Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Kristilegt klám

sex_in_christStundum rekst Púkinn á undarlegar bandarískar vefsíður.  Síður sem eru þess eðlis að hann getur ekki annað en hrist höfuðið, og verið feginn að þrátt fyrir að íslenskt þjóðfélag sé (því miður) stöðugt að líkjast því bandaríska mekra og meira, þá eigum við enn alllangt í land með að ná þeim í vitleysisgangi.

Bandaríkjamenn framleiða víst meira af klámefni en nokkur önnur þjóð en þeir eru líka sú vestræna þjóð sem tekur trúmál hvað alvarlegast.  Það er því ef til vill ekki undarlegt að upp komi spurningar um kristilegt klám, eða réttara sagt, hvaða skilyrði klámefni þurfi að uppfylla til að teljast kristilegt.

Þessi vefsíða svarar þeirri spurningu.

Jamm, jamm og jæja - enn einn moli af upplýsingum sem ég þurfti virkilega ekki að vita.


Guðfræðilegar rannsóknir?

atheist-ghost-buster.thumbnailPúkinn á ofurlítið bágt með að skilja eðli guðfræðilegra rannsókna.  Gott og blessað ef rannsóknirnar byggja á einhverju áþreifanlegu, svo sem samamburði á gömlum handritabrotum, en hvernig "rannsóknir" geta leitt eitthvað í ljós um tilvist Limbo er Púkanum hulin ráðgáta.  

Menn myndu hlæja sig máttlaus ef út kæmi niðurstaða eftir áratuga rannsóknir á jólasveinunum og fjölskyldu þeirra þar sem komist væri að þeirri niðurstöðu að í rauninni borðaði Grýla ekki óþekk börn - nún bara lokaði þau inni.

Að nota orðið "rannsóknir" yfir svona kjaftæði jaðrar við að vera móðgun gagnvart öllum þeim vísindamönnum sem stunda raunverulegar rannsóknir á raunverulegum fyrirbærum.

Púkanum stendur reyndar rétt á sama um vandræðaganginn hjá Vatíkaninu, enda er hann ekki kristinn, hvað þá kaþólskur.

Það er hins vegar von Púkans að svona umræða verði til að vekja einhverja til umhugsunar um á hversu veikum fótum öll trúarbrögð heims standa í raun - ef einhverjir fara að hugsa sjálfstætt í staðinn fyrir að taka mark á árþúsunda gömlum skáldsögum er það gott mál.


mbl.is Óskírð börn ekki lengur í forgarði vítis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glott að kirkjunni

gay_churchPúkinn getur ekki annað en glott að vandræðaganginum í kirkjunnar mönnum, og þeirri klemmu sem þeir eru í vegna mismunandi viðhorfa - viðhorfa gamla testamentisins þar sem litið er á samkynhneigða sem réttdræpan óþjóðalýð, viðhorfa nýja testamentisins, þar sem þeir eru syndarar sem ber að fyrirgefa og viðhorfa nútímans þar sem þeir eru jafn réttháir og aðrir og það að þeir kjósi sér rekkjunauta af sama kyni sé í raun svipað mál og að vera örvhentur - minnihlutahópur sem verður stundum fyrir óþægindum í þjóðfélagi sem ekki gerir alltaf ráð fyrir þeim.

Vandamál kirkjunnar er í raun það að nútíminn hafnar viðhorfum biblíunnar, þannig að kirkjan lendir í klemmu - á hún að halda fast við sínar úreltu kenningar eða á hún að reyna að aðlagast viðhorfum nútímans.

Það er í raun ekkert nýtt að biblían sé túlkuð á mismunandi vegu, eftir því sem vindar þjóðfélagsins blása hverju sinni, en þetta mál er óvenju erfitt, því að er fátt ef nokkuð í biblíunni sem þeir geta notað til að styðja þá skoðun að samkynhneigð sé réttlætanleg, hvað þá ásættanleg.

Í raun verður kirkjan að hafna hlutum biblíunnar og því viðhorfi sem þar kemur fram til að taka samkynhneigða í fulla sátt, en sé einum hluta biblíunnar hafnað, hvers vegna þá ekki að hafna meiru? Nánast allir hugsandi menn hafa fyrir löngu hafnað hlutum biblíunnar, svo sem sköpunarsögunni, en þeir sem trúa því að þessi bók hafi eitthvað raunverulegt gildi eiga alltaf bágt með að sætta sig við að hlutum hennar sé hafnað á einn eða annan hátt.

Þetta vandræðaástand snertir Púkann ekki neitt, enda er hann hvorki samkynhneigður né trúaður og hefur fyrir löngu hafnað því að biblían hafi nokkurt raunhæft gildi í dag, annað en sem hvert annað mannanna verk, bók sem lýsi úreltum viðhorfum fyrri tíma, bók uppfull af karlrembu og rasisma sem hefur í gegnum söguna gert mannkyninu meiri skaða en nokkuð annað verk.

Því meira sem strikað er út af henni, því betra.


mbl.is Biskup segir skiljanlegt að verklag kirkjunnar þyki varfærið og fálmkennt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

American Idol - "vote for the worst"

simonseacrestPúkinn horfir á American Idol í hverri viku. Púkinn hefur sömuleiðis horft á bresku X-Factor þættina frá upphafi.  Hvað íslensku útgáfurnar af þessum þáttum varðar, þá verður Púkinn hins vegar að viðurkenna að áhugi hans nær ekki svo langt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  Málið er nefnilega það að stór hluti af aðdráttaraflinu sem þessir þættir hafa byggir á dómurunum.

Hvort þessi meinta spenna milli Simon og Ryan er raunveruleg eða bara leikin er síðan annað mál.  Þessir þættir eru jú framleiddir sem skemmtiefni fyrst og fremst og hluti af því að skapa þeim vinsældir er að skapa umtal.  Sama á við um þróunaraðstoðarferð Simon og Ryan til Afríku - kannski er Púkinn bara skeptískur að eðlisfari en hann er ekki sannfærður um að 100% einlægni liggi þar á bakvið.

Hvað um það, þetta er skemmtilegt sjónvarpsefni, en hvers vegna vill Púkinn ekki horfa á íslnsku útgáfuna?

Jú, dómararnir verða nefnilega sjálfir að hafa "X-faktorinn" - þetta óskilgreinanlega "eitthvað" sem virkar eins og segull á fólk.  Simon hefur þennan X-Faktor og sömuleiðis hinir dómararnir, bæði í American Idol og bresku X-factor þáttunum.  Hér á Íslandi - tja ... jú Páll Óskar hefur þetta, en það er bara ekki nóg.   Þess vegna horfir Púkinn ekki á íslensku þættina.

Reyndar vildi Púkinn minnast á annað þessu tengt.  Vefsíðan votefortheworst.com  rekur harða baráttu fyrir því að kjósendur kjósi lélegasta keppandann í hverri viku, og stæra þeir sig af því að aðstoða við að halda Sanjaya Malakar inni meðan aðrir hæfari keppendur eru sendir heim.

Púkinn veit ekki til þess að sambærilegar vefsíður séu hér á landi, en kannski er þeirra ekki þörf?


mbl.is Svívirðingar í American Idol
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarfasismi

cautionAf hverju á ein trúarstofnun að hafa þau völd að geta sagt þeim sem ekki aðhyllast hennar trú fyrir um hvað þeir mega og hvenær?

Hvar er réttlætið í því að búddistum eða múslímum sé til að mynda bannað að spila bingó á þeim dögum sem teljast helgidagar samkvæmt tímatali kristninnar?

Þetta er að sjálfsögðu mismunun.  Búddistinn eða múslíminn má ekki fara eftir sínu trúarlega dagatali um það hvenær honum leyfist t.d. að spila bingó - aðeins sá kristni má gera slíkt.

Það er ekkert eðlilegt við þetta - hér er um að ræða leifar af úreltu fyrirkomulagi frá þeim tíma er völd kirkjunnar voru yfirgnæfandi í þjóðfélaginu.   Sá tími er liðinn, en því miður sitjum við enn uppi með óæskilegar leifar eins og þessar.

Púkinn er að sjálfsögðu trúlaus með öllu og ef hann hefði einhvern áhuga á bingó myndi hann sjálfsagt leita að öðrum skoðanabræðrum sínum til að spila við sig á páskadag, svona til að mótmæla þessum trúarfasisma. 


mbl.is Bannað að spila bingó á ákveðnum tímum um páska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð bloggelítunnar

Undir fyrirsögninni "Umræðan", sem áður hét "Valin blogg", birtast greinar eftir valda menn og konur.  Í þessum hóp eru landsþekktir einstaklingar og fólk sem fellur í hóp virkra bloggara sem hafa eitthvað málefnalegt fram að færa. Úr þessum flokki eru þau blogg síðan valin sem birtast á forsíðu mbl.is, en það beinir umferð til þeirra, sem aftur heldur við vinsældum elítunnar.  Samkvæmt lauslegri könnun sem Púkinn gerði, þá "á" þessi hópur stærsta hluta topp-50 listans og virðist lítið breytast frá viku til viku.

Púkanum varð í dag hugsað til þess að hve miklu leyti þessi lokaði hópur getur meðvitað, eða ómeðvitað stýrt bloggumræðunni.

Skoðum eitt dæmi.  Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir er einn fulltrúi bloggelítunnar - þetta er ekki meint neikvætt, því þótt Púkinn sé vissulega ósammála mörgu sem kemur frá henni (og Samfylkingunni almennt) er Bryndís þekkt manneskja, virkur bloggari og skrif hennar málefnaleg, þannig að hún á fyllilega skilið að vera í þessum hóp.  Sem stendur er Bryndís í 36. sæti á topp-50 listanum.

Bryndís bendir í dag á bloggsíðu Kristna Þjóðarflokksins, sem henni finnst furðuleg og er ljóst að hún mun væntanlega ekki verða sammála því sem þar mun koma fram í framtíðinni.  Með því að birta hlekk yfir á síðuna gerir Bryndís fólk forvitið (já, Púkann líka) og margir heimsækja síðuna fyrir vikið og hefur hún nú fengið hátt í 200 heimsóknir í dag.

Síðan fékk þannig verulega athygli sem hún hefði annars aldrei fengið.  Vond auglýsing er betri en engin auglýsing, ekki satt?  Var það þetta sem Bryndís vildi - vekja athygli á aðilum sem hún virðist verulega ósammála?

Bloggelítan er að hluta eins og forystusauðir, sem leiða umræðuna, en verða að gæta sín að villast ekki í þokunni og falla fyrir björg.

(Það að Púkinn er sammála Bryndísi um Kristilega Þjóðarflokkinn er síðan allt annað mál og Púkinn er reyndar farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af því að hafa tvisvar á jafn mörgum vikum verið sammála Samfylkingarmanneskju - hitt málið varðaði strætisvagnafargjöld)


Xenu-dagurinn er í dag

xenuÍ dag er rétti dagurinn til að klæða sig í geimverubúning og detta ærlega í það.

Það er að minnsta kosti skoðun þeirra sem halda upp á Xenu daginn á hverju ári á þeim laugardegi sem er næstur 13. mars, fæðingardegi Ron L. Hubbard, stofnanda Vísindakirkjunnar - þessa furðulega söfnuðar sem John Travolta og Tom Cruise tilheyra.

Vísindakirkjan hefur reyndar lítið að gera með vísindi - en því meira með vísindaskáldsögur.  Þeir sem ganga í söfnuðinn fá reyndar ekki að heyra um Xenu strax.  Fyrst þurfa þeir að fara í gegnum langt ferli sem tekur einhver ár og borga milljónir fyrir kennsluna sem verður dýrari með hverju skrefinu.

Þegar safnaðarmeðlimir hafa borgað allmargar milljónir og náð svokölluðu OT-3 stigi, þá fá þeir að heyra söguna um Xenu.

Sú saga er svona:

Einu sinni fyrir langa löngu (fyrir 73 milljónum ára til að vera nákvæmur) var einvaldur í geimnum sem nefndist Xenu.  Xenu stjórnaði öllum plánetunum í okkar hluta Vetrarbrautarinnar, þar á meðal jörðinni, nema hvað hún hét Teegeeack á þeim tíma.

Xenu átti við vandamál að stríða.  Það var offjölgun á öllum plánetunum hans, eða um 178 milljarðar á hverri plánetu.  Xenu vildi leysa offjölgunarvandamálið og hann var með áætlun.

Xenu tók sér einræðisvald og með aðstoð geðlækna lét hann kalla eftir milljörðum lífvera til að skoða skattaframtöl þeirra, en í staðinn var þeim gefin lömunarsprauta.

Síðan var þeim raðað í geimskip sem litu alveg eins út og DC-8 flugvélar, nema þær höfðu eldflaugahreyfla.

Þessum geimskipum var síðan flogið til jarðarinnar, þar sem einstaklingunum var staflað í kringum eldfjöll.  Þegar því var lokið var vetnissprengjum komið fyrir í eldfjöllunum, þær sprengdar samtímis og allir voru drepnir.

Sagan endar ekki hér. Þar sem þessar lífverur höfðu sálir (þetana), þurfti að plata sálirnar til að koma ekki aftur.  Þeim var því safnað saman með rafgildrum og þeim pakkað í kassa sem var farið með í kvikmyndahús, þar sem sálirnar voru látnar eyða mörgum dögum í að horfa á þrívíddarmyndir sem sögðu þeim að þær væru Guð, djöfullinn eða Jesús.

Þegar myndasýningunni lauk og sálirnar yfirgáfu kvikmyndahúsið hengu sálirnar saman, því þær höfðu séð sömu myndirnar og héldu að þær væru sama veran.  Þessir sálnaklasar tengdust síðan þeim líkömum sem enn voru til.

Hvað Xenu varðar, þá var hann að lokum tekinn til fanga og lokaður inn í fjalli þar sem honum er haldið í orkusviði sem er knúið af eilífðarrafhlöðu.

Svona endar sagan - þetta er ástæðan fyrir öllum vandamálum mannanna - við okkur hanga klasar af andlegum sníkjudýrum, sálir geimvera sem voru sprengdar í tætlur.

Er þetta heimskuleg saga?  Já, en þetta er ein af mikilvægustu trúarsetningum safnaðarins - stórisannleikurinn sem meðlimir fá loksins að vita eftir veruleg fjárútlát og margra ára meðferð, þar sem þeir eru tengdir við lygamæli langtímum saman og yfirheyrðir.

Sem sagt, góð ástæða fyrir okkur hin til að fara í geimverubúning og detta í það. 


Máttur bænarinnar

hands_of_prayerHvað á fólk við þegar það talar um "mátt bænarinnar"?

Nú ætlar Púkinn ekki að halda því fram að bænir hafi engan mátt, en honum þykir nokkuð augljóst að bænir geti haft sama mátt og hugleiðsla, róað hugann, lækkað blóðþrýsting eða aukið losun endorfína.

Það sem Púkinn á bágt með að trúa er að bænir geti haft nokkur áhrif fyrir utan líkama þess sem biðst fyrir.

Þetta er hins vegar unnt að rannsaka.  Frændi Darwins, Francis Galton var sá fyrsti til að gera það.  Hann benti á að á hverjum sunnudegi væri beðið fyrir heilsu konungsfjölskyldunnar í öllum kirkjum Bretlands.  Ef þær bænir hefðu áhrif ætti konungsfjölskyldan að vera við betri heilsu en aðrir.  Hann skoðaði málið, en fann engan mun.

Galton gerði líka tilraun með að skipta landssvæði upp í skika, velja suma þeirra af handahófi og biðja fyrir þeim til að athuga hvort plöntur í þeim yxu hraðar (sem þær gerðu ekki).

Nú má gagnrýna þessar tilraunir, bæði frá vísindalegum og trúarlegum sjónarhóli, en í apríl 2006 voru birtar niðurstöður rannsóknar í American Heart Journal.  Sú rannsókn uppfyllir allar vísindalegar kröfur.

Dr. Herbert Benson og aðstoðarfólk hans fylgdist með heilsu 1802 sjúklinga í 6 spítölum sem höfðu farið í hjartaþræðingu.  Þeim var skipt í þrjá hópa.

  • Hópur 1: Það var beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því.
  • Hópur 2: Það var ekki beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því
  • Hópur 3: Það var beðið fyrir þessum hópi og þeir vissu af því.

Væntingar þeirra sem stóðu að rannsókninni voru að sá munur sem kæmi fram milli hópa 1 og 2 myndi sýna mátt bænanna, en munur á hópi 1 og 3 myndi sýna "psychosomatic" áhrif þess að vita af bænunum.

Bænirnar fóru fram í kirkjum í Minnesota, Massachusetts og Missouri.  Þeim sem báðust fyrir voru afhentir listar með hluta nafns ("John E.") viðkomandi sjúklinga.  Ólíkt Galton sem minnst var á áðan efaðist enginn um að væru framkvæmdar af einlægum trúmönnum.

Niðurstöðurnar?

Jú, enginn marktækur munur var á hópi 1 og 2, en hins vegar sýndi hópur 3 mun verri útkomu en hópur 1.  Sennilegasta skýringin er sú að sjúklingarnir í hópi 3 hafi meðvitað eða ómeðvitað litið svo á að ástand þeira væri slæmt, fyrst það þyrfti að biðja fyrir þeim og það hafi dregið þá niður.

Svona fór um það.


Íslenskir munkar?

scriptorium-monk-at-work-571x536Púkinn efast um að margir Íslendingar séu reiðubúnir til að ganga í klaustur, þannig að ef af stofnun munkaklausturs í Reyðarfirði verður, þá má væntanlega gera ráð fyrir að flestir munkanna erði erlendir.  Það er hvorki gott né slæmt í sjálfu sér - það bara er þannig.

Hins vegar eru skoðanir Púkans á klaustrum nokkuð blendnar.  Hér á Íslandi gegndu klaustrin óneitanlega mikilvægu hlutverki fyrr á öldum og eiga stóran þátt í því að menningararfur okkar Íslendinga varðveittist.

Klausturlíf getur einnig sjálfsagt verið gott fyrir marga - það er væntanlega minni streita þar en á flestum öðrum stöðum.  

Ýmislegt gott hefur einnig komið frá klaustrum í gegnum tíðina og má þar á meðal nefna nótnaskrift og rannsóknir Mendels, 

Hins vegar finnst Púkanum klaustur nú á vissan hátt vera tímaskekkja og hefur alvarlegar efasemdir um að klaustur uppfylli þarfir í nútíma þjóðfélagi sem ekki er unnt að gera á annan hátt.


mbl.is Klaustur á Kollaleiru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lömunarveiki og samsæriskenningar

PolioÞað er dapurlegt að það hafði næstum tekist að útrýma lömunarveiki í heiminum fyrir nokkrum árum - í árslok 2004 voru aðeins rúm 1200 tilvik í heiminum,  en þá kom sá orðrómur upp í nokkrum múslímaríkjum að bóluefnið væri hluti af bandarísku samsæri til að gera börn múslíma ófrjó.

Nokkrir trúarleiðtogar í Nígeríu básúnuðu þetta út og samsæriskenningin breiddist út um hinn íslamska heim.

Nú í dag er lömunarveikin búin að ná sér á strik í sex löndum (Afghanistan, Egyptalandi, Indlandi, Níger, Nígeríu og Pakistan) og stök tilvik í nokkrum öðrum löndum.

Þótt yfirvöld í Bangladesh séu að bregðast við af skynsemi er staðan því miður sú í sumum öðrum löndum að ekki er unnt að framkvæma bólusetningar vegna aðstöðu klerkanna.

Enn eitt dæmi um hvernig fordómar af trúarlegum rótum geta verið skaðlegir.


mbl.is Herferð gegn lömunarveiki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband