Hundheiðin jól

Er einhver mótsögn í því að trúleysingjar haldi upp á jól - þetta er jú "Fæðingarhátíð frelsarans", eða hvað?

Ekki að mati Púkans (sem mun víst flokkast sem róttækur trúleysingi), enda er ákaflega lítið kristilegt við jólin, eins og þau eru haldin hér á Íslandi.

Skoðum aðeins nokkur mest áberandi einkenni jólahátíðarinnar.

Tímasetningin.  25 desember er ekki nefndur sem fæðingardagur Jesú fyrr en í ritinu Chronographiai, sem Sextus Julius Africanus skrifaði um 221.  Jafndægur á vori var talinn sköpunardagur Adams, og því hlaut það að vera getnaðardagur Jesú líka (samkvæmt 3. aldar guðfræði) og fæðingardagur hans því 9 mánuðum síðar.  Það skipti hins vegar líka máli að heiðin vetrarsólstöðuhátíð var haldin um svipað leyti og með því að velja þennan dag gat kirkjan yfirtekið þá hátíð án mikillar andspyrnu.  Staðreyndin er hins vegar sú að hafi umræddur Jesús yfirhöfuð verið til, eru líkurnar á því að hann hafi raunverulega fæðst 25. desember ekki miklar.

Nafnið. Eins og tímasetningin, þá er nafnið "jól" ættað aftur úr heiðni, hugsanlega skylt orðunum "Ýlir" eða "Jólnir" en þó er það allt óvíst.  Við erum ekki að burðast með orð eins og "Kristsmessa" eða neitt þvílíkt - nei - bara gott og gilt heiðið nafn.   Púkinn sér ekkert athugavert við það.

Jólamatur.  Það eru litlar heimildir til um hvernig heiðnir menn héldu jólafagnaði, en mikill og góður matur er nefndur á nokkrum stöðum.  Það tíðkaðist til dæmis að fórna svíni í nafni Freys.  Púkinn sér því ekkert athugavert við að fá sér Hamborgarhrygg á jólunum - það eru bara leifar af gömlum og góðum heiðnum venjum.

Jólatré. Jólatréð í sinni núverandi mynd er væntanlega upprunnið í Þýskalandi á 16. öld, en í raun er ekkert sérlega "kristilegt" við tréð sem slíkt.   Það væri þá helst sá siður sumra að setja stjörnu á toppinn, því geta trúleysingjar auðveldlega sleppt án vandræða. 

Mistilteinn.  Hann tíðkast sem hluti jólaskreytinga í nálægum löndum en fáar plöntur voru jafn merkilegar í heiðnum sið.

Jólagjafir og jólaverslun.  Jólin eru hápunktur efnishyggjunnar, þegar fólk eyðir peningum sem það á ekki í gjafir handa fólki sem hefur ekki þörf fyrir þær. Gjafir sem slíkar eru að sjálfsögðu mun eldri siður en kristnin og ekki veit Púkinn til þess að nokkur telji óbeislaða efnishyggju sérstaklega "kristilega".

"Hátíð ljóss og friðar".  Hugmyndin um "hátíð ljóssins" er hluti hinnar upphaflegu vetrarsólstöðuhátíðar - haldin í dimmasta skammdeginu áður dagana tekur að lengja að nýju - ekkert kristilegt við það eða við ljósaskreytingar í einni mynd eða annarri. Hvað friðinn varðar, þá hafa kristnir menn nú ekki einkarétt á honum - hafa ekki "kristnar" þjóðir háð fleiri og blóðugri stríð en flestir aðrir?

Íslensku jólasveinarnir.  Það má túlka jólasveinana 13 á ýmsa vegu, til dæmis sem fulltrúa ýmis konar perragangs, en kristilegir eru þeir ekki.  Engin vandamál hér fyrir trúleysingjana heldur. 

Hvað er þá eftir? 

Niðurstaða Púkans einfaldlega sú að eins og jólahefðin er, þá er ekkert kristilegt við hana - ekkert sem skapar mótsögn fyrir sannfærða trúleysingja.

Púkinn mun því óska öllum gleðilegra hundheiðinna jóla.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jól, fermingar og annað er fyrir löngu orðin að hátíð verslunar og viðskipta

DoctorE (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 15:37

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Skemmtileg yfirferð hjá þér og sýnir vel hversu jólin hafa víða skírskotun.  Kristnir menn geta ekki eignað sér jólin enda fengu þeir orðið líklega frá heiðnum hér áður eins og þú bendir á. 

Svanur Sigurbjörnsson, 5.12.2007 kl. 16:31

3 Smámynd: Sigurjón

Skál fyrir heiðnum jólum!

Sigurjón, 5.12.2007 kl. 17:38

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Dr. Þorsteinn Sæmundsson skrifar fróðlega grein sem nefnist Betlehemstjarnan og má lesa hana hér

Í niðurlagi greinarinnar:

"Eins og sagt var hér í upphafi, bendir flest til þess að sagan um Betlehemstjörnuna sé einungis falleg helgisaga. Vilji menn á hinn bóginn reyna að tengja hana við eitthvert náttúrufyrirbæri, virðist samstaða Júpíters og Venusar í ljónsmerki árið 2 f. Kr., að undangengnum fyrri samstöðum Júpíters við Venus og Regúlus, vera það sem helst kemur til greina. Þar höfum við atburð sem var vissulega mjög óvenjulegur og áberandi, en hefði þó ekki þurft að tákna stórtíðindi í augum annarra en stjörnuspakra manna. Hvað sem öðru líður verður ekki annað sagt en að áhugi manna á Betlehemstjörnunni og vangaveltur í því sambandi hafi reynst gagnlegar og aukið þekkingu manna á sögu og tímatali kristninnar".

Ágúst H Bjarnason, 5.12.2007 kl. 20:10

5 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Ég þakka Guði fyrir að hafa gefið mér þá jólahátíð sem ég held hátíðlega með fjölskyldu minni. Á aðfangadagskvöld mun ég setjast við kvöldverðarborðið og byrja borðhaldið á stuttri þakkarbæn til Guðs sem hefur gefið mér allt sem ég á. Ég er þakklátur fyrir lífið og landið sem við búum í þar sem bæði ég og þú megum standa á skoðunum okkar og lifa eftir þeim.

Gleðilega hátíð.

Jóhann Þorsteinsson, 5.12.2007 kl. 23:40

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tek undir þetta hjá þér púki ! enda er ég hundheiðinn andskoti.. en á góðri leið í buddismann.

Óskar Þorkelsson, 6.12.2007 kl. 18:12

7 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Staðreyndin er hins vegar sú að hafi umræddur Jesús yfirhöfuð verið til.......

Það er nú hægt að vera trúleysingi Friðrik minn án þess að hafna staðreyndum. Jesús er söguleg staðreynd. Hins vegar eru jólin ekki endilega hátíð grundvölluð á kenningu biblíunna eins og páskar eru og aðrar hátíðir, en að minnast fæðingar Jesú á þessum tíma,  þótt hann hafi sennilega ekki fæðst í des, finnst mér bara gott mál.

Kristinn Ásgrímsson, 9.12.2007 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband