Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Heródes hvað?

coin_herod_bmPúkinn á bágt með að skilja viðbrögð sumra þeirra sem virðast telja að fundur grafar Heródesar staðfesti á einhvern hátt sögur Biblíunnar, ekki frekar en að tilvist bæjarins Betlehem staðfesti að tiltekinn óskilgetinn krakki hafi fæðst þar.  Ólíkt þeim sögum hefur aldrei verið efast um tilvist Heródesar og mörg atriði í sögu hans eru vel þekkt.  Það eru til peningar með nafni hans á og margvíslegar traustar samtímaheimildir.

Það að gröfin er fundin er í sjálfu sér fréttnæmt, en það breytir engu varðandi trúverðugleika eða sannleiksgildi Biblíunnar.

Það er nú kannski skiljanlegt að þeir sem trúa því að allt sé satt sem stendur í Biblíunni fagni þessari frétt - því eftir því sem því sem tíminn líður eru nú fleiri og fleiri að átta sig á því hve mikið af Biblíunni er skáldskapur, saminn eða "lagfærður" til að henta hagsmunum þeirra sem réðu á hverjum tíma.

Nei, gröf Heródesar er merk sem slík - hún veitir upplýsingar um ákveðna hluti fyrir 2000 árum síðan - en þetta kemur Biblíunni bara ekkert við.


mbl.is Gröf Heródesar fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækniþróunarsjóður - og svo hvað ?

Íslenskir stjórnmálamenn eru enn við sama heygarðshornið - halda að öll vandamál sé hægt að leysa með því að moka í þau peningum.

Nú er Púkinn ekki að segja að það sé slæmt að styrkja Tækniþróunarsjóð, en leysir það raunverulega vandamálið?  Staðreyndin er sú að ekki gengur eins vel að breyta hugvitinu í framleiðsluvörur hér á landi eins og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Og hvers vegna skylkdi það nú vera?  Jú, það skyldi þó aldrei vera vegna þess að aðstæður fyrir hátæknifyrirtæki eru einfaldlega mun lakari hér á landi en erlendis.

Það er margt sem spilar þar inn, en Púkinn ætlar sem stendur bara að nefna nokkur atriði:

  • Fjandsamlegt skattaumhverfi fyrir einyrkja sem vilja stofna fyrirtæki sem byggir á hugviti.
  • Alger skortur á fjárfestum sem hafa áhuga á fjárfestingum í fyrirtækjum af millistærð.
  • Öryggisleysi í gagnaflutningsmálum
  • Enginn  stuðningur við R&Þ í gegnum skattakerfið.
  • Verulegur skortur á hæfu fólki.
  • Ósanngjörn samkeppni opinberra aðila.
  • Ofurkrónan, sem er að murka lífið úr útfluningsfyrirtækjunum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að meðan umhverfið er þannig að fyrirtækin eru að flytja starfsemina að stærri og stærri hluta úr landi, þá skiptir það einfaldlega ekki máli hvort einhverjum milljónahundruðum meira eða minna er hent í Tækniþróunarsjóð - það mun ekki breyta neinu til lengri tíma litið.


mbl.is Stefnt að tvöföldun framlaga til Tækniþróunarsjóðs til ársins 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu kaupa tunglið?

lunarmapÞað er stundum hreint ótrúlegt hversu hugmyndaríkir menn geta verið þegar að því kemur að hafa peninga af öðrum á vafasaman hátt.

Dennis Hope, fyrrverandi búktalari og skósölumaður er einn af þeim hem hefur gengið vel í viðskiptum sínum, sem eru á svolítið á gráu svæði, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Árið 1980 gerði hann tilkall til tunglsins, og síðar til margra annarra hnatta í sólkerfinu.  Hann hefur síðan "selt" viðskiptavinum landsskika (eða "tunglsskika") á $19.95 í nafni Lunar Embassy fyrirtækis síns.

Bull?  Að sjálfsögðu, enda er enginn lagalegur grundvöllur fyrir tilkalli hans til tunglsins.  Tölur um viðskiptavini eru reyndar á reiki, en salan náði a.m.k. einni milljón dollara í fyrra.

Aðrir álíka hugmyndaríkir einstaklingar selja stjörnurnar, eða réttara sagt, þiggja pening fyrir að þykjast hafa skírt viðkomandi stjörnu í höfuðið á viðkomandi.

Í báðum þessum tilvikum fær fólk síðan fallegt útprentað skjal sem fer vel uppi á vegg, en gefur engan raunverulegan rétt, þótt margir viðskiptavinanna haldi það.


Vorið að koma...eða þannig

snowdropFyrir nokkrum dögum hélt Púkinn að vorið væri að koma.  Vetrargosarnir og krókusarnir voru byrjaðir að blómstra og þrestirnir voru syngjandi í trjánum.

Púkinn mætti út í garð til að tína saman rusl og gerði ráðstafanir til að fá menn til að klippa limgerðin.

En skjótt skipast verður í lofti - og nú er jörð orðin alhvít aftur.

Hvenær ætlar Púkanum að lærast að taka mark á veðurspánum - þótt þær séu nú ekki fullkomnar eru þær oftar réttar en ekki - og eitthvað hafði nú verið minnst á kólnandi veður um helgina, það verður að viðurkennast.

Púkanum finnst að þessu leyti þægilegt að vera ekki veðurfræðingur - hann þarf aldrei í sínu starfi að brjóta niður væntingar annarra.

Humm..humm... ætli ekki sé best að setjast bara upp í sófa með bók og bíða svo eftir að veðrið skáni og vorið komi fyrir alvöru.


Xenu-dagurinn er í dag

xenuÍ dag er rétti dagurinn til að klæða sig í geimverubúning og detta ærlega í það.

Það er að minnsta kosti skoðun þeirra sem halda upp á Xenu daginn á hverju ári á þeim laugardegi sem er næstur 13. mars, fæðingardegi Ron L. Hubbard, stofnanda Vísindakirkjunnar - þessa furðulega söfnuðar sem John Travolta og Tom Cruise tilheyra.

Vísindakirkjan hefur reyndar lítið að gera með vísindi - en því meira með vísindaskáldsögur.  Þeir sem ganga í söfnuðinn fá reyndar ekki að heyra um Xenu strax.  Fyrst þurfa þeir að fara í gegnum langt ferli sem tekur einhver ár og borga milljónir fyrir kennsluna sem verður dýrari með hverju skrefinu.

Þegar safnaðarmeðlimir hafa borgað allmargar milljónir og náð svokölluðu OT-3 stigi, þá fá þeir að heyra söguna um Xenu.

Sú saga er svona:

Einu sinni fyrir langa löngu (fyrir 73 milljónum ára til að vera nákvæmur) var einvaldur í geimnum sem nefndist Xenu.  Xenu stjórnaði öllum plánetunum í okkar hluta Vetrarbrautarinnar, þar á meðal jörðinni, nema hvað hún hét Teegeeack á þeim tíma.

Xenu átti við vandamál að stríða.  Það var offjölgun á öllum plánetunum hans, eða um 178 milljarðar á hverri plánetu.  Xenu vildi leysa offjölgunarvandamálið og hann var með áætlun.

Xenu tók sér einræðisvald og með aðstoð geðlækna lét hann kalla eftir milljörðum lífvera til að skoða skattaframtöl þeirra, en í staðinn var þeim gefin lömunarsprauta.

Síðan var þeim raðað í geimskip sem litu alveg eins út og DC-8 flugvélar, nema þær höfðu eldflaugahreyfla.

Þessum geimskipum var síðan flogið til jarðarinnar, þar sem einstaklingunum var staflað í kringum eldfjöll.  Þegar því var lokið var vetnissprengjum komið fyrir í eldfjöllunum, þær sprengdar samtímis og allir voru drepnir.

Sagan endar ekki hér. Þar sem þessar lífverur höfðu sálir (þetana), þurfti að plata sálirnar til að koma ekki aftur.  Þeim var því safnað saman með rafgildrum og þeim pakkað í kassa sem var farið með í kvikmyndahús, þar sem sálirnar voru látnar eyða mörgum dögum í að horfa á þrívíddarmyndir sem sögðu þeim að þær væru Guð, djöfullinn eða Jesús.

Þegar myndasýningunni lauk og sálirnar yfirgáfu kvikmyndahúsið hengu sálirnar saman, því þær höfðu séð sömu myndirnar og héldu að þær væru sama veran.  Þessir sálnaklasar tengdust síðan þeim líkömum sem enn voru til.

Hvað Xenu varðar, þá var hann að lokum tekinn til fanga og lokaður inn í fjalli þar sem honum er haldið í orkusviði sem er knúið af eilífðarrafhlöðu.

Svona endar sagan - þetta er ástæðan fyrir öllum vandamálum mannanna - við okkur hanga klasar af andlegum sníkjudýrum, sálir geimvera sem voru sprengdar í tætlur.

Er þetta heimskuleg saga?  Já, en þetta er ein af mikilvægustu trúarsetningum safnaðarins - stórisannleikurinn sem meðlimir fá loksins að vita eftir veruleg fjárútlát og margra ára meðferð, þar sem þeir eru tengdir við lygamæli langtímum saman og yfirheyrðir.

Sem sagt, góð ástæða fyrir okkur hin til að fara í geimverubúning og detta í það. 


Við karlmenn hrjótum ekki!

SnorEnder-homepage_picÞað er til fjöldi af tækjum og uppfinningum sem ætlað er að koma í veg fyrir hrotur. Þar á meðal má nefna þá leið að sauma eitthvað (svo sem tvinnakefli eða tennisbolta) á bakið á náttfötunum, til að koma í veg fyrir að viðkomandi leggist á bakið.  Svo eru líka til koddar sem eiga að halda munninum lokuðum eða nefklemmur sem þenja út nasirnar.  Jafnvel eru til tæki sem dæla lofti inn um nefið.

Öll þessi tæki eiga eitt sameiginlegt - þau valda notandanum óþægindum.

Ef einhverjum tækist að finna upp þægilegt tæki sem getur fyrirbyggt hrotur gæti sá orðið ríkur á því.

Hvað Púkann varðar, þá hrýtur hann að sjálfsögðu ekki - það er bara ímyndun í konunni hans.


mbl.is Hrotur maka kosta mikinn svefn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítamín eru góð (í hófi)

baetiefni1Það er ekkert nýtt að bent sé á skaðleg áhrif af ofneyslu vítamína, en Púkinn vill nú samt minna á að ekki eru öll vítamín undir sömu sök seld.

Til einföldunar má skipta vítamínum í tvo flokka, vatnsleysanleg og fituleysanleg.

Fituleysanlegu vítamínin geta safnast upp í líkamanum og það eru þau sem geta valdið eiturverkunum og geta verið lífshættuleg í óhófi.  Þetta eru A, D, E og K vítamín.

Ofneysla A vítamíns getur valdið einkennum eins og flagnandi húð, hárlosi, beinverkjum, en ofneysla D vítamíns getur valdið hægðatregðu, þunglyndi og almennum slappleika.  Enn stærri skammtar geta síðan valdið lífshættulegri nýrnabilun.  E og K vítamín geta einnig valdið eitrunum, en þær eru mun sjaldgæfari, enda er mun algengara að fólk taki inn stóra skammta af A og D vítamínum, til dæmis með lýsisneyslu, en E og K.

Púkinn hefur einnig heyrt að ísbjarnalifur innihaldi það mikið magn af A (og D) vítamínum að hún sé stórhættuleg en grænlenskir veiðimenn munu víst hafa lært þá lexíu fyrir longu síðan.

Eins og Púkinn sagði, þá er þetta ekkert nýtt.

Vatnsleysanlegu vítamínin (B og C) eru hins vegar meinlausari þótt þau séu tekin í óhófi þar sem hjá fólki með eðlilega nýrnastarfsemi skiljast þau jafnóðum út með þvagi.  Samt er ofneysla þeyrra ekki alveg meinlaus.  Púkinn notaði sjálfur á sínum tíma mikið af C-vítamíni á formi freyðitaflna, þegar hann var að venja sig af kókdrykkju.  Var svo komið að dagneyslan mun hafa verið um 2 grömm af C-vítamíni.

Áhrifin létu ekki á sér standa - hlandið í Púkanum varð svo súrt að hann endaði á spítalanum með nýrnasteina.

Síðan þá hefur Púkinn farið varlega í vítamínneyslunni.


mbl.is Fjörefnin banvæn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafmagnsbílar og aðrir bílar

hydrocarPúkinn er að velta fyrir sér hvort hann sé óþarflega tortrygginn, eða hvort það sé tilviljum að þetta útspil ríkisstjórnarinnar komi fram einmitt núna, rétt fyrir kosningar, þegar flokkarnir virðast vera í einhvers konar grænkukeppni.

Nú má ekki skilja það sem svo að Púkinn sé andvígur þessu útspili - síður en svo.  Hér er um að ræða verulega framför frá því viðhorfi sem ríkti hjá stjórnvöldum áður fyrr.

Púkin man eftir því að fyrir um 20 árum síðan var einn rafmagnsbíll hér á landi, sem stóð lengi á gólfinu á jarðhæð VR-II byggingar Háskólans.  Ástæða þess að bíllinn var þar var að í stað þess að stjórnvöld á þeim tíma styddu tilraunanokkun slíks bíls hér á landi, var þvert á móti unnið gegn notkun hans, til dæmis með kröfum um greiðslu á þungaskatti - ekki vegna þess að bíllinn væri sérstaklega þungur, heldur vegna þess að hann var ekki bensínknúinn.

Púkinn ekur sjálfur mjög lítið - innan við 5000 kílómetra á ári, enda gengur hann venjulega í vinnuna.  Púkinn á hins vegar bíl, sem ekki telst sérstaklega vistvænn - ef til vill verður brátt tími til að skipta honum út, til dæmis fyrir einhvern framúrstefnulegan rafbíl eins og þann sem sjá má á meðfylgjandi mynd.


mbl.is Ríkisstjórnin vill stuðla að aukinni notkun vistvænna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máttur bænarinnar

hands_of_prayerHvað á fólk við þegar það talar um "mátt bænarinnar"?

Nú ætlar Púkinn ekki að halda því fram að bænir hafi engan mátt, en honum þykir nokkuð augljóst að bænir geti haft sama mátt og hugleiðsla, róað hugann, lækkað blóðþrýsting eða aukið losun endorfína.

Það sem Púkinn á bágt með að trúa er að bænir geti haft nokkur áhrif fyrir utan líkama þess sem biðst fyrir.

Þetta er hins vegar unnt að rannsaka.  Frændi Darwins, Francis Galton var sá fyrsti til að gera það.  Hann benti á að á hverjum sunnudegi væri beðið fyrir heilsu konungsfjölskyldunnar í öllum kirkjum Bretlands.  Ef þær bænir hefðu áhrif ætti konungsfjölskyldan að vera við betri heilsu en aðrir.  Hann skoðaði málið, en fann engan mun.

Galton gerði líka tilraun með að skipta landssvæði upp í skika, velja suma þeirra af handahófi og biðja fyrir þeim til að athuga hvort plöntur í þeim yxu hraðar (sem þær gerðu ekki).

Nú má gagnrýna þessar tilraunir, bæði frá vísindalegum og trúarlegum sjónarhóli, en í apríl 2006 voru birtar niðurstöður rannsóknar í American Heart Journal.  Sú rannsókn uppfyllir allar vísindalegar kröfur.

Dr. Herbert Benson og aðstoðarfólk hans fylgdist með heilsu 1802 sjúklinga í 6 spítölum sem höfðu farið í hjartaþræðingu.  Þeim var skipt í þrjá hópa.

  • Hópur 1: Það var beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því.
  • Hópur 2: Það var ekki beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því
  • Hópur 3: Það var beðið fyrir þessum hópi og þeir vissu af því.

Væntingar þeirra sem stóðu að rannsókninni voru að sá munur sem kæmi fram milli hópa 1 og 2 myndi sýna mátt bænanna, en munur á hópi 1 og 3 myndi sýna "psychosomatic" áhrif þess að vita af bænunum.

Bænirnar fóru fram í kirkjum í Minnesota, Massachusetts og Missouri.  Þeim sem báðust fyrir voru afhentir listar með hluta nafns ("John E.") viðkomandi sjúklinga.  Ólíkt Galton sem minnst var á áðan efaðist enginn um að væru framkvæmdar af einlægum trúmönnum.

Niðurstöðurnar?

Jú, enginn marktækur munur var á hópi 1 og 2, en hins vegar sýndi hópur 3 mun verri útkomu en hópur 1.  Sennilegasta skýringin er sú að sjúklingarnir í hópi 3 hafi meðvitað eða ómeðvitað litið svo á að ástand þeira væri slæmt, fyrst það þyrfti að biðja fyrir þeim og það hafi dregið þá niður.

Svona fór um það.


Lömunarveiki og samsæriskenningar

PolioÞað er dapurlegt að það hafði næstum tekist að útrýma lömunarveiki í heiminum fyrir nokkrum árum - í árslok 2004 voru aðeins rúm 1200 tilvik í heiminum,  en þá kom sá orðrómur upp í nokkrum múslímaríkjum að bóluefnið væri hluti af bandarísku samsæri til að gera börn múslíma ófrjó.

Nokkrir trúarleiðtogar í Nígeríu básúnuðu þetta út og samsæriskenningin breiddist út um hinn íslamska heim.

Nú í dag er lömunarveikin búin að ná sér á strik í sex löndum (Afghanistan, Egyptalandi, Indlandi, Níger, Nígeríu og Pakistan) og stök tilvik í nokkrum öðrum löndum.

Þótt yfirvöld í Bangladesh séu að bregðast við af skynsemi er staðan því miður sú í sumum öðrum löndum að ekki er unnt að framkvæma bólusetningar vegna aðstöðu klerkanna.

Enn eitt dæmi um hvernig fordómar af trúarlegum rótum geta verið skaðlegir.


mbl.is Herferð gegn lömunarveiki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband