Mánudagur, 26. maí 2008
Verðbólgan er ÞÉR að kenna
Púkinn hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að almenn umræða um verðbólgu á Íslandi sé á algerum villigötum, því flestir skilja ekki eðli og ástæður hennar - líta á hana sem eitthvað ógurlegt skrímsli sem lifi sjálfstæðri tilveru, en ekki einkenni undirliggjandi vandamáls.
Þessi vankunnátta er að ýmsu leyti þægileg fyrir stjórnmálamenn - þeir komast nefnilega hjá því að taka nokkra ábyrgð á ástandinu, en geta kennt öllum öðrum um - bönkunum sem lána of mikið, launþegum sem krefjast launahækkana, versluninni sem okrar á neytendum, erlendum aðstæðum sem hækka verð á vörum.
Stjórnmálamenn segja viðurkenna hins vegar aldrei að verðbólgan geti verið þeim að kenna. Viðurkenna ekki að fjárlagahalli er verðbólguhvetjandi - viðurkenna ekki að lögin sem skilgreina mikilvægasta markmið Seðlabankans sem baráttu gegn verðbólgu eru tilgangslaus ef hið opinbera berst í raun gegn aðgerðum Seðlabankans með þensluhvetjandi aðgerðum.
Það er þægilegt að geta kennt öðrum um ástandið og dregið þannig athyglina frá eigin ábyrgð.
![]() |
Mesta verðbólga í tæp 18 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 25. maí 2008
Er blogg list ?
Fréttin um að tveimur bloggurum hafi verið neitað um listamannalaun vekur upp spurninguna um hvað sé list og hvað ekki - Sumir bloggarar hafa meira aðdráttarafl en Listasafn íslands og það er sennilega óumdeilt að blogg felur oftast í sér sköpun og frumleika, en það er sennilega líka óumdeilt að flestir bloggarar líta ekki á verk sín sem list.
Getur verk verið list ef höfundur þess lítur ekki á það sem slíkt? Getur hvað sem verið list ef höfundurinn kýs að nefna því nafni?
Sum blogg eru beinlínis kynnt sem listablogg (eins og þetta hér og ýmsir listamenn nota blogg til að koma sjálfum sér og sínum verkum á framfæri, en hvað með hinn almenna bloggara, sem lítur sjaldnast á sig sem listamann?
Er blogg þannig list? Er blogggrein sem vekur upp viðbrögð dæmi um gagnvirka list - list sem listneytandinn - sá sem les bloggið - tekur þátt í að skapa? List þar sem listamaðurinn veitir listneytandanum innsýn í hugarheim sinn?
Er slíkt eitthvað minni list en sumt sem menningarfrömuðir stimpla sem list?
Púkinn varpar bara fram spurningum í þetta skiptið - hann hefur fyrir löngu gefist upp á spurningunni um hvað sé list.
![]() |
Bloggarar vilja listamannalaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 23. maí 2008
Stoltur af stelpunni...
Púkinn leggur það ekki í vana sinn að skrifa um mál sem tengjast fjölskyldu hans, en í þetta eina skipti verður þó undantekning gerð þar á.
Málið er nefnilega að dóttir Púkans er í 7. bekk en hennar bekkur vann keppnina "Reyklaus bekkur" í ár - og Púkinn skammast sín ekkert fyrir að viðurkenna að hann er pínulítið montinn af dótturinni og bekkjarfélögum hennar.
Og hvað gerði bekkurinn svo til að vinna keppnina? Jú, tvær stuttmyndir, aðra leikna, en hina með "leirkörlum"
Hér er leikna stuttmyndin:
...og hér er leirkarlamyndin:
Og hvað fá krakkarnir svo í verðlaun? Jú, ferð til Danmerkur og foreldrarnir skildir eftir heima.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 23. maí 2008
Eurovision og páfagaukurinn
Á heimili Púkans er páfagaukur sem hefur mikinn og ákveðinn tónlistarsmekk - ef hann heyrir lag sem honum líkar tístir hann hátt og dansar fram og aftur, en þegir annars þunnu hljóði.
Í gær gerði Púkinn athugun - setti búrið þar sem páfagaukurinn gat fylgst með Eurovision og skráði niður hvaða lög fengu mestar undirtektir hjá gauknum.
Þau 10 lönd sem hann tísti eða dansaði mest við voru síðan tekin sem spá páfagauksins um hvaða þjóðir myndu komast áfram.
Skemmst er frá því að segja að 8 af þeim 10 sem páfagaukurinn valdi komust áfram - honum leist alls ekki á tyrkneska lagið og var lítið hrifinn af því portúgalska.
Púkinn hefði kannski átt að láta hann spá fyrir um úrslitin, og veðja samkvæmt því í einhverjum breskum veðbanka - hver veit nema páfagaukurinn gæti þannig unnið sér inn fyrir öllu því fuglafóðri sem hann hefur étið gegnum árin.
![]() |
Kom skemmtilega á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Friðun hönnunarmistaka - hugleiðingar um friðun MH
Þegar Púkinn var við nám í MH (1980-1982), var þakleki viðvarandi vandamál í húsinu. Frumorsök þessa vandamáls var væntanlega hið flata þak, en slík þök hafa ekki reynst vel hérlendis - enda upphaflega ættuð frá löndum þar sem önnur veðrátta ríkir en hér.
Hvað um það, Púkanum skildist að ein ástæða þess að þetta var ekki lagað hafi verið þvermóðska arkitektsins sem vildi ekki samþykkja neinar útlitsbreytingar á húsinu - og að sjálfsögðu bar arkitektinn enga ábyrgð á eigin hönnunarmistökunum.
Með því að friða húsið er væntanlega verið að festa þessi hönnunarmistök í sessi um ókomna tíð, en hvernig er það - lekur þakið á MH ennþá ?
![]() |
Menntamálaráðherra friðar 7 hús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Hugleiðingar um gengi krónunnar
Púkinn hefur áður gagnrýnt þá sem tala um verðbólgu eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru - tala um nauðsyn þess að ná henni niður, en líta algerlega fram hjá því að verðbólgan er ekkert annað en einkenni undirliggjandi vandamála og ef ekkert er gert til að eyða orsökum verðbólgunnar eru allar tilraunir til að berjast gegn henni einni og sér dauðadæmdar.
Ef fólk er beðið að útskýra hvað verðbólga er, tala flestir um hækkanir á verði vöru og þjónustu. Það er hins vegar gagnlegra að líta á þetta á annan veg - að raunverulegt verðmæti gjaldmiðilsins sé að minnka.
En hvers vegna minnkar verðmæti krónunnar? Jú, grunnvandamálið er halli á fjárlögum eða halli á viðskiptajöfnuði. Hvort tveggja leiðir til þess að krónan okkar rýrnar að verðmæti, sem kemur síðan fram eins og verðbólga. Veik króna dregur úr innflutningi og styrkir útflutning, sem lagar viðskiptajöfnuðinn, svona til lengri tíma litið. Vaxtahækkanir Seðlabankans vinna hins vegar gegn þessari leiðréttingu, með því að halda gengi krónunnar óeðlilega háu.
Fjárlagahallinn er annað mál - sum ár hefur verið afgangur af fjárlögum á Íslandi, en þau eru fleiri árin þar sem halli hefur verið á þeim og hann oft verulegur. Að lagfæra það er ekki hlutverk Seðlabankans - en það er erfitt fyrir ríkisvaldið að saka Seðlabankann um að sinna ekki verkefni sínu, nema ríkið geri sitt líka.
![]() |
Stýrivextir áfram 15,50% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 21. maí 2008
Með heila á stærð við hnetu...
Það koma Púkanum ekki á óvart að þessi ákveðni páfagaukur skyldi tilheyra tegund grápáfa, enda eru þeir einhverjir málgefnustu og gáfuðustu fuglar sem finnast.
Rannsóknir hafa sýnt að þótt heilinn í þeim sé aðeins á stærð við valhnetu, þá geta þeir skilið fjölda orða og jafnvel svarað spurningum - ja, ef þeir nenna - því þeir hafa víst tilfinningaþroska á við tveggja ára barn og leiðist frekar auðveldlega ef tilraunin er ekki að þeirra skapi.
Einn þeirra vísindamanna sem mest hafa rannsakað greind þessara fugla er Irene Pepperberg, en í þessari grein er fjallað um rannsóknir hennar.
![]() |
Týndur páfagaukur gaf upp heimilsfang sitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 21. maí 2008
Bjarga hrefnuveiðar okkur frá Öryggisráðinu?
Púkinn heyrði þeirri spurningu velt upp hvort hrefnuveiðarnar myndu bjarga okkur frá því að þurfa að sitja í Öryggisráðinu.
Þetta er athygliverð spurning. Púkinn er þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi ekkert í Öryggisráðið að gera - Ferilskrá Íslands í alþjóðamálum er frekar snautleg og að mati Púkans myndi seta þar bara hafa í för með sér útgjöld en takmarkaðan ávinning.
Hrefnuveiðar njóta ekki vinsælda erlendis og vera má að í einhverjum tilvikum muni þær ráða úrslitum um hvaða land fái atkvæði.
Fari svo að Íslendingar nái ekki kosningu og hrefnuveiðarnar verði nefndar sem ein orsök þess, þá er það skoðun Púkans að þar sé kominn mikill þjóðhagslegur ávinningur af þeim.
Púkinn er reyndar enginn sérstakur áhugamaður um hrefnuveiðar - þiggur hrefnukjöt sé það sett á hans disk og grillar það ef það býðst - en framboð á góðu kjöti til grillunar var nú ekkert sérstakt síðasta sumar. Hins vegar er það skoðun Púkans að hrefnukjöt jafnist nú ekki á við margt annað - nautakjöt, eða íslenskt lambakjöt á góðum degi.
Það er þó bragðbetra en kengúrukjöt - svo mikið er víst.
![]() |
Fyrsta hrefnan veidd á Faxafló |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 21. maí 2008
Tölvupóstur, einfeldni og græðgi
Á hverjum degi eru sendir út milljarðar tölvupóstskeyta í þeim tilgangi að nýta sér einfeldni eða græðgi annarra í hagnaðarskyni.
Mest af þessum ruslpósti er síaður burt á sjálfvirkan hátt, en einhver hluti berst viðtakendum. Nú í dag vita flestir tölvunotendur að skeytum um auðveldan eða skjótfenginn gróða eru ekki treystandi, en þó eru alltaf einhverjir sem láta blekkjast.
Það eru engar áreiðanlegar tölur til um fjölda fórnarlambanna, því mörg þeirra kæra ekki, en ein ágiskunin er að einn af hverjum 5.000 láti glepjast - falli fyrir gylliboðum sem á endanum kosta viðkomandi sjálfan bara pening.
Allnokkrir Íslendingar munu hafa farið flatt á þessu - látið telja sér trú um að þeirra biði arfur, að þeir hefðu unnið í tölvupóstfangahappdrætti Yahoo, eða að þeir geti unnið sér inn góðan pening með því að hafa milligöngu um fjármagnsflutninga.
Einhver dæmi munu vera um það að Íslendingar hafi tapað verulegum fjárhæðum á svona svikamyllum og jafnvel ekki bara sínum eigin peningum, heldur einnig peningum vina og vandamanna sem lögðu fé í svikamylluna.
Tæknilegar lausnir eins og að sía tölvupóstinn virka hins vegar skammt, þegar raunverulega vandamálið er á milli stólsins og skjásins - og einfalt, gráðugt fólk mun væntanlega vera til meðan mannkynið er til staðar.
![]() |
Varað við tölvupósti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 20. maí 2008
Hafa Íslendingar glatað öllu verðskyni?
Það er ekkert nýtt að fjallað sé um hátt matvælaverð á Íslandi og eins og áður keppast allir við að benda á meinta sökudólga - vondu kapítalistana sem halda uppi verðum í skjóli fákeppni, vondu framsóknarmennina sem berjast fyrir tollmúrum til verndar íslenskum landbúnaði, nú eða þá bara meinlausari þætti eins og smæð íslenska markaðarins og hlutfallslega háan flutningskostnað.
Það sem Púkinn vill hins vegar minnast á er sú einkennilega árátta Íslendinga að líta bara á þetta sem eðlilegan hlut - "svona er þetta bara" og halda áfram að draga upp veskið.
Púkinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að Íslendingar kunni ekki með peninga að fara og það verður seint sagt að Íslendingar séu upp til hópa hagsýnir - það er undantekning að rekast á einhvern sem heldur heimilisbókhald og oftast virðist fólk ekki einu sinni vita í hvað það eyðir peningunum sínum.
Hefur þjóð sem hegðar sér þannig yfir höfuð einhvern rétt til að kvarta, þegar bent er á að verðlag hér sé óeðlilega hátt?
![]() |
Verð á mat 64% hærra en í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |