Færsluflokkur: Lífstíll
Þriðjudagur, 4. október 2011
Tóbaksfíklar og aðrir dópistar
Sú tillaga hefur heyrst að skráðir sprautufíklar ættu að geta nálgast sitt dóp í apótekum eða sérstökum miðstöðvum - það myndi draga úr líkum á því að þeir fremdu afbrot til að fjármagna neysluna og sömuleiðis myndi svona kerfi draga úr gróðamöguleikum "venjulegra" dópsala.
Hugmyndin sé að fíklarnir séu skilgreindir sem sjúklingar - fyrst reynt að koma þeim í meðferð til að lækna þá af fíkninni, en ef það virkar ekki, þá séu þeir skráðir sem virkir fíklar, með sérstakan rétt til að fá sitt dóp frá opinberum aðilum.
Púkanum heyrist að skoðun sumra sé að meðhöndla reykingafólk á þennan hátt - byrja á að skilgreina viðkomandi sem nikótínfíkla, sem þarfnist meðferðar, en gangi hún ekki upp, þá leyfist viðkomandi að kaupa sitt tóbak á viðeigandi stöðum.
Svona kerfi myndi jú væntanlega draga úr tóbaksneyslu, en Púkinn er ekki alveg viss um að það gangi upp.
Síðan er annað mál að sala tóbaks í apótekum er hreinlega óeðlileg - ef ástæða er til að takmarka söluna, væri þá ekki betra að færa hana inn í vínbúðirnar?
Það er hins vegar gott mál að stefna að því að koma í veg fyrir reykingar til lengri tíma litið - en þessi leið er ef til vill ekki sú besta.
Þróunin í þjóðfélaginu er jú sú að reykingafólki er útskúfað á mörgum stöðum og því er vorkennt af hinum, en eins og einhver sagði..."Reykingafólk er líka fólk - bara ekki eins lengi".
Tóbak verði bara selt í apótekum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. september 2011
Eru atvinnuleysisbætur of háar?
Ef munurinn á atvinnuleysisbótum og lágum launum er það lítill að það borgar sig frekar að vera atvinnulaus en að fá sér vinnu, þá er ljóst að eitthvað er ekki í lagi - vinnuletjandi kerfi mun valda öllum skaða til lengdar.
Gallinn er bara sá að það er engin einföld lausn til á vandamálinu.
Að lækka atvinnuleysisbætur myndi tæplega ganga upp - fyrir utan að enginn stjórnmálamaður myndi leggja það til, því slík tillaga jafngilti sennilega pólitísku sjálfsmorði.
Að hækka lágmarkslaunin er heldur ekki lausn - slík hækkun myndi leiða til verri afkomu þeirra fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á láglaunastörfum - þau yrðu þá annað hvort að draga saman seglin (sem myndi senda fleira fólk á atvinnuleysisskrá), eða hækka verð á vörum og þjónustu, sem myndi á endanum leiða til verð- og launahækkanabylgju í gegnum allt þjóðfélagið...en þeir sem væru á atvinnuleysisbótum myndu sitja eftir, í sömu stöðu og ef bætur þeirra hefðu verið lækkaðar.
Púkinn er þeirrar skoðunar að kerfið í heild þurfi endurskoðunar við og í þeirri endurskoðun séu tvö lykilatriði.
Í fyrsta lagi verði að gera meiri kröfur til að fólk sé í virkri atvinnuleit - ef fólk hafnar vinnutilboðum, skerðist atvinnuleysisbætur þeirra sjálfkrafa - þetta myndi ekki hafa áhrif á þá sem eru atvinnulausir vegna þess að engin störf við þeirra hæfi eru í boði á þeirra svæði, en þetta myndi skerða bætur til þeirra sem kjósa að vinna ekki.
Í öðru lagi verður að efla endurmenntun, og gera virka þáttöku í (endurgjaldslausum) endurmenntunarnámskeiðum og slíku að skilyrði fyrir fullum bótum - slíkt myndi líka gera fleirum mögulgt að sækjast eftir betur launuðum störfum.
Við verðum að hafa kerfi sem er vinnuhvetjandi, ekki vinnuletjandi.
Þiggja bætur frekar en láglaunastörfin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Sunnudagur, 29. mars 2009
Vesturlönd að vaxa upp úr þörf fyrir trúarbrögð?
Púkanum finnst trúleysisstrætisvagnarnir vera gott framtak - vekur fólk til umhugsunar um réttmæti þess að láta leiða sig áfram í blindni af trú á einhverja ósýnilega súperkarla, en sýnir í leiðinni þá ánægjulegu staðreynd að trúarbrögð eru á vissan hátt á undanhaldi.
Fyrir nokkur hundruð árum hefðu menn átt á hættu að vera teknir af lífi fyrir að halda á lofti skoðunum eins og þeim sem nú skreyta strætisvagnana. Síðar hefðu slíkar skoðanir ekki varðað refsingu, en menn hefðu átt á hættu að vera nánast útskúfað úr samfélaginu vegna þeirra.
Í dag getur fólk leyft sér að segja "Ég trú ekki á tilvist ósýnilegra súperkarla". "Ég trúi ekki að trúarrit sem voru skrifuð fyrir nokkrum þúsundum ára (og ritskoðuð í gegnum tíðina) hafi nokkra raunverulega þýðingu fyrir heiminn eða mig persónulega". "Ég hafna þeirri skoðun að nokkur trúarstofnun hafi nokkurn rétt til að setja mér siðareglur eða segja mér hvernig ég á að lifa mínu lífi". "'Ég er frjáls undan bábiljum trúarbragðanna og stoltur af því."
Já, þetta er framför - því miður er þessi þróun ekki sjáanleg alls staðar - en mörg Vesturlanda (að Bandaríkjunum undanskildum) eru þó á réttri leið.
Herferð heiðingja á hjólum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 24. september 2008
Hjólreiðastígar...huh!
Púkinn fer venjulega fótgangandi til vinnu, enda með hundinn sinn í för. Leiðin liggur að hluta meðfram hjólreiðastígnum við Lönguhlíð - ef hægt er að nefna hann því nafni, því hann er oft á mörkum þess að vera nothæfur sem slíkur.
Ástæðan er einfaldlega sú að íbúar nærliggjandi húsa nota stíginn sem bílastæði og til undantekninga heyrir að stígurinn sé hindranalaus - nánast alltaf eru einhverjir bílar á stígnum - og þessa dagana er jafnvel einn gámur þar.
Púkinn hefur aldrei orðið var við að neinn þessara bíla fái sektarmiða fyrir að leggja á hjólreiðastíginn, en honum er spurn - hvers vegna er Reykjavíkurborg að þykjast vera að leggja hjólreiðastíga hér og þar, en hirðir síðan ekkert um að halda þeim opnum fyrir hjólreiðafólki?
Er hagt að hringja í eitthvað númer til að leggja fram kvörtun - nú eða bara að láta draga bílana í burtu, eða eiga .þetta bara að vera þykjustuhjólreiðastígar?
Nýtt kort fæst gefins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 9. júní 2008
Að fóðra börnin á frönskum - hugleiðingar um ábyrgð foreldra
Hún er 18 mánaða, 15 kíló að þyngd - og borðar helst ekkert nema franskar kartöflur, súkkulaði og morgunkorn.
Púkinn gróf upp nokkrar myndir af barninu, sem má sjá hér:
Er þetta dæmi um vanrækslu um barni? Á hið opinbera að grípa inn í ef foraldrar ala börn sín á óhollu fæði?
Flestir eru væntanlega sammála um að foreldrar verði að hafa vit fyrir börnum sínum þegar þau eru á óvitaaldri - það á ekki að leyfa börnunum að ráða hvað þau gera og mataræði fellur venjulega undir það. Flestir foreldrar vilja börnum sína væntanlega bara hið besta - en þessari móður virðist standa nokkurn veginn á sama um mögulegar afleiðingar mataræðisins í framtíðinni.
Það má vel vera að barnið verði með ónýtar tennur (hvaða heilvita foreldri leyfir 18 mánaða barni að drekka kók?), skemmd nýru, sykursýki og önnur vandamál sem fylgja offitu.
Það má líka vera að engar af þessum hrakspám rætist og stúlkan verði grönn, spengileg og heilsuhraust þegar hún eldist, þótt líkurnar séu sennilega ekki með því.
Spurningin er hins vegar - hversu langt má hið opinbera ganga í tilvikum eins og þessum? Hefur það rétt til að skipta sér af?
Alin upp á snakki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 5. júní 2008
HPV bólusetning - er einhver ástæða til að bíða?
Það eru fleiri en Íslendingar sem ræða að taka upp skyldubólusetningu gegn HPV veirunni, sem er einn helsti áhrifavaldur leghálskrabbameins. Eftirfarandi klausa er tekin af vef bresku krabbameinsverndarsamtakanna:
When will the vaccines be available?
The Government has annonced that from September 2008, all girls aged 12 to 13 will be routinely offered HPV vaccination. There will also be a 2 year 'catch up' programme starting in Autumn 2009, to vaccinate girls under the age of 18. The Scottish Executive has announced that its vaccination programme will also start in September 2008. The vaccinations are given as 3 injections over 6 months. The Gardasil cervical cancer vaccine was licensed for use within the European Union in September 2006. Once a drug is licensed, there is no reason in theory why doctors can't prescribe it privately. The cost for private treatment will vary from doctor to doctor. We are hearing reports of about £500 being charged for a course of 3 injections.
Púkinn vill ekki sjá stöðuna hér á Íslandi þróast í þá átt að þeir foreldrar sem telja sig hafa efni á, kaupi bólusetningar handa dætrum sínum, en aðrar stúlkur séu óvarðar.
Er einhver ástæða til að bíða?
Geta lifað aukaár fyrir 1,8 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 31. maí 2008
Olíuhreinsunarstöð - nei takk!
Púkanum finnst Arnarfjörður fallegur staður - sjáið bara myndina sem fylgir þessari grein. Þessi gullna sandströnd er ekki við Miðjarðarhafið - nei, hún er tekin í Arnarfirði síðasta sumar.
Púkinn var alvarlega að íhuga að kaupa jörð í Arnarfirði, en einhver annar varð á undan - og reyndar er Púkinn hálffeginn að ekkert varð af kaupunum, því nú virðist sem til standi að eyðileggja Arnarfjörð með því að reisa þar olíuhreinsunarstöð.
Já, ég segi eyðileggja.
Arnarfjörður verður ekki lengur friðsæl náttúruparadís, ef af byggingu olíuhreinsunarstöðvarinnar verður. Hver vill nærveru við risavaxna, mengandi verksmiðju?
Það eru fáar fyrirhugaðar framkvæmdir sem Púkinn er jafn andvígur og þessi olíuhreinsunarstöð og kemur þar ýmislegt til.
- Í fyrsta lagi er mengun af svona starfsemi - loftmengun, möguleg frárennslismengun og sjónmengun. Það má vel vera að íbúum Bíldudals hugnist að fá mengandi stóriðju í næsta nágrenni við sig, en Púkinn er ekki viss um að þeir hafi hugsað dæmið til enda.
- Í öðru lagi er hætta af mengun vegna stöðugra ferða stórra olíuflutningaskipa. Veður eru nú ekki alltaf góð á þessum slóðum og aukin umferð olíuflutningaskipa felur í sér aukna hættu á umhverfisslysum.
- Starfsemi þessarar stöðvar getur með engu móti rúmast innan skuldbindinga Íslendinga samkvæmt Kyoto sáttmálanum. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja það engu máli skipta, því hún fari hvort eð er ekki af stað fyrr en eftir að Kyoto rennur út. Slíkt viðhorf finnst Púkanum á engan hátt réttlætanlegt.
- Púkinn nýtur þess að ferðast um Vestfirði, stóriðjulausa landsfjórðunginn, en það er ljóst að ef af þessari framkvæmd verður mun Púkinn taka á sig stóran krók framhjá Bíldudal í framtíðinni.
Púkinn veltir líka fyrir sér hver sé raunverulegur ávinningur af því að reisa svona stöð á Íslandi. Það eru þegar nægjanlega margar svona stöðvar í heiminum til að vinna þá olíu sem er dælt upp úr jörðinni - og ef eitthvað er, þá fara olíubirgðir heimsins minnkandi, ekki vaxandi. Hverjir græða á því að setja svona stöð niður á Íslandi? Eru það aðilar sem ekki fá að starfrækja svona stöðvar erlendis, þar sem fólk er búið að fá nóg af menguninni sem þeim fylgir, eða sér að þær rúmast ekki heldur þar innan Kyoto samkomulagsins?
Það er rætt um að svona stöð muni geta skapað 500-700 störf. Það munar vissulega um slíkt, en Púkanum er spurn hvort 500-700 manns finnist á svæðinu sem vilji vinna á svona stað, eða hvort þurfi að flytja inn starfsmenn. Ef raunin verður sú að flestir starfsmennirnir verði frá Austur-Evrópu, er spurning hver raunávinningurinn fyrir Bíldudal sé, svona til lengri tíma litið.
Erlendis er frekar verið að leggja niður olíuhreinsunarstöðvar en að byggja nýjar. Viljum við virkilega setja upp mengandi verksmiðjur hér, sem aðrir vilja ekki hafa?
Hvers vegna reyna menn ekki að byggja upp greinar sem einhver framtíð er í - mengunarlaus fyrirtæki sem krefjast menntaðra starfsmanna - ekki mengandi stóriðju sem er holað niður í fallegum firði af því að aðrir vilja ekki hafa svona óþverra í túnfætinum hjá sér.
Hvað um það - Púkinn ætti að ná að skreppa til Arnarfjarðar að leyfa hundinum aftur að leika sér á sandströndinni áður en þessar hugmyndir verða að veruleika.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fimmtudagur, 29. maí 2008
Nokkrar smáfréttir um klám og ofbeldi
Það virðist útbreitt viðhorf í Bandaríkjunum að fólk geti beðið varanlegan andlegan skaða af því að sjá nakinn líkama og fréttin um að myndbandið frá Sigur Rós hefði verið bannað ætti ekki að koma neinum á óvart, enda er þetta langt frá því að vera einsdæmi.
Nýlega kom út tölvuleikurinn "Age of Conan", sem er fjölspilunarleikur sem líkist að mörgu leyti "World of Warcraft". Það er þó einn munur - hann er ofbeldisfyllri - þar er hægt að kljúfa andstæðinga í herðar niður og sjá blóðið slettast út um allt - en hann inniheldur líka talsvert af fáklæddu kvenfólki.
Hræðilegt!
Frá Bandaríkjunum heyrðust strax kröfur um ritskoðun - það mátti til dæmis ekki undir nokkrum kringumstæðum sjást í geirvörturnar á persónum eins og Keaira, sem sést hér á myndinni.
Það bárust líka kröfur um ritskoðun úr annarri átt - í Þýskalandi var þess krafist að í leiknum væri "splattersía" - þannig að hægt væri að sía burt hluta af ofbeldinu, blóðslettunum og slíku. Þeim stóð hins vegar á sama um nektina.
Fólk skiptist nokkuð í tvo hópa, um hvort það telur hættulegra unglingum - að sjá tölvuteiknaðar geirvörtur á persónu eins og henni Keaira hér að ofan, eða að drepa endalausan straum af tölvuteiknuðu fólki á ofbeldisfullan hátt með blóðslettum, öskrum og tilheyrandi - ja, nema vinstrigrænir femínistar sem vilja sennilega banna hvort tveggja.
Önnur smáfrétt sem tengist klámi í Bandaríkjunum er hér. Sú hugmynd hefur komið upp að leysa fjárlagahalla Kaliforníu með því að leggja 25% klámskatt á klámefni framleitt í ríkinu. Málið er nefnilega að meirihluti allra klámmynda í Bandaríkjunum er framleiddur í suðurhluta Kaliforníu.
Púkinn veltir fyrir hér hvort ekki sé hér einhver smáhræsni á ferðinni.
Myndband Sigur Rósar bannað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 28. maí 2008
Íslendingar vilja ekki vita í hvað peningarnir þeirra fara
Einu sinni skrifaði Púkinn heimilisbókhaldsforrit. Þetta var í kringum 1990, þegar tölvuvæðing íslenskra heimila var að hefjast og rök sumra fyrir því að þeir þyrftu tölvu voru meðal annars sú að þannig væri hægt fylgjast betur með fjármálum heimilisins.
Þetta forrit "floppaði" gersamlega.
Púkinn vill nú ekki viðurkenna að það hafi verið vegna þess að forritið var lélegt - þá hefðu menn bara fengið sér sambærileg erlend forrit í staðinn, en sú var ekki raunin.
Skýringin var ekki heldur sú að markaðssetning forritsins væri í ólagi - forritið var markaðssett á sama hátt og önnur forrit Púkans (Púki, Espólín og Lykla-Pétur) á þeim tíma, sem voru þá mest seldu íslensku forritin á heimilismarkaði.
Nei, Púkinn komst að þeirri niðurstöðu að í raun vildu Íslendingar upp til hópa bara ekki vita í hvað peningarnir þeirra færu. Agaleysi í fjármálum er nefnilega ekki bara útbreitt - það er hreinn þjóðarsiður. Það liggur við að þeir þyki skrýtnir sem hafa sín fjármál á hreinu og vita í hvað hver króna fer - vita hver útgjöld þeirra verða næstu mánuðina, geyma allar kvittanir, versla þar sem hagkvæmast er, hafa varasjóð til að mæta óvæntum útgjöldum og eyða ekki umfram tekjur.
Það eru til undantekningar, en Íslendingar kunna almennt ekki með peninga að fara.
Það er ekki hægt að kenna skólakerfinu um þetta - segja bara að það verði að taka upp fjármálafræðslu - það læra börnin sem fyrir þeim er haft, ekki satt? Ef börn alast upp við þann hugsanahátt á heimilum að það sé engin þörf á að fylgjast með því í hvað peningarnir fara, þá skiptir engu máli hvort fjármálafræðsla er í boði í skólum eða ekki.
„Alvarlegt hve margt ungt fólk er illa statt“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 2. apríl 2008
Er smávegis kjaraskerðing nauðsynleg?
Íslendingar virðast ætlast til þess að kjör þeirra batni stöðugt. Þetta á kannski sérstaklega við um yngra fólk sem aldrei hefur kynnst raunverulegum samdrætti og kjararýrnun.
Þessa dagana kvartar fólk yfir hækkunum á verði eldsneytis og öðrum innfluttum varningi. Sumir virðast líta þannig á að hér sé um tímabundin óþægindi að ræða, sem hljóti að ganga yfir - aðrir líta svo á að hér sé um "vandamál" að ræða, sem stjórnvöld verði að leysa.
Púkinn er annarrar skoðunar - hann lítur svo á að þjóðin hafi lifað um efni fram í allnokkurn tíma og fólk verði einfaldlega að átta sig á því að "gömlu góðu dagarnir" séu ekki að koma aftur alveg á næstunni.
Verð hlutabréfa rauk upp langt umfram það sem eðlilegt mátti telja - V/H hlutfall markaðarins var komið út yfir öll velsæmismörk, fólk var farið að slá lán til að taka þátt í hlutabréfabraski og ýmis önnur einkenni hlutabréfabólu voru sýnileg.
Sama á við um gjaldmiðilinn. Krónan var orðin allt, allt of sterk, sem sást meðal annars á því að meðaljóninn var farinn að taka 100% myntkörfulán til að kaupa risapallbíl frá Bandaríkjunum - og það þarf nú varla að minna á hvað þeir sem ekki töldu sig meðaljóna voru að gera.
Svo...*púff* krónan féll og margir sitja uppi með sárt ennið. Ungt fólk sem er að átta sig á því að það á minna en ekkert í bílunum sínum - skuldar kannski 175% af verðmæti hans, svo ekki sé nú minnst á fasteignamarkaðinn.
Já fasteignamarkaðurinn - Púkanum finnst það furðulegt að einhverjum skuli hafa komið á óvart að íbúðaverð skyldi hækka, þannig að vonlaust yrði fyrir ungt fólk að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Fólk átti að geta sagt sér þetta - þegar bankarnir komu og buðu fólki upp á "hagstæð" lán, þá þýddi það meiri peninga að eltast við takmarkað framboð. Eðlileg afleiðing er að varan hækkar, uns jafnvægi er náð.
Líta maður hins vegar yfir allt sviðið er niðurstaðan einföld - þjóðin hefur lifað um efni fram og verður að gjöra svo vel að sætta sig við smávægilega kjaraskerðingu á næstunni - það er ekki hægt að velta öllum vandamálum endalaust á undan sér.
Svona fullyrðing er ekki líkleg til vinsælda, og því mun varla nokkur stjórnmálamaður taka undir þþetta, en sannleikurinn er stundum óþægilegur.
Seðlabankastjóri segir ástandið stöðugt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)