Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Fimmtudagur, 9. febrúar 2012
Vinsælasti gagnagrunnur heims
Eins og allir vita, þá eiga Íslendingar gjarnan heimsmet í hinu og þessu, miðað við höfðatölu.
Eitt þeirra heimsmeta varðar Íslendingabók, sem sennilega er vinsælasti gagnagrunnur heims miðað við höfðatölu, því meira en helmingur Íslendinga hefur skráð sig sem notendur.
Það er líka til önnur leið til að nálgast gögnin, en það er í gegnum Facebook "app", sem segir notendum hvernig þeir eru skyldir íslenskum Facebook vinum sínum (að því gefnu að nöfn séu rétt og fæðingardagar sömuleiðis).
Það "app" má finna hér: http://www.facebook.com/apps/application.php?id=59508836986&ref=ts
Íslendingabók afar nytsamleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 23. júlí 2010
Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?
Það er dapurlegt að enn í dag skuli vera til fólk sem trúir því að náttúruhamfarir séu refsingar frá hendi einhverra æðri máttarvalda.
Þetta var skiljanlegt fyrr á öldum, áður en menn skildu hegðun náttúrunnar jafn vel og þeir gerðu í dag, en jafnvel fyrir 1000 árum síðan voru þeir til sem höfðu rænu á að segja eins og Snorri goði gerði á sínum tíma.
Nei, Púkinn vorkennir bara svona fólki og þeim sem fylgja þeim í blindni.
Gosið endurspeglaði reiði Guðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. mars 2009
Hrunið var fyrirsjáanlegt (upprifjun á spá frá júlí 2007)
Sumir (fyrrverandi) ráðamenn hafa haldið því fram að enginn hafi átt von á hruni íslensks efnahagslífs, en Púkinn þarf ekki að leita lengra en í sína eigin grein frá júli 2007:
Hagfræðingar framtíðarinnar munu ef til vill skilgreina þessar ákvarðanir Seðlabankans sem eina meginorsök hruns íslensks efnahagslífs á fyrstu áratugum 21. aldarinnar.
Greinina má lesa í heild hér . Þessi orð voru rituð 15 mánuðum áður en allt hrundi, en þá hefði hverjum hugsandi manni átt að vera augljóst að hverju stefndi.
Var hlustað á Púkann og aðra sem vöruðu við þeirri braut sem þjóðfélagið var á? Voru allir of uppteknir við að skara eld að eigin köku?
Svari hver fyrir sig.
Vísindi og fræði | Breytt 21.3.2009 kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 9. september 2008
Peningum illa varið í menntakerfinu
Miðað við hversu miklum peningum Íslendingar verja til menntamála, þá er það dapurlegt hve lélegur árangurinn er - sérstaklega á grunnskólastiginu.
Púkinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að námsefni og kennsluaðferðir í sumum greinum , sér í lagi stærðfræði og raunvísindum, séu til háborinnar skammar.
Námsefnið er lélegt - kennsluaðferðir eins og "uppgötvanastærðfræði" eru til þess eins fallnar að drepa niður allan áhuga nemenda á námsefninu og tryggja að þeir öðlist aldrei djúpan skilning á því.
Samræmdu prófin í stærðfræði eru illa samin, eins og Púkinn minntist á í þessari grein og benda til þess að þeir sem bera ábyrgð á náminu séu ekki hæfir til þess.
Allmargar staðreyndavillur má líka finna í kennslubókum í náttúruvísindum, eins og t.d. að gler sé seigfljótandi vökvi við eðlilegt hitastig (og bent á að gamlar glerrúður í miðaldadómkirkjum séu þykkari að neðan en ofan), en þetta er firra sem hefur verið afsönnuð fyrir löngu.
Til að bæta gráu ofan á svart er stærðfræði- og náttúrufræðikunnáttu kennaranna oft verulega ábótavant - hugsanlega vegna þess að fólk með raunverulega hæfileika og þekkingu á þeim sviðum fær betur launuð störf en grunnskólakennslu.
Þetta er ef til vill ekki mikið vandamál fyrir þá nemendur sem eiga foreldra sem hafa sæmilega þekkingu sjálfir á þessum sviðum og geta stutt börn sín, þannig að þau þurfi ekki að reiða sig á lélegt námsefni, kennt í yfirfullum bekkjum af fákunnandi kennurum....en hvers eiga allir hinir að gjalda?
Er öllum sama öllum sama þótt börn í efstu bekkjum grunnskóla séu ennþá að telja á puttunum?
Að hluta til stafar vandamálið af atgervisflótta úr stéttinni - margir góðir kennarar leita í önnur, betur launuð störf, þannig að eftir sitja þeir sem kenna af hugsjón og þeir sem fá ekkert annað að gera.
Púkinn myndi vilja sjá laun grunnskólakennara hækkuð verulega, en Púkinn myndi líka vilja sjá laun kennara ráðast af hæfileikum þeirra, árangri og getu til að miðla námsefninu. Eins og staðan er í dag, þá starfa arfaslakir og frábærir kennarar hlið við hlið með sömu laun - nokkuð sem ekki myndi gerast í eðlilega reknu fyrirtæki
Ísland ver mestu til skóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Vinsælasti gagnagrunnur í heimi
Við Íslendingar eigum sennilega heimsmet (miðað við íbúafjölda) í því að eiga heimsmet miðað við íbúafjölda.
Eitt af okkar metum er að hér er vinsælasti gagnagrunnur í heimi (miðað við íbúafjölda að sjálfsögðu). Þetta er að sjálfsögðu gagnagrunnurinn Íslendingabók, en rúmlega hálf íslenska þjóðin hefur beðið um aðgang að grunninum til að skoða ættir sínar og annarra.
Rúmlega hálf þjóðin......
Það er enginn annar gagnagrunnur í heiminum sem getur státað af neinu sambærilegu. Púkinn getur ekki að því gert, en hann er pínulítið montinn.
NBC fjallar um íslenskar erfðafræðirannsóknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 15. júní 2008
Vetnis-, rafmagns-, etanól-, bíodísel-, metan- og vatnsbílar
Púkinn minntist fyrir nokkrum dögum á svikahrappa sem reyna að telja fólki trú um að það geti knúið bílana sína með vatni (sjá hér).
Hvað um það - þótt hækkandi eldsneytisverð um þessar mundir sé að hluta til afleiðing óheftrar spákaupmennsku, þá er ljóst að til lengri tíma litið þurfa menn að horfast í augu við að framboð á olíu er ekki ótakmarkað. Á næstu áratugum munu fleiri og fleiri skipta úr bensín- og díselknúnum ökutækjum fyrir bíla sem ganga fyrir vetni, rafmagni, etanóli eða metan.
Púkinn gæti vel hugsað sér að vera í þeim hópi, en hvert á að stefna? Sú umræða sem hér hefur verið um vetnissamfélag er góð og gild, en Púkinn verður þó að viðurkenna að hann skilur hana ekki alveg.
Einhverjir hafa drauma um að flytja út vetni, en hagkvæmni þess er minni en að flytja út rafmagn eftir sæstreng, sem aftur er minni en að nýta rafmagnið hér innanlands til að framleiða vörur til útflutnings. Það er einnig að koma betur og betur í ljós að orkuauðlindir Íslands eru ekki ótæmandi og Púkinn skilur ekki hvernig nokkur getur haldið á lofti hugmyndum um vetniútflutning.
Að auki - hvers vegna ættu vetnisbílar að vera betri en rafbílar? Um allan heim eru í gangi rannsóknir á notkun á vetni sem orkugjafa. Í þeim löndum sem rafmagn er framleitt með bruna kola eða olíu er gjarnan leitað að hagkvæmum leiðum til að framleiða vetni á annan hátt en með rafgreiningu, eins og til dæmis með því að nota bakteríur sem framleiða vetni sem úrgangsefni. Verði þessi tækni þróuð frekar er sennilegt að hún verði notuð í stað rafgreiningar.
Það er orkutap fólgið í því að rafgreina vetni og brenna því síðan aftur til að framleiða rafmagn til að knýja vetnisbíla með rafmagnsmótor - hvers vegna ekki nota bara rafmagnið beint?
Vetnisbílar eru takmarkaðir af því að eingöngu verður hægt að "fylla á" þá á þar til gerðum stöðvum, en rafmagnsbílar stefna í þá átt að hægt verða að stinga þeim í samband heima hjá fólki - hlaða þá yfir nótt í bílskúrnum.
Saga rafmagnsbílanna er athygliverð og Púkinn mælir með því að fólk horfi á myndina Who killed the Electric Car sem mun vera fáanleg á einhverjum vídeóleigum.
Kannski Púkinn fái sér rafmagnsbíl frá Toyota aftir tvö ár eða svo, en það eru fleiri möguleikar í stöðunni og ljóst að margvíslegar breytingar eru að verða á orkubúskap heimsins.
Við lifum á áhugaverðum tímum.
Bíll sem gengur fyrir vatni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 16.6.2008 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 12. júní 2008
Röntgensjón - að horfa gegnum föt
Nú er komin fram tækni sem leyfir notandanum að "horfa" gegnum föt og önnur efni, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Það sem er notað er svokölluð "Terahertz" tækni, en hún byggir á rafsegulbylgjum sem hafa hærri tíðni en örbylgjur, en lægri en innrautt ljós.
Þessar bylgjur fara auðveldlega í gegnum efni eins tau, pappa, tré og plast, en vatn og málmur stöðvar þær hins vegar.
Það eru reyndar fleiri not af þessari tækni en bara að horfa í gegnum föt farþega - Þessi tækni getur hugsanlega komið í stað röntgengeisla í tannlæknastofum, þar sem hún er mun hættuminni.
Gægjast gegnum föt farþega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 12. júní 2008
Water4Gas - keyrðu bílinn á vatni
Fyrir aðeins $97 getur þú fengið leiðbeiningar um smíði tækis sem leyfir þér að keyra bílinn þinn á vatni og hlæja að hækkandi eldsneytisverði.
Hljómar þetta eins og það sé of gott til að geta verið satt?
Einmitt.
Þetta er að sjálfsögðu ekkert annað en svikamylla, en nú á tímum ört hækkandi eldsneytisverðs eru margir sem falla fyrir svona bulli.
Aðalvefsíðan sem selur þetta er hér. Þar er ýmislegt sem lítur sannfærandi út við fyrstu sýn, en skoðum þetta aðeins nánar.
Tæknin byggir á því að nota rafgreiningu - kljúfa vatn í vetni og súrefni, sem síðan er blandað saman við eldsneytið - en við bruna þess myndast síðan vatn aftur.
Það er vissulega hægt að knýja vélar á vetni, en það er einn smágalli á því ferli sem hér er lýst - sú orka sem fæst við bruna vetnisins er jafn mikil og sú sem þarf til að rafgreina það í upphafi - eða, reyndar er hún minni, því það er alltaf visst tap í svona kerfum. Þessi orka kemur úr rafkerfinu, sem þýðir að alternatorinn þarf að vinna meira sem því nemur - nokkuð sem krefst aukinnar eldsneytisnotkunar.
Sumir þeirra sem flagga þessari tækni halda því fram að eldsneytissparnaðurinn stafi af því að vegna íblöndunar vetnisins nýti vélin bensínið betur - þannig að í stað þess að nýta aðeins 30% orkunnar sem er bundin í eldsneytinu nýti vélin nú 60%.
Hljómar vel, ekki satt?
Vandamálið er bara það að þetta er ekki það sem rannsóknir sýna - a.m.k. ekki aðrar rannsóknir en þeir sem selja vöruna segjast hafa gert.
Þessi tækni er seld á vefnum og þar sem flestir vita að þar eru margvísleg svik á ferðinni, þá eru sumir sem "gúggla" eftir leitarorðum eins og "Water4Gas scam".
Viti menn - þá kemur upp fjöldi síðna eins og þessi - en þessar síður segja allar það sama: "Ég efaðist fyrst um að þetta gæti staðist, og hélt að þetta væri svikamylla, en svo prófaði ég þetta og það virkar - hallelúja" Síðan kemur hlekkur til að kaupa vöruna. Ætli þessir aðilar fái ekki prósentu af sölunni?
Það er til fjöldinn allur af "eldsneytissparandi" tækjum, sem eiga það sameiginlegt að "vísindin" á bak við þau eru rugl (t.d. seglar til að festa meðfram eldsneytisrörunum til að rétta úr sameindunum) og að raunverulegar rannsóknir sýna að þessi tæki eru í besta falli gagnslaus, en í versta falli auka þau eldsneytiseyðsluna eða geta skapað hættu.
Samt fellur fólk fyrir þessu - já, það eru margir sem lifa góðu lífi á trúgirni annarra.
Olíubirgðirnar duga í 41 ár að mati BP | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 10. júní 2008
deCODE og önnur penny-stock fyrirtæki
deCODE er ekki eina hátæknifyrirtækið sem hefur hrapað á hlutabréfamarkaðinum, en það sem margir vita ekki er hvers vegna $1 márkið er svona mikilvægt.
Ef kaupgengi (bid price) fyrirtækis er fyrir neðan $1 30 viðskiptadaga í röð, hefst afskráningarferli af Nasdaq sjálfkrafa. Fyrirtækinu eru gefnir 180 dagar til að koma sínum málum í betra lag, en takist það ekki er það afskráð.
Einfaldasta leiðin til að koma hlutabréfaverðinu upp yfir $1 er að gera svokallað "reverse split", sem þýðir í raun að hlutabréfunum er skipt út fyrir færri, en verðmeiri bréf - heildarverðmæti bréfanna breytist ekki. Í stað þess að eiga t.d. 1000 hluti, metna á $0.7 gætu menn haft 100 hluti, metna á $7.
Slíkt "reverse split" er hins vegar litið ákaflega neikvæðum augum - túlkað sem neyðarúrræði til að halda fyrirtækinu á markaði og vísbending um að stjórnendur sjái ekki önnur ráð til að auka verðmæti bréfanna.
Önnur ráð felast í því að gera fyrirtækið áhugaverðara með því að bæta afkomu þess, eða með því að fá inn fjármagn á einhvern annan hátt. Hvort tveggja gæti hins vegar reynst nokkuð erfitt eins og markaðsaðstæður eru.
Takist ekkert af þessu er fyrirtækið afskráð af meginlista Nasdaq - orðið svokallað "penny stock" fyrirtæki. Margir fjárfestingasjóðir mega ekki eiga hluti í slíkum fyrirtækjum og neyðast þá til að selja bréfin, sem að sjálfsögðu sendir verð þeirra enn lægra. Það er áfram unnt að eiga viðskipti með bréf "penny stock" fyrirtækja, en það er erfiðara og einnig er erfiðara fyrir slík fyrirtæki að afla sér fjármagns.
Púkinn vonast til að deCODE nái að rífa sig upp úr öldudalnum, en til þess er nauðsynlegt að afkoma fyrirtækisins batni eða að góðar fréttir komi frá þeim á næstunni. Það síðarnefnda er reyndar nokkuð líklegt, þannig að fyrir þá sem fjárfesta í deCODE akkúrat núna gæti verið möguleiki á skjótfengnum gróða á næstunni. Hvort deCODE er góð fjárfesting til langframa verður tíminn að leiða í ljós.
Gengi deCODE niður fyrir 1 dal á hlut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mánudagur, 9. júní 2008
Billjarður, ekki billjón
Í frétt mbl.is af nýjustu ofurtölvunni er sagt að hún ráði við eina billjón skipana á sekúndu. Þetta er rangt - hún ræður við einn billjarð reikniaðgerða á sekúndu - þúsundfalt meira en fréttin segir.
Þessi tölva, sem gengur undir nafninu Roadrunner hefur afkastagetu upp á 1 PetaFLOP, eða 1.000.000.000.000.000 skipanir á sekúndu (10E15)
Röðin er svona:
- MegaFLOP - milljón aðgerðir á sekúndu)
- GigaFLOP - milljarður aðgerða (amerísk billjón)
- TeraFLOP - billjón aðgerðir (amerísk trilljón)
- PetaFLOP - billjarður aðgerða (amerísk quadrilljón)
- ExaFLOP - trilljón aðgerða (amerísk quintilljón)
- ZettaFLOP trilljarður aðgerða (amerísk setilljón)
- YottaFLOP quintilljón aðgerða (amerísk septilljón)
Heimsins hraðasta tölva kynnt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)