Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Stuðningur við rannsóknir og þróun

Púkinn á sér draum - að hér á Íslandi verði stutt við rannsóknir og þróun af sama myndugleika og í mörgum nærliggjandi löndum, þar sem ráðamenn gera sér grein fyrir mikilvægi þess að styðja við þessi svið.  Menn geta velt fyrir sér hvers vegna hér á Íslandi sprettur ekki upp fjöldi hátæknifyrirtækja, en ástæður þess eru margvíslegar - þar á meðal hversu fjandsamlegt umhverfið hér er slíkum fyrirtækjum.

Því miður er Púkinn þeirrar skoðunar að íslenskir ráðamenn muni klúðra málinu - "afrekaskrá" þeirra hingað til bendir nefnilega til þess að ráðamenn séu hræddir við alla hátækni sem þeir skilja ekki.

Púkinn er hræddur um að ráðamenn hér fari þá leið að setja upp opinbert styrkjaapparat (þar sem eingöngu tiltekin verkefni verða styrkt - ekki "stöðug" þróunarvinna og fyrirtæki þurfa að eyða helmingi styrksins að gera skýrslur um verkefnin)

Nú, eða að farin verði sænska leiðin, og fyrirtækjum veittur skattafrádráttur sem nemur hluta rannsókna- og þróunarkostnaðar -  sem er gott og blessað fyrir þau fyrirtæki sem eru farin að skila hagnaði, en nýtist þeim ekkert sem eru að reyna að komast á það stig.

Síðan þykjast ráðamenn verða hissa þegar fyrirtækin flytja rannsókna- og þróunarvinnuna úr landi


mbl.is Marel: Fimm milljarðar í rannsóknir og þróun á hverju ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til varnar nafnleysingjum

anonymousUpp á síðkastið hefur nokkuð verið rætt um þá afstöðu sumra bloggara að vilja ekki skrifa undir sínu eigin nafni, heldur einhverju dulnefni.

Þar sem Púkinn er einn þeirra sem tilheyra þessum hópi langar hann aðeins til að stíga í pontu fyrir hönd nafnleysingja.

Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk kjósi að koma ekki fram undir eigin nafni.  Ein ástæðan er sú að viðkomandi vilji koma á framfæri skoðunum sem ekki njóta vinsælda meðal fjölskyldu, vina eða vinnufélaga viðkomandi.  Nafnleysið er þá leið til að forðast árekstra í einkalífi en geta geta þó tjáð sig um ákveðin mál.

Það er líka mögulegt að það sem viðkomandi bloggari vilji skrifa um sé þess eðlis að viðkomandi myndi hreinlega stofna sér í hættu ef vitað væri hver stendur á bak við dulnefnið.   Þetta er sem betur fer óþekkt hérlendis, en ýmsum öðrum löndum er þetta virkilegt vandamál - bloggarar sem skrifa um mál sem ekki eru yfirvöldum (eða ákveðnum hópum) þóknanleg geta átt í vændum ofsóknir - nú eða bara verið látnir "hverfa".

Það geta þó verið fleiri ástæður fyrir nafnleysi.  Í tilviki Púkans er meginástæðan til dæmis sú að sá sem stendur á bak við Púkann er þekktur fyrir verk sín á nokkrum afmörkuðum sviðum.  Það sem Púkinn kýs að blogga um er hins vegar almennt ekki tengt þeim sviðum, heldur alls óskyld mál.  Púkinn vill að skrif hans séu metin út frá eigin verðleikum, en ekki með tilliti til þess hver stendur á bak við þau.

Það sama á við einstaklinga sem eru almennt tengdir við ákveðna hugmyndafræði.  Ef t.d. landsþekktur framsóknarmaður eða femínisti kýs að tjá sig um eitthvað, er hætt við að sumir myndu meta skrif viðkomandi með hliðsjón af skoðunum sínum á þeirri stefnu sem viðkomandi tengist í hugum þeirra, jafnvel þótt skrifin séu um alls ótengt efni. ("Hún segir þetta bara af því að hún er svo mikill framsóknarmaður/femínisti")

Það er síðan allt annað mál hversu vel nafnleysingjar leyna því hverjir þeir raunverulega eru - það er t.d. barnaleikur að sjá hver Púkinn er, en nokkuð erfiðara þegar ýmsir aðrir eiga í hlut.  Púkinn vill hins vegar halda sínu nafnleysi þannig að hann hefur almennt fylgt þeirri stefnu að eyða út athugasemdum frá þeim sem ekki sýna þá kurteisi að greina á milli Púkans og þess sem stendur á bak við hann.


Að kunna (ekki) stærðfræði

Tvær milljónir skeyta á mínútu gerir ekki tæpa þrjár billjónir á sólarhring, heldur þrjá milljarða.  Við búum ekki í Bandaríkjunum eða öðru landi þar sem menn líta svo á að í billjóninni séu þúsund milljónir, heldur eru það milljón milljónir.

Svona ónákvæmni ergir Púkann.  Það sama á við þegar fólk segir að 4 sé helmingi meira en 2 (en á væntanlega við að það sé tvöfalt meira), svo ekki sé nú minnst á merkingarlaust bull eins og að segja að "verðið er tvöfalt lægra en fyrir útsölu", hvað svo sem það gæti nú átt að þýða.

Það er kannski ekki skrýtið að íslensk börn standi sig illa í stærðfræði þegar þau alast upp við þann hugsanahátt að það sé allt í lagi með svona skekkjur.  Kannski er þarna fundin skýringin á eilífum skekkjum í íslenskum áætlunum - Íslendingar kunna kannski bara ekki stærðfræði.

---

Viðbót: ég sé að greinin hefur verið lagfærð, þannig að gagnrýnin á hana á ekki lengur við - hins vegar stendur það enn sem sagt var um skort á stærðfræðilegri nákvæmni hjá þjóðinni almennt.


mbl.is Tölvupóstsstress
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna DC++, næst Istorrent

piracyFyrst niðurstaða er loksins fengin í héraðsdómi í DC++ málinu vonast Púkinn til að málið gegn Istorrent-þjófagenginu fari nú eitthvað að hreyfast áfram.

Púkinn er einn þeirra fjölmörgu sem urðu fyrir barðinu á þeirri starfsemi, en rúmlega 30 aðilar tóku þátt í dreifingu á hugbúnaði Púkans á Istorrent.

Þessir aðilar hafa verið kærðir og það er von Púkans að lögreglunni takist að hafa upp á þeim, sekta þá og gera tölvubúnað þeirra upptækan.

Þjófar eiga ekki betra skilið.


mbl.is Fagna niðurstöðu dóms í DC++ máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út með álver, inn með...gagnaver?

Púkinn fagnar því að samið hefur verið við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar vegna fyrirhugaðrar byggingar gagnavers (sem hljómar væntanlega betur en "netþjónabú") í Keflavík.

Reyndar verður Púkinn að viðurkenna að hann hafði vissar efasemdir um að af þessum framkvæmdum yrði og kemur þar ýmislegt til.  Eitt af því er kostnaðurinn við gagnaflutningana, eða réttara sagt, verðskrá Farice.

Fyrirtæki Púkans dreifir meiri gögnum en flest önnur íslensk fyrirtæki.  Þegar málið var athugað á sínum tíma kom í ljós að kostnaður við að dreifa gögnunum frá Íslandi var tífaldur kostnaður við að setja upp netþjóna í Bandaríkjunum og dreifa gögnunum þaðan.  Þessi kostnaður, ásamt óáreiðanleika netsambandsins frá Íslandi var einnig ástæða þess að CCP ákvað að staðsetja sína leikjaþjóna erlendis.

Vandamálið með óáreiðanleikann leysist að mestu með tilkomu Danice strengsins og Púkinn gerir ráð fyrir því að Verne Holdings hafi í krafti stærðar fyrirhugaðrar netumferðar náð mun hagkvæmari samningum en öðrum hafa boðist.

Hvað um það, það er ánægjulegt að sjá þennan vísi að orkufrekri, "grænni" starfsemi.  

Fleiri gagnaver, færri álver, takk fyrir.


mbl.is 20 milljarða fjárfesting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruslpóstur af öllum gerðum

Hvað er til ráða gegn öllum þessum ruslpósti sem er að gera fólki lífið leitt þessa dagana?

Púkinn hefur safnað saman nokkrum hugmyndum úr ýmsum áttum og vill nú deila þeim með öðrum.

Það er að vísu um tvær gjörólíkar tegundir ruslpósts að ræða - annars vegar þann sem dreift er í tölvupósti og hins vegar þann sem berst inn um bréfalúguna.

Púkinn hefur ýmislegt um tölvuruslpóstinn að segja, en ætlar að láta sér nægja að vísa á fyrri grein um það mál - sjá hér.  Sá póstur gerir út á fáfræði, trúgirni og græðgi viðtakenda ekki er útlit
fyrir að þeir eiginleikar hverfi í bráð.

Nei, í þetta skiptið verður pappírspósturinn til umfjöllunar.

Besta hugmyndin sem Púkinn hefur séð er að nota ruslpóstinn sem hráefni í eitthvað annað, eins og til dæmis má sjá á meðfylgjandi mynd, en þar var ruslpósturinn notaður til að búa til skriðdreka - nokkuð sem engum nema Bandaríkjamanni myndi detta í hug.

Sumir eru fylgjandi róttækari aðgerðum, eins og að skila öllum ruslpóstinum í póstkassa Íslandspósts, eða að sturta honum inn um bréfalúguna hjá forstjóra þess fyrirtækis.  Þannig aðgerðir missa hins vegar svolítið marks að mati Púkans, því raunverulegu sökudólgarnir eru e.t.v. frekar fyrirtækin sem senda póstinn.  Fari ruslpóstur frá ákveðnu fyrirtæki í skapið á einhverjum er að sjálfsögðu einfaldast að hætta að versla við það fyrirtæki - og að láta fyrirtækið vita af því að maður vilji ekki eiga viðskipti við aðila sem hafi þá stefnu að ergja mögulega viðskiptavini.


mbl.is Varað við fjársvikabréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðskráin og mannanöfn

Púkinn þykist vita eitt og annað um tölvur og forritun og þess vegna skilur hann ekki hvers vegna það tekur Hagstofuna svona langan tíma að breyta hámarkslengd nafna.  Það er nefnilega ekki eins og þetta vandamál sé nýtilkomið - það hefur verið kvartað yfir þessu árum saman.

Skoðum aðeins hvað þarf að gera:

  • Breyta þeim gagnaskrám sem eru þegar til.  
  • Breyta því forriti sem er notað við innslátt á nöfnum "nýrra" einstaklinga.
  • Breyta öllum forritum sem vinna með gögnin og samkeyra þau við aðrar skrár.

Fyrstu tvö atriðin ættu ekki að taka marga daga, en megnið af vinnunni liggur í því þriðja.  Það er fjöldinn allur af kerfum sem nota þjóðskrána á einn eða annan hátt, þannig að þegar sniði þjóðskrárinnar er breytt þarf að breyta þeim forritum líka.  Sum þessara kerfa eru í eigu eða umsjón Hagstofunnar, þannig að um "innanhússvandamál" er að ræða þar, en síðan er fjöldi annarra aðila sem eru í "áskrift" að þjóðskránni og þegar snið hennar breytist þurfa þessir aðilar að breyta sínum kerfum.

Allt þetta ferli ætti þó ekki að taka nema nokkra mánuði -  ekki nokkur ár.  Púkinn skilur ekki alveg hvað er á seyði.


mbl.is Nennir ekki laga sig að tölvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólavertíð hjá Íslendingabók

islendingabok.isPúkinn hefur veitt því athygli að óvenjulega margir virðast vera að nota íslendingabok.is þessa dagana.  Eftir ofurlitla umhugsun áttaði Púkinn sig á því sem er væntanlega skýringin - jólakort.

Fólk er að athuga hluti eins og "Hvað heitir nýja konan hans Sigga frænda fyrir vestan?", eða "Hvað skírðu Jón og Gunna aftur þriðju stelpuna sína?"

Það er nefnilega skemmtilegra að hafa rétt nöfn í jólakveðjunum.


Greetings in Jesus name!

Þessi grein fjallar ekki um trúmál, þrátt fyrir titilinn, heldur um ruslpóst eða réttara sagt þá íþrótt að eltast við þá sem senda ruslpóst og gera þá að fíflum.

Það kannast flestir við þann tölvuruslpóst sem hefur tekið við af gömlu Nígeríubréfunum - ruslpóst sem gerir út á fáfræði, trúgirni og fyrst og fremst græðgi viðtakendanna.

Fólki er boðið að gerast milligönguaðilar vegna fjármagnsflutninga, nú eða að því er sagt að þeirra bíði arfur, eða jafnvel bara að það hafi unnið í Microsoft happdrættinu.

Flestir sjá auðvitað við þessu,  en það eru alltaf einhverjir sem eru nógu gráðugir eða heimskir til að láta glepjast.

Það eru hins vegar líka til þeir sem stunda það að "veiða" sendendur ruslpóstsins - látast bíta á agnið en eru í raun bara að draga viðkomandi á asnaeyrunum og fá þá til að eyða tíma sínum...já, og helst peningum líka, svo ekki sé nú minnst á fíflagang eins og að fá viðkomandi til að tattóvera sig með merkjum tilbúins sértrúarhóps eða annað í svipuðum dúr.

Það eru auðvitað ákveðnar reglur - það þarf að fara varlega - ekki gefa upp neinar raunverulegar upplýsingar, nöfn, heimilisföng eða símanúmer og gæta þess að ekki sé hægt að rekja tölvupóstföngin, heldur nota þjónustur eins og hotmail eða gmail.

Nú hafa nokkrar sögur af þessum samskiptum verið gefnar út í bókinni  Greetings in Jesus Name! The Scambaiter Letters en Púkinn mælir með þeirri bók hafi menn gaman af að sjá þá gerða að fíflum sem eiga það skilið.


mbl.is Hlutfall ruslpósts komið í 95% af öllum tölvupósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill er máttur trúarinnar....eða þannig

manwithoutfaceÞegar Jose Mestre var á unglingsaldri fékk hann æxli á neðri vör.  Það hefði verið tiltölulega auðvelt að fjarlægja það með einfaldri skurðaðgerð, en trúin kom í veg fyrir það - slíkt kom ekki til greina að mati móður hans, sem ól hann upp samkvæmt ströngustu túlkunum Votta Jehóva, því skurðaðgerð hefði hugsanlega krafist blóðgjafar.

Nú, 40 árum síðar er andlitið á Jose orðið eins og hægri myndin sýnir og enn hafnar hann hefðbundinni skurðagerð af trúarlegum ástæðum.

Já, mikill er máttur trúarinnar - að einhver skuli hennar vegna frekar kjósa að eyða lífinu á þennan hátt, afmyndaður, atvinnulaus, konulaus og vinafár, frekar en að þiggja einfalda læknisaðgerð sem hefði lagað vandamálið.  Jafnvel þrýstingur frá systkinum hans hefur ekki dugað, en þau hafa flúið söfnuðinn.

Ástand Jose gæti þó lagast á næstunni, því læknir í Bretlandi hefur boðist til að beita aðferð sem felur í sér notkun á hátíðnihljóðbylgjum til að koma í veg fyrir blæðingar, þannig að blóðgjöf yrði ekki nauðsynleg.

Sjá nánar hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband