Becromal og ammoníakið

becromal_logo_anteprimaPúkinn hefur verið að kynna sér starfsemi Becromal, og verður nú að segja að þetta virðist skömminni skárra en eitt álver í viðbót.

Púkinn vonar hins vegar að Becromal hafi tekið sig á í mengunarmálum, því sambærilegar verksmiðjur þeirra erlendis losuðu umtalsvert magn af ammoníaki út í andrúmsloftið og Púkinn trúir því nú varla að Eyfirðingar myndu vilja slíkt.  Þær tölur sem Púkinn hefur eru hins vegar frá 2005 og varða gamla verksmiðju, þannig að vonandi er staðan betri í dag.

Þessar tölur um ammoníakslosunina má sjá á þessum hlekk.

Það er nefnilega ekki bara koltvísýringslosun sem skiptir máli - menn þurfa líka að hafa í huga losun á öðrum efnum.


Íslenska jó-jó krónan

500kronur2Púkinn hefur margoft bloggað um íslensku ofurkrónuna og þann skaða sem léleg efnahagsstjórn hefur gert útflutningsfyrirtækjum.  Það er hins vegar ekki svo einfalt að þau fyrirtæki fagni falli krónunnar og geti nú unnið eins og allt sé með feldu.

Nei - vandamálið er það að þessar sveiflur á gengi krónunnar gera áætlanagerð erfiða.  Smávægileg breyting á gengi krónunnar getur þýtt stórar breytingar á hagnaði útflutningsfyrirtækja - hvernig er hægt að gera raunverulegar áætlanir þegar enginn veit hversu margar krónur fyrirtækin fá fyrir evrurnar eða dollarana sína eftir nokkra mánuði?

Það koma tímabil þegar krónan styrkist og styrkist og þá verða fyrirtækin að skera niður, því ólíkt innflutningsfyrirtækjum sem geta hækkað vöruverð þegar illa árar, þá eru útflutningsfyrirtækin gjarnan í bullandi samkeppni og geta ekki hækkað hjá sér vöruverðið þegar krónan er sterk. 

Það myndi leysa vandamálið ef starfsmenn fengju borgað í erlendri mynt, en þá eru fyrirtækin í raun bara að velta vandanum yfir á starfsmennina - og ætli starfsmenn myndu ekki fara að hugsa sér til hreyfings ef laun þeirra lækkuðu stöðugt að raungildi á þeim tímabilum sem krónan er að styrkjast.

Púkinn hefur aldrei verið hlynntur þeirri hugmynd að ganga í Evrópubandalagið og taka upp evruna, en hann er hins vegar þeirrar skoðunar að Seðlabankinn sé einfaldlega ekki fær um að viðhalda jafnvægi.  Eitthvað verður að breytast.


mbl.is Krónan hefur veikst um 12,6% á tæpum mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðhjólastígar eru fín bílastæði

Púkinn er ekki mikill hjólreiðamaður, en það er nú að hluta vegna þess að venjulega er hundur Púkans með í för og hundar og hjól fara ekki alltaf vel saman.

Hvað um það - á ferð sinni milli heimilis og vinnustaðar liggur leið Púkans um Lönguhlíð, en meðfram þeirri götu er einn af fáum raunverulegum hjólreiðastígum borgarinnar.  Það virðist hins vegar regla frekar en undantekning að bílum sé lagt á hjólreiðastíginn - oft sömu bílunum.   Púkinn hefur til dæmis oft rekið augun í rautt bílkríli sem er reglulega lagt þar og alltaf á sama stað.

Nú skilur Púkinn ekki hvers vegna Reykjavíkurborg er að þykjast bjóða upp á hjólreiðastíga ef ekkert er gert til að hreinsa bíla af þeim - það hlýtur að vera hægt að sekta eigendur bílanna fyrir að leggja þeim á hjólreiðastígana í óleyfi.

Hvernig væri nú að stöðumælaverðir gerðu sér öðru hverju ferð eftir hjólreiðastígum borgarinnar og sektuðu þá bíla sem er lagt á þeim? 

Hvað segja hjólreiðamenn eins og Kári Harðarson um þetta mál?


Að velja sér apótek

Nú er það ekki þannig að lyfjakostnaður sé meðal stærstu útgjaldaliða Púkans, en þó - á þriggja mánaða fresti þarf Púkinn að lalla út í apótek með lyfseðlana sína til að fá það sem til þarf til að halda blóðþrýstingnum og bakinu í góðu lagi.

Púkinn hefur lengst af verslað við stóru keðjurnar, en síðast varð breyting þar á - þessi lyf voru núna keypt hjá einu af litlu, sjálfstæðu apótekunum.

Sömu lyf frá sama framleiðanda - sama "þjónustustig", en verðið var ekki það sama.  Í stað þess að borga 5514 krónur borgaði Púkinn 4208 krónur.

Með öðrum orðum - verðið hjá stóru keðjunni var 31% hærra en hjá litla apótekinu.  

Þótt þetta séu ekki stórar upphæðir, þá safnast þetta upp - munurinn er rúmar 5000 krónur á ári og þær krónur má nota í eitthvað gáfulegra en að styðja verslanakeðju sem með yfirgangi er búin að bola allmörgum litlum apótekurum í burtu.

Nei, hér eftir er ljóst að Púkinn fær sér frekar gönguferð upp í Skipholt þegar hann á leið í apótekið heldur en að versla við stóru keðjuna. 


Útdauður eftir 20.000.000 ár - ekki svo slæmt

chinese_dolphinPúkinn var að velta fyrir sér útrýmingu dýrategunda í stærra samhengi og komst að því að það að halda velli í 20.000.000 ár er langt yfir meðaltali hvað spendýr varðar.

Meðal "líftími" spendýrategundar frá uppruna til þess að hún deyr út hefur verið áætlaður um ein milljón ára.

Það eru um 5000 tegundir spendýra til, þannig að meðaltalið ætti að vera að ein tegund hverfi á 200 ára fresti, en raunin er önnur - á síðustu 400 árum hafa 89 tegundir spendýra dáið út og aðrar 169 eru skráðar í bráðri útrýmingarhættu.

Svipað mynstur sést séu allar lífverur skoðaðar, en áætlað hefur verið að um 70 tegundum sé útrýmt daglega.  Flestar þeirra eru hins vegar bara skordýr í regnskógunum, þannig að þær vekja ekki sömu athygli og höfrungar.

Á allri jarðsögunni virðast vera um 5 "toppar" útrýmingartíðni, sem hafa sennilega stafað af mismunandi ástæðum, árekstri loftsteina, gífurlegum eldsumbrotum, nú eða jafnvel "supernovu"sprengingu nálægt jörðinni.  Við mennirnir getum hins vegar engum öðrum kennt um sjötta toppinn - þann sem er í gangi núna. 


mbl.is Ferskvatnshöfrungur líklega útdauður eftir 20 milljónir ára á jörðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekinn tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum....

Alltaf verður Púkinn jafn hissa þegar hann les um menn sem eru teknir aftur og aftur (og aftur) við akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Púkinn hélt nefnilega í fáfræði sinni að hér á landi væri alvöru réttarkerfi, sem tæki á mönnum sem væru hættulegir öðrum, en nei - það virðist ekki vera raunin.

Þessum hálfvitum er bara sleppt aftur á götuna jafnóðum.

Hvernig væri að nýta þær heimildir sem eru fyrir hendi til að gera ökutækin upptæk.

Eða - enn betra - hvernig væri ein lítil lagabreyting, þannig að ekki væri bara heimilt að gera ökutæki þeirra upptæk sem eru ítrekað staðnir að svona atferli, heldur væri það einfaldlega skylda lögreglunnar?

Það myndi ef til vill fækka svona hálfvitum á götunum.


mbl.is Tekinn tvisvar undir áhrifum fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að treysta mönnum....eða ekki

arnijohnsenÞað er ljóst að Þjóðhátíðarnefndin í Vestmannaeyjum treystir ekki Árna Johnsen til að koma fram sem kynnir.   Það er ennfremur ljóst að stór hópur fólks sunnanlands treystir Árna til starfa á Alþingi - starfa sem maður myndi nú ætla að væru mikilvægari.

Það er eitthvað að hér.

Fleira ætlar Púkinn ekki að segja um þetta mál, enda væri málið þá fljótt að enda í ómálefnalegum upphrópunum.


mbl.is Segjast ekki hafa treyst sér lengur til að bera ábyrgð á Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan með flensu

100000Krónan er að veikjast, það fer ekki á milli mála, sem er athyglivert, meðal annars vegna þess að margir höfðu spáð því að hún myndi styrkjast í kjölfar Actavis-sölunnar.

Hvað gerðist?

Eru það spekúlantar sem eru að veðja á að krónan hafi náð hámarki sínu og héðan í frá hljóti leiðin að liggja niður á við?

Eru það einstaklingar sem hafa hlítt ráðleggingum um að nú sé góður tími til að borga upp erlend lán, áður en krónan veikist meira?

Er farið að hægjast um á jöklabréfamarkaðnum og menn farnir að sjá fram á að ekki verði öll jöklabréfin í "stóra pakkanum" í september endurnýjuð (en þá myndi krónan nú fyrst hrynja fyrir alvöru)?

Er þetta bara ómerkileg taugaveiklun vegna hræringa á erlendum verðbréfamörkuðum síðustu daga?

Púkinn er ekki að kvarta - eins og aðrir sem fást við útflutning fagnar hann veikingu krónunnar - en  betur má ef duga skal.


mbl.is Krónan veiktist um 2,82%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn páfagaukagarður

canaryislandsfromsatelliteEins og margir aðrir Íslendingar fer Púkinn reglulega til Kanaríeyja, en meðal þeirra staða þar sem Púkinn hefur oftast heimsótt er "páfagaukagarðurinn", Palmitos Park á Gran Canaria.

Nú verður væntanlega ekki um fleiri heimsóknir þangað að ræða, a.m.k. ekki næstu árin, því meginhluti garðsins er brunninn til kaldra kola í þeim skógareldum sem nú geisa á Kanaríeyjum.

Þetta vekur reyndar upp þá spurningu, hvernig menn séu búnir til að fást við skógarelda á Íslandi - ef ætlunin er að rækta stóra skóga til kolefnisjöfnunar, þá verða menn að ráða yfir búnaði til að slökkva elda sem gætu komið upp.  Brenni skógurinn losnar jú allur koltvísýringurinn aftur og kolefnisjöfnunin er farin fyrir lítið.

 


mbl.is 11.000 manns flýja skógarelda á Kanaríeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leirburður ársins

Í Bandarríkjunum (hvar annars staðar) eru árlega veitt verðlaun fyrir að misbjóða enskri tungu á sem verstan hátt.  Keppni þessi nefnist "Bulwer-Lytton Fiction Contest" og sigurvegarinn í ár var Jim Gleeson nokkur.

Hann fékk verðlaunin fyrir eftirfarandi upphaf skáldsögu:

"Gerald began - but was interrupted by a piercing whistle which cost him ten percent of his hearing permanently, as it did everyone else in a ten-mile radius of the eruption, not that it mattered much because for them 'permanently' meant the next ten minutes or so until buried by searing lava or suffocated by choking ash - to pee,"

Það er erfitt að slá svona út.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband