - nei, ef einhverjir tapa munu það verða lántakendurnir.

Íslenska ofurkrónan er of hátt skráð - það er ekki spurning um hvort hún muni falla, heldur hvenær og hversu mikið - og jafnvel enn fremur hvort útgefendur jöklabréfanna muni fælast og forða sér burtu, þrátt fyrir vaxtaminunn, sem gæti valdið enn frekara falli.

Verði gengisfallið umtalsvert gætu ýmsir vaknað upp við vondan draum með sín gengistryggðu lán.

Gengistryggð lán eru hins vegar fullkomlega rökréttur valkostur fyrir suma - svo sem starfsmenn Straums-Burðaráss, sem haafa valið að fá laun sín greidd í erlendri mynt.  Áhættan af gengisfalli er engin og vextirnir eru mun lægri en annars bjóðast.


mbl.is Heimilin í landinu taka gengistryggð lán í auknum mæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðabælið Reykjavík

graffitiReykjavík er sóðaleg borg.

Það er varla hægt að ganga um götur án þess að sjá útkrotaða húsveggi, ljósastaura og aðra fleti sem stráksóðarnir hafa útbíað.

Já, ég segi STRÁKsóðarnir, því það sama virðist gilda hér og erlendis að þetta eru nánast eingöngu strákar, gjarnan á aldrinum 10-14 ára, oft frá erfiðum heimilum, með lélega sjálfsímynd og gengur illa í skóla, hvort sem það er vegna athyglisbrests, greindarskorts eða einhvers annars.

Þeir krota "töggin" sín á veggi - heimskulegar skammstafanir eins og "AS", "SC", "HB", "LOO5" og svo framvegis - hafa sennilega ekki hæfileika til að gera neitt flóknara en það. 

Púkinn ætlaði nú reyndar ekki að eyða tímanum í að vorkenna þessum greyjum, heldur að velta fyrir sér siðferðislegri ábyrgð byggingarvöruverslananna sem selja spreybrúsana hverjum sem er án takmarkana.

Það er sennilega til of mikils mælst að þessi fyrirtæki sýni svolitla ábyrgðartilfinningu og setji sjálfviljug einhverjar takmarkanir á þessa sölu - miðað við magnið af veggjakroti græða þeir sennilega þokkalega á þessu, fyrst á að selja spreybrúsana og síðan á að selja fórnarlömbunum efni sem ætluð eru til hreinsunar.

Skamm...skamm...skamm...


Tré í Helguvík

tre_helguvikPúkanum finnst nú ákaflega hlálegt að sjá þessa mynd sem á að sýna fyrirhugað álver í Helguvík.

Það eru nefnilega hávaxin tré á henni.

 Og hvað með það?  Jú - á þessum slóðum er nefnilega alls ekki auðvelt að rækta tré - saltrokið er hreinasta eitur fyrir flestar trjáplöntur.  Það er unnt að rækta nokkra runna eins og silfurblað með góðum árangri á þessum slóðum, en há tré...það myndi jaðra við kraftaverk.

Nema þá auðvitað ef þetta eru gerfitré - jú ætli það ekki bara.

Hinn möguleikinn er auðvitað sá að trén séu svona tveggja metra kræklur eins og sjá má þarna við ströndina og álverið sé þá um meter á hæð - svona lítið og sætt dúkkuhúsaálver.

Hvern halda þeir eiginlega að þeir geti platað?


mbl.is Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrita orkusamning vegna álvers í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband