Færsluflokkur: Matur og drykkur

Heimskuleg forræðishyggja

meat.jpgÞegar bann við formerkingum kjötvara var þvingað í gegn var því haldið fram að það kæmi neytendum til góða.

Þvílíkt endemis kjaftæði.

Meðan formerkingar voru í gildi var auðvelt að bera saman verð á vörum - fólk fór inn í verslun og gat séð þau tilboð sem verslunin bauð, eða þann afslátt sem var veittur við kassann frá því verði sem var skráð á vöruna.

Neytandinn gat líka verið viss um að verslunin væri ekki að smyrja ofan á verðið.  

En núna?  Þegar maður kemur í verslun og skoðar kjötborðið er mun erfiðara meta hvort "tilboð" verslunarinnar eru góð eða ekki - miðað við það verð sem gera má ráð fyrir að aðrir bjóði.

Verðskannarnir hafa hlotið nokkra gagnrýni, en ef þeir væru aflagðir, þa má í fyrsta lagi gera ráð fyrir að vörurnar myndu hækka í verði - það er nokkuð öruggt að aukakostnaði við verðmerkingar yrði velt beint yfir á kaupendur - og í öðru lagi myndi þetta engu breyta varðandi verðhækkanir verslana.

Nei, það er nokkuð ljóst að bannið við formerkingum var alger bjarnargreiði - gaf verslunum möguleika á að hækka verð án þess að kaupendur gætu séð það á auðveldan hátt.

Endemis forræðishyggjupólitík.


mbl.is Verðmerkingum hætt og verð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegt - ráðherra gerði eitthvað af viti....

Ótrúlegt en satt - ráðherra í ríkisstjórn Íslands tók vitræna ákvörðun.


mbl.is Heimabakstur leyfður með lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úldinn matur, klúður og léleg þjónusta

Hvers vegna eru íslenskir skyndibitastaðir svona lélegir?

Þótt ekki sé réttlætanlegt að gera sömu kröfur til skyndibitastaða og "alvöru" veitingastaða, þá ætlast maður nú til ákveðinna lágmarksgæða - skyndibitinn er ekki gefins á Íslandi, en því miður er það nú oft svo að staðir standa ekki undir væntingum.

Púkinn er mikill áhugamaður um góðan mat, en stundum er tíminn af skornum skammti, þannig að úrræðið verður að koma við á skyndibitastað. 

Ef staðurinn stendur ekki undir væntingum Púkans bregst Púkinn við með því að fara ekki aftur á þann stað í einhvern tíma, sem getur verið mislangur eftir atvikum.

Eitt það alversta sem Púkanum hefur verið boðið upp á er úldið hráefni.  Það átti sér stað hjá KFC, strax eftir opnun á sunnudagsmorgni.  Ætlunin var að kaupa barnabox handa dóttur Púkans og nokkra bita handa foreldrunum, en tilhlökkun barnsins var fljót að hverfa þegar ýldulyktin gaus upp.  Svona eftir á að hyggja þykir Púkanum sennilegast að hráefnið hafi ekki verið geymt í kæli yfir nóttina, þannig að fyrstu viðskiptavinum dagsins var boðið upp á mat sem tæplega var boðlegur hundum.

Púkinn ákvað því að gefa KFC langt frí, en gerði aðra tilraun 6 árum síðar. Það gekk ekki mikið betur.  Á leiðinni heim fékk frú Púki svo heiftarlegt ofnæmiskast að fjölskyldunni stóð ekki á sama.  Eftir þetta var KFC settur á varanlegan bannlista hjá Púkanum.

Annar staður sem er kominn á bannlistann er kjúklingastaðurinn í Suðurveri.  Synd og skömm, því þetta er sá skyndibitastaður sem er næst heimili Púkans.  Ástæða bannsins í því tilviki er ekki gæði matarins, heldur endalaust klúður í afgreiðslu.  Um þverbak keyrði í gær - þegar Púkinn kom heim og opnaði pakkann gerði hann sér ferð til baka og skilaði bitunum á þeirri forsendu að þetta væri ekki það sem hann hefði pantað.  Til hvers í ósköpunum er verið að spyrja viðskiptavininn hvernig bita hann vilji, þegar ekkert mark er tekið á svarinu?

Ruby Tuesday er líka á svarta listanum hjá Púkanum, vegna hræðilegrar þjónustu og matar sem ekki uppfyllir væntingar miðað við verð. 

Annar staður sem lenti á svarta listanum var Svarti svanurinn við Hlemm, en eftir að eigendaskipti urðu þar hrapaði þjónustan niður úr öllu, Púkinn gafst upp á staðnum og sennilega hafa fleiri gert það líka, því hann lagði upp laupana.

Það eru líka nokkrir staðir sem klikka stöku sinnum, en Púkinn stundar samt - Nings (þar sem stundum gleymist eitthvað af því sem pantað var) og American Style (þar sem sumir starfsmenn virðast ekki skilja orðin "enga sósu á hamborgarann").

Einu staðirnir sem alltaf uppfylli væntingar Púkans eru pizzustaðir - áður fyrr var Púkinn fastagestur á Hróa Hetti og Eldsmiðjunni, en þar sem þeir staðir eru ekki lengur innan göngufæris er Devitos (við Hlemm) sá staður sem Púkinn stundar einna helst.

Púkinn minntist ekki á McDonalds, enda hefur hann ekki farið þangað síðan dóttirin óx upp úr því að vilja barnabox með leikfangi - ef Púkinn vill hamborgara fær hann sér "Heavy Special" hjá American Style, ekki einhverja dvergvaxna eftirlíkingu af hamborgara.

Það eru reyndar ekki bara skyndibitastaðir sem hafa valdið Púkanum vonbrigðum hér á landi - alversta þjónusta sem hann hefur fengið var á einum af dýrari veitingastöðum bæjarins, en það er efni í aðra sögu, sem ef til vill verður sögð síðar.

Hvað um það, hafa einhverjir aðrir sínar eigin hryllingssögur af íslenskum skyndibitastöðum - eða sérstök meðmæli með einhverjum stað sem ekki veldur vonbrigðum?


Að fóðra börnin á frönskum - hugleiðingar um ábyrgð foreldra

Hún er 18 mánaða, 15 kíló að þyngd - og borðar helst ekkert nema franskar kartöflur, súkkulaði og morgunkorn.

Púkinn gróf upp nokkrar myndir af barninu, sem má sjá hér:

Er þetta dæmi um vanrækslu um barni?  Á hið opinbera að grípa inn í ef foraldrar ala börn sín á óhollu fæði?

Flestir eru væntanlega sammála um að foreldrar verði að hafa vit fyrir börnum sínum þegar þau eru á óvitaaldri - það á ekki að leyfa börnunum að ráða hvað þau gera og mataræði fellur venjulega undir það.  Flestir foreldrar vilja börnum sína væntanlega bara hið besta - en þessari móður virðist standa nokkurn veginn á sama um mögulegar afleiðingar mataræðisins í framtíðinni. 

Það má vel vera að barnið verði með ónýtar tennur (hvaða heilvita foreldri leyfir 18 mánaða barni að drekka kók?), skemmd nýru, sykursýki og önnur vandamál sem fylgja offitu.

Það má líka vera að engar af þessum hrakspám rætist og stúlkan verði grönn, spengileg og heilsuhraust þegar hún eldist, þótt líkurnar séu sennilega ekki með því.

Spurningin er hins vegar - hversu langt má hið opinbera ganga í tilvikum eins og þessum?  Hefur það rétt til að skipta sér af?


mbl.is Alin upp á snakki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hungur - og hræsni kaþólsku kirkjunnar

sudan_famine_7Nú vill Púkinn ekki gera lítið úr því vandamáli sem hungur er fyrir fjölda fólks út um allan heim, en honum finnst það koma úr hörðustu átt þegar páfinn krefst þess að aðrir finni lausn á vandanum.

Það eru að sjálfsögðu margar ástæður fyrir hungri - uppskerubrestur, erfiðleikar við að koma matvælum á áfangastaði, en grunnvandamálið, sem mun verða mikilvægara eftir því sem tíminn líður, er einfaldalega að það eru of margir munnar til að metta.

Mannkyninu fjölgar enn of hratt, og þeirri þróun verður að snúa við.  Offjölgun er að vísu ekki vandamál á Vesturlöndum eða í Japan og Kínverjar hafa gripið til róttækra, en nauðsynlegra aðgerða, með því að takmarka barnafjölda með harðri hendi.  Offjölgun er hins vegar vaxandi vandamál í fátækari ríkjum - og stuðlar að því til lengri tíma að þau verða enn fátækari - eftirspurn eftir mat og álagið á vistkerfið vex uns í óefni er komið.

Afleiðingarnar verður á endanum fólksfækkun vegna hungurs, farsótta, styrjalda eða - ef við erum heppin - vegna lækkandi fæðingartíðni.

Þar er komið að hlut kaþólsku kirkjunnar.  Með baráttu sinni gegn notkun getnaðarvarna hefur kirkjan beinlínis stuðlað að offjölgun hjá þeim sem síst mega við því - Púkinn er til dæmis þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið hafi Julius Fromm (maðurinn sem fann upp smokkinn í sinni núverandi mynd) gert mannkyninu meira gagn en Móðir Theresa.

Nei, hvað ástæður hungurs varðar er kaþólska kirkjan ekki í stöðu til að gagnrýna aðra.


mbl.is Benedikt XVI: Hungur óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra vandamálið við afurðir klónaðra lífvera

clonedcowsÞrátt fyrir að Evrópusambandið hafi sagt kjöt- og mjólkurafurðir klónaðra lífvera hættulausar, setja margir sig upp á móti þeim.  Oft virðist það sökum fáfræði - Púkanum sýnist sumir t.d. ekki gera sér grein fyrir muninum á erfðabreyttum lífverum og klónuðum lífverum.

Það er hins vegar ein góð ástæða fyrir því að berjast gegn klónun lífvera sem eru notaðar til matvælaframleiðslu. Segjum t.d. að við höfum kú sem framleiðir 20% meiri mjólk en aðrar kýr.  Það væri freistandi að klóna þá kú - já koma upp heilli hjörð af kúm sem eru erfðafræðilega eins og sú upphaflega, því væntanlega myndu klónuðu kýrnar vera jafn góðar til mjólkurframleiðslu. Á svipaðan hátt mætti finna "besta" holdanautið, klóna það og svo framvegis.

Afurðirnar af þessum klónuðu gripum yrðu óþekkjanlegar frá afurðunum af upphaflegu gripunum og allir yrðu ánægðir, eða hvað?

Nei, það er nefnilega eitt vandamál til staðar, sem fæstir gera sér grein fyrir. 

Stóra hættan við þetta er sú að þetta leiðir til erfðafræðilegar einsleitni.  Yrði klónun útbreidd, er hætt við því að einhver gen myndu smám saman deyja út og við sætum eftir með mun fáskrúðugra genamengi.

Slíkt gerir tegundina mun viðkvæmari fyrir sjúkdómum.  Þetta sést í dag með bananaplöntur, en þeim hefur verið fjölgað með klónun áratugum saman og megnið af þeim bönunum sem eru á borðum Íslendinga eru af örfáum klónum.  Bananaplönturnar eru orðnar mjög viðkvæmar gagnvart plöntusjúkdómum sem ekki hrjá villta ættingja þeirra.

Ef einhver sjúkdómur kemur upp, þá eru allir klónuðu einstaklingarnir jafn næmir - það er kippt út möguleikanum á að hinir hæfustu lifi af - kippt út einu því mikilvægasta sem hefur stjórnað þróun lífsins hér á jörðinni síðustu milljarða ára. 

Þess vegna er klónun slæm hugmynd. 


mbl.is ESB: Kjöt og mjólkurafurðir klónaðra dýra skaðlausar mönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta kjöt í heimi?

KobeBeefRawNú hefur frést að til standi að bjóða Íslendingum upp á svokallað Kobe nautakjöt.  Það er að vísu ekki gefins, en talað er um 16.000 kr/kg. 

En hvað er svona merkilegt við þetta kjöt?

Jú, það er af mörgum talið besta nautakjöt í heimi, en það er upphaflega frá sérstökum nautgripastofni í Japan, sem hefur verið ræktaður í gegnum aldirnar til að ná fram ákveðnum eiginleikum.

Kjötið er mjög fitusprengt, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, en þar að auki er nautgripunum haldið innandyra í Japan og þeim gefinn bjór.  Sums staðar tíðkast það líka að nudda gripina, láta þá hanga í eins konar hengirúmum, þannig að þeir þurfi ekki að stíga í fæturna, eða jafnvel að spila fyrir þá klassíska tónlist.

Þetta er auðvitað mjög streitulítil tilvera sem hefur þau áhrif að kjötið inniheldur mikið af omega-3 og omega-6 fitusýrum, auk þess sem hlutfall einómettaðrar fitu er mun hærra en venjulega gerist.

Þar að auki er þetta einfaldlega gott.  Púkinn fékk bita af þessu fyrir um 15 árum síðan og hefur dásamað þetta alla tíð síðan, sem það besta kjöt sem hann hefur fengið - það bráðnaði hreinlega í munninum. 

Er kílóið 16.000 króna virði?  Dæmi hver fyrir sig.


Má bjóða þér hnetusteik, væni?

lamb-chopsÞað hefur nú heyrst áður að rautt kjöt sé ekki heilsusamlegt, en hingað til hafa yfirlýsingar um að það sé beinlínis krabbameinsvaldandi fyrst og fremst verið takmarkaðar við reykt kjöt, en sumir hafa sagt tengsl milli neyslu þess og blöðruhálskrabbameins.

Púkinn veltir því fyrir sér hvort fréttir eins og þessi verði til þess að fleiri gerist jurtaætur, eða hvort fiskneysla muni aukast, en komst svo að þeirri niðurstöðu að flestir munu bara yppa öxlum og halda áfram að borða sínar svínakótelettur, nautalundir og lambalæri.

Púkinn prófaði reyndar eitt sinn sjálfur að gerast jurtaæta, en sú tilraun stóð yfir tíu ár - þá var nóg komið af eplum og baunabuffum.

Það er hins vegar allt annað mál að Íslendingar (og sér í lagi börn) borða allt of lítið af grænmeti og mætti alveg reyna að auka það.   Það myndi ekki gera neinn skaða - nú nema fólk fái ofsafengin ofnæmisviðbrögð við hnetunum...nú eða gulrótum.


mbl.is Bannfæra allt rautt kjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins: Dýrasti eftirréttur heims

Púkinn er áhugamaður um góðan mat og skammast sín ekkert fyrir að borga vel fyrir það. 

En það eru takmörk fyrir öllu og $25.000 eftirréttur er eiginlega utan þeirra takmarka. 

Serendipity 3 veitingahúsið í New York býður nú upp á súkkulaðiísrétt, sem nýtur þess (vafasama) heiðurs að vera dýrasti eftirréttur heims.

Verðið skýrist aðeins að hluta til með því að í réttinn eru notaðar 14 dýrustu súkkulaðitegundir heims og að á ísinn er sáldrað  5 grömmum af gulldufti.  Að auki er ísbikarinn þakinn gullflögum að innan, en ætlast er til að þær séu borðaðar líka.

Í fæti bikarsins er 18-karata gullarmband með gimsteinum og rétturinn er borðaður með demantaskreyttri gullskeið, en hvort tveggja mun víst fylgja með í kaupunum.

Er ekki fyrirhafnarminna að eyða $25.000 bara beint í skartgripaverslun, heldur en að vera að blanda einhverjum súkkulaðiís í málið? 


Léttvín eða ekki?

wine-bottlesÁ að selja léttvín í matvöruverslunum?  Púkinn hefur átt í ofurlitlum erfiðleikum með að mynda sér skoðun á þessu máli og getur tínt til ýmis rök, bæði með og á móti.

Það er skiljanlegt að verslanaeigendur vilji selja léttvín, enda myndi slíkt að sjálfsögðu þýða aukin viðskipti og meiri hagnað. Púkinn er hins vegar ekki sannfærður um að verslunum sé treystandi til þessa - reynslan hefur sýnt að mörgum verslunum er ekki treystandi til að selja tóbak eingöngu til þeirra sem eiga að hafa aldur til að kaupa það.  Hvers vegna ætti annað að gilda um áfengið?  

Púkinn horfir hins vegar einnig til vöruúrvals.  Stundum hefur Púkinn fundið einhverja tegund sem honum líkar (t.d. sérlega gott Malbec vín frá Argentínu fyrir 2 árum), en næst þegar átti að kaupa sömu tegund þá kom í ljós að hún hafði verið tekin úr sölu, vegna of lítillar sölu.  Púkinn myndi gjarnan sjá kerfi sem leyfði opnun einkarekinna sérverslana, þar sem meiri áhersla er lögð á gæði en veltu.

Það er því miður staðreynd að stór hópur fólks kann ekki að fara með áfengi - verður sjálfu sér til skammar og öðrum til ama.  Það mun sennilega ekki breytast mikið þótt aðgangur að léttvíni verði gerður þægilegri - en spurningin er hvort þessi hópur muni stækka.   Það er óvíst, en hins vegar er ljóst að hann mun ekki minnka. 

Aukið aðgengi er til þæginda fyrir suma - en munar svo miklu?  Í sumar komu nokkrir góðir dagar þegar gott veður var eftir vinnu og alveg tilvalið að henda nokkrum bitum á grillið, setjast á sólpallinn og sötra eitt eða tvö glös að rauðvíni.   Stundum þurfti Púkinn að skjótast út í búð eftir kjötbitum og ef hægt hefði verið að kaupa léttvínsflösku í leiðinni, þá hefði e.t.v. mátt gera það - en raunin var bara sú að Púkinn átti alltaf nokkrar mismunandi flöskur heima, þannig að fyrir hann breytti þetta í rauninni engu.

Sumir velta fyrir sér hvort Íslendingar hafi í raun þroska til að umgangast vín eins og hverja aðra vöru - við erum ekki í landi þar sem léttvín er talinn eðlilegur hluti hverrar máltíðar.  Ástandið hefur batnað verulega hvað þetta varðar - það er nánast liðin tíð að hópar Íslendinga missi alla stjórn á sér þegar þeir koma til sólarlanda þar sem áfengi er selt í hverri matvörubúð, en samt er ljóst að Íslendingar eiga enn margt ólært - fjöldi þeirra sem teknir eru ölvaðir undir stýri vitnar um það.

Svo - hver er niðurstaðan?  Púkinn er hreinlega ekki viss. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband