Færsluflokkur: Menntun og skóli

Það er vont, það er vont og það versnar

TeachingÞetta er ekki í fyrsta skipti sem Púkinn agnúast út í íslenska menntakerfið - sumt af eftirfarandi texta er tekið úr 10 ára gömlum greinum, en fátt hefur breyst síðan þá.

Púkinn á ekki lengur barn á grunnskólaaldri, en svo virðist sem ástandið hafi ekki batnað á undanförnum árum - frekar versnað ef eitthvað er.

Ástæður þess eru margvíslegar. Meðal almennra skýringa má nefna eftirfarandi:

Of mörg börn í bekkjum.  Niðurskurður hefur því miður leitt til þess að bekkir eru of stórir til að unnt sé að sinna öllum nemendum eftir þörfum.

"Skóli án aðgreiningar" og hin almenna sænsk-ættaða meðalmennskuárátta sem virðist ráða ríkjum í menntakerfinu - sú hugsun er því miður allt of algeng að ekki megi hvetja grunnskólanemendur til að skara fram úr í bóknámi - allir skulu steyptir í sama mót og námsefnið má ekki vera erfiðara en svo að allir ráði við það.

Lélegir kennarar.   Það er því miður staðreynd að kennarar njóta ekki virðingar hér á landi, ólíkt því sem gerist t.d. í Finnlandi.  Að hluta til er ástæðan sú að engar kröfur eru í raun gerðar til kennara um að þeir séu í raun færir um að kenna nemendum.  Frábærir kennarar fá sömu laun og hörmulegir (með sömu menntun og starfsreynslu), en það skiptir engu máli hvort þeir eru færir um að vinna vinnuna sína - að kenna börnunum.  Það skiptir ekki máli hvort kennari er fullur áhuga á efninu og tekst að smita nemendur af þeim áhuga, eða hvort kennarinn veit jafnvel minna um efnið en nemendurnir.   Kennarastarfið er láglaunastarf, en Púkinn er þeirrar skoðunar að sé starfið betur launað verði að gera meiri kröfur til kennara.

Lélegt námsefni.  Námsefni í mörgum greinum er til háborinnar skammar.  Námsefni í íslensku höfðar ekki til nemenda - sem er ein margra ástæðna þess að nemendur lesa lítið, sem aftur skilar sér í lélegri lestrargetu.

Svo er það náttúruvísindanámið, sem virðist fela í sér páfagaukalærdóm á atriðum úr líffræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði, án áherslu á að nemendur raunverulega skilji samhengi hlutanna.  Námsbækurnar í náttúrufræði eru reyndar ekki alslæmar (þrátt fyrir nokkrar staðreyndavillur) og gera ráð fyrir því að nemendur framkvæmi ýmsar einfaldar tilraunir.

Slíkar tilraunir ættu að öllu jöfnu að auka áhuga nemendanna á námsefninu - ef þær væru framkvæmdar, en það er vandamálið.  Í skóla dóttur minnar var t.d. öllum tilraunum í efnafræði sleppt, því skólinn taldi sig ekki hafa efni á því... "Efnin eru uppurin og engir peningar til að kaupa meira".

Sem dæmi um fyrrnefndar staðreyndavillur má t.d. nefna þá fullyrðingu að gler sé seigfljótandi vökvi við eðlilegt hitastig (og bent á að gamlar glerrúður í miðaldadómkirkjum séu þykkari að neðan en ofan), en þetta er firra sem hefur verið afsönnuð fyrir löngu.

Ástandið í náttúruvísindum er samt til fyrirmyndar miðað við það sem boðið er upp á í stærðfræði.  Þar virðist markmiðið að drepa fyrst niður allan stærðfræðiáhuga nemenda með svokallaðri "uppgötvanastærðfræði" - sem byggir á því að leyfa nemendum að "þróa sínar eigin aðferðir", í stað þess að læra leiðir sem vitað er að virka...og skítt með það þó að nemendur "þrói aðferðir" sem leiða þau fyrr eða síðar í algerar blindgötur.  Síðan tekur hefðbundnara námsefni við - efni sem er meingallað á marga vegu, en getur þó gengið - svo framarlega sem kennararnir séu starfi sínu vaxnir.  Það er síðan allt önnur spurning hvort fólk með brennandi áhuga og þekkingu á stærðfræði fer nokkuð út í kennslu - Púkanum þykir sennilegra að sá hópur leiti í betur launuð störf.

Þetta er ef til vill ekki mikið vandamál fyrir þá nemendur sem eiga foreldra sem hafa sæmilega þekkingu sjálfir á þessum sviðum og geta stutt börn sín, þannig að þau þurfi ekki að reiða sig á lélegt námsefni, kennt í yfirfullum bekkjum af fákunnandi kennurum....en hvers eiga allir hinir að gjalda?

Er öllum sama öllum sama þótt börn í efstu bekkjum grunnskóla séu ennþá að telja á puttunum?

Vandamálið er reyndar ekki einskorðað við kennarana - þessi grein sem Púkinn skrifaði 2007 fjallar t.d. um herfilega illa gerð samræmd próf í stærðfræði.

Samræmdu prófin voru síðan lögð niður - nokkuð sem Púkinn telur stór mistök, enda veittu þau skólum ákveðið aðhald (a.m.k. ef skólarnir komast ekki upp með að láta "lélegustu" nemendurna ekki taka prófin) - nokkuð sem ósamræmdar skólaeinkunnir gera ekki.  Það er dapurleg staðreynd, sem virðist samt ekki mega ræða, að úr sumum grunnskólum kemur óeðlilega hátt hlutfall nemenda sem er varla læs og alls ekki reiðubúinn fyrir frekara nám. 

Púkinn vill nú samt bæta því við í lokin að lélegt námsefni og misgóðir kennarar eru ekki eina ástæðan fyrir lélegum námsárangri - það sem mætti setja efst á listann er almennt agaleysi í skólum landsins, en það er efni í aðra blogggrein.

Þegar Finnar gengu í gegnum sína efnahagskreppu með tilheyrandi niðurskurði, þá reyndu þeir að hlífa menntakerfinu eftir bestu getu - reyndu jafnvel frekar að styrkja það.  Þeir gerðu sér grein fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem fælust í vel menntuðu fólki - sér í lagi tæknimenntuðu.

Stjórnvöld á Íslandi deila ekki þessari sýn.  Þau sætta sig við grunnskólakerfi sem er til háborinnar skammar (samanber nýlegar fréttir um að talsverður hluti nemenda í 10 bekk sé ekki fær um að lesa sér til gagns), framhaldsskóla sem útskrifa nemendur með "ómarktæk" stúdentspróf (samanber umræðu um innökupróf í háskóla) og háskóla sem eru meira og meira að þróast í þá átt að vera ekki fyrir alla, heldur bara fyrir þá sem hafa efni á dýru námi.

Nú á að skera enn frekar niður á framhalds- og háskólastigi, en Púkinn fær ekki séð hvernig það getur leitt til annars en að ástandið versni enn frekar.

Púkinn er eiginlega kominn á þá skoðun að stefna stjórnvalda sé að halda niðri menntunar- og þekkingarstigi þjóðarinnar - það er sennilega auðveldara að stjórna heimskum sauðum en hinum.


mbl.is Skuldum börnunum okkar að gera betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um hugsanafrelsi

Hgay-love.pngér á Íslandi ríkir skoðanafrelsi, samkvæmt 73. grein stjórnarskrárinnar.  Menn mega hafa hvaða skoðanir sem er - sama hversu skrýtnar þær eru. Hér ríkir líka að mestu leyti tjáningarfrelsi - menn mega láta skoðanir sínar í ljós (með ákveðnum takmörkunum þó).

Þær skoðanir sem fólk hefur og kýs að láta í ljós skapa að hluta þá ímynd sem aðrir hafa af viðkomandi - ímynd sem verður jákvæð eða neikvæð eftir aðstæðum.

Þessi ímynd sem fólk skapar sér er eitt af því sem ræður því hvort aðrir bera virðingu fyrir viðkomandi og hvort (og á hvaða hátt) þeir kjósa að umgangast viðkomandi.

Púkinn vill halda því fram að skoðanir geti haft áhrif á hvort einstaklingar séu hæfir til að sinna ákveðnum störfum eða ekki.

Hugsum okkur til dæmis einstakling sem lýsir í ræðu og riti þeirri skoðun sinni að rauðhærðir einstaklingar séu úrkynjaður ruslaralýður, sem eigi að gelda svo hægt sé að útrýma þeirra genum - hugsum okkur þessum skoðunum sé ítrekað lýst á Facebooksíðu viðkomandi og fleiri slíkum stöðum.

Ef ég rækist á slíkan einstakling t.d. sem leigubílstjóra sem þyrfti mikið að lýsa þessum skoðunum sínum meðan hann keyrði mig heim, myndi ég ekki kippa mér mikið upp við það - hrista hausinn yfir því eftir á hversu ruglaður viðkomandi væri, en ég sæi hins vegar enga ástæðu til að telja þessar furðulegu skoðanir hafa áhrif á hæfni hans sem leigubílstjóra (svo framarlega sem hann hreinlega veitist ekki að örvhentum farþegum).

En hvað ef viðkomandi væri í starfi sem kennari?   Væru foreldrar rauðhærðra barna sátt við að þau sæktu tíma hjá kennara með þessar skoðanir (og þá gildir einu þótt hann minnist ekki á þær í kennslustundum)? 

Ég held að rauðhærðum nemendum myndi líða illa í tímum hjá viðkomandi og það er hætta á að aðrir nemendur sem hugsanlega líta upp til kennarans líti á þetta sem óbeina hvatningu til að beita þá rauðhærðu einelti.

Kennari með slíka fordóma gagnvart ákveðnum hópi nemenda er einfaldlega ekki hæfur til að sinna sínu starfi.  Ég er ef til vill gamaldags, en ég ætlast til að hægt sé að bera virðingu fyrir kennurum sem einstaklingum - og kennari sem opinberlega lætur í ljósi svona skoðanir væri ekki einstaklingur sem ég gæti borið virðingu fyrir.

Fordómar Snorra snúa ekki að rauðhærðum, heldur samkynhneigðum, en eru alveg jafn fáránlegir....og gera hann jafn óhæfan sem kennara.

Það voru ekki mistök að reka Snorra - einu mistökin voru að ráða hann í upphafi.


mbl.is Snorri krefst 12 milljóna í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk ómenntastefna

TeachingÞegar Finnar gengu í gegnum sína efnahagskreppu með tilheyrandi niðurskurði, þá reyndu þeir að hlífa menntakerfinu eftir bestu getu - reyndu jafnvel frekar að styrkja það.  Þeir gerðu sér grein fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem fælust í vel menntuðu fólki - sér í lagi tæknimenntuðu.

Stjórnvöld á Íslandi deila ekki þessari sýn.  Þau sætta sig við grunnskólakerfi sem er til háborinnar skammar (samanber nýlegar fréttir um að talsverður hluti nemenda í 10 bekk sé ekki fær um að lesa sér til gagns), framhaldsskóla sem útskrifa nemendur með "ómarktæk" stúdentspróf (samanber umræðu um fyrirhuguð innökupróf í Hagfræðideild H.Í) og háskóla sem eru meira og meira að þróast í þá átt að vera ekki fyrir alla, heldur bara fyrir þá sem hafa efni á dýru námi.

Nú á að skera enn frekar niður á framhalds- og háskólastigi, en Púkin fær ekki séð hvernig það getur leitt til annars en að ástandið versni enn frekar.

Púkinn er eiginlega kominn á þá skoðun að stefna stjórnvalda sé að halda niðri menntunar- og þekkingarstigi þjóðarinnar - það er sennilega auðveldara að stjórna heimskum sauðum en hinum.


mbl.is Framhaldsskólar fá minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um málfarið á mbl.is

Það liggur við að Púkinn fái verki við að lesa sumar fréttir á mbl.is.  Skoðum til dæmis eftirfarandi texta:

Gengi bréf Nokia hrynur

Gengi hlutabréfa finnska farsímaframleiðandans lækkuðu um 18% í kauphöllinni í Helsinki í gær eftir að félagið tilkynnti, að rekstarmarkmið, sem sett voru fyrir þetta ár, myndu ekki nást.

Það þarf sérstaka hæfileika til að gera jafn margar villur í þetta stuttum texta - villur í beygingum orða og í kommusetningu - eru svona textar samdir af grunnskólanemendum sem féllu í íslensku eða eru bara engar kröfur gerðar til starfsmanna mbl.is um vandvirkni?

Þetta er auðvitað ekki einsdæmi, en virðist heldur hafa farið vaxandi á undanförnum árum - og nú er kominn sérstakur hópur fyrir áhugafólk um illa skrifaðar fréttir.


mbl.is Gengi bréfa Nokia hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lögverndun ljósmyndara tímaskekkja?

Púkinn er þeirrar skoðunar að tækniframfarir hafi leitt til þess að sérstök lögverndun ljósmyndunar sé orðin tímaskekkja og hana ætti að afnema hið snarasta.

Þessi umræða snertir mig ekki persónulega - ég vinn ekki við ljósmyndun, hef aldrei selt mynd og á ekkert frekar von á því að ég muni nokkurn tíman gera það.   Ég er hins vegar virkur áhugaljósmyndari (og hafi einhver áhuga, þá er Flickr síðan mín hér: http://www.flickr.com/photos/29986499@N07/)

Ef maður horfir á hlutina í aðeins stærra samhengi, þá er vert að minna á að ástæður lögverndunar eru þrenns konar.

Í fyrsta lagi er um að ræða lögverndun starfa - þar sem einstaklingar mega einfaldlega ekki starfa í viðkomandi grein nema hafa tilskilin réttindi. Þetta á t.d. við um lækna og flugmenn. Það er hér sem almannaheillasjónarmiðin eiga við. Ómenntaðir fúskarar geta stofnað lífi og limum annarra í hættu, og þess vegna er þeim bannað að vinna þessi störf. Þetta á augljóslega ekki við um ljósmyndun.

Í öðru lagi er um að ræða lögverndun starfsheita, og fylgir því gjarnan forgangur til starfs og betri laun, en ekki bann við að aðrir starfi í greininni. Besta dæmið um þetta eru sennilega kennarar - þar sem kennarar og "leiðbeinendur" geta unnið sama starfið hlið við hlið, en sá menntaði fær hærri laun og á forgang að starfi - þ.e.a.s. ekki má ráða réttindalausan einstakling ef einstaklingur með réttindi sækir um. Þessi tegund lögverndunar er gjarnan studd af stéttarfélögum, enda hagsmunamál félagsmanna. Þetta snertir ekki ljósmyndun á neinn hátt.

Í þriðja lagi er helst um að ræða iðngreinar, þar sem gerð er krafa um menntun/reynslu þess sem ber ábyrgð á verkinu, fyrst og fremst til að vernda kaupandann gegn fúski og leyndum göllum í vörum. Húsasmíði og pípulagnir eru góð dæmi um þetta - menntun og reynsla er talin ákveðin trygging gegn því að menn skili af sér hornskökku eða hripleku verki. Það er líka oft litið svo á að kaupandinn hafi ekki þekkingu til að meta gæði vörunnar - geti ekki borið kennsl á leynda galla, og þess vegna verði að gera kröfur til þess sem beri ábyrgð á verkinu - aðalatriðið hér er að tryggja að hráefni, verkferlar og vinnubrögð séu í lagi.

Sumir hafa viljað setja ljósmyndun í þennan flokk og vissulega eru rök fyrir því. Það sem gerir ljósmyndunina hins vegar ólíka þessum dæmigerðu iðngreinum er listræni þátturinn - menn geta haft verkferilinn í góðu lagi, en samt skilað af sér arfaslöku verki af því að þeir hafa einfaldlega ekki auga fyrir myndefninu - og hvað leyndu gallana varðar, þá á það mun síður við en t.d. í pípulögnum.

Þess ber líka að gæta að með tækniframförum hafa verkferlarnir breyst - langstærstur hluti ljósmynda er tekinn á stafrænar myndavélar í dag - fáir ljósmyndarar sitja lengur í myrkrinu og fást við framköllun með hættulegum efnum - stærri og stærri hluti vinnslunnar er hins vegar á sviði grafískrar eftirvinnslu - nokkuð sem hvorki þarf próf né réttindi til að mega fást við.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að ljósmyndun eigi meira sameiginlegt með listgreinum og tölvuforritun - greinum þar sem hæfileikar og áhugi skipta meira máli en formleg próf.  Púkinn er einfaldlega þeirrar skoðunar að ljósmyndun sé ekki hreinræktuð igngrein og þess vegna sé einfaldlega rangt að meðhöndla hana sem slíka.

Það má í raun hver sem er taka ljósmyndir og selja þær - lögin banna hins vegar þeim sem ekki hafa réttindi að starfrækja ljósmyndastofu og selja þjónustu - selja myndir sem ekki enn hafa verið teknar, ef þannig má að orði komast.

Það eru síðan enn önnur rök að til að fá meistararéttindi þurfa nemendur að komast á samning - nokkuð sem er ekki auðvelt - það eru einfaldlega ekki margir meistarar sem eru tilbúnir til að þjálfa nema til þess eins að fá þá sem samkeppnisaðila.

Púkinn kemur ekki auga á nein góð rök fyrir áframhaldandi lögverndun ljósmyndunar.

 


mbl.is Sektuð fyrir að reka ljósmyndastofur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað standa íslensk börn sig illa!

Púkinn er ekki hissa á því að námsárangur íslenskra barna sé slakur og þá sérstaklega í í náttúruvísindum og stærðfræði.

Það er jafnvel þannig að Púkinn furðar sig á því hvað árangurinn er góður, þrátt fyrir þær aðstæður sem hér ríkja.

Púkinn á dóttur sem nú er að hefja nám í 9. bekk grunnskóla. Púkinn hefur undanfarin ár skoðað það námsefni sem notað er og verður nú að viðurkenna að hann er ekki sáttur við það.

Skoðum fyrst náttúruvísindanámið, sem virðist fela í sér páfagaukalærdóm á atriðum úr líffræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði, án áherslu á að nemendur raunverulega skilji samhengi hlutanna.  Námsbækurnar í náttúrufræði eru reyndar ekki alslæmar (þrátt fyrir nokkrar staðreyndavillur) og gera ráð fyrir því að nemendur framkvæmi ýmsar einfaldar tilraunir.

Slíkar tilraunir ættu að öllu jöfnu að auka áhuga nemendanna á námsefninu - ef þær væru framkvæmdar, en það er vandamálið.   Á síðasta námsári var t.d. öllum tilraunum í efnafræði sleppt, því skólinn taldi sig ekki hafa efni á því... "Efnin eru uppurin og engir peningar til að kaupa meira".

Ástandið í náttúruvísindum er samt til fyrirmyndar miðað við það sem boðið er upp á í stærðfræði.  Þar virðist markmiðið að drepa fyrst niður allan stærðfræðiáhuga nemenda með svokallaðri "uppgötvanastærðfræði" -sem byggir á því að leyfa nemendum að "þróa sínar eigin aðferðir", í stað þess að læra leiðir sem vitað er að virka...og skítt með það þó að nemendur "þrói aðferðir" sem leiða þau fyrr eða síðar í algerar blindgötur.  Síðan tekur hefðbundnara námsefni við - efni sem er meingallað á marga vegu, en getur þó gengið - svo framarlega sem kennararnir séu starfi sínu vaxnir.  Það er síðan allt önnur spurning hvort fólk með brennandi áhuga og þekkingu á stærðfræði fer nokkuð út í kennslu - Púkanum þykir sennilegra að sá hópur leiti í betur launuð störf.

Það er nefnilega vandamál að kennarar njóta ekki virðingar hér á Íslandi - þetta er illa launað starf og litlar kröfur gerðar til þeirra sem leggja það fyrir sig - það eru að vísu margir frábærir kennarar hér á landi, en inn á milli eru skussar með takmarkaða þekkingu og áhuga á því efni sem þeir kenna ... og það er engin leið til að losna við þá úr stéttinni.

Púkinn hefur áður sagt að hann vill stórbæta kjör kennara, en um leið gera auknar kröfur til þeirra. 

Staðan núna er nefnilega sú að eigi grunnskólanemendur að ná góðum árangri í greinum eins og náttúrufræði og stærðfræði verða þeir annað hvort að tileinka sér námsefnið utan skólans, eða eiga foreldra sem geta kennt efnið svo vel sé - skólinn virðist ekki fær um að gera það.

Púkinn vill nú samt bæta því við í lokin að lélegt námsefni og misgóðir kennarar eru ekki eina ástæðan fyrir lélegum námsárangri - það sem mætti setja efst á listann er almennt agaleysi í skólum landsins, en það er efni í aðra blogggrein.


mbl.is Ísland undir meðaltali OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inntökukerfi í framhaldsskóla - úr öskunni í eldinn?

TeachingÞeir voru margir sem gagnrýndu samræmdu prófin - sumir kennarar sögðu þau skemma skólastarfið, þar sem kennslan beindist eingöngu að þeim í nokkra mánuði, en margir foreldrar voru líka óánægðir - sögðu prófin valda streitu og vera á ýmsan hátt ósanngjörn, án þess þó að það væri útskýrt nánar.

Nú heyra samræmdu prófin sögunni til en eru vandamálin þá horfin?

Nei.  

Þvert á móti er ástandið núna mun verra og ósanngjarnara en það var.

Möguleikar nemenda til að komast inn í þá skóla sem þeir sækjast helst eftir eru nú orðnir verulega skekktir af þeirri einföldu ástæði að skólaeinkunnir eru ekki sambærilegar milli skóla.

Í einum tilteknum framhaldsskóla hefur orðið athygliverð breyting á samsetningu nemenda....áður fyrr komust nemendur úr tilteknum grunnskólum nánast aldrei inn í viðkomandi framhaldsskóla - samkvæmt samræmdu prófunum voru þeir nemendur einfaldlega "ekki nógu góðir" - en nú þegar byggt er á skólaeinkunnum hrúgast inn nemendur þaðan - því skólaeinkunnir þeirra skóla eru ekkert frábrugðnar því sem gerist annars staðar, þótt raungeta nemendanna sé hugsanlega minni.  Í framhaldsskólanum telja menn líklegt að hluti þessa hóps muni fljótlega flosna upp frá námi, en það er lítið sem þeir geta gert í því.

Það eru ýmsar lausnir á þessu máli.  Það væri hægt að viðurkenna mistökin og taka samræmdu prófin upp aftur, eða þá að það mætti leyfa framhaldsskólunum að taka upp inntökupróf fyrir þá nemendur sem sækja um í öðrum skólum en sínum "hverfisskólum".  Þannig væri nemendum sem koma úr mismunandi grunnskólum ekki mismunað lengur.


mbl.is Brotið gegn börnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skera niður framtíðina....

Púkinn gerir sér fyllilega grein fyrir því að nauðsynlegt er að skera niður á mörgum stöðum, vegna klúðurs undanfarinna ára.

Það sem Púkinn er hins vegar ekki sáttur við er að skorið skuli niður í skólakerfinu, á sama tíma og teknar eru ákvarðanir eins og að halda áfram byggingu tónlistarhúss, þrátt fyrir allt.

Málið er nefnilega einfalt - til þess að vinna sig út úr kreppunni og byggja upp gott þjóðfélag þurfa Íslendinga á vel menntuðu fólki að halda.  

Niðurskurður á menntakerfi er mikið vandaverk og tjónið af slíkri aðgerð gæti orðið verulegt, til lengri tíma litið.


mbl.is Skólunum gert að skera niður um þrjá milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli prófin hafi skánað?

profPúkinn benti í fyrra á hve hræðilega óvönduð samræmd próf í stærðfræði væru (sjá þessa grein).

Vonandi hefur orðið breyting til batnaðar, en Púkinn hefur sínar efasemdir.  Það virðist nefnilega flestum aðilum í skólakerfinu vera nákvæmlega sama þótt námsefnið í stærðfræði og raungreinum sé óvandað, kennslan léleg og þekking kennara takmörkuð.

Það eru einstaka undantekningar sem ber að hrósa, til dæmis Ólympíustærðfræðiverkefnið, en því miður er slík viðleitni undantekning, ekki regla.

Þetta er allt annað viðhorf en ríkir t.d. til íslenskukennslu, þar sem metnaðurinn er mun meiri og sömuleiðis stuðningur ráðamanna - það eru t.d. haldnar lestrarkeppnir fyrir alla grunnskóla, en kannast einhver við að hafa séð sambærilega náttúruvísindakeppni?

Hvað um það, þótt prófin séu léleg er Púkinn samt þeirrar skoðunar að þau séu nauðsynleg, þótt ekki sé til annars en að veita foreldrum vísbendingu um hvar börnin þeirra standa miðað við önnur.

Það sem má hins vegar ekki gera er að nota prófin til að bera saman skólana og draga þær ályktanir að einhverjir skólar séu "betri" en aðrir, bara af því að meðaleinkunnir nemenda þar eru hærri.  Málið er ekki svo einfalt. 


mbl.is Könnunarpróf í grunnskólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru íslenskir námsmenn erlendis í útrýmingarhættu?

Gengisfall krónunnar undanfarið er mikið áfall fyrir íslenska námsmenn erlendis, enda eru námslán þeirra ekki bundin gjaldmiðli þess lands sem þeir stunda nám í.

Leiðrétting - jú, lánin munu víst vera bundin gjaldmiðlinum, en ekki á "opinberu" gengi Seðlabankans, heldur eru menn að fá gjaldeyrinn sinn á því gengi sem kreditkortafyrirtækjunum þóknast, þannig að vandamálið er til staðar - bara aðeins öðruvísi en Púkinn hélt...það er langt síðan Púkinn var blankur námsmaður.

Ef hér á Íslandi hefði verið "alvöru" efnahagsstjórn, hefðu námslánin átt að vera gengistengd við "opinbert" gengi, þannig að námsmenn þyrftu ekki að bíða upp á von og óvon eftir fréttum af gengi krónunnar til að sjá hvort þeir hafi efni á salti í grautinn næsta mánuðinn.

Ef ekkert er að gert, má búast við að einhverjir hrökklist úr námi - einstaklingar sem þjóðin hefði þurft á að halda, svona til lengri tíma litið, ef við viljum halda þekkingar- og menntunarstigi hér á landi viðunandi.

Púkinn hefur hins vegar fulla trú á því að í samræmi við þá stefnu sína að taka rangar ákvarðanir (eða réttar ákvarðanir á röngum tíma), muni stjórnvöld ákveða að gera ekki neitt.


mbl.is Evran dýr hjá kortafyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband