Færsluflokkur: Lífstíll
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Örkin hans ... Jóhanns?
Púkinn skilur ekki þá sem taka söguna í Biblíunni um syndaflóðið bókstaflega. Hvort sem í henni leynist eitthvað sannleikskorn eða ekki, þá er ætti öllum hugsandi mönnum að vera löngu orðið ljóst að hún getur einfaldlega ekki verið sönn í heild.
Samt, það er örlítill hópur fóllks í flestum löndum sem tekur hana trúanlega (og reyndar allstór hópur í Bandaríkjunum), fólk sem telur hvert einasta orð í Biblíunni vera bókstaflega satt og kýs að byggja líf sitt á þessum gömlu sögum í stað staðreynda.
Johan Huibers er einn þeirra, en nú nylega opnaði hann aðgang að líkani af örkinni sem er á stærð við þriggja hæða hús - um einn fimmti af því sem lýst er í biblíunni.
Það sem vekur athygli er að Johan er ekki bandarískur heldur hollenskur, en kannski er það ekki svo skrýtið þegar allt kemur til alls. Holland er jú eitt þeirra landa sem eru í hvað mestri hættu ef sjávarmál hækkar, þannig að öllu umfjöllum um flóð fær sennilega góðan hljómgrunn þar.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 27. apríl 2007
Syngjandi salerni
Salernamenning Japana er svolítið sérstök. Margir kannast við salerni með innbyggðum þvottabúnaði, sem senda vatnsbunu upp í loftið þegar notkun er lokið, enda hafa þau verið fáanleg hérlendis.
Japanska fyrirtækið Inax hefur hins vegar nýlega framleitt salerni með ýmsum athygliverðum nýjungum.
Það á meðal má nefna upplýsta skál (mynd D), væntanlega til þess að karlmenn eigi auðveldara með að nota salernið í myrkri.
Að auki inniheldur salernið stereo-hátalara og MP3 spilara, sem kemur forhlaðinn með tónlist eftir Bach, Chopin og Mendelsohn (mynd A),
Einnig er sjálfvirkur setulyftibúnaður (mynd C).
Það sem Púkinn skilur hins vegar ekki er mynd B, en hún hlýtur að túlkast sem svo að salernið sé sérlega æluvænt. Ætli einhverjum verði flökurt meðan þeir hlusta á Bach og gera sín stykki í upplýsta skál?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Fjársvikamál?
"Dvergpúðlur til sölu, aðeins 80.000 krónur". Dvergpúðlur eru vinsælar í Japan, og þegar þær voru boðnar til sölu nýverið á um helmingi venjulegs markaðsverðs stukku þúsundir kvenna til og keyptu sér púðlu.
Eða þannig.....
Sumum kaupandanna fannst að vísu svolítið skrýtið að nýju púðlurnar þeirra fúlsuðu við hundamat, en það var ekki fyrr en japanska kvikmyndastjarnan Maiko Kawakami lýsti þeim vandræðum í spjallþætti í sjónvarpinu og sýndi mynd af púðlunni sinni að sannleikurinn kom í ljós.
Þetta voru nefnilega lömb.
Já, lömb. Þau eru nefnilega mjög sjaldgæf í Japan og margir Japanir vita ekki nákvæmlega hvernig þau líta út.
Þetta kallar maður víst fjársvikamál, eða hvað?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Ópíumvalmúinn
Ólíkt því sem gildir um kannabisplönduna er fullkomlega leyfilegt að rækta ópíumvalmúa hérlendis, enda er sumarhiti hér ekki nægur til þess að raunhæft sé að nota valmúa hérlendis til framleiðslu á eiturlyfjum.
Ópíumvalmúinn, Papaver somniferum, er annars hin ágætasta garðplanta, með stór skærlit blóm. Hann er einær, en sé honum valinn góður staður garðinum, svo sem þurr staður sem snýr í hásuður, getur hann náð að þroska fræ og haldið sér við með sjálfsáningu frá ári til árs.
Það er líka svolítð skondið að geta bent á fallegt beð og sagt "...og þarna er svo ópíumvalmúaplantekran mín".
Herlið NATO gagnrýnt fyrir meint samþykki við valmúarækt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Glott að kirkjunni
Púkinn getur ekki annað en glott að vandræðaganginum í kirkjunnar mönnum, og þeirri klemmu sem þeir eru í vegna mismunandi viðhorfa - viðhorfa gamla testamentisins þar sem litið er á samkynhneigða sem réttdræpan óþjóðalýð, viðhorfa nýja testamentisins, þar sem þeir eru syndarar sem ber að fyrirgefa og viðhorfa nútímans þar sem þeir eru jafn réttháir og aðrir og það að þeir kjósi sér rekkjunauta af sama kyni sé í raun svipað mál og að vera örvhentur - minnihlutahópur sem verður stundum fyrir óþægindum í þjóðfélagi sem ekki gerir alltaf ráð fyrir þeim.
Vandamál kirkjunnar er í raun það að nútíminn hafnar viðhorfum biblíunnar, þannig að kirkjan lendir í klemmu - á hún að halda fast við sínar úreltu kenningar eða á hún að reyna að aðlagast viðhorfum nútímans.
Það er í raun ekkert nýtt að biblían sé túlkuð á mismunandi vegu, eftir því sem vindar þjóðfélagsins blása hverju sinni, en þetta mál er óvenju erfitt, því að er fátt ef nokkuð í biblíunni sem þeir geta notað til að styðja þá skoðun að samkynhneigð sé réttlætanleg, hvað þá ásættanleg.
Í raun verður kirkjan að hafna hlutum biblíunnar og því viðhorfi sem þar kemur fram til að taka samkynhneigða í fulla sátt, en sé einum hluta biblíunnar hafnað, hvers vegna þá ekki að hafna meiru? Nánast allir hugsandi menn hafa fyrir löngu hafnað hlutum biblíunnar, svo sem sköpunarsögunni, en þeir sem trúa því að þessi bók hafi eitthvað raunverulegt gildi eiga alltaf bágt með að sætta sig við að hlutum hennar sé hafnað á einn eða annan hátt.
Þetta vandræðaástand snertir Púkann ekki neitt, enda er hann hvorki samkynhneigður né trúaður og hefur fyrir löngu hafnað því að biblían hafi nokkurt raunhæft gildi í dag, annað en sem hvert annað mannanna verk, bók sem lýsi úreltum viðhorfum fyrri tíma, bók uppfull af karlrembu og rasisma sem hefur í gegnum söguna gert mannkyninu meiri skaða en nokkuð annað verk.
Því meira sem strikað er út af henni, því betra.
Biskup segir skiljanlegt að verklag kirkjunnar þyki varfærið og fálmkennt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 23. apríl 2007
Bruðl dagsins - Ekki af þessum heimi
Nú veit Púkinn ekki hvort einhverjir íslensku auðmannanna eru Star Trek aðdáendur, en sé svo, þá er hér komin hin fullkomna jólagjöf til þeirra.
Star Trek íbúðin er nefnilega komin í sölu á eBay. Þessi íbúð var hönnuð með geimskipið Voyager sem fyrirmynd.
Það er svolítið erfitt að lýsa henni með orðum, en unnt er að fá nokkurs konar sýndarferð um hana hér.
Uppboðið sjálft á eBay er hins vegar hér.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. apríl 2007
Ertu í tímaþröng á morgnana?
Sumir kannast við það að vera í tímaþröng á morgnana og hafa ekki tíma fyrir bæði sturtu og kaffibolla áður en farið er í vinnuna, þannig að menn neyðast til að mæta syfjaðir, illþefjandi eða of seint.
Þetta vandamál er nú úr sögunni, með nýju Shower Shock sápunni, en að sögn framleiðenda inniheldur hún það mikið koffín (sem er sogið upp gegnum húðina) að það að þvo sér með henni jafngildir því að innbyrða tvo kaffibolla.
Aðilum sem hafa áhuga á að nálgast þessa vöru er hér með bent á ThinkGeek vefsíðuna.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Bruðl dagsins - fyrir börnin
Púkinn heldur nú áfram að aðstoða íslenska auðmenn sem eiga í vandræðum við að koma peningum sínum í lóg.
Í þetta sinn er athyglinni beint að fordekruðum börnum auðmannanna, sem að sjálfsögðu verða að fá leikföng við hæfi, eins og til dæmis þennan tuskubjörn hér, frá þýska fyrirtækinu Steiff.
Hann er með augu úr safírum, með demantaumgjörð, auk þess sem munnurinn er úr gulli og feldurinn er að hluta úr gullþræði.
Verðið er aðeins 62446 evrur, eða um sjö milljónir íslenskar (eftir að flutningakostnaði og virðisaukaskatti hefur verið bætt við).
Púkinn getur reyndar ekki annað en velt fyrir sér hversu mörgum börnum í Malawi mætti hjálpa fyrir þann pening.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Kossar og súkkulaði
Hvort er betra - að kyssast eða borða súkkulaði?
Í nýrri rannsókn voru mældar breytingar á hjartslætti og heilavirkni, annars vegar þegar fólk kysstist og hins vegar þegar það borðaði súkkulaði.
Niðurstaðan? Súkkulaðið vann.
Það er e.t.v. ekki sama hvaða súkkulaði er notað, en í fréttinni í The Scotsman var sérstaklega tekið fram að notað hefði verið ný súkkulaðitegund frá Cadbury, með 60% kakóinnihaldi. svipað því sem framleitt er sérstaklega fyrir bresku konungsfjölskylduna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. apríl 2007
Er matvöruverslunum treystandi til að selja áfengi?
Púkinn hefur ekki látið sjá sig hér á blog.is síðustu vikurnar, enda hefur hann verið í fríi á sólarströnd, þar sem svo margt annað er hægt að gera en að hanga á Netinu.
Meðal þess var að sitja úti á góðum kvöldstundum, narta í osta og hráskinku og sötra rauðvín sem var keypt í matvöruversluninni á næsta horni.
Púkanum varð stundum hugsað til þess hversu notalegt það væri nú ef staðan væri svona á Íslandi - ef mann langaði í eina góða rauðvísflösku væri nóg að skjótast út á næsta horn.
Ekki vantar áhugann hjá matvöruverslunum eða SVÞ, auk þess sem skoðanakannanir hafa sýnt að stór hluti landsmanna er fylgjandi því að léttvín og bjór verði selt í matvöruverslunum.
Hins vegar...
Púkinn er nefnilega ekki viss um að íslenskum matvöruverslunum sé treystandi til að selja léttvín. Í dag eru í gildi aldurstakmarkanir varðandi kaup á tóbaki, en reynslan hefur sýnt að á mörgum stöðum er auðvelt fyrir kaupendur undir þeim aldursmörkum að nálgast tóbakið. Verslanirnar eru ekki að standa sig og ekki hefur Púkinn séð mikil merki þess að þessar verslanir séu sviptar heimild til að selja tóbak til lengri eða skemmri tíma, þannig að eftirlitið er ekki heldur í lagi.
Nú er það reyndar skoðun Púkans að tóbak sé mun hættulegra en léttvín, en hvað um það - samkvæmt landslögum gilda aldurstakmarkanir um kaup á hvoru tveggja.
Ef verslunum er ekki treystandi til að selja tóbak nema til þeirra sem hafa náð tilsettum aldri, er einhver ástæða til að ætla að eitthvað annað verði uppi á teningnum með léttvínið?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)