Ekki annan innihaldslausan þjóðfund, takk!

Púkinn er þeirrar skoðunar að margt megi betur fara í stjórnarskránni og að Alþingi hafi brugðist hvað það varðar - flestar síðustu breytinga á stjórnarskránni varða eingöngu kosningakerfið og þær hafa verið gerðar með hagsmuni flokkakerfisins í huga, en ekki hagsmuni kjósenda.

Stjórnlagaráðið hefur sína galla - það var illa staðið að kosningum til stjórnlagaþings, ekki gert ráð fyrir þessum mikla fjölda frambjóðenda og framkvæmd kosninganna var ekki nægjanlega vönduð, eins og Hæstiréttur sagði.

Það eru hins vegar góðar líkur á því að stjórnlagaráðið skili frá sér einhverju sem verður til þess að endurbætur verði gerðar á stjórnarskránni - endurbætur sem ekki aðeins eru í þágu flokkanna - og það að koma hreyfingu á málið réttlætir tilvist stjórnlagaráðsins að mati Púkans.

Hins vegar verða tillögur stjórnlagaráðsins ekki bindandi á neinn hátt - Alþingi getur hunsað þær ef því svo sýnist - hvort sem þeir gera það með vísun til veiks umboðs eða ekki.

Það yrði hins vegar erfiðara fyrir Alþingi að hunsa tillögurnar, ef skýr stuðningur þjóðarinnar við þær lægi fyrir.

Púkinn er reyndar þeirrar skoðunar að ein breytinganna á stjórnarskránni ætti að vera sú að allar breytingar á stjórnarskrá yrði að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, en burtséð frá því, þá myndi það styrkja mjög tillögur stjórnlagaráðs ef tillögurnar væru bornar undir þjóðina áður en Alþingi fengi þær til samþykktar.

Ef fyrir lægi að yfirgnæfandi stuðningur væri við tilteknar tillögur, þá væri erfitt fyrir Alþingi að hunsa þær með vísun til "veiks umboðs" stjórnlagaráðsins.  

Púkinn efast hins vegar um að Alþingi muni samþykkja að vísa tillögunum til þjóðarinnar, þar sem slíkt myndi vinna gegn hagsmunum Alþingis og flokkakerfisins.  

Hugmyndin um að vísa tillögunum til þjóðfundar er hins vegar slæm - mjög slæm.  Púkinn var einn fulltrúanna á síðasta þjóðfundi og verður að viðurkenna að það var sú innihaldslausasta tímasóun sem hann hefur tekið þátt í - hrein og klár sýndarmennska sem þjónaði þeim tilgangi einum að telja fólki trú um að það væri hlustað á það.   Púkanum fannst hann eiginlega vera á fundi hjá dýrunum í Hálsaskógi, þegar rætt var um "grundvallargildi íslensks samfélags"..."öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".

Er einhver ástæða til að ætla að "þjóðfundur" um stjórnarskrárbreytingatillögur geti leitt til einhvers?  
mbl.is Tillagan fari fyrir þjóðfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband