Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Miðvikudagur, 22. október 2008
Öll (ál)eggin í sömu körfunni
Púkinn hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að heimskulegt sé að einblína aðeins á áliðnaðinn þegar menn vilja efla atvinnustarfsemi á tilteknum svæðum. Lækkandi heimsmarkaðsverð á áli þýðir að auki lægri greiðslur til íslenskra orkufyrirtækja, þótt gengisfall krónunnar vegi þar á móti.
Ne, Púkinn vill sjá fjölbreyttara atvinnulíf - atvinnulíf sem byggist á útflutningi smærri fyrirtækja i eigu Íslendinga - atvinnulíf sem byggist á hugviti, en ekki eingöngu verksmiðjuvinnu.
Undanfarin ár hafa íslensk útflutningsfyrirtæki nánast verið lögð í einelti - hágengisstefnan lék þau grátt meðan þjóðin fór á neyslufyllerí en nú hefur pendúllinn sveiflast til baka og þessi fyrirtæki eru meðal fárra sem eru líkleg til að bæta við sig starfsfólki í núverandi árferði.
Fer yfir áform um Helguvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 22. október 2008
Fór hæfa fólkið úr fjármálaeftirlitinu í bankana?
Púkinn var að velta fyrir sér hvers vegna eftirlitið með bönkunum brást svona gersamlega, en heyrði þá sögu að hæfustu starfsmennirnir í Fjármálaeftirlitinu hefðu hætt og farið að vinna hjá bönkunum - enda skiljanlegt þar sem þeir gátu þannig tvöfaldað launin sín.
Eftir hafi setið...tja...minna hæfir einstaklingar, þannig að ekki er skrýtið að misbrestir hafi verið á eftirlitinu.
Nú veit Púkinn ekki hvort þetta er rétt - en ef einhver þekkir til, væri forvitnilegt að vita hvort eitthvað hefur verið um það að einkavæddu bankarnir hafi sogað þetta fólk til sín. Svo mikið er víst að þeir soguðu til sín mikið af hæfu fólki frá öðrum stöðum.
Landsbankinn af hryðjuverkalista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 22. október 2008
"Greater fool theory"
Svo virðist sem stór hluti viðskipta hér á Íslandi undanfarin ár hafi átt sér stað í samræmi við svonefnda "greater fool theory", sem byggir á því að það skiptir engu máli þótt eitthvað fífl kaupi eitthvað á yfirverði, ef hann getur fundið einhvern sem er enn meira fífl til að kaupa það af sér á enn hærra verði.
Sá sem situr uppi með þetta þegar bólan springur er þá mesta fíflið - ssá sem tapar í leiknum.
Þessi viðskipti geta tekið á sér ýmsar myndir - kaup og sala fasteigna eða verðbréfa í fyrirtækjum, en verðið hækkar og hækkar uns bólan springur.
*Púff*
Eigið fé Kaupþings 75 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 20. október 2008
Ekki nema 2.000.000 á hvert mannsbarn
Þetta smálán sem þarna er sótt um jafngildir um 2 milljónum króna á hvert mannsbarn í landinu. Þetta hljómar eins og hin sæmilegasta tala, en er í rauninni aðeins hluti þess sem þarf.
Heildarupphæðin sem íslenska ríkið gæti þurft að fá gæti verið fjórum sinnum hærri en þetta lán, en þetta er skref í áttina.
Púkinn vonast hins vegar til að IMF setji skilyrði um aukinn aga í ríkisfjármálum - en sum þeirra skilyrða gætu orðið sársaukafull. Það verður t.d. að útrýma fjárlaga- og viðskiptahalla - og halda launahækkunum og útþenslu hins opinbera niðri. Þetta mun þýða niðurskurð og seinkun framkvæmda - með meðfylgjandi samdrætti og atvinnuleysi - slæmt fyrir þá sem lenda í þessu en nauðsynlegt fyrir þjóðarbúið í heild.
Það er reyndar spurning hvort þetta lán dugar eitt og sér til að styðja við gengi krónunnar, þannig að eðlilegt gengi myndist á henni erlendis. Þegar Seðlabanki Evrópu afskrifaði í raun krónuna var gengi evrunnar um 300 krónur, sem er tæplega raunhæft. Hvort það tekst að ná fram stöðugu gengi í kringum 150 kr/evra eins og reynt er að halda uppi þessa dagana er hins vegar óljóst. Púkinn er hins vegar á því að engin von sé til að gengi krónunnar styrkist frá því gildi.
Óska eftir 6 milljörðum dala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 17. október 2008
Geta Íslendingar sjálfir rannsakað bankana?
Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé á að ítarleg rannsókn fari fram á því hvað fór úrskeiðis hjá bönkunum, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og stjórnvöldum.
Púkinn er hins vegar ekki viss um að mögulegt sé að fá hæfa aðila hér á landi sem geta framkvæmt slíka rannsókn, þar sem flestir hafa jú persónulega orðið fyrir einhverjum skaða af bankahruninu, eða tengjast fyrrnefndum stofnunum eða þeim stjórnmálaflokkum sem bera ábyrgð á einkavæðingu bankanna.
Verða Íslendingar ekki hreinlega að fá hóp sérfræðinga erlendis frá til að hægt sé að gera fullkomlega óhlutdræga skýrslu um málið?
Bankarannsókn eðlileg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 15. október 2008
Krísa útflutningsfyrirtækjanna.
Innflutningur til landsins er í hættu vegna gjaldeyrisskorts og af þeim sökum hefði mátt búast við að stjórnvöld myndu gera allt sem þau gætu til að liðka fyrir aðstreymi gjaldeyris til landsins.
Sú er þau ekki raunin og ástandið er að komast á það stig að útflutningsfyrirtæki munu brátt hætta að flytja gjaldeyri til landsins, heldur bara leyfa honum að safnast fyrir á reikningum erlendis.
Ástæða þess er einfaldlega sú að útflutningsfyrirtækin fá ekki fyrirgreiðslu til að senda hluta þess gjaldeyris sem þau afla aftur úr landi - fá ekki að greiða erlendum starfsmönnum laun eða greiða birgjum sínum erlendis.
Það gildir einu þótt um sé að ræða gjaldeyri sem fyrirtækin eiga þegar liggjandi á reikningum á Íslandi eða aðeins sé um að ræða örlítið brot þess gjaldeyris sem fyrirtækin afla. Nei, sökum þess að fyrirtækin stunda ekki innflutning á nauðsynjavöru eins og mat, lyfjum eða eldsneyti fá þau ekki fyrirgreiðslu.
Viðbrögð fyrirtækjanna eru auðvitað fyrirsjáanleg - til hvers ættu fyrirtæki sem afla gjaldeyris að flytja hann hingað, ef þau fá ekki að nota hluta hans til að geta viðhaldið eðlilegum rekstri? Af hverju ekki bara leyfa honum að sitja á reikningum erlendis eða hjá erlendum dótturfyrirtækjum?
Afleiðingin mun á endanum verða sú að minni gjaldeyrir berst hingað, en það er síst af öllu það sem þjóðarbúið þarf á að halda þessa dagana.
Lán IMF fullnægir ekki þörf ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. október 2008
Fyrirsjáanlegt verðhrun fasteigna á Íslandi
Því hafði verið spáð að um 20% raunlækkunar á fasteignaverði væri að vænta á Íslandi - aðallega þannig að fasteignaverðið stæði í stað meðan verðbólgan æddi áfram og allt annað hækkaði. Nú er hins vegar hugsanlegt að hér hafi verið um bjartsýnisspá að ræða.
Margir verktakar og byggingaraðilar eru í alvarlegum vandræðum - "Bankinn hegðar sér eins og asni" sagði einn þeirra nýlega við Púkann og ljóst er að yfirstandandi ástand gæti rekið marga þeirra í þrot. Þessir aðilar geta ekki allir leyft sér að sitja og bíða með fasteignirnar uns ástandið batnar - nei, þeir þurfa að losa fjármagn núna. Á sama tíma er líklegt að margir kaupendur haldi að sér höndum - það eru aðeins örfáir Íslendingar sem beinlínis græða á hruni fjármálakerfisins - flestir tapa einhverju, bara mismiklu. Undir þeim kringumstæðum er skiljanlegt að fólk sé hikandi við að ráðast í meiriháttar fjárfestingar, eins og kaup á nýju húsnæði.
Afleiðingin af auknu framboði og minnkandi eftirspurn verður því líklega sú að verðið lækkar - sem aftur leiðir til þess að enn fleiri sitja uppi með illseljanlegar húseignir með áhvílandi skuldum sem eru langt yfir markaðsverðmæti eignanna.
Endanleg niðurstaða? Enn fleiri en áður munu eiga minna en ekki neitt. Já, Púkinn er svolítill svartsýnispúki í dag.
Verðhrun á fasteignum í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. október 2008
Er grundvöllur fyrir hlutabréfamarkaði á Íslandi?
Fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði fer stöðugt fækkandi. Þessi þróun kemur Púkanum að vísu ekki á óvart, en Púkinn vill í því sambandi benda á grein sem hann skrifaði í maí (sjá hér)
Afskráningar nokkurra fyrirtækja eru á döfinni og ekki er útlit fyrir að sú þróun snúist við á næstunni. Það skyldi þó aldrei enda þannig að fyrr eða síðar verði færeysk fyrirtæki þau einu sem verða skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn?
Engin viðskipti með fjármálafyrirtækin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 13. október 2008
Þegar blóðið flæðir um göturnar...
Einn af þekktari fjárfestum heims sagði eitt sinn að rétti tíminn til að fjárfesta væri þegar blóðið flæddi um göturnar - þegar allir væru uppfullir af vonleysi og svartsýni og eignir væru á útsölu.
Philip Green virðist fylgja þessari stefnu og lífeyrissjóðirnir eru nú að horfa til þess sama. Það er þó full ástæða til að fara varlega - þótt hlutir hafi fallið í verði er engan veginn víst að þeir geti ekki fallið enn frekar. Íslendingar mega ekki við því að lífeyrissparnaður þeirra sé settur í neitt nema fullkomlega traustar fárfestingar.
Lífeyrissjóðir skoða Kaupþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 13. október 2008
Ætli forsetinn skammist sín núna?
Í apríl síðastliðnum gagnrýndi Púkinn að Baugur skyldi hafa fengið útflutningsverðlaun forseta Íslands, enda væri þetta ekki útflutningsfyrirtæki og hagsmunir þeirra stönguðust á við hagsmuni raunverulegra útflutningsfyrirtækja. (sjá þessa grein)
Eins og Spaugstofan benti á um helgina var útflutningur Baugs aðallega í formi peningaútflutnings til Bahamaeyja.
Þótt forsetinn beri í raun ekki neina ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þjóðinni er Púkinn samt á þeirri skoðun að hann ætti að skammast sín - og biðja þjóðina opinberlega afsökunar á undirlægjuhætti sínum gagnvert útrásarmógúlunum undanfarin ár.
Púkinn á hins vegar ekki von á því hann geri neitt slíkt.
Ástandið verra en þjóðargjaldþrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |