Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hundar, hundar - hundaskítur

dog_poo_250Það fer ekki á milli mála að hundum hefur fjölgað til muna í Reykjavík.  Það er nokkurn veginn sama hvar maður er - alls staðar mætir maður hundaeigendum á gangi að viðra hundana sína - nú eða þá hundum sem eru að viðra eigendurna.

Því miður er það þú svo að svörtum sauðum í hópi hundaeigenda hefur fjölgað umtalsvert og ein af afleiðingum þess er að hundaskítur liggur í görðum og á gangstéttum út um allan bæ.

Púkinn hefur séð hundaeigendur sem hleypa hundunum sínum lausum út á morgnana til að gera sín stykki í görðum nágrannanna.  Púkinn veit jafnvel um mann sem kemur reglulega að Kjarvalsstöðum í lok vinnudags og sleppir hundunum sínum lausum á Miklatúni - þegar Púkinn benti viðkomandi á að í fyrsta lagi mættu hundar ekki vera lausir þar og í öðru lagi væri ætlast til að hann þrifi upp eftir þá, fékk Púkinn bara skæting til baka - umræddur hundaeigandi virtist telja það sinn rétt að láta hundana sína skíta á almannafæri.

Hvað er að svona fólki?

Ef fólk getur ekki haft hundana sína í ól, nema á afgirtum svæðum þar sem þeir mega hlaupa frjálsir og haft plastpoka í vasanum til að þrífa upp eftir dýrin, þá á viðkomandi ekki skilið að fá að eiga hund.


Að vilja ekki kannast við (hálf)systkini sín

hafsteinPúkinn ætlar ekki að tala um Lúðvík Gizurarson, þar sem endanleg niðurstaða er ekki enn fallin í því máli.  Þess í stað ætlar Púkinn að minnast á annað svipað mál - faðerni Péturs Jens Thorsteinssonar, sem mun næsta örugglega hafa verið sonur Hannesar Hafstein.

Það mál var um margt svipað og sumir afkomendur Hannesar Hafstein þráuðust lengi við að viðurkenna skyldleikann - jafnvel árið 2004 þegar minnst var aldarafmælis heimastjórnarinnar og afkomendum Hannesar Hafstein boðið til veislu, þá náði það boð einungis til afkomenda hjónabandsbarnanna, þótt hin væru á alla vegu jafn miklir "afkomendur".

Utanhjónabandsbörn og framhjátökubörn hér á landi eru að sjálfsögðu jafngömul Íslandssögunni, en lengst af hefur þeim verið ýtt til hliðar á einn eða annan hátt.

Þegar Íslendingabók opnaði voru einhverjir sem uppgötvuðu þar hálfsystkini sín - sumir urðu reiðir en aðrir hissa.  Einhverjir héldu að um mistök væri að ræða, en komst síðan að því að foreldrar þeirra höfðu logið að þeim, jafnvel áratugum saman.

Dapurlegt, en þannig er þetta nú.


mbl.is Hæstiréttur staðfesti úrskurð um mannerfðafræðilega rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu eldri borgari (í anda) ?

old_ladyPúkinn átti nýverið leið inn á vef Námsgagnastofnunar og rakst þar á síðu um orð í máli eldra fólks.

Púkanum brá.  Það er nefnilega þannig að Púkinn vill ekki telja sig eldri borgara, en hann þekkti nánast öll orðin á listanum og notar sum þeirra reglulega.

Púkinn notaði síðan þennan lista til að búa til "eldriborgarapróf", sem hann lagði fyrir ættingja og vinnufélaga.

Prófið er í 3 hlutum:

  1. Þú færð 1 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 3 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: altan, betrekk, húmbúkk, kamína og útstáelsi.
  2. Þú færð 2 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 5 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: bíslag, bolsía, dannaður, gallósíur og kaskeiti.
  3. Þú færð 5 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 10 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: blankskór, fortó, gesims, ranimosk og sufflör.

Niðurstaðan:

Færri en 20 stig: Þú ert ung(ur) í anda

20-40 stig: Þú þykir svolítið forn í tali.

Fleiri en 40 stig: Fólk undir fertugu á erfitt með að skilja þig.  Kannski ertu bara svona gömul sál.


Samtök tilvistarskertra

donaldduckPúkinn á við tilvistarkreppu að stríða - eða væri réttara að kalla það "tilvistarskerðingu"?  Hann er nefnilega ekki til - svona í vissum skilningi.

Púkinn hefur enga kennitölu og tilvist hans er ekki viðurkennd af hinu opinbera.  Hann getur ekki fjarfest í hlutabréfum eða höfðað meiðyrðamál, svo dæmi sé tekið um þá mismunun sem Púkinn og aðrir tilvistarskertir einstaklingar búa við.

Púkinn er ekki einn um að búa við þetta vandamál, en tilvistarskerðing er útbreiddari en margir myndu halda.  Meðal þekkra einstaklinga með tilvistarskerðingu má nefna Andrés Önd, Stekkjastaur og alla hans fjölskyldu, já og líka Silvíu Nótt.

Við, tilvistarskertir einstaklingar höfum fengið okkur fullsadda á þeirri mismunum sem viðþurfum að búa við og stefnum að stofnun samtaka til að standa vörð um hagsmuni okkar.

Tilvistarskertir einstaklingar allra landa, sameinist!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband