Það er ekki hægt að bjarga öllum

Það eru einhverjir sem ætlast til að stjórnvöld dragi upp töfrasprota, veifi honum og striki út skuldir fólks, felli niður verðtryggingu eða geri allt gott aftur með einhverri hókus-pókus aðgerð.

Þetta er bara ekki svo einfalt.

Skuldir einstaklinga vegna heimiliskaupa eru jú eðli málsins samkvæmt meðal eigna bankanna og Íbúðalánasjóðs.  Með því að gefa skuldurum á einhvern hátt eftir hluta skulda þeirra er gengið á þær eignir og svona aðgerð myndi á endanum þýða hærri vexti, aukna verðbólgu eða aukna skuldsetningu.

Staðreyndin er sú að fjöldi fólks hegðaði sér eins og fífl - tók gengisbundin lán 2007, þegar öllum hefði átt að vera ljóst að krónan var allt of sterk og húsnæðisverð var komið út yfir öll velsæmismörk.

Nú er Púkinn ekki að segja að það eigi að setja alla á hausinn sem fóru of geyst og fjárfestu í húsnæði umfram greiðslugetu, en það er einfaldlega ekki hægt að réttlæta aðgerðir sem eiga að bjarga öllum frá afleiðingum þeirra eigin heimskulegu ákvarðana, á kostnað þjóðarinnar.

Af tvennu illu líst Púkanum þó skár á aðgerðir sem myndu t.d. fela í sér að Íbúðalánasjóður yfirtæki húsnæðið upp í skuldir og fólk myndi borga leigu fyrir afnot af því, auk þess að borga af mismuni raunvirðis og upptökuvirðis húsnæðisins.  Greiðslubyrðin yrði mun minni og fólk hefði tryggt þak yfir höfuðið, en hins vegar yrði eignamyndunin engin - fólk yrði að gefa upp á bátinn drauminn um að eignast sitt eigið húsnæði.

Nei, þetta er ekki skemmtilegur valkostur, en sennilega illskárri en að missa allt.


mbl.is Hvetja til aðgerða vegna vanda heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Fólk með verðtryggð lán í íslenskum er líka að lenda í greiðsluerfiðleikum. Hvað er raunvirði og hvað er upptökuvirði? Hvernig og hver á að ákveða það?

Theódór Norðkvist, 24.11.2008 kl. 13:08

2 Smámynd: Púkinn

Það mætti nota eitthvað hlutlaust mat, eins og fasteignamat með föstum margfeldisstuðli - raunvirðið er að sjálfsögðu markaðsverð, en það er erfitt að ákvarða það um þessar mundir, af ýmsum ástæðum.

Púkinn, 24.11.2008 kl. 13:53

3 identicon

Þetta er vissulega alveg rökrétt hjá þér, ég hafði þessa skoðun sjálfur þar til fyrir skömmu. Fólk á að standa við sínar skuldbindingar.

Nú eru óvenjulegar aðstæður og nauðsynlegt að hugsa málin á nýjan hátt.

200 milljarðar voru færðar til eigenda peningamarkaðsbréfa. Það voru fjármagnseigendur sem fengu þetta fjármagn. SPRON virðist ekki fá sömu þjónustu enda hafa þeir enn ekki gert upp sjóði sína. Úr því að hægt var að rétta eignafólki gífurlega fjármuni, er þá ekki hægt að skoða stöðu þeirra sem verst eru settir.

Þeir sem tóku gengistryggð lán gerðu sér enga grein fyrir því að krónan gæti fallið svona mikið. Þeir hafa lent í hamförum. Voru ekki rök íslenska ríkisins fyrir því að standa ekki við Icesave skuldbindingar þau, að samningar gerðu ekki ráð fyrir að allt bankakerfið myndi hrynja.

Sjálfur er ég skuldlaus, en við sem ekki erum í vandræðum, höfum ávinning af því að komið sé til móts við mjög skuldugt fólk: Margir höfðu skotheldar áætlanir um að standa í skilum, en geta það ekki með nokkru móti núna. Við búum í samfélagi, og það þarf að halda því gangandi í friði og sátt.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 14:02

4 identicon

Þá er betri kostur fyrir fólk að lýsa sig gjaldþrota og byrja á núlli.

Var fólk ekki líka fífl að taka verðtryggð lán? Gengisfalli fylgir alltaf verðbólga.

Karma (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 14:32

5 identicon

Ef gjaldþrotalögum væri breytt þannig að fólk gæti byrjað á núlli og væri laust allra mála, þá er það besta lausnin örugglega fyrir marga.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 14:38

6 Smámynd: Púkinn

Hvað með þá sem fengu bara greiðslumat í gegn vegna þess að þeir svindluðu á kerfinu (skráðu bílinn á einhverja aðra til að lát líta út fyrir að þeir væru ekki með rekstrarkostnað á bíl í útgjöldum, nú eða fengu nokkrar milljónir lánaðar í nokkra daga, svona til að láta líta út fyrir að þeir ættu eignir) .... á líka að fyrirgefa þeim allt og gefa þeim í raun pening svo þeir geti líka byrjað á núlli?

Persónulega finnst mér forgangsmál að sjá til þess að sem fæstir lendi á götunni -- og að breyta lögum um gjaldþrot er ekki leiðin til þess.

Púkinn, 24.11.2008 kl. 15:44

7 Smámynd: Ibba Sig.

Jú, kannski á að láta Jón og Gunnu sem keyptu sér húsnæði á of háu verði út á guð og gaddinn. En þetta var hið eina sem var í boði, enginn annar var að selja húsnæði á lægra verði og það var enn sama veðrið á landinu þannig að ekki var hægt að vera bara úti með fjölskylduna. Ofan á bættist óárennilegur leigumarkaður.Og ekki hafði þetta fólk upplýsingar sem gátu hjálpað því að taka betri ákvarðanir. Allar upplýsingar sem almenningur fékk bentu til þess að hér væri allt í himnalagi og rúmlega það. Og fólk fékk engin lán nema komast í gegnum greiðslumat. 

Þar fyrir utan er ekki bara fólk sem tók "vond" lán að fara illa út úr þessu. Ég er brjáluð yfir minni stöðu, enda gert "allt rétt" í gegnum tíðina en það dugar ekki til.

Ég er með lán sem nemur rúmum árstekjum heimilisins, í íslenskum krónum, engin offjárfesting þar, 130 fm fyrir 6 manna fjölskyldu. Átti um 65% hlut í húsinu mínu en sú eign er óðum að hverfa, er væntanlega engin í dag þar fasteignir sem ekki er hægt að selja eru í raun verðlausar. Og lánið hækkar dag frá degi. Kannski ekkert mjög langt þar til ég verð tæknilega gjaldþrota. Og millistéttin öll eins og hún leggur sig.  Gerist kannski þegar krónunni verður fleytt og stórt verðbólguskot verður ofan á það sem þegar er komið. 

Þetta er vandinn. 

Ibba Sig., 24.11.2008 kl. 16:45

8 identicon

Við erum með menntamálaráðherra sem afskrifaði skuldir sínar, með því að flytja þær í einkahlutafélag í febrúar þegar hún fékk upplýsingar um veika stöðu bankanna. Hefði hún ekki gert þetta þá væri hún gjaldþrota í dag.

Fjöldi bankamanna hefur gert svipaða hluti. 

Þetta þykir sumum líklega sjálfsagt.

Almenningur á að vera í snörunni.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 17:09

9 Smámynd: Púkinn

umræða um siðleysi ráðamanna svarar ekki spurningunni um hvað (ef eitthvað) eigi að gera fyrir hinn almenna borgara.  Staðreyndin er einfaldlega að það er ekki hægt að bjarga öllum úr öllum þeirra vandræðum.

Hvar á að draga mörkin?

Púkinn, 24.11.2008 kl. 17:22

10 identicon

Það er ekki hægt að bjarga öllum, en ef vilji er fyrir hendi þá er hægt að færa byrgðar frá þeim sem allra verst eru settir yfir á hina sem eru betur staddir. Ávinningurinn er betra samfélag. 

Skuldugar fjölskyldur með börn ættu að hafa forgang.

Hægt er að aðstoða í gegn um skattkerfið.

Í raun er þetta flest til staðar nú þegar: vaxtabætur, barnabætur o.s.frv.

Nú eru extrím aðstæður, þannig að það þarf tímabundið að hækka þetta verulega, en hafa tekju- og eingatengt, borga út mánaðarlega.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 17:39

11 Smámynd: Púkinn

Vandamálið er bara það að þeir sem höfðu sitt á hreinu - voru skuldlausir, fóru ekki út í áhættusamar fjárfestingar, og spöruðu bara fyrir hlutunum áður en þeir keyptu þá munu þá líta þannig á að það sé verið að refsa þeim með því að láta þá taka á sig vandamál annarra.

Skapar það betra þjóðfélag að þínu mati?

Púkinn, 24.11.2008 kl. 17:44

12 Smámynd: Magnús Birgisson

Sæll

Þegar þú kallar fólk sem tók gengistryggt lán árið 2007 fífl þá tekurðu mikið uppí þig.  Í sögulegu ljósi hefur það verið skynsamlegra að taka gengistryggt lán en verðtryggt.  Þeir sem á annað borð geta siglt yfir kúfinn núna eru betur settir til framtíðar en þeir sem eru með verðtryggt og skiptir þá litlu máli hvenær lánið var tekið.

Ég hef bloggað um samanburð á gengistryggðu og verðtryggðu...sjá hér:

http://magnusbir.blog.is/blog/magnusbir/entry/701988/ 

Magnús Birgisson, 24.11.2008 kl. 18:22

13 identicon

Við fáum á okkur vandamál annarra hvort sem er. Þetta lendir á bönkunum, sem eru komnir í ríkiseigu. Síðan fer fólkið bara til útlanda.

Ég er alla vega til í að leggja eitthvað meira á mig til að bæta stöðu barnafólks í vanda.

Við getum ekki horft fram hjá þessum vandamálum. Að miklu leiti er þetta stjórnvöldum að kenna.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 19:30

14 Smámynd: Púkinn

Á árinu 2007 var krónan allt, allt of hátt skráð.  Þetta var augljóst öllum þeim sem reyndu að reka útflutningsfyrirtæki, en líka var hægt að sjá þetta á því kaupæði sem greip Íslendinga.

Svona ástand gat ekki varað til lengdar - og að taka gengisbundin lán á þeim tíma jafngilti því að veðja á áframhaldandi styrk krónunnar, sem var fáránlegt.  Já, ég kalla það fíflagang að taka gengisbundin lán á þeim tíma.

Púkinn, 24.11.2008 kl. 21:36

15 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég tek ofan fyrir þeim sem hefur tekist að safna fyrir fjárfestingum sínum og eiga sitt á þurru í dag. Gott mál fyrir þá.

Auðvitað er ekkert hægt að bjarga öllum, það er ljóst, en þeir sem eiga peninga og hafa allt sitt á þurru hafa e.t.v. ekki alveg efni á því að gerast dómarar yfir þeim sem ekki hafa verið svo lánsamir, af hvaða ástæðu sem það nú má vera sem að sjálfsögðu er einstaklingsbundið.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ólíklegt er að mér verði bjargað úr snörunni. Þegar greiðslumat fór fram hjá mér fyrir 2,5 árum þá var mín áætlun að kaupa 40 milljóna hús. Ég ætlaði mér ekki að kaupa 60 milljóna hús, það er ljóst. Því ég hefði að sjálfsögðu aldrei látið mig dreyma um að ég gæti staðið undir slíkri fjárfestingu. Allt í einu er ég hins vegar í þeirri stöðu eins og ég hefði keypt mér 60 milljóna hús á 80% láni. Aðrar forsendur greiðslumats míns hafa ekki breyst markvert og því ljóst að allar forsendur eru brostnar. Force majeur?  Spurning? Ég hef átt í verðtryggðum viðskiptum í 27 ár núna og ég verð bara að viðurkenna það að það dæmi getur aldrei gengið upp. Hef bloggað linnulaust nánast af þráhyggju gegn verðtryggingunni á síðu minni http://karlol.blog.is

Ég hef gjarnan lagt dæmið upp þannig að við eigum að leggja verðtrygginguna af núna og ég hef rökstutt það hvernig áhrif það muni hafa og hvernig það gæti virkað á bloggi mínu. Ég legg þetta til vegna þess að ég óska næstu kynslóðum (börnunum mínum m.a.) ekki svo ills að þau þurfi að ganga í gegnum lífið í þessu kerfi óbreyttu. Hvet allt fólk til að velta þessum möguleikum fyrir sér. Mín kynslóð, þ.e þau af okkur sem féllum í verðtryggingargildruna, verður sennilega að bíta í það súra epli að verða eignalaust. Sennilega heppilegast fyrir marga sem eru í svipaðri stöðu og ég að reyna að semja um afhendingu hússings sem andlags upp í skuldir sem eru komnar upp fyrir verðmætið og óska eftir nauðasamningi um að vera látið í friði með eftirstöðvarnar svo byrja megi að nýju á núlli. Hinn valkosturinn er að taka því að bankinn kjósi að elta uppi eftirstandandi skuldir og velta þá fyrir sér þeim möguleika að byrja frekar á núlli í öðru landi. Málið og valkostirnir eru svona kaldir og þeir eru svona raunverulegir. Það er tómt mál að tala um að fólk eigi bara að fá að búa í sínum húsum fyrir leigu og svo skuli það halda áfram að borga eftirstandandi höfuðstól og það áfram á verðtryggingunni (og hvaða vextir yrðu svo settir á þau lán, hjá þvílíku óreiðufólki sem hingað til hefur nú ekki fengið bestu vaxtakjörin í kerfinu). 

Ræða Benedikts Sigurðssonar á borgarafundinum í kvöld var frábær og sem töluð út úr mínu hjarta. Sonur minn sendi mér SMS á meðan á ræðunni stóð og sagði að ef maðurinn hefði ekki haft svona þykkan norðlenskan hreim hefði hann haldið að ég væri að tala þarna. Hvet alla sem ekki heyrðu til þess að kynna sér málflutning Benedikts til hlítar. En e.t.v. hefur ISG rétt fyrir sér og við losnum ekki við verðtrygginguna fyrr en við köstum krónunni. Sá dagur sem það gerist getur þá ekki komið of fljótt. Ég vil hins vegar halda því fram að við höfum tækifæri til þess að stíga þessi skref núna.

Ég er búinn að hlusta á mörg rök fyrir því að verðtryggingin sé sanngjarnt kerfi. Það er það hins vegar ekki og ég tel að flest eða öll slík rök hafi verið hrakin af mér og fjölda annarra, m.a. all nokkrum hagfræðingum. Verðtrygging er ígildi þess að prenta peninga vegna þess að verðbætur eru búnar til úr engu án þess að verðmæti komi á móti. Slíkt er almennt viðurkennt í hagfræðinni að er afar verðbólguhvetjandi. Þess vegna getur verðtrygging og verðstöðugleiki engan veginn farið saman og óraunhæft að gera ráð fyrir verbólgu sem er lægri en ca. 4% nokkru sinni.

Karl Ólafsson, 25.11.2008 kl. 01:05

16 Smámynd: Þórir Kjartansson

Algjörlega sammála Karli. Verðtryggingin er svikamylla, sem hefur valdið ótrúlegri eignatilfærslu í landinu og kyndir undir þenslu. Þegar hún var sett á var hún aldrei nein lækning heldur bara plástur á sjúkdómseinkenni verðbólgunnar.  Væri hun ekki til staðar, hefði fólk líka aldrei skuldsett sig eins mikið og raunin er. Þá sæi lántakinn strax hvað það kostaði að taka tiltekið lán en væri ekki að geyma vandann til seinni tíma og vona það besta.  Það er hamrað á því að afnám hennar skaðaði lífeyrissjóðina. það má vera en er betra að þúsundir fólks komi gjaldþrota inn á lífeyrisaldurinn  frekar en að fá einhverjum þúsundköllum meira þaðan.  Held að það sé ekki úr háum söðli að detta hjá þessum almennu lífeyrissjóðum.

Þórir Kjartansson, 25.11.2008 kl. 08:41

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvað finnst Púkanum um það að verið sé að afskrifa hundruðir ef ekki þúsundir milljarða af skuldum óreiðufyrirtækja útrásarliðsins? Sem rökstuddur grunur er um að verið sé að gera.

Skuldir heimilanna eru vasapeningar við hliðina á þeim. Eða hundruðir milljóna sem menntamálaráðherra og hennar maður skulda Kaupþing (=ríkinu) vegna verðlausra hlutabréfa?

Þetta ætlar hæstvirtur mentamálaráðherra að láta falla á þjóðina og sitja sem fastast ísínu embætti í sinni tugmilljóna höll og hesthúsi.

Theódór Norðkvist, 25.11.2008 kl. 09:40

18 identicon

Ef við tökum upp dollarinn þá getum við hent verðtryggingunni um áramótin.

Síðan er auðvelt að fara úr dollar yfir í evrur eftir 5 ár ef við göngum í ESB. (Ég er ekkert að mæla með því að ganga í ESB).

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 09:48

19 Smámynd: Púkinn

"Sannleikanum verður hver sárreiðastur"  var einu sinni sagt.

Ég get ekki að því gert að telja það hreina heimsku að fjárfesta í húsnæði þegar það var í hæstu hæðum og augljóst var að það væri bara spurning um tíma hvenær bólan springi.   Sama á við að taka myntkörfulán þegar krónan var allt, allt of sterk - það máttu allir vita að hún myndi falla - spurningin var bara hvenær og hve mikið.

Ég skal að vísu viðurkenna að það er ekki bara við lántakendur að sakast - bankarnir nýttu sér fáfræði og vanþekkingu fólks og fengu það til að taka lán sem það hafði í raun ekki efni á - en það breytir því ekki að margir þeirra sem nú sitja í súpunni eru þar vegna þess að þeir tóku heimskulegar ákvarðanir.

Það eru auðvitað aðrir sem eru í vandræðum af öðrum ástæðum - hafa e.t.v. lækkað í tekjum vegna yfirvinnustopps, minnkaðs starfshlutfalls, eða hafa hreinlega misst vinnuna.  Ég hef fulla samúð með því fólki sem er í vandræðum vegna ytri aðstæðna - en ég á bara bágt með að vorkenna þeim sem eru í vandræðum vegna ákvarðana sem þeir tóku sjálfir.

Hvað upptöku dollars varðar (athugasemd 20), þá eru það óraunhæfir draumórar - svona álíka gáfulegt og að skipta úr Celsíus yfir í Fahrenheit til að hækka hitann.  Það eru nokkrar ástæður fyrir því af hverju þetta myndi ekki leysa vandann. Meira um það síðar.

Hvað fanám verðtryggingar varðar (athugasemd 21) þá eru ýmsir gallar við það.  Þetta jafngildir því í raun að bankar og íbúðalánasjóður gefi skuldurum pening, en það er ekki hægt að búa þannig til pening úr engu.  Fyrir íbúðalánasjóð myndi þetta t.d. þýða að hann yrði að hækka vexti á lánum, eða að ríkið yrði að leggja honum til fé, sem fengist í raun ekki nema með skattahækkunum - á endanum er bara verið að færa pening milli fólks.

Púkinn, 25.11.2008 kl. 12:04

20 Smámynd: Sigurður Rúnar Ragnarsson

Það er ekki hægt að bjarga öllum.

Til að ræða fullyrðinguna þarf að skilgreina hvað er átt við með því að "bjarga"

Skuldir hvíla þungt á mörgum. Það er útgjaldaliður sem skuldarinn fær engu um ráðið eftir að skuldaviðurkenningin og skilmálar hennar hafa verið undirritaðar. Í heimilisrekstri geta flestir skorið niður neyslu, allt niður að því að mat og húsnæði fari að vanta. Það er fúlt og erfitt en hægt. Útgjöldum vegna skulda fáum við ekki breytt. Þess vegna hafa skuldarar áhyggur af því hvernig fer í þeirri óvissu sem nú ríkir. Við úrlausn þess skiptir ekki máli hvernig eða hvers vegna stofnað var til skuldanna, heldur hvernig má standa við loforðið að borga.

Verðtrygging og gengistrygging eru af sama meiði, tæki til að tryggja þann sem lánar.  Efnahagsþróun á Íslandi undanfarna áratugi hefur sýnt að þessi verkfæri eru varasöm fyrir skuldara svo ekki sé meira sagt.

Krónan er aðalleikari í þessum darraðadansi og stjórnvöld leikstjórinn. Áður fyrr fluttu stjórnvöld eignir milli þegnanna með gengisfellingum, nú skuldsetja þau þegnana til að gera "tilraun" til að stjórna genginu. Afborganir og vextir þeirra skulda eru óinnheimtir skattar. Allir sjá sem vilja að krónan á sér ekki viðreisnar von á tímum frjáls flæðis fjármagns og vinnuafls.

Verðtrygging er umdeild vegna þess hvernig hún er mæld. Mér sýnist að mælingaraðferðin tryggi ekki að skuldarinn borgi sömu verðmæti til baka og hann fékk, heldur gott betur. Stærsti kerfisgallin er að hækkun vísitölunnar auka skuldir heimila og fyrirtækja sem aftur hækka útgjöld sem aftur hækkar vísitöluna. Lánskjaravísitalan sjálf er sem sagt verðbólguhvetjandi.

Við núverandi aðstæður á að taka verðtyggingu fateignalána einstaklinga tímabundið úr sambandi með lögum. Ég kaupi ekki án frekari útskýringa að það leiði til greiðsluþrots Íbúðalanasjóðs. Fjárþörf hans til útlana hefur snarminnkað. Húsnæðiskaupavelta á höfuðborgarsvæðinu var um 7.000 viðskipti í nóvember 2007 á móti 900 í nóv. 2008 samkvæmt fasteignakálfi Morgunblaðsins.  Mér finnst ekki ósanngjarnt að með sama hætti verði verðtrygging á greislu til lífeyrissjóða vegna fateignalána einstaklinga sem þeir eiga hjá íbúðalanasjóði og bönkum afnumin til sama tíma. Það er að mestu leiti sama fólkið sem á réttindi í lífeyrissjóðunum og er að kikna undan fasteignalánum.

Þetta er engin björgun þegar til lengri tíma er litið. Hins vegar mun svona aðgerð tappa af áhyggjum og angist og gefa skuldurum andrúm til að ná vopnum sínum á ný, og sýna þeim sömu svart á hvítu hvaða áþján verðbólgan er.

Sigurður Rúnar Ragnarsson, 25.11.2008 kl. 12:30

21 Smámynd: Kebblari

Ég hugsaði, 60 milljón króna sérhæð á góðum stað í Reykjavík var til sölu fyrir ári síðan. Gott og blessað, hvað kostar slíkt, 60 milljón, 14 % stýrivextir og 5 % vextir, sem sagt 19% vextir líklegir næsta árið. það er um 11,5 miljón aðeins í vexti og verðbætur fyrsta árið. Sem sagt, að teknu tilliti til annarra gjalda, þá er jafnhagstætt að leigja fyrir eina milljón á mánuði eins og að kaupa þessa eign. En það voru sumir sem töldu að þessar eignir ættu eftir að hækka svo mikið í verði ... einmitt

Kebblari, 25.11.2008 kl. 23:56

22 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég verð að bæta aðeins í þessar umræður hér. Síðuhöfundur segir í athugasemd 22:
"Hvað fanám verðtryggingar varðar (athugasemd 21) þá eru ýmsir gallar við það.  Þetta jafngildir því í raun að bankar og íbúðalánasjóður gefi skuldurum pening, en það er ekki hægt að búa þannig til pening úr engu"

Það er með ólíkindum hvernig þessi umræða verður alltaf einhliða. Hér segir Púkinn að peningur verði til úr engu með því að verðtrygging verði afnumin. Gerir Púkinn sér ekki grein fyrir því að verðbætur eru peningur sem búinn er til úr engu? Peningur sem ekki er til í hagkerfinu! Með afnámi verðtryggingar þarf að reikna ýmsa hluti upp á nýtt. Útfærslan yrði ekkert einföld, en það er fullt af fólki búið að leggja fram fullt af tillögum um það hvernig sé hægt að gera þetta. Vitanlega er ekki hægt að afnema verðtryggingu af núgildandi lánasamningum án þess að reikna inn í það uppgjör á einhvern hátt þá vexti sem annars hefði þurft að greiða. En það er tómt mál að tala um að þeir vextir ættu að nema 20%.

Síðan segir Púkinn: "Fyrir íbúðalánasjóð myndi þetta t.d. þýða að hann yrði að hækka vexti á lánum, eða að ríkið yrði að leggja honum til fé, sem fengist í raun ekki nema með skattahækkunum - á endanum er bara verið að færa pening milli fólks."

Hefur einhverjum dottið í hug að vextir yrðu ekki að hækka með afnámi verðtryggingar? Eða að vextir yrðu ekki að vera breytilegir og stýrast að einhverju leyti af stýrivöxtum SÍ.  Hræðsluáróðurinn í lífeyrissjóðunum og stjórnmálamönnum þessa dagana er með þeim hætti að þeir benda á að vextir yrðu þá 20% um þessar mundir. Þá halda þeir að menn fái kannski hroll og hætti að krefjast afnáms verðtryggingar. En geta menn ekki séð að með þessu færu stýrivextir nú fyrst að hafa áhrif á neyslumynstur landsmanna. Það er vitanlega ekki hægt að standa af sér áfallalaust 20% vaxtaskot af húsnæðislánum, en það er heldur ekki hægt að ýta á undan sér þeim vanda og leggja hann endalaust ofan á höfuðstólinn. 20% vextir eru ekki eðlilegt ástand frekar en annað ástand sem hér ríkir þessa dagana og þær aðstæður kalla á sértækar aðgerðir. Án verðtryggingar yrði sem sagt líka þörf á sértækum aðgerðum til varnar heimilum landsins. En þegar vaxtastig væri komið niður í eðlilegra ástand sem gæti verið hlaupandi á bilinu 5-7%, með algerum tímabundnum hámörkum e.t.v. 9-11%, færu þá hlutirnir ekki að láta betur að stjórn?

Í kreppu afskrifast skuldir, það er viðurkennd hagfræðileg staðreynd. Af hverju er það tabú að slíkt geti gerst hjá skuldsettum íbúðarkaupendum? Það er sagt að eitt af stærri vandamálum Íra þessa dagana sé að þeir geta ekki skrifað niður húsnæðisskuldir með fallandi húsnæðisverði vegna þess að þeir geta ekki fellt gengi Evrunnar eins og þeir gætu ef þeir hefðu enn Puntið. Við getum það ekki vegna þess að verðtryggingin er orðin að náttúrulögmáli að mati sumra eins og Púkans, lífeyrissjóðanna, ILS, stjórnmálamanna og almennt annarra sem ekki hafa þurft að reyna það að standa undir verðtryggðum skuldum í 20-30 ár.

Karl Ólafsson, 27.11.2008 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband