Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Stóra vandamálið við afurðir klónaðra lífvera

clonedcowsÞrátt fyrir að Evrópusambandið hafi sagt kjöt- og mjólkurafurðir klónaðra lífvera hættulausar, setja margir sig upp á móti þeim.  Oft virðist það sökum fáfræði - Púkanum sýnist sumir t.d. ekki gera sér grein fyrir muninum á erfðabreyttum lífverum og klónuðum lífverum.

Það er hins vegar ein góð ástæða fyrir því að berjast gegn klónun lífvera sem eru notaðar til matvælaframleiðslu. Segjum t.d. að við höfum kú sem framleiðir 20% meiri mjólk en aðrar kýr.  Það væri freistandi að klóna þá kú - já koma upp heilli hjörð af kúm sem eru erfðafræðilega eins og sú upphaflega, því væntanlega myndu klónuðu kýrnar vera jafn góðar til mjólkurframleiðslu. Á svipaðan hátt mætti finna "besta" holdanautið, klóna það og svo framvegis.

Afurðirnar af þessum klónuðu gripum yrðu óþekkjanlegar frá afurðunum af upphaflegu gripunum og allir yrðu ánægðir, eða hvað?

Nei, það er nefnilega eitt vandamál til staðar, sem fæstir gera sér grein fyrir. 

Stóra hættan við þetta er sú að þetta leiðir til erfðafræðilegar einsleitni.  Yrði klónun útbreidd, er hætt við því að einhver gen myndu smám saman deyja út og við sætum eftir með mun fáskrúðugra genamengi.

Slíkt gerir tegundina mun viðkvæmari fyrir sjúkdómum.  Þetta sést í dag með bananaplöntur, en þeim hefur verið fjölgað með klónun áratugum saman og megnið af þeim bönunum sem eru á borðum Íslendinga eru af örfáum klónum.  Bananaplönturnar eru orðnar mjög viðkvæmar gagnvart plöntusjúkdómum sem ekki hrjá villta ættingja þeirra.

Ef einhver sjúkdómur kemur upp, þá eru allir klónuðu einstaklingarnir jafn næmir - það er kippt út möguleikanum á að hinir hæfustu lifi af - kippt út einu því mikilvægasta sem hefur stjórnað þróun lífsins hér á jörðinni síðustu milljarða ára. 

Þess vegna er klónun slæm hugmynd. 


mbl.is ESB: Kjöt og mjólkurafurðir klónaðra dýra skaðlausar mönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afspyrnuléleg fréttamennska

Northern lightsSumar fréttir eru vel unnar, en aðrar ekki - og sú sem hér er vísað í tilheyrir síðari hópnum.  Það verður að gera kröfu um að fjölmiðlar hafi lágmarksþekkingu á málum sem þeir fjalla um og geti skilið aðalatriðin frá aukaatriðunum.  Þetta er því miður allt of algengt vandamál þegar kemur að vísindatengdu efni.

Upphaflega fréttin snýst nefnilega ekki um orku úr hlöðnum eindum frá sólinni - tilvist þeirra hefur verið vel þekkt áratugum saman. Nei, raunverulega fréttin varðar uppgötvun á eins konar flæktum segulsviðum, sem líkt hefur verið við "segulreipi" sem tengir jörð og sól.

Það er fréttin - ekki það sem stendur í íslensku fréttinni.  Til að sjá "alvöru" útgáfu af umræddri frétt vill Púkinn t.d. vísa áhugasömum hingað.


mbl.is Telja orkuuppsprettu norðurljósanna fundna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfðabreytt gæludýr!

glo-fishMá bjóða þér sjálflýsandi gullfiska eða hárlausa naggrisi?

Þessa dagana eru erfðabreytt gæludýr að koma á markað í ýmsum löndum og Púkinn veltir fyrir sér hversu langt sé í það að farið verði að hanna gæludýr eftir pöntun - kannski munum við sjá auglýsingar um sértilboð á dverggíröffum eða grænum köttum í framtíðinni.

Sem stendur eru þó ekki allir sannfærðir um hversu jákvæð þessi þróun sé - í Evrópu hafa einhverjir gæludýrasalar verið handteknir fyrir að selja sjálflýsandi fiska - en þeir flokkast þar undir ósamþykktar erfðabreyttar lífverur.  Þessir fiskar eru hins vegar til almennrar sölu í Bandaríkjunum (sjá hér) og sumum Asíulöndum, þannig að ekki er ósennilegt að þeim verði smyglað til Evrópu.

Erfðabreyttar lífverur hafa verið vinsælt viðfangsefni vísindaskáldsagnahöfunda, sem hafa margir velt fyrirsér þeirri spurningu hvað muni gerast þegar (ekki "ef") genum úr mönnum verðu bætt í gæludýr.  Kannski eigum við eftir að sjá þá umræðu í raunveruleikanum.


Illa samin samræmd próf?

profNú í vikunni voru haldin samræmd próf í 7. bekk grunnskóla.  Eins og margir aðrir foreldrar sem eiga börn á þeim aldri, þá sótti Púkinn eldri próf sem liggja á vefnum, en þegar þau voru athuguð og yfirfarin kom í ljós að prófin voru morandi í villum - dæmum sem voru óleysanleg miðað við gefnar forsendur, eða þar sem "rétt" svör voru einfaldlega röng.

Skoðum nokkur dæmi, sem öll eru tekin úr einu og sama prófinu:

Dæmi 11

Í 30 manna bekk vill 21 ost á ristað brauð og 15 vilja sultu.  Einhverjir vilja bæði ost og sultu á brauðið.  Hver margir eru í þeim hópi?

Það vantar eitt atriði í þetta dæmi -  upplýsingar um hversu margir nemendur vilja hvorki ost né sultu, þannig að nemendur verða að gefa sér þá forsendu.   Stærð þessa hóps getur í mesta lagi verið 9, en í minnsta lagi 0, þannig að réttasta svarið við spurningunni er:

6-15, eftir því hversu margir vilja hvorki ost né sultu.

Samkvæmt svarblaðinu telst hins vegar aðeins svarið "6" vera rétt - þ.e.a.s. ætlast er til þess að nemendur gefi sér þá forsendu að allir í hópnum vilji ost og/eða sultu.  Hvers eiga þeir nemendur að gjalda sem hugsa dæmið til enda?

Dæmi 21

Merktu við svarið þar sem brotin eru jafnstór.

[ ] 1/3; 2/6

[ ] 1/6; 2/6

[ ] 2/3; 3/6

[ ] 1/3; 1/5

Einfalt og augljóst dæmi, ekki satt?  Svarið er greinilega "1. liður" - eða hvað?   Samkvæmt svarblaðinu er rétta svarið "3. liður".  Púkinn ætlar nú rétt að vona að þessi mistök hafi uppgötvast áður en nemendum voru gefnar einkunnir, en þá vaknar spurningin hvers vegna Námsmatsstofnun birti óleiðrétt svarblað á vefnum.

Dæmi 33

Dýpt Öskjuvatns er 220 m. Þorvaldsfell, sem stendur þar við, er 1510 m hátt.  Hver er hæðarmunurinn á botni Öskjuvatns og toppi Þorvaldsfells?

Þetta er einhver sú versta spurning sem Púkinn hefur séð í nokkru prófi.  Hæð fjalla er er miðuð við hæð yfir sjávarmáli, en til að unnt sé að reikna þetta dæmi vantar allar upplýsingar um hæð Öskjuvatns yfir sjávarmáli. Nú veit Púkinn ekki nákvæmlega hversu hátt Þorvaldsfell gnæfir yfir Öskjuvatni, en það eru ekki nema nokkur hundruð metrar, þannig að rétta svarið við spurningunni er líkindum 500-600 m.   Nemendur fá hins vegar eingöngu stig fyrir spurninguna ef þeir svara "1730 m".

Með öðrum orðum, þá verða nemendur að gefa sér að Öskjuvatn liggi við sjávarmál og að botn þess nái langt niður fyrir  það, eða að höfundar prófsins séu það fákunnandi að þeir geri ekki mun á hæð yfir sjávarmáli eða hæð yfir jafnsléttu.

Það mátti einnig finna svipaðar villur í öðrum samræmdum prófum í stærðfræði, þannig að niðurstaða Púkans er að annað hvort séu þessi próf hroðvirknislega unnin, eða að þeir sem semja samræmd stærðfræðipróf  fyrir 7. bekk séu hreinlega ekki starfi sínu vaxnir.  Til að gæta sanngirni vill Púkinn þó geta þess að samræmdu íslenskuprófin voru í allt öðrum gæðaflokki - Púkinn fann aðeins eina villu í öllum þeim íslenskuprófum sem hann skoðaði.

Það er ef til vill ekki skrýtið að stærðfræðikunnátta íslenskra barna sé léleg, ef þetta próf er til marks um gæði kennslunnar. 


Útdauður eftir 20.000.000 ár - ekki svo slæmt

chinese_dolphinPúkinn var að velta fyrir sér útrýmingu dýrategunda í stærra samhengi og komst að því að það að halda velli í 20.000.000 ár er langt yfir meðaltali hvað spendýr varðar.

Meðal "líftími" spendýrategundar frá uppruna til þess að hún deyr út hefur verið áætlaður um ein milljón ára.

Það eru um 5000 tegundir spendýra til, þannig að meðaltalið ætti að vera að ein tegund hverfi á 200 ára fresti, en raunin er önnur - á síðustu 400 árum hafa 89 tegundir spendýra dáið út og aðrar 169 eru skráðar í bráðri útrýmingarhættu.

Svipað mynstur sést séu allar lífverur skoðaðar, en áætlað hefur verið að um 70 tegundum sé útrýmt daglega.  Flestar þeirra eru hins vegar bara skordýr í regnskógunum, þannig að þær vekja ekki sömu athygli og höfrungar.

Á allri jarðsögunni virðast vera um 5 "toppar" útrýmingartíðni, sem hafa sennilega stafað af mismunandi ástæðum, árekstri loftsteina, gífurlegum eldsumbrotum, nú eða jafnvel "supernovu"sprengingu nálægt jörðinni.  Við mennirnir getum hins vegar engum öðrum kennt um sjötta toppinn - þann sem er í gangi núna. 


mbl.is Ferskvatnshöfrungur líklega útdauður eftir 20 milljónir ára á jörðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnisjöfnunar..hvað?

carbon forestPúkanum finnst að umræðan um kolefnisjöfnum með skógrækt sé á svolitlum villigötum, eða a.m.k. að sumir þeirra sem tjá sig um þetta mál hafi ekki hugsað það allt til enda.

Tré í vexti bindur kolefni, bæði í rótarkerfi og ofanjarðar, en tré eru ekki eilíf.  Hvað er gert ráð fyrir að verði gert við kolefnisjöfnunartrén þegar þau falla?  Ekki má láta þau grotna niður - það myndi bara losa kolefnið aftur, annað hvort sem koltvísýring eða metan.  Ef kolefnisbindingin á að verða varanleg verður að tryggja að trjáleifarnar séu bundnar varanlega - það verður í raun að breyta þeim í mó eða kol, en þessi spurning hefur alls ekki verið nefnd.

Skógarbrunar eru önnur hlið.  Ef stórir skógar verða ræktaðir upp til kolefnisbindingar, þá eru skógarbrunar það versta sem getur gerst, því þá er meginhluti bundna kolefnisins losaður samstundis sem koltvísýringur.  Púkinn ætlar rétt að vona að þeir sem styðja kolefnisjöfnunarskóga séu tilbúnir til að koma upp nauðsynlegum búnaði til að slökkva skógarelda - nokkuð sem hefur ekki verið ógn á Íslandi öldum saman.


Trú og fáfræði í Bandaríkjunum

Hvernig stendur á því að í landi sem stendur að mörgu leyti fremst í vísindum og tækni finnst stór hópur fólks sem hafnar mörgum merkilegustu niðurstöðum vísindanna og kýs að byggja líf sitt á gömlum sögum, sömdum í allt öðrum menningarheimi?

Hvers vegna er til fólk sem trúir firru eins og að maðurinn hafi verið skapaður fyrir um 6000 árum síðan eða að fyrir nokkur þúsund árum hafi gífurlegt flóð eytt öllu lífi á jörðinni nema nokkrum hræðum í skipi og þeim dýrum sem þar voru?

Það er að vísu svo í Bandaríkjunum að svona skoðanir eru algengastar meðal þeirra sem hafa lélega menntun eða litlar gáfur, en inn á milli má finna greint fólk sem skammast sín ekki fyrir að viðurkenna að það trúi þessu - fólk sem telur það rétt sinn að ala upp börn sín í sömu svartnættisfáfræðinni.

Nú má vera að einhverjir saki Púkann um að bera ekki virðingu fyrir skoðunum annarra, en það eru einfaldlega ekki allar skoðanir jafnréttháar - sumar skoðanir eru einfaldlega helber della frá upphafi til enda.  Púkinn ber ekki virðingu fyrir þeirri skoðun að tunglið sé gert úr grænum osti, né heldur ber Púkinn virðingu fyrir þeim sem trúa á bókstaflegan sannleik Biblíunnar eða að sögurnar af Adam og Nóa séu nokkuð meira en skáldskapur - mannanna verk, sem eigi ekkert erindi til nútímans, nema sem dapurleg heimild um fáfræði fyrri tíma.

Sem betur fer hefur nú svona fáfræði verið úthýst í flestum siðmenntuðum löndum, en þó er á því ein undantekning - Bandaríkin - hvað er eiginlega að þar?

Nei Púkinn ber ekki virðingu fyrir þeim sem neita að hugsa sjálfstætt eða neita að viðurkenna vísindalegar staðreyndir.  


mbl.is Þróunarkenningin og sköpunarkenningin báðar réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað á þorskurinn að éta?

Cod(NOAA_pic_for_index)Púkinn hefur aldrei talið sig sérfróðan um fisk og reyndar takmarkast afskiptin að mestu leyti við að borða fiskinn eftir að einhver hefur matreitt hann.

Þessi frétt vakti hins vegar eina spurningu hjá Púkanum - gott og blessað að samtökin vilja draga úr sókninni í þorskinn og fá þá fleiri þorska syndandi í sjónum, en hvað á þessi þorskur að éta?  Ef samtökin vilja fá fleiri þorska, ættu þau þá ekki að berjast fyrir því að draga úr loðnuveiðum, þannig að þorskurinn geti étið loðnuna?

Er þorskstofninum gerður greiði með því að fá fleiri hálfsvelta þorska?  Hafa menn hugsað dæmið til enda?

En, hvað um það. Púkinn er ekki fiskifræðingur, þannig að hann ætlar ekki að vera með neinar fullyrðingar um það hvað sé rétt eða rangt í þessu máli - honum finnst þetta bara hljóma undarlega. 


mbl.is Náttúruverndarsamtökin vilja draga úr sókn í þorskinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar? Nei, lirfur

maggots-diabetesÞeir sem hafa þvælst um Internetið nógu lengi hafa sjálfsagt rekist á margt furðulegt.  Engum þeirra ætti að bregða við að sjá mynd af lirfum skríðandi um í sári á fæti sykursýkissjúklings, ekki satt?

Þetta er hins vegar ekki frétt um slæman aðbúnað sjúklinga á sjúkrahúsi í vanþróuðu ríki, heldur dæmi um notkun "lirfumeðferðar", þar sem lirfurnar eru notaðar til að éta sýktan vef, en þessi meðferð er ekki aðeins áhrifaríkari þegar um sýkingu af völdum fjölónæmra baktería er að ræða, heldur einnig mun fljótlegri og ódýrari en hefðbundin meðferð.

Nánari upplýsingar má fá hér.


Bandaríkin, land hátækni og fáfræði

Arftaki Hubble sjónaukans er óneitanlega meðal háþróuðustu tækniundra samtímans og kemur vafalítið til með að gera merkar uppgötvanir varðandi upphaf alheimsins.

Púkanum finnst hins vegar alltaf jafn skondið að slík tækni skuli koma frá því landi þar sem einna mest fáfræði ríkir varðandi þessar vísindagreinar - að minsta kosti ef "þróuð" lönd eru skoðuð.

Um helmingur Bandaríkjamanna (sjá þennan hlekk) trúir því að heimurinn (eða a.m.k. jörðin og sér í lagi mannkynið) séu ekki nema um 6000 ára og sumir ganga svo langt að afneita nánast öllum grundvallaratriðum nútíma vísinda, sökum þess að þau stangast á við túlkun þeirra á Biblíunni.

Þannig er til að mynda hópur fólks sem hafnar því að jörðin snúist um sjálfa sig, eða snúast kringum sólina og býr til sína eigin heimsmynd út frá því.  Vefsíður eins og þessi væru í raun fyndnar ef þetta væri ekki svo dapurlegt


mbl.is Arftaki Hubble-sjónaukans afhjúpaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband