Færsluflokkur: Menning og listir
Þriðjudagur, 20. maí 2008
Myndasaga Sigmunds og meintur rasismi Íslendinga
Púkanum finnst athyglivert að skoða viðbrögðin við myndasögunni í ljósi skoðanakönnunarinnar á Íslandi um það hvern fólk myndi vilja sjá sem næsta forseta Bandaríkjanna - hvern myndu Íslendingar kjósa ef þeir hefðu kosningarétt þar.
Niðurstöðurnar voru þannig að Clinton og Obama voru nánast jöfn, með um 48% atkvæða hvort, en McCain fékk um 4%.
Það má líta á þetta á ýmsa vegu, eins og að Íslendingar séu það langt til vinstri á mælikvarða bandarískra stjórnmála að margir þeirra sem teljast hægrimenn hér myndu teljast teljast til vinstri við miðju í Bandaríkjunum - já og vinstrimennirnir okkar myndu teljast sjálfsagt hættulegir öfgamenn þar.
Það má líka líta þannig á að sá fókus sem er á húðlit eða kyn frambjóðendanna sé einfaldlega ekki mál málanna frá sjónarhóli Íslendinga - þegar allt kemur til alls höfum við jú raunverulega reynslu af því að hafa kvenkyns þjóðhöfðingja. Frá þeim sjónarhóli má túlka skopmyndina sem ádeilu á yfirborðsmennsku Bandaríkjamanna - að horfa á kynið og húðlitinn, frekar en hvað einstaklingurinn stendur fyrir.
Þýðir þetta þá að Íslendingar séu upp til hópa fordómalausir? Nei - málið er ekki svo einfalt - það er nefnilega óþægilega grunnt á fordómunum hjá mörgum hérna - en Púkinn sér þessa skopmynd ekki sem rasistíska fordóma - ekki fyrir hinn ætlaða markhóp - íslenska lesendur, en það er hins vegar vel skiljanlegt að hún veki viðbrögð annars staðar.
Myndasaga Sigmunds gagnrýnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 19. maí 2008
Hvenær er list list?
Það er erfitt að vera listamaður, þegar hreinsunardeild Reykjavíkurborgar lítur á listaverkin sem óþrifnað sem beri að fjarlægja - en þessu lenti Christoph Büchel í - rasistaplakötin sem voru hengd upp voru víst ekki rasistaplaköt, heldur hluti af gjörningi.
Þetta er nú reyndar ekki nýtt vandamál - Púkann rámar í að hafa heyrt af listamanni sem hvolfdi úr ruslatunnu inni á listasafni sem hluti af gjörningi um firringu nútímasamfélagsins, en "listaverk" hans hlaut víst svipuð örlög.
Annars ætti Púkinn ekkert að tjá sig um svona listamenn - hann skilur ekki verk þeirra - að svo miklu leyti sem hægt er að skilja þau, en leit á vefnum að "Christoph Büchel" leiddi ýmislegt áhugavert í ljós. eins og til dæmis þessa sögu.
Það sem Púkinn veltir hins vegar fyrir sér er hvort "listamanninum" muni verða gert að greiða kostnaðinn vegna hreinsunarinnar, eða hvort hann muni krefjast skaðabóta fyrir eyðileggingu listaverksins.
Ekki áróður gegn innflytjendum heldur gjörningur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 13. maí 2008
Að flytja inn vandamál?
Það var einu sinni þjóð sem opnaði landamæri sín fyrir hópi fólks frá öðru landi. Sumt af því fólki var að flýja náttúruhamfarir, en allt var það að leita að betra lífi fyrir sig og sína. Þegar þetta fólk kom fyrst til nýja landsins var oft litið niður á það - hreinlæti þess þótti ekki upp á marga fiska og tungumálaerfiðleikar gerðu þeim erfitt fyrir í upphafi.
Flestir úr þessum hópi héldu sig út af fyrir sig - bjuggu helst innan um samlanda sína sem töluðu sama mál og deildu sömu menningu. Með tíð og tíma samlagaðist þó þessi hópur öðrum íbúum landsins - Trúarskoðanir voru ekki til vandræða, því þær voru svipaðar og ríkjandi skoðanir annarra landsmanna, en yngri kynslóðirnar misstu tökin á tungumáli forfeðranna, þar sem það var ekki lengur notað til daglegra samskipta, þannig að eftir því sem árin liðu samlagaðist þessi hópur meir og meir þeim sem bjuggu fyrir í landinu.
Þessi hópur aflagði ýmsar venjur sem hann hafði flutt með sér frá gamla landinu, eins og til dæmis sérkennilegar nafnavenjur, en hélt dauðahaldi í aðrar venjur, jafnvel venjur sem höfðu verið aflagðar í gamla landinu - eins og til dæmis að borða vínartertur á tyllidögum.
Já, vínartertur - ég er nefnilega að tala um Íslendingana sem fluttu til Vesturheims á árunum eftir 1874.
Nú á síðustu áratugum hefur staðan hins vegar breyst þannig að fólk sækist eftir að flytja til Íslands, ekki frá því, en öll umræða um innflytjendamál hér á landi er þess eðlis að þeir sem gagnrýna eitthvað eru stimplaðir sem rasistar og umræðan þar með drepin.
Púkinn er þeirrar skoðunar að það verði að gera ákveðnar kröfur til þess fólks sem vill flytja hingað og gerast íslenskir borgarar.
Efst á blaði er krafan um tungumálakunnáttu. Það verður að veita innflytjendum nauðsynlega kennslu í íslensku, þannig að tungumálið myndi ekki múr milli þeirra og annarra. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar börnin eiga í hlut - til að þau eigi möguleika á að spjara sig, í stað þess að verða að jaðarhópi, þá verða þau að ná fullu valdi á íslensku. Ekkert annað kemur til greina. Ef fjölskyldur vilja að auki viðhalda þekkingu á tungumáli upprunalandsins (svona eins og sumir Kanadamenn af íslenskum uppruna) þá er það þeirra mál - en Púkinn vill ekki sjá einhver tungumálagettó myndast hér.
Í öðru lagi er það krafan um menningarlega aðlögun. Púkanum finnst mikilvægara að innflytjendurnir aðlagist samfélaginu en að samfélagið aðlagist þeim - Það er ekki þar með sagt að innflytjendur þurfi að taka upp þá siði sem gilda í samfélaginu, heldur að sætta sig við að þeir siðir sem fólk kemur með verða að víkja fyrir siðum landsins ef um árekstur er að ræða. Púkanum finnst t.d. ekki ásættanlegt ef sú staða kemur upp að skólamötuneytum sé gert að bjóða ekki upp á ákveðinn mat, ef sá matur er á einhvern hátt óásættanlegur fyrir einhvern ákveðinn hóp, svo eitt dæmi frá Danmörku sé tekið.
Í þriðja lagi verður fólkið að hafa möguleika á að verða nýtir þjóðfélagsþegnar, en ekki bara baggi á samfélaginu. Það gengur til dæmis ekki að hola fólki niður í bæjarfélögum þar sem fyrir er alvarlegt atvinnuleysi - það verður að gefa fólki möguleika á að bjarga sér.
Séu þessi þrjú skilyrði uppfyllt, þá er Púkinn tilbúinn að bjóða fólk frá öllum heimshornum hingað.
Flóttafólk verði boðið velkomið til Reykjavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 18. apríl 2008
"Ink Crew", "Cool Boyz" og önnur sóðagengi
Veggjakrotarar hafa almennt þá ímynd að þetta séu illa gefnir og illa siðaðir 10-14 ára strákaræflar, sem bera ekki virðingu fyrir eigum annarra, því þeim sé það fullljóst að þeir muni aldrei eignast neitt sjálfir og aldrei verða borgunarmenn fyrir þeim skemmdum sem þeir valda.
Þessi ímynd er að vísu ekki að öllu rétt, því þetta eru ekki allt stráklingar - í hópi sóðanna má líka finna eldra fólk, sem sumt er sjálfsagt með einhver geðræn vandamál.
Hvað er hægt að gera í þessu?
Púkinn sér fram á aukningu á notkun öryggismyndavéla - ef hægt er að ná sóðunum á filmu, er möguleiki að hægt sé að hafa upp á þeim og krefja þá eða foreldra þeirra um skaðabætur. Reyndar er Púkinn þeirrar skoðunar að það væri nú áhrifaríkara að reka þessi grey til að hreinsa ósómann eftir sig, en það er víst ekki hægt, því oft þarf sérstök hreinsiefni sem börn mega ekki nota.
Hegðun þessara krotara minnir Púkann svolítið á hegðun sumra hunda - ef þeir rekast á stað sem einhver annar hundur hefur migið á, þá þurfa þeir að merkja sér blettinn líka - yfirmíga og helst að reyna að ná hærra upp á vegginn en fyrri hundurinn - svona til að láta líta út fyrir að þeir séu stærri og merkilegri en þeir eru í raun.
Það er að vísu hægt að venja hundana af þessum ávana með því að gelda þá - synd og skömm að það má ekki nota þá aðferð á krotarana.
Kannski er bara áhrifaríkast að leggja fé til höfuðs þeim - 100.000 króna verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til handtölku viðkomandi?
Krotað á strætó í skjóli nætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 14. janúar 2008
Er "sjarminn" á Laugaveginum að hverfa?
Púkanum finnst gaman að rölta niður Laugaveginn öðru hverju og sjá þá margvíslegu flóru af litlum verslunum sem er þar og þá skiptir það ekki endilega máli hvort þær verslanir eru í gömlum bárujárnsklæddum skúrum eða nýlegri byggingum.
Laugavegurinn hefur nefnilega ákveðinn "sjarma", en því miður er sá sjarmi að minnka, eftir því sem fleiri kuldalegir stein- og glerkassar eru reistir þar.
Nú er Púkinn ekki að segja að hann vilji endilega að húsin við Laugaveg 4-6 fái að standa í sinni núverandi mynd - þetta eru nú ekki beint glæsilegar byggingar.
Púkinn er hins vegar mótfallinn því að hótel séu reist þar í staðinn. Að hluta er það vegna þess að Púkanum finnst hótel ekki eiga erindi í þessa götu, vegna vandamála með rútur og bílastæði, auk þess sem Púkanum er spurn hverjir vilji gista við Laugaveginn vegna ónæðis sem má vænta þar um helgar.
Hitt vegur þó þyngra að það sem felur í sér fækkun verslana gerir Laugaveginn minna aðlaðandi sem verslunargötu. Það er ekkert gaman að rölta framhjá hótelum - nei, ef Laugavegurinn á að halda sjarma sínum þarf að halda við núverandi blöndu af verslunum, skemmtistöðum og veitingahúsum - ekki fjölga steinkumböldum sem flestir eiga aldrei erindi í.
Skyndifriðun beitt á Laugavegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 5. desember 2007
Hundheiðin jól
Er einhver mótsögn í því að trúleysingjar haldi upp á jól - þetta er jú "Fæðingarhátíð frelsarans", eða hvað?
Ekki að mati Púkans (sem mun víst flokkast sem róttækur trúleysingi), enda er ákaflega lítið kristilegt við jólin, eins og þau eru haldin hér á Íslandi.
Skoðum aðeins nokkur mest áberandi einkenni jólahátíðarinnar.
Tímasetningin. 25 desember er ekki nefndur sem fæðingardagur Jesú fyrr en í ritinu Chronographiai, sem Sextus Julius Africanus skrifaði um 221. Jafndægur á vori var talinn sköpunardagur Adams, og því hlaut það að vera getnaðardagur Jesú líka (samkvæmt 3. aldar guðfræði) og fæðingardagur hans því 9 mánuðum síðar. Það skipti hins vegar líka máli að heiðin vetrarsólstöðuhátíð var haldin um svipað leyti og með því að velja þennan dag gat kirkjan yfirtekið þá hátíð án mikillar andspyrnu. Staðreyndin er hins vegar sú að hafi umræddur Jesús yfirhöfuð verið til, eru líkurnar á því að hann hafi raunverulega fæðst 25. desember ekki miklar.
Nafnið. Eins og tímasetningin, þá er nafnið "jól" ættað aftur úr heiðni, hugsanlega skylt orðunum "Ýlir" eða "Jólnir" en þó er það allt óvíst. Við erum ekki að burðast með orð eins og "Kristsmessa" eða neitt þvílíkt - nei - bara gott og gilt heiðið nafn. Púkinn sér ekkert athugavert við það.
Jólamatur. Það eru litlar heimildir til um hvernig heiðnir menn héldu jólafagnaði, en mikill og góður matur er nefndur á nokkrum stöðum. Það tíðkaðist til dæmis að fórna svíni í nafni Freys. Púkinn sér því ekkert athugavert við að fá sér Hamborgarhrygg á jólunum - það eru bara leifar af gömlum og góðum heiðnum venjum.
Jólatré. Jólatréð í sinni núverandi mynd er væntanlega upprunnið í Þýskalandi á 16. öld, en í raun er ekkert sérlega "kristilegt" við tréð sem slíkt. Það væri þá helst sá siður sumra að setja stjörnu á toppinn, því geta trúleysingjar auðveldlega sleppt án vandræða.
Mistilteinn. Hann tíðkast sem hluti jólaskreytinga í nálægum löndum en fáar plöntur voru jafn merkilegar í heiðnum sið.
Jólagjafir og jólaverslun. Jólin eru hápunktur efnishyggjunnar, þegar fólk eyðir peningum sem það á ekki í gjafir handa fólki sem hefur ekki þörf fyrir þær. Gjafir sem slíkar eru að sjálfsögðu mun eldri siður en kristnin og ekki veit Púkinn til þess að nokkur telji óbeislaða efnishyggju sérstaklega "kristilega".
"Hátíð ljóss og friðar". Hugmyndin um "hátíð ljóssins" er hluti hinnar upphaflegu vetrarsólstöðuhátíðar - haldin í dimmasta skammdeginu áður dagana tekur að lengja að nýju - ekkert kristilegt við það eða við ljósaskreytingar í einni mynd eða annarri. Hvað friðinn varðar, þá hafa kristnir menn nú ekki einkarétt á honum - hafa ekki "kristnar" þjóðir háð fleiri og blóðugri stríð en flestir aðrir?
Íslensku jólasveinarnir. Það má túlka jólasveinana 13 á ýmsa vegu, til dæmis sem fulltrúa ýmis konar perragangs, en kristilegir eru þeir ekki. Engin vandamál hér fyrir trúleysingjana heldur.
Hvað er þá eftir?
Niðurstaða Púkans einfaldlega sú að eins og jólahefðin er, þá er ekkert kristilegt við hana - ekkert sem skapar mótsögn fyrir sannfærða trúleysingja.
Púkinn mun því óska öllum gleðilegra hundheiðinna jóla.
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Ungfrú Jarðsprengja 2008
Það eru sumar fréttir sem fá Púkann til að staldra aðeins við og hugsa - hér er ein þeirra.
Á næstunni verður haldin fegurðarsamkeppni kvenna sem hafa misst einn eða fleiri útlimi eftir að hafa stigið á jarðsprengju.
Undankeppninni er nú lokið og hafa verið valdir keppendur í lokakeppnina sem fer fram í Luanda, Angola í apríl á næsta ári.
Markmið keppninnar er að vekja athygli á að jarðsprengjur eru enn vandamál í mörgum löndum, jafnvel árum eða áratugum eftir að stríðsátökum þar lauk.
Það er líka annað markmið, sem kemur fram í slagorði keppninnar "Everybody has the right to be beautiful" - það er ekki nauðsynlegt að uppfylla hina stöðluðu ímynd.
Heimasíða keppninnar er hér.
Púkinn getur ekki að því gert að hann veltir ósjálfrátt fyrir sér hvaða skoðanir femínistar hafa á þessari keppni.
Föstudagur, 16. nóvember 2007
"Hey, we can speak Icelandic today"
Fyrirtæki Púkans er ekki stórt, en í því vinnur fólk úr fjölmörgum löndum. Samskipti fólks innan fyrirtækisins verða að ganga hnökralaust og því er eina lausnin að nota ensku sem vinnumál fyrirtækisins. Við skrifum á ensku - allar leiðbeiningar, ferillýsingar og nánast öll önnur skjöl, hvort sem þau eru til notkunar innandyra eða til dreifingar. Stundum er þörf á íslenskum skjölum eða leiðbeiningum, en það er þá unnið eftirá - þýtt af enskunni.
Þeir innannúsfundir sem Púkinn tekur þátt í eru líka venjulega haldnir á ensku, þar sem venjulega er a.m.k. einn erlendur starfsmaður viðstaddur.
Þessi staða er ekki komin upp vegna skipulagðrar enskuvæðingar - þetta er bara raunveruleikinn sem fyrirtæki búa við í dag - nokkuð sem Púkinn áttaði sig á nýlega þegar hann horfði yfir fundarsalinn og tók eftir að allir viðstaddir voru Íslendingar.
Titill greinarinnar verður þá vonandi auðskilinn.
Vigdís ósátt við skilaboð um tvítyngi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 1. ágúst 2007
Leirburður ársins
Í Bandarríkjunum (hvar annars staðar) eru árlega veitt verðlaun fyrir að misbjóða enskri tungu á sem verstan hátt. Keppni þessi nefnist "Bulwer-Lytton Fiction Contest" og sigurvegarinn í ár var Jim Gleeson nokkur.
Hann fékk verðlaunin fyrir eftirfarandi upphaf skáldsögu:
"Gerald began - but was interrupted by a piercing whistle which cost him ten percent of his hearing permanently, as it did everyone else in a ten-mile radius of the eruption, not that it mattered much because for them 'permanently' meant the next ten minutes or so until buried by searing lava or suffocated by choking ash - to pee,"
Það er erfitt að slá svona út.
Laugardagur, 9. júní 2007
Ný leið til að læra íslensku - eða hvað?
Við leit að námsefni í íslensku fyrir útlendinga á geisladiskum rakst Púkinn á þann geisladisk sem hér er sýndur. Það merkilegasta við hann er sennilega textinn "There are no audible words on this subliminal CD".
Einmitt það já. Við nánari athugun kom í ljós að diskurinn inniheldur aðallega rigningar- og þrumuveðurshljóð, en í bakgrunninum eru einhver orð sögð, en of lágt til að hægt sé að greina þau.
Púkanum er ekki alveg ljóst hvernig þetta á að auðvelda íslenskunámið, en samkvæmt framleiðenda byggir þetta á því að virkja undirmeðvitundina.
Einmitt það já - þetta er væntanlega jafn áhrifaríkt og að undirbúa sig fyrir próf með því að sofa með námsbækurnar undir koddanum.
Og verðið á þessum disk? Tja, það er rétt tæpir 5 dollarar - enn eitt dæmi um að maður fær kannski það sem maður borgar fyrir.