Færsluflokkur: Spil og leikir
Mánudagur, 11. febrúar 2008
Valdataflið
Skákmenn þurfa stundum að fórna manni til að vinna taflið. Sú hugsun sækir nú að Púkanum að svipaðar hugleiðingar séu meðal sumra Sjálfstæðismanna þessa dagana - þeir séu að velta fyrir sér hvort besti leikurinn í stöðunni sé að fórna Villa til að halda völdum og vinna leikinn.
Púkinn er í sjálfu sér ekki sannfærður um að Villi eigi að víkja - heldur sé jafnvel mikilvægara að hreinsa til innan Orkuveitunnar og henda þeim út sem virðast hafa gleymt því sem ætti að mati Púkans að vera hið raunverulega hlutverk þeirra - að veita þjónustu.
Hverjar eru líkurnar á að það gerist? Snýst málið kannski bara um hvort það eigi að fórna peði eða öflugri manni?
Miðvikudagur, 12. desember 2007
Byssur og eldflaugar - úr Lego
Púkinn er sjálfsagt ekki einn um að brosa þegar hann sér frétt um "forboðin" LEGO leikföng, enda voru LEGO kubbarnir óhemju vinsælir fyrir 30 árum síðan og eitthvað rámar Púkann nú í að hafa búið til valslöngvur og annað í svipuðum dúr.
Ef Forbidden Lego bókin hefði verið á boðstólum á þeim tíma, þá hefði hún sjálfsagt endað ofarlega á jólagjafaóskalistanum.
Það er reyndar ótrúlegt hvað LEGO kubbarnir hafa verið vinsælir í gegnum tíðina, en þeir voru fyrst hannaðir 1949 og komu fram í sinni núverandi mynd 1963. Gífurlegur fjöldi af þessum kubbum hefur verið framleiddur í gegnum árin - það hefur verið reiknað út að framleiðslan jafngildi 62 kubbum á hvern einasta jarðarbúa. Þótt einhverjir þeirra kubba safni sjálfsagt ryki í dag eru milljónir og aftur milljónir þeirra festir saman og losaðir í sundur á hverjum degi út um allan heim, enda eru þetta góð leikföng - veita mörgum ánægju og styðja við sköpunargleðina - jafnvel þó það sé hægt að búa til byssur og önnur vopn úr þeim.
Kennt að smíða byssur úr Lego-kubbum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. nóvember 2007
Að eitra fyrir börnum ... með leikföngum
Í leit sinni að skjótfengnum gróða stytta margir sér leið og reyna að fara á svig við kostnaðarsamar reglur um vörugæði og eftirlit.
Bindeez leikföngin eru aðeins nýjasta dæmið af mörgum. Þetta eru litskrúðugar perlur sem hægt er að raða upp og festast saman þegar vatni er úðað á þær.
Perlurnar eru nefnilega húðaðar með efni sem verður að eins konar fljótþornandi lími þegar það blotnar.
Það virðist engum hafa dottið í hug að ef börn gleypa perlurnar komast þær líka í snertingu við vatn í meltingarveginum, þannig að .. ja, börnin eru í raun að gleypa fljótþornandi lím.
Hvað er að þeim sem framleiða þetta? Hvað er að þeim sem útnefna þetta "leikfang ársins 2007"? Hvað er að þeim sem kaupa þetta?
Þegar síðan kemur í ljós að límefnið er efnafræðilega skylt ofskynjunarlyfi, þá verður það frétt - en börnin sem hafa lent á sjúkrahúsi fóru ekki þangað vegna ofskynjunaráhrifa, heldur vegna þess að samanlímdir kögglar af perlum sátu í meltingarvegi þeirra.
Ofskynjunarefnið er í raun aukaatriði - en það er leið til að vekja athygli á hættunni og losna við þessi leikföng úr verslunum.
Vonandi eru þessi leikföng ekki seld hér á landi, en Púkinn myndi gjarnan vilja sjá það staðfest af Leikbæ og Toys'r'us.
Vinsæl leikföng innihalda ofskynjunarlyf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. ágúst 2007
Astrópía og nördarnir
Púkinn er 100% nörd og þarf ekki að taka nördapróf á vefnum til að fá það staðfest, en gerði það nú samt. Niðurstaðan ætti ekki að koma neinum á óvart, en vilji einhverjir athuga sína nördastöðu, geta þeir farið á þennan hlekk og tekið prófið sjálfir.
Og af hverju eru nördar allt í einu komnir í umræðuna? Jú, ástæðan er myndin Astrópía, sem var verið að frumsýna, en þótt hún sé að hluta um nörda í nördabúð, þá er hún ekki bara fyrir nörda.
Sama á reyndar við um hlutverkaspil. Það kæmi Púkanum ekki á óvart þótt myndin yrði til að auka áhuga á þeim hérlendis, en að mati Púkans er það hið besta mál. Púkinn er jafnvel þeirrar skoðunar að hlutverkaleikir eigi fullt erindi inn í námsskrár skólanna, en það er annað mál.
Sem sagt, allir á Astrópíu - ekki bara nördarnir - og síðan getur fólk skroppið niður í Nexus á Hverfisgötu 103 til að sjá alvöru nördabúð.
Spil og leikir | Breytt 24.8.2007 kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 11. júní 2007
Að vinna BMW...eða þannig
Púkinn var að fá tölvupóst um að hann hefði unnið í BMW happdrættinu, og vinningurinn ekki af verri endanum - BMW 5 Series, Sport Saloon og væn summa í reiðufé.
Þetta er að sjálfsögðu gabb, ætlað til að hafa fé af Púkanum á einn eða annan hátt, en þessir aðilar fá þó allavegana prik fyrir að reyna eitthvað nýtt.
Púkinn hefur margoft fengið bréf um að hann hafi unnið í hollenska ríkishappdrættinu, nú eða því breska, svo ekki sé minnst á öll bréfin frá Ubongo Ubongo og öllum vinum hans í Nígeríu sem þurfa aðstoð Púkans við að koma illa fengnu fé úr landi - en BMW happdrættið, það hefur Púkinn aldrei séð áður.
Þeir vilja auðvitað fá upplýsingar frá Púkanum - nafn, aldur, kyn, póstfang, síma, stöðu og tölvupóstfang - ekkert sérlega grunsamlegt við fyrstu sýn.
Púkinn er hins vegar að velta fyrir sér að svara þessu, frá hotmail póstfangi, með tilbúnu nafni og heimilisfangi, gefa upp ógilt símanúmer, og tryggja á allan hátt að þessir glæpamenn geti ekki rakið svarið til hans, bara svona til að sjá nákvæmlega hvað gerist næst. Vilja þeir fá bankareikning Púkans, undir því yfirskini að ætla að leggja peninginn þar inn, eða vilja þeir að Púkinn sendi greiðslu vegna útflutningstolla á BMWinum, eða hvað...Púkinn er svolítið forvitinn að vita hvernig þeir vilja stela af honum.
Fimmtudagur, 31. maí 2007
Sænskt sýndarsendiráð
Í tilefni af umræðunni um óheyrilegan kostnað við byggingu og rekstur íslenskra sendiráða erlendis, er ef til vill við hæfi að benda á það sem Svíar gerðu núna í vikunni.
Fyrsta sýndarsendiráðið er nú opið á netinu. Nánar til tekið er það í Second Life tölvuleiknum, en sá leikur er í raun heill heimur - heimur þar sem fólk getur átt samskipti hvert við annað á margvíslegan hátt.
Sænsks sýndarsendiráðið þjónar reyndar einnig hlutverki landkynningarmiðstöðvar og er tilgangurinn væntanlega að hvetja fólk til að heimsækja Svíþjóð ... í raunveruleikanum, ekki tölvuspilinu.
Laugardagur, 28. apríl 2007
Teiknimyndasögur fyrir alla
Það ríkja ekki sömu viðhorf til myndasögublaða á Íslandi eins og í Japan, þar sem þær eru vinsælt lestrarefni meðal allra aldurshópa, en hér á landi virðast vinsældirnar takmarkaðri við yngri aldurshópa.
Séu þau blöð sem verða í boði í Nexus hins vegar þau sömu og þau sem eru í boði í Bandaríkjunum (sjá hér), þá er þar á meðal ýmislegt efni sem ætti að höfða til víðari hóps.
Púkinn á sjálfur reyndar oft leið í Nexus - ekki vegna teiknimyndasagnanna, heldur vegna bóka ("Fantasy" og "Science Fiction") og spila, en Nexus býður upp á mikið úrval borðspila og handbóka fyrir alls kyns hlutverkaleiki.
Með öðrum orðum - góð búð - gott mál.
Jóakim aðalönd gefins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Stríð er leikur
Bandaríski herinn á í stöðugt meiri erfiðleikum við að vekja áhuga sjálfboðaliða, enda ekki skrýtið vegna stöðugs fréttaflutnings af mannfalli í Írak.
Meðal þeirra leiða sem þeir nota til að vekja áhuga vænlegra umsækjenda, er gerðs tölvuleiks sem ber nafnið America's Army. Þessi leikur er þróaður fyrir skattpeninga og dreift endurgjaldslaust. Á heimasíðu leiksins (sjá hér) eru hlekkir yfir á skráningarskrifstofur hersins, enda hafa þeir lýst leiknum sem "a cost-effective recruitment tool".
Markmiðið er nefnilega að sannfæra unglingana um að lífið í hernum sé spennandi, og fyrst það sé gaman að hlaupa um og skjóta mann og annan í tölvuleik, þá hljóti að vera enn meira gaman að gera það í alvörunni.
Í raunveruleikanum er hins vegar ekki hægt að bakka og sækja síðasta "saved game" þegar allt fer á versta veg.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Bruðl dagsins - fyrir börnin
Púkinn heldur nú áfram að aðstoða íslenska auðmenn sem eiga í vandræðum við að koma peningum sínum í lóg.
Í þetta sinn er athyglinni beint að fordekruðum börnum auðmannanna, sem að sjálfsögðu verða að fá leikföng við hæfi, eins og til dæmis þennan tuskubjörn hér, frá þýska fyrirtækinu Steiff.
Hann er með augu úr safírum, með demantaumgjörð, auk þess sem munnurinn er úr gulli og feldurinn er að hluta úr gullþræði.
Verðið er aðeins 62446 evrur, eða um sjö milljónir íslenskar (eftir að flutningakostnaði og virðisaukaskatti hefur verið bætt við).
Púkinn getur reyndar ekki annað en velt fyrir sér hversu mörgum börnum í Malawi mætti hjálpa fyrir þann pening.
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Tölvuleikir fyrir fullorðna
Verður fólk einhvern tímann of gamalt til að leika sér, eða breytast leikirnir bara eftir því sem fólk eldist?
Tölvuleikir eru óneitanlega vinsælir meðal margra barna og unglinga og þær niðurstöður að stór hluti fullorðinna spili tölvuleiki koma Púkanum ekki á óvart, síður en svo.
Vinnustaður Púkans er hugbúnaðarfyrirtæki og margir vina hans og kunningja eru menntaðir á því sviði, þannig að sá úrtakshópur er tæplega marktækur, en hlutfall tölvuleikjaspilara þar er mun hærra en 37%. Púkinn sjálfur hefur spilað tölvuleiki af einhverjum tegundum síðustu 30 árin, og á ekki von á að það breytist á næstunni.
Tölvuleikir ekki lengur bara fyrir börn og unglinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |