Munurinn á alþingismönnum og afgreiðslufólki á kassa

Fyrst þeir vilja bera sig saman við afgreiðslufólk á kassa, sjáum þá til:

  • Afgreiðslufólk veit hvert starf þess er, og ef það klikkar þá er það rekið.
  • Afgreiðslufólk fær ekki launaða aðstoðarmenn, löng frí og fáránleg lífeyrisréttindi.
  • Fólk með dóma á bakinu fyrir fjárdrátt eða mútuþægni fengi ekki starf á kassa.

Þingmenn hins vegar....þarf ég að segja meira?


mbl.is Þingmenn eins og afgreiðslufólk á kassa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir tímar í Bandaríkjunum

Fátt er svo með öllu illt... Efnahagsástandið í Bandaríkjunum leiddi til þess að mikill meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum taldi efnahagsmálin mikilvægust þegar að kosningum kom og einhverjir hafa sjálfsagt kosið Obama - ekki vegna stuðnings við hann og hans boðskap, heldur vegna óánægju með ástandið sem Bush er með réttu eða röngu kennt um.

Öryggismálin voru ekki lengur í brennidepli, sem aftur kom McCain illa.

Hvað um það - það er sama hvaðan gott kemur - Obama náði kosningu og heimurinn lítur einhvern veginn betur út í dag en í gær.  Heimurinn endaði ekki með vanhæfan trúarnöttara sem varaforseta Bandaríkjanna - hársbreidd frá valdamesta embætti heims.

Á meðan koma bara nýjar fréttir af spillingu og misferli á Íslandi - nú síðast þessir hundrað milljarðar sem valdir aðilar náðu út úr Kaupþingi rétt fyrir hrun.


mbl.is Obama: Þetta er ykkar sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill þjóðin nýja flokka?

Púkinn er nokkuð viss um að Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast gegn þingrofi og kosningum, enda biði hans ekkert annað en afhroð væri kosið á næstu mánuðum...en fari nú svo að kosningar yrðu innan árs, eru einhverjir trúverðugir valkostir í boði?

Púkinn lætur sig dreyma um að fram á sjónarsviðið komi Endurreisnarflokkurinn, skipaður fólki með vit í kollinum og báðar fætur á jörðinni - flokkur sem er fær um að takast á við fyrirliggjandi vandamál. Líkurnar á því eru hins vegar því miður mjög litlar.  Púkinn vill leyfa sér að spá eftirfarandi:

Í næstu kosningum (hvenær svo sem þær verða) munu núverandi flokkar bjóða fram, og þótt einhverjar endurnýjanir verði í einhverjum þeirra mun heildarsvipurinn verða lítið breyttur. Allnokkrar líkur eru á klofningi í nokkrum flokkum og mögulegum sérframboðum óánægðra hópa innan þeirra. Einhver ný framboð munu koma fram, ýmist jaðarframboð sérhópa, eða óánægjuframboð lýðskrumara, sem aftur munu lognast út af eða klofna eftir eitt kjörtímabil

Er Púkinn svartsýnn?  Kannski, en stóra vandamálið er að það fólk sem Púkinn myndi vilja sjá á þingi hefur engan áhuga á að taka þátt í þeim leðjuslag sem íslensk stjórnmál eru.

Ef hér væri sterkur, óumdeildur forseti, væri skipun þjóðstjórnar sterkur kostur, en sá kostur er tæplega fyrir hendi heldur.

Nei, ekki búast við of miklu, þó efnt yrði til kosninga.


mbl.is Menntamálaráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu repúblikanar stela kosningunum (aftur)?

2004election.jpgSumir segja þá veruleikafirrta sem trúa því að Bandaríkin séu lýðræðisríki þar sem haldnar eru réttlátar kosningar.  Púkinn vill ekki taka alveg svo djúpt í árinni, en eftir því sem meira hefur komið í ljós um framkvæmd kosninganna 2004, því erfiðara er að kalla þær réttlátar.

Fyrst vill Púkinn minna á eftirfarandi:  Framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum er að mestu leyti í höndum yfirvalda á hverjum stað.  Þau taka ákvörðun um hluti eins og fjölda og staðsetningu kjörstaða.  Til að mega kjósa þurfa menn að skrá sig á kjörskrá og ef eitthvað er að mati yfirvalda athugavert við þá skráningu geta menn lent í því á kjörstað að uppgötva að þeir eru ekki skráðir og mega ekki kjósa.

Það má segja að í Bandaríkjunum séu ekki haldnar einar kosningar, heldur 13.000, stjórnað af 13.000 mishæfum (og misheiðarlegum) aðilum.  Það er ekki skrýtið að ýmislegt skuli hafa farið úrskeiðis - en af einhverjum ástæðum virðast misfellurnar flestar hafa verið repúblikönum í hag.

Á meðfylgjandi mynd er minnst á nokkur af þeim atriðum sem komu upp, en þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þetta nánar er bent á Google og lykilorð eins og "2004 election stolen".


mbl.is Obama sigraði í Dixville
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin og myntkörfulánin

euroPúkinn á bágt með að skilja þá sem tóku myntkörfulán á árinu 2007, þegar öllum hefði átt að vera augljóst að krónan var allt, allt of sterk og það væri ekki spurning um hvort hún myndi falla hressilega, heldur bara hvenær.  Að taka myntkörfulán á þessum tíma jafngilti í raun stöðutöku í krónunni án öryggisnets - fólk var að veðja á að krónan myndi haldast sterk.

Fólk á ekki að stunda þannig gengisbrask nema það viti 100% hvað það er að gera, hver áhættan er og ef það hefur efni á tapinu ef hlutirnir ganga ekki upp.

Það átti ekki við um stóran hluta þeirra sem tóku svona lán - en hvers vegna gerði fólk þetta?  Var ein skýringin að bankarnir voru að ota þessum lánum að fólki, þótt þeir gerðu sér mæta vel grein fyriráhættunni og því að aðeins væri spurning um tíma þangað til krónan félli og þessi lán myndu snarhækka?

Hver er hin siðferðislega og lagalega ábyrgð bankanna, miðað við að þeir gerðu sér grein fyrir yfirvofandi hruni og vernduðu sjálfa sig gegn því með stöðutöku gegn krónunni?

Báru þeir enga ábyrgð á því að vara fólk við áhættunni?   Eða, vildi fólk bara fá að hegða sér eins og fífl í friði?


mbl.is Árás á fullveldi þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnaver - gott mál

datacenter.gifÞað ætti ekki að koma neinum á óvart að Púkinn er hlynntari uppbyggingu gagnavera og skyldrar hátæknistarfsemi en olíuhreinsunarstöðva og annarrar mengandi stóriðju.

Svona fyrirtæki borga væntanlega hærra verð fyrir raforkuna en álverin og skapa verðmæt störf.

Bygging gagnavera verður líka væntanlega til það að aukinn kraftur verður settur í að koma íslandi í viðunandi ljósleiðarasamband við umheiminn.

Púkinn vonast hins vegar til þess að verðið fyrir notkun á ljósleiðarasambandinu muni lækka með tímanum, enda er það verð einfaldlega fáránlegt sem stendur.

Fyrirtæki Púkans dreifir miklu af gögnum frá sínum netþjónum.  Þeir eru staðsettir í svona gagnaverum (eða netþjónabúum), en aðeins örfáir þeirra eru á Íslandi.  Ástæðan er einfaldlega sú að það myndi kosta tífalt meira að dreifa gögnunum héðan en frá netþjónum sem staðsettir eru í Bandaríkjunum.

Ólíkt hefðbundnum iðnfyrirtækjum eru mörg hátæknifyrirtæki ekki eins bundin af því að hafa starfsemi sína á tilteknum stað - ef aðstæður eru óhentugar þá er minnsta málið að flytja hluta starfseminnar úr landi.


mbl.is Viljayfirlýsing um byggingu gagnavers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað veðjuðu menn á veikingu krónunnar

Púkanum finnst ekki skrýtið að bankarnir skuli hafa veðjað á veikingu krónunnar á þeim tímapunkti þegar hún var allt, allt of sterk.  Ef Púkinn stæði í gjaldeyrisbraski myndi hann hafa gert það sama.

Ástandið var einfaldlega ekki eðlilegt 2006/2007, þegar ofurvextir seðlabankans og stöðug útgáfa jöklabréfa héldu krónunni uppi og útflutningsfyrirtækjunum blæddi út.  Nei, menn sáu að krónan hlut að falla fyrr eða síðar og stöðutaka gegn henni var það eðlilegasta sem hægt var að gera.

Það er ekkert óeðlilegt við það.

Það sem var hins vegar ekki eðlilegt var að á sama tíma voru bankarnir að hvetja fólk til að taka stöðu með krónunni, með því að taka myntkörfulán - með öðrum orðum - bankarnir voru að veðja á að krónan myndi falla, en voru á sama tíma að ota myntkörfulánum að fólki - lánum sem þeir vissu að myndu hækka gífurlega þegar krónan félli.


mbl.is Veðjuðu á veikingu krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jaha...þið viljið fá gjaldeyrinn minn!

Já, já...Seðlabankinn vill fá gjaldeyrinn heim.  Það eru bara þrjú vandamál.

Í fyrsta lagi er ennþá allt stopp með gjaldeyrisflutninga til landsins.   Meðan greiðslur skila sér ekki, þá fær Seðlabankinn þær ekki.

Í öðru lagi vil ég fá að nota eðlilegan hluta af mínum gjaldeyri til að borga mína erlendu reikninga og halda mínu fyrirtæki gangandi.  Meðan mér er sagt að ég fái ekki að senda minn eigin gjaldeyri aftur úr landi til að borga krítíska reikninga, eða laun starfsmanna sem eru staddir erlendis, þá kem ég ekki með meiri gjaldeyri hingað heim en ég nauðsynlega þarf.

Í þriðja lagi er alger óvissa með hvert gengi krónunnar er.  

Þangað til ferlið er komið í lag, sit ég á mínum gjaldeyri, takk fyrir.


mbl.is Seðlabankinn reynir að efla gjaldeyrismarkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sættu þig við launalækkun, eða þú ert rekinn!

Eins og bréfið segir: "Að sjálfsögðu eiga starfsmenn rétt á því á grundvelli kjarasamninga að hafna þátttöku í þessari lækkun og þeir starfsmenn halda þá gömlu laununum út sinn uppsagnarfrest".

Með öðrum orðum - þeir sem ekki sætta sig við launalækkun verða reknir.   Þetta eru harðar aðgerðir, en sjálfsagt nauðsynlegar hjá mörgum fyrirtækjum sem nú róa lífróður.

Fyrir nokkrum misserum hefðu heyrst hróp úr öllum áttum ef eitthvert fyrirtæki gerði starfsmönnum sínum að velja milli launalækkunar eða brottreksturs - og ætli margir starfsmenn hefðu ekki bara hætt sjálfviljugir, enda næga vinnu að hafa.

Nú er öldin önnur og fólk mun láta bjóða sér margt sem hefði verið óhugsandi fyrir stuttu síðan - fyrir marga er launalækkun mun skárri kostur en atvinnumissir eins og staðan er í dag.

Eins og Púkinn sagði áður - ástandið á eftir að versna áður en það batnar.


mbl.is Yfir 20 manns sagt upp hjá 365 og laun lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppáhaldssjónvarpsstöðin mín að hætta?

Það fer ekki á milli mála að margt í þjóðfélaginu er að færast í það horf sem var 1975 - Ríkisbankar og ef vil vill bráðum bara ríkisfjölmiðlar.

Skjárinn virðist vera að leggja upp laupana og það ergir Púkann meira en margt annað sem hefur gerst að undanförnu - burtséð frá fréttum og einstaka fræðsluþáttum á RÚV var Skjár I nánast eina íslenska sjónvarpsstöðin sem Púkinn horfði á.

Þessir erfiðleikar eru auðvitað skiljanlegir - mest af dagskrárefninu var erlent og framleiðendur þess vilja fá borgað refjalaust í hörðum gjaldeyri.   Ef erlenda dagskrárefnið tvöfaldast í verði á sama tíma og tekjurnar dragast saman er ekki von á góðu.

Púkinn veltir hins vegar fyrir sér hvort Stöð 2 eigi sér framtíð.  Þar voru vandamál áður en yfirstandandi kreppa skall á og þótt væntanlegt brotthvarf keppinautar sé að sjálfsögðu hagstætt fyrir Stöð 2, eiga þeir væntanlega við sömu vandamál að stríða - spurningin er bara hversu djúpa vasa eigendurnir hafa.


mbl.is Skjárinn segir öllum upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband