Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 30. júlí 2009
Er sannleikurinn óþægilegur? (lokun á DoctorE)
Það er búið að loka á bloggið hjá DoctorE.
Það sem hann vann sér til sakar var að efast um geðheilsu eða siðferði hinnar misheppnuðu jarðskjálftaspákonu - að vísu með róttækara málfari en Púkinn myndi nota.
Púkinn er hins vegar í meginatriðum sammála DoctorE - manneskja sem kemur fram og hræðir auðtrúa einstaklinga með svona spádómum á annað hvort við einhvers konar vandamál að stríða eða er hreinn og klár svikahrappur.
Púkinn hvetur alla til að hlusta á viðtalið við "sjáandann" og mynda sér sína eigin skoðun á geðheilsu og siðferði viðkomandi.
Skoðun Púkans er hins vegar sú að sé það stefna blog.is að loka á þá sem segja sannleikann, þótt hann sé óþægilegur, þá efast Púkinn um að hann muni eiga samleið með blog.is mikið lengur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (78)
Sunnudagur, 25. maí 2008
Er blogg list ?
Fréttin um að tveimur bloggurum hafi verið neitað um listamannalaun vekur upp spurninguna um hvað sé list og hvað ekki - Sumir bloggarar hafa meira aðdráttarafl en Listasafn íslands og það er sennilega óumdeilt að blogg felur oftast í sér sköpun og frumleika, en það er sennilega líka óumdeilt að flestir bloggarar líta ekki á verk sín sem list.
Getur verk verið list ef höfundur þess lítur ekki á það sem slíkt? Getur hvað sem verið list ef höfundurinn kýs að nefna því nafni?
Sum blogg eru beinlínis kynnt sem listablogg (eins og þetta hér og ýmsir listamenn nota blogg til að koma sjálfum sér og sínum verkum á framfæri, en hvað með hinn almenna bloggara, sem lítur sjaldnast á sig sem listamann?
Er blogg þannig list? Er blogggrein sem vekur upp viðbrögð dæmi um gagnvirka list - list sem listneytandinn - sá sem les bloggið - tekur þátt í að skapa? List þar sem listamaðurinn veitir listneytandanum innsýn í hugarheim sinn?
Er slíkt eitthvað minni list en sumt sem menningarfrömuðir stimpla sem list?
Púkinn varpar bara fram spurningum í þetta skiptið - hann hefur fyrir löngu gefist upp á spurningunni um hvað sé list.
Bloggarar vilja listamannalaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 26. apríl 2008
Til varnar nafnleysingjum
Upp á síðkastið hefur nokkuð verið rætt um þá afstöðu sumra bloggara að vilja ekki skrifa undir sínu eigin nafni, heldur einhverju dulnefni.
Þar sem Púkinn er einn þeirra sem tilheyra þessum hópi langar hann aðeins til að stíga í pontu fyrir hönd nafnleysingja.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk kjósi að koma ekki fram undir eigin nafni. Ein ástæðan er sú að viðkomandi vilji koma á framfæri skoðunum sem ekki njóta vinsælda meðal fjölskyldu, vina eða vinnufélaga viðkomandi. Nafnleysið er þá leið til að forðast árekstra í einkalífi en geta geta þó tjáð sig um ákveðin mál.
Það er líka mögulegt að það sem viðkomandi bloggari vilji skrifa um sé þess eðlis að viðkomandi myndi hreinlega stofna sér í hættu ef vitað væri hver stendur á bak við dulnefnið. Þetta er sem betur fer óþekkt hérlendis, en ýmsum öðrum löndum er þetta virkilegt vandamál - bloggarar sem skrifa um mál sem ekki eru yfirvöldum (eða ákveðnum hópum) þóknanleg geta átt í vændum ofsóknir - nú eða bara verið látnir "hverfa".
Það geta þó verið fleiri ástæður fyrir nafnleysi. Í tilviki Púkans er meginástæðan til dæmis sú að sá sem stendur á bak við Púkann er þekktur fyrir verk sín á nokkrum afmörkuðum sviðum. Það sem Púkinn kýs að blogga um er hins vegar almennt ekki tengt þeim sviðum, heldur alls óskyld mál. Púkinn vill að skrif hans séu metin út frá eigin verðleikum, en ekki með tilliti til þess hver stendur á bak við þau.
Það sama á við einstaklinga sem eru almennt tengdir við ákveðna hugmyndafræði. Ef t.d. landsþekktur framsóknarmaður eða femínisti kýs að tjá sig um eitthvað, er hætt við að sumir myndu meta skrif viðkomandi með hliðsjón af skoðunum sínum á þeirri stefnu sem viðkomandi tengist í hugum þeirra, jafnvel þótt skrifin séu um alls ótengt efni. ("Hún segir þetta bara af því að hún er svo mikill framsóknarmaður/femínisti")
Það er síðan allt annað mál hversu vel nafnleysingjar leyna því hverjir þeir raunverulega eru - það er t.d. barnaleikur að sjá hver Púkinn er, en nokkuð erfiðara þegar ýmsir aðrir eiga í hlut. Púkinn vill hins vegar halda sínu nafnleysi þannig að hann hefur almennt fylgt þeirri stefnu að eyða út athugasemdum frá þeim sem ekki sýna þá kurteisi að greina á milli Púkans og þess sem stendur á bak við hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (60)
Mánudagur, 26. nóvember 2007
Nýtt útlit mbl.is og blog.is
Það má vel vera að Púkinn sé bara íhaldssamur í eðli sínu, en hann er ekki alls kostar sáttur við nýja útlitið á mbl.is og blog.is. Það er reyndar ekki auðvelt að skilgreina nákvæmlega í hverju sú óánægja felst - kannski sá Púkinn bara enga þörf fyrir breytingar breytinganna vegna.
Það er hinsvegar ergilegra að sumir hlutir virka bara hreinlega ekki. Nú er búið að bæta við nokkrum nýjum bloggflokkum, eins og "Menntun og skóli", "Spaugilegt" og "Viðskipti og fjármál".
Gott mál, en sé einhver af þessum flokkum valinn af forsíðunni birtist
Internal Server Error
The server encountered an internal error or misconfiguration and was unable to complete your request.Please contact the server administrator, webmaster@mbl.is and inform them of the time the error occurred, and anything you might have done that may have caused the error.
More information about this error may be available in the server error log.
Sömuleiðis, ef Púkinn skrifar nýja grein, þá standa þessir nýju flokkar ekki til boða í flokkalistanum. Var einhver að flýta sér aðeins of mikið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2007
100.000 flettingar, takk, takk, takk ...
Teljarinn skreið í 100.000 í dag og Púkanum fannst því tímabært að þakka fyrir sig, en í leiðinni að velta fyrir sér hvers vegna nokkur nennir að lesa það sem svona lítið skrýtið blátt fyrirbæri hefur að segja um mannlífið.
Á þeim mánuðum sem eru liðnir frá því að Púkabloggið byrjaði eru greinarnar orðnar 348, en misgáfulegar eins og gengur og gerist. Ef einhver myndi nenna að lesa í gegnum allar greinarnar myndi viðkomandi sjá að Púkinn skrifar sjaldan um persónuleg málefni, en flestum greinunum má skipta í nokkra hópa, sem er lýst að neðan, ásamt hlekkjum yfir á nokkrar valdar greinar.
Þar sem sá sem stendur á bak við Púkann er mikill áhugamaður um tölvur, tækni og önnur "nördaleg" efni ætti ekki að koma á óvart að allmargar greinar fjalla um þau mál.
- Astrópía og nördarnir
- Of latur til að sækja bjórinn?
- Istorrent: Glæpasamtök eða bara gráðugir siðleysingjar?
- Er tölvan þín uppvakningur?
- Afrit...afrit....afrit!
Púkanum er uppsigað við vaxandi firringu í þjóðfélaginu, sem meðal annars kemur fram í gengdarlausu bruðli og virðingarleysi fyrir eigum og réttindum annarra.
- Dóphausar og drykkjurútar
- Skemmdarverkahúsmæður
- Reiðhjólastígar eru fín bílastæði
- Illa siðaðir hundaeigendur
Púkinn er ekki trúaður, en skrifar oft um trúmál, því meira því fjarstæðukenndari sem trúarskoðanirnar eru og því meiri mannfyrirlitningu sem þær lýsa á "öðrum".
- Xenu-dagurinn er í dag
- Guð sagði mér að gera það....
- Trú og fáfræði í Bandaríkjunum
- Glott að kirkjunni
- Trúarbrögð skaðleg?
- "Bænaganga" á fölskum forsendum?
- Að deyja fyrir trú sína
Púkinn á fáa samkynhneigða kunningja, en nokkrar af greinunum fjalla um þeirra mál, eða frekar um þá fordóma sem þeir þurfa að fást við.
- God hates fags!
- "Hinsegin hjónabönd"
- Ættleiðingar samkynhneigðra
- Enn og aftur um hjónabönd samkynhneigðra
Þótt Púkinn sé ekki mjög pólitískur að eðlisfari finnur hann sig stundum knúinn til að hnýta í heimskulegar ákvarðanir ráðamanna landsins.
- Tækniþróunarsjóður - og svo hvað ?
- Of vægt tekið á ölvunarakstri
- Darwin og þorskurinn
- Alvöru seðlabanki óskast!
- E102, E104, E107, E110, E120, E122, E123, E124, E127, E128, E129, E131, E132, E133, E142, E150, E154 og E155.
- Óæskilegir útlendingar
- Capacent flokkurinn
Góð menntun er að mati Púkans mikilvægari en flest annað.
- (Ekki svo) góðir kennarar?
- Illa samin samræmd próf?
- Að byrja 19..18..17..16..15 ára í háskóla
- Forritun fyrir stráka!
- Undirstöðuatvinnugreinar framtíðarinnar
Það má í rauninni segja að rauði þráðurinn í gegnum greinar Púkans sé "blogg gegn heimsku", í hvaða mynd sem hún birtist.
Að lokum vill Púkinn aftur þakka þeim sem hafa haft þolinmæði til að lesa skrif hans á þessu ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 23. október 2007
Betri gerast blogg ekki
Nýr bloggari birtist um daginn hér á blog.is og er ljóst að ef framhald verður á skrifum viðkomandi mun Púkinn lesa þær greinar samviskusamlega jafnóðum og þær eru birtar.
Púkinn öfundar reyndar viðkomandi bloggara svolítið, því sennilega mun viðkomandi komast upp með að skrifa greinar sem engum öðrum myndi líðast.
Og hver er nú umræddur bloggari? Jú, enginn annar en Sverrir Stormsker (sjá hér).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 4. september 2007
Blogg um frétt um blogg um frétt um auglýsingu
Nú býður Morgunblaðið fólki að skrifa blogggreinar um frétt Morgunblaðsins um blogggreinar sem eru skrifaðar um frétt Morgunblaðsins um sjónvarpsauglýsingu.
Púkinn reynir nú oftast að vera málefnalegur í skrifum sínum, en það er virkilega erfitt í þessu tilviki.
Og auglýsingin sjálf - tja - hún hefur óneitanlega fengið góða umfjöllun - ætli það fái ekki einhver klapp á bakið fyrir að hafa látið sér detta þetta í hug.
Á meðan geta bloggarar bloggað um fréttir um blogg bloggara um fréttir um blogg bloggara um fréttir um...
Miklar umræður á meðal bloggara um nýja auglýsingu Símans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 29. ágúst 2007
Eru bloggarar nöldrarar?
Púkinn var að skoða allmörg blogg af handahófi og komst að tvennu.
Í fyrsta lagi eru margir bloggarar hreinræktaðir nöldrarar, en í öðru lagi er nöldur ekki vænlegt til vinsælda.
Þetta ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart, en skoðum þetta nú aðeins nánar. Það eru mismunandi hlutir sem fara í taugarnar á fólki. Í tilviki Púkans eru það meðal annars eftirfarandi atriði:
- Almennt agaleysi í þjóðfélaginu og virðingarleysi fyrir eignum og réttindum annarra, Undir þetta falla hlutir eins og ölvunarakstur, veggjakrot, sóðaskapur, tillitsleysi gagnvart fótgangandi og hjólandi fólki og margt fleira í svipuðum dúr.
- Hátt gengi krónunnar, enda kemur það illa við lífsviðurværi Púkans.
- Bruðl. Púkanum gremst að sjá fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna sóað í kjaftæði.
- Trúarrugl - þegar fólk reynir að stjórna lífi annarra eftir einhverjum úreltum, árþúsundagömlum skræðum.
- Skammsýni stjórnmálamanna.
Aðrir hafa svipaða lista og eins og Púkinn þá nöldra viðkomandi gjarnan yfir sínum nöldurmálum á bloggsíðunum. Sumt af því eru mál sem Púkinn getur á engan hátt tekið undir (eins og slæmt gengi íslenska landsliðsins), en annað getur Púkinn svo sem skilið, þótt það ergi hann ekkert sérstaklega sjálfan.
Það sem Púkinn rak hins vegar augun í er að hreinræktuð nöldurblogg eru alls ekki líkleg til vinsælda og þau blogg sem raða sér í efstu sæti bloggvinsældalistans eru alls ekki í hópi nöldurblogga. Sum þeirra vinsælustu eru uppfull af jákvæðni. Önnur fjalla ef til vill um efni sem ekki eru jákvæð, eins og baráttu einstaklinga við sjúkdóma, en þau falla heldur ekki undir nöldurblogg.
Niðurstaðan er semsagt sú að nöldur í óhófi fælir fólk í burtu - nokkuð sem kemur væntanlega engum á óvart.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Að búa til betra blogg
Á þeim tíma sem Púkinn hefur verið hér á blog.is, hefur hann rekið augun í nokkra hluti sem mætti lagfæra að hans mati.
Það má vera að ekki séu allir sammála, en vonandi komast einhverjar þessara ábendinga til skila.
Hverjar eru svo tillögurnar?
Skoðum fyrst bloggelítuna, en það er hinn handvaldi hópur 50-60 einstaklinga sem lenda í "Umræðunni". Þar eru margir góðir pennar, málefnalegir og skemmtilegir, en að sumu leyti er svolítið einhæft að sjá alltaf sömu einstaklingunum hampað á þennan hátt. Það mætti að skaðlausu stækka hópinn og auka þannig fjölbreytnina.
Í öðru lagi eru það bloggflokkarnir, en það mætti gjarnan endurskoða þá svolítið - Púkinn saknar þess að sjá ekki flokk eins og "Verslun og viðskipti" til dæmis.
Í þriðja lagi er það misnotkun fólks á aukaflokkakerfinu. Það eru allt of margir sem hafa þann leiða ávana að troða greinum sínum í flokka þar sem þær eiga alls ekki heima, og "ýta" þannig burt greinum þeirra sem reyna að sýna almenna kurteisi. Það er í raun engin ástæða til að leyfa meira en 2-3 aukaflokka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 16. mars 2007
10.000 heimsóknir - takk
Púkinn hefur nú haldið til hér á blog.is í rúman mánuð og í gær fékk hann tíuþúsundustu heimsóknina, sem þýðir að meðaltali um 300 heimsóknir á dag á þessum tíma.
Púkinn vonar að fólk hafi gaman af skrifum hans um hið skrýtna í mannlegri tilveru, en núna er við hæfi að þakka fyrir áhugann.
Kærar þakkir, öll sömul.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)