Enn borgar almenningur

money-church.jpgÞað er sjálfsagt að borga þeim bætur sem urðu fyrir ofbeldi í Landakotsskóla eða á annan hátt af völdum kaþólsku kirkjunnar.

Það sem er hins vegar ekki sjálfsagt að þessi penningur komi úr vasa hins almenna skattborgara.

Nei, kaþólska kirkjan ætti að borga þetta.

Það er nú ví miður þannig að þegar fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi, þá er sanngirnin látin víkja.

Þær bætur sem kirkjan bauðst sjálf til að borga voru skammarlega lágar - sjá t.d. þessa frétt hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/22/nidurstada_kirkjunnar_smanarleg/

Nei, kaþólska kirkjan er fyrirtæki sem hugsar fyrst og fremst um sinn hag - skítt með fórnarlömb hennar í gegnum tíðina.

Það er verst að ekki skuli vera hægt að halda eftir þeim sóknargjöldum sem kirkjan fær, þangað til búið er að borga ríkinu til baka þessar bætur.


mbl.is Sanngirnisbætur hækka um 130 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er vont, það er vont og það versnar

TeachingÞetta er ekki í fyrsta skipti sem Púkinn agnúast út í íslenska menntakerfið - sumt af eftirfarandi texta er tekið úr 10 ára gömlum greinum, en fátt hefur breyst síðan þá.

Púkinn á ekki lengur barn á grunnskólaaldri, en svo virðist sem ástandið hafi ekki batnað á undanförnum árum - frekar versnað ef eitthvað er.

Ástæður þess eru margvíslegar. Meðal almennra skýringa má nefna eftirfarandi:

Of mörg börn í bekkjum.  Niðurskurður hefur því miður leitt til þess að bekkir eru of stórir til að unnt sé að sinna öllum nemendum eftir þörfum.

"Skóli án aðgreiningar" og hin almenna sænsk-ættaða meðalmennskuárátta sem virðist ráða ríkjum í menntakerfinu - sú hugsun er því miður allt of algeng að ekki megi hvetja grunnskólanemendur til að skara fram úr í bóknámi - allir skulu steyptir í sama mót og námsefnið má ekki vera erfiðara en svo að allir ráði við það.

Lélegir kennarar.   Það er því miður staðreynd að kennarar njóta ekki virðingar hér á landi, ólíkt því sem gerist t.d. í Finnlandi.  Að hluta til er ástæðan sú að engar kröfur eru í raun gerðar til kennara um að þeir séu í raun færir um að kenna nemendum.  Frábærir kennarar fá sömu laun og hörmulegir (með sömu menntun og starfsreynslu), en það skiptir engu máli hvort þeir eru færir um að vinna vinnuna sína - að kenna börnunum.  Það skiptir ekki máli hvort kennari er fullur áhuga á efninu og tekst að smita nemendur af þeim áhuga, eða hvort kennarinn veit jafnvel minna um efnið en nemendurnir.   Kennarastarfið er láglaunastarf, en Púkinn er þeirrar skoðunar að sé starfið betur launað verði að gera meiri kröfur til kennara.

Lélegt námsefni.  Námsefni í mörgum greinum er til háborinnar skammar.  Námsefni í íslensku höfðar ekki til nemenda - sem er ein margra ástæðna þess að nemendur lesa lítið, sem aftur skilar sér í lélegri lestrargetu.

Svo er það náttúruvísindanámið, sem virðist fela í sér páfagaukalærdóm á atriðum úr líffræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði, án áherslu á að nemendur raunverulega skilji samhengi hlutanna.  Námsbækurnar í náttúrufræði eru reyndar ekki alslæmar (þrátt fyrir nokkrar staðreyndavillur) og gera ráð fyrir því að nemendur framkvæmi ýmsar einfaldar tilraunir.

Slíkar tilraunir ættu að öllu jöfnu að auka áhuga nemendanna á námsefninu - ef þær væru framkvæmdar, en það er vandamálið.  Í skóla dóttur minnar var t.d. öllum tilraunum í efnafræði sleppt, því skólinn taldi sig ekki hafa efni á því... "Efnin eru uppurin og engir peningar til að kaupa meira".

Sem dæmi um fyrrnefndar staðreyndavillur má t.d. nefna þá fullyrðingu að gler sé seigfljótandi vökvi við eðlilegt hitastig (og bent á að gamlar glerrúður í miðaldadómkirkjum séu þykkari að neðan en ofan), en þetta er firra sem hefur verið afsönnuð fyrir löngu.

Ástandið í náttúruvísindum er samt til fyrirmyndar miðað við það sem boðið er upp á í stærðfræði.  Þar virðist markmiðið að drepa fyrst niður allan stærðfræðiáhuga nemenda með svokallaðri "uppgötvanastærðfræði" - sem byggir á því að leyfa nemendum að "þróa sínar eigin aðferðir", í stað þess að læra leiðir sem vitað er að virka...og skítt með það þó að nemendur "þrói aðferðir" sem leiða þau fyrr eða síðar í algerar blindgötur.  Síðan tekur hefðbundnara námsefni við - efni sem er meingallað á marga vegu, en getur þó gengið - svo framarlega sem kennararnir séu starfi sínu vaxnir.  Það er síðan allt önnur spurning hvort fólk með brennandi áhuga og þekkingu á stærðfræði fer nokkuð út í kennslu - Púkanum þykir sennilegra að sá hópur leiti í betur launuð störf.

Þetta er ef til vill ekki mikið vandamál fyrir þá nemendur sem eiga foreldra sem hafa sæmilega þekkingu sjálfir á þessum sviðum og geta stutt börn sín, þannig að þau þurfi ekki að reiða sig á lélegt námsefni, kennt í yfirfullum bekkjum af fákunnandi kennurum....en hvers eiga allir hinir að gjalda?

Er öllum sama öllum sama þótt börn í efstu bekkjum grunnskóla séu ennþá að telja á puttunum?

Vandamálið er reyndar ekki einskorðað við kennarana - þessi grein sem Púkinn skrifaði 2007 fjallar t.d. um herfilega illa gerð samræmd próf í stærðfræði.

Samræmdu prófin voru síðan lögð niður - nokkuð sem Púkinn telur stór mistök, enda veittu þau skólum ákveðið aðhald (a.m.k. ef skólarnir komast ekki upp með að láta "lélegustu" nemendurna ekki taka prófin) - nokkuð sem ósamræmdar skólaeinkunnir gera ekki.  Það er dapurleg staðreynd, sem virðist samt ekki mega ræða, að úr sumum grunnskólum kemur óeðlilega hátt hlutfall nemenda sem er varla læs og alls ekki reiðubúinn fyrir frekara nám. 

Púkinn vill nú samt bæta því við í lokin að lélegt námsefni og misgóðir kennarar eru ekki eina ástæðan fyrir lélegum námsárangri - það sem mætti setja efst á listann er almennt agaleysi í skólum landsins, en það er efni í aðra blogggrein.

Þegar Finnar gengu í gegnum sína efnahagskreppu með tilheyrandi niðurskurði, þá reyndu þeir að hlífa menntakerfinu eftir bestu getu - reyndu jafnvel frekar að styrkja það.  Þeir gerðu sér grein fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem fælust í vel menntuðu fólki - sér í lagi tæknimenntuðu.

Stjórnvöld á Íslandi deila ekki þessari sýn.  Þau sætta sig við grunnskólakerfi sem er til háborinnar skammar (samanber nýlegar fréttir um að talsverður hluti nemenda í 10 bekk sé ekki fær um að lesa sér til gagns), framhaldsskóla sem útskrifa nemendur með "ómarktæk" stúdentspróf (samanber umræðu um innökupróf í háskóla) og háskóla sem eru meira og meira að þróast í þá átt að vera ekki fyrir alla, heldur bara fyrir þá sem hafa efni á dýru námi.

Nú á að skera enn frekar niður á framhalds- og háskólastigi, en Púkinn fær ekki séð hvernig það getur leitt til annars en að ástandið versni enn frekar.

Púkinn er eiginlega kominn á þá skoðun að stefna stjórnvalda sé að halda niðri menntunar- og þekkingarstigi þjóðarinnar - það er sennilega auðveldara að stjórna heimskum sauðum en hinum.


mbl.is Skuldum börnunum okkar að gera betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigingirni eða fáfræði?

vaccine.gifPúkinn veltir fyrir sér hvað sé eiginlega að þeim foreldrum sem ekki láta bólusetja börn sín....hvort vandamál þeirra sé eigingirni, fáfræði eða blanda af þessum þáttum.

Bólusetningar eru ekki með öllu hættulausar - flestar aukaverkanir eru meinlausar (til dæmis vægur hiti eða roði í húð kringum bólusetningarstaðinn).   Alvarlegri aukaverkanir eru þekktar, en þær eru oftast bundnar við einstaklinga með tiltekin, þekkt vandamál (til dæmis sjúklingar með ónýtt ónæmiskerfi, )

Samt, það eru dæmi um bráðaofnæmisköst eftir bólusetningar - samkvæmt CDC eru t.d. 11 dæmi um slíkt eftir MMR bólusetningu - ekki há tala, þegar litið er til þess að um yfir 70 milljónir einstaklinga hafa fengið MMR bólusetningu á sama tíma.  Áhættan er hverfandi, en samt er ekki hægt að segja að hún sé engin.

Sumir skýla sér bak við þessa áhættu þegar þeir hafna bólusetningu barna sinna - nokkuð sem Púkinn lítur á sem siðferðislega óréttlætanlega eigingirni. Viðkomandi foreldrar treysta því að aðrir láti bólusetja sín börn til að koma í veg fyrir faraldra og velta þannig áhættunni yfir á aðra. Viðkomandi skipta líka á áhættunni á að barnið verði fyrir hliðarverkunum af bólusetningu og áhættunni á að barnið verði alvarlega veikt af þeim sjúkdómum sem það er ekki bólusett fyrir.

Eigingirnin birtist líka í því að viðkomandi geta stofnað öðrum í hættu. Ef börn þeirra veikjast þá geta þau smitað einstaklinga sem ekki var hægt að bólusetja - börn sem eru of ung fyrir bólusetningu eða sjúklingar með bælt eða ónýtt ónæmiskerfi.  Aftur - þetta er ekkert annað en siðferðislega óréttlætanleg eigingirni.

Svo er það fáfræðin.

Það er til fólk sem trúir því statt og stöðugt að bólusetningar orsaki einhverfu.  Þessi saga átti uppruna sinn í grein sem Andrew Wakefield birti 1998.  Tíminn leiddi síðan í ljós gagnafölsun, hagsmunaárekstra og annað sem varð á endanum til þess að hann var sviptur lækningaleyfi sínu - en skaðinn var skeður.

Of margir hafa ekki fyrir því að kynna sér staðreyndir, heldur gleypa það hrátt sem "þekktir" einstaklingar eins og Jenny McCarthy eða Jim Carrey segja - einstaklingar sem skortir algerlega menntun eða sérfræðiþekkingu á þessu svið, en njóta athygli fjölmiðla.

Fáfræði getur verið hættuleg.

Sjá:

https://www.cdc.gov/mmwr/preview/mmwrhtml/00046738.htm

https://en.wikipedia.org/wiki/MMR_vaccine_controversy


mbl.is Mislingasmit um borð í flugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um hugsanafrelsi

Hgay-love.pngér á Íslandi ríkir skoðanafrelsi, samkvæmt 73. grein stjórnarskrárinnar.  Menn mega hafa hvaða skoðanir sem er - sama hversu skrýtnar þær eru. Hér ríkir líka að mestu leyti tjáningarfrelsi - menn mega láta skoðanir sínar í ljós (með ákveðnum takmörkunum þó).

Þær skoðanir sem fólk hefur og kýs að láta í ljós skapa að hluta þá ímynd sem aðrir hafa af viðkomandi - ímynd sem verður jákvæð eða neikvæð eftir aðstæðum.

Þessi ímynd sem fólk skapar sér er eitt af því sem ræður því hvort aðrir bera virðingu fyrir viðkomandi og hvort (og á hvaða hátt) þeir kjósa að umgangast viðkomandi.

Púkinn vill halda því fram að skoðanir geti haft áhrif á hvort einstaklingar séu hæfir til að sinna ákveðnum störfum eða ekki.

Hugsum okkur til dæmis einstakling sem lýsir í ræðu og riti þeirri skoðun sinni að rauðhærðir einstaklingar séu úrkynjaður ruslaralýður, sem eigi að gelda svo hægt sé að útrýma þeirra genum - hugsum okkur þessum skoðunum sé ítrekað lýst á Facebooksíðu viðkomandi og fleiri slíkum stöðum.

Ef ég rækist á slíkan einstakling t.d. sem leigubílstjóra sem þyrfti mikið að lýsa þessum skoðunum sínum meðan hann keyrði mig heim, myndi ég ekki kippa mér mikið upp við það - hrista hausinn yfir því eftir á hversu ruglaður viðkomandi væri, en ég sæi hins vegar enga ástæðu til að telja þessar furðulegu skoðanir hafa áhrif á hæfni hans sem leigubílstjóra (svo framarlega sem hann hreinlega veitist ekki að örvhentum farþegum).

En hvað ef viðkomandi væri í starfi sem kennari?   Væru foreldrar rauðhærðra barna sátt við að þau sæktu tíma hjá kennara með þessar skoðanir (og þá gildir einu þótt hann minnist ekki á þær í kennslustundum)? 

Ég held að rauðhærðum nemendum myndi líða illa í tímum hjá viðkomandi og það er hætta á að aðrir nemendur sem hugsanlega líta upp til kennarans líti á þetta sem óbeina hvatningu til að beita þá rauðhærðu einelti.

Kennari með slíka fordóma gagnvart ákveðnum hópi nemenda er einfaldlega ekki hæfur til að sinna sínu starfi.  Ég er ef til vill gamaldags, en ég ætlast til að hægt sé að bera virðingu fyrir kennurum sem einstaklingum - og kennari sem opinberlega lætur í ljósi svona skoðanir væri ekki einstaklingur sem ég gæti borið virðingu fyrir.

Fordómar Snorra snúa ekki að rauðhærðum, heldur samkynhneigðum, en eru alveg jafn fáránlegir....og gera hann jafn óhæfan sem kennara.

Það voru ekki mistök að reka Snorra - einu mistökin voru að ráða hann í upphafi.


mbl.is Snorri krefst 12 milljóna í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á réttri leið

atheist-bus_1217553c.jpg

Það er ýmislegt sem Púkanum líkar ekki við Bandaríkin og hin almenna trúrækni í því landi er þar á meðal.

Reyndar er spurning hvort hreinlega beri ekki að tala um trúaráráttu - þrátt fyrir aðskilnað ríkis og kirkju á pappírnum hafa trúarhópar meiri ítök en í mörgum þeim löndum þar sem finna má opinberar þjóðkirkjur, eins og t.d. á Íslandi.

A vesturlöndum er fylgni milli menntunar og trúleysis, þannig að það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að efasemdarmönnum fjölgi meðal háskólastúndenta.  Púkinn fagnar því sérstaklega að slíkt sé að gerast við skóla eins og Harvard, því líkur eru á því að úr slíkum skólum muni koma margir þeirra sem fara með völd í framtíðinni - þingmenn og dómarar þar á meðal.

 

 

 

 

 


mbl.is Trúrækni háskólanema dvínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldmiðill eða ekki?

 

Púkanum finnst nú hálfge10kronurrð mótsögn í því sem Seðlabankinn segir.

Annars vegar segja þeir að Bitcoin og Aurauracoin séu ekki gjaldmiðlar í skilningi íslenskra laga, en hins vegar bendir bankinn á að hann hafi einkarétt á útgáfu gjaldmiðla.....en ef þetta eru ekki gjaldmiðlar, þá....?

Ekki svo að skilja - það eru góðar líkur á að þetta dæmi hrynji eins og spilaborg á endanum, þannig að Púkinn myndi nú ráðleggja fólki að fara varlega, en það kemur ástæðum seðlabankans ekkert við.


mbl.is Vara við notkun sýndarfjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættleiðingar og Íslendingabók

islendingabok.isPúkinn vill benda á að þótt sá einstaklingur sem hér um ræðir geti ekki fengið rétt ætterni sitt skráð á opinbera pappíra, þá getur hann fengið upplýsingarnar skráðar í Íslendingabók ef honum svo sýnist.

Þar gildir nefnilega sú regla að ættleiddur einstaklingur ræður því almennt sjálfur hvort hann er þar tengdur blóðforeldri eða kjörforeldri.

Það er að vísu sú undantekning að hafi blóðforeldrið gefið barnið til ættleiðingar og skrifað undir alla lögformlega pappíra því viðkomandi, þá hefur blóðforeldrið rétt til að hafna því að barnið sé tengt við sig, enda telst viðkomandi þá ekki lengur foreldri viðkomandi í lagalegum skilningi.

Samkvæmt fréttinni mun þetta hins vegar ekki vera raunin hér - báðir aðilar virðast sáttir við fjölskyldutengslin og Púkinn vill því hvetja viðkomandi til að senda Íslendingabók upplýsingar um sig - hafi þeir ekki gert það nú þegar.


mbl.is Ættleiðing verður aldrei aftur tekin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að selja ættargersemarnar...

UPPBOD81_85Það er mikið að gera á listaverkauppboðum hjá Tryggva þessa dagana - mikil sala í verkum, en þó er það athyglivert að sum verðmætustu verkin seljast ekki - það gerist stundum að enginn er reiðubúinn til að bjóða það lágmarksverð sem seljandinn setur upp.

Er það vegna þess að væntingar seljandans eru óraunhæfar - eru einhverjir fastir í þeim verðum sem voru hér 2007 þegar listaverkaverð rauk upp úr öllu valdi, eða er vandamálið að kaupendur eru líka blankir - eiga hreinlega ekki pening?

Þessi uppboð eru annars hin ágætasta skemmtun - Púkinn mætti að vísu ekki á það síðasta, sem var haldið á mánudaginn var,  en mætti á síðustu þrjú þar á undan - þeim sem hafa áhuga á uppboðunum er bent á www.myndlist.is

Sumir þeirra sem eru að selja verk eru sjálfsagt að gera það tilneyddir - kollsigldu sig í hruninu, misstu sparnaðinn eða vinnuna,  en það er annar hópur sem er líka neyddur til að selja ættargersemarnar.

 Það er gjarnan eldra fólk, skuldlaust, með þokkalegar eignir - einbýlishús, sumarbústað og einhvern ævisparnað, en litlar sem engar tekjur, nema þá ellilífeyri.  Þetta fólk þarf nú að sæta hreinni eignaupptöku vegna "stóreignaskattsins" - sem leiðir til þess að skattgreiðslurnar geta orðið mun hærri en nemur öllum tekjum þeirra - já, yfir 100%.

Þessi fórnarlömb núverandi ríkisstjórnar neyðast því stundum til að losa sig við verðmæti eins og málverkin af stofuveggjunum.


mbl.is Selja listaverk til að eiga fyrir mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri best að breyta bara einni grein núna?

voteboxPúkinn er kominn á þá skoðun að úr því sem komið er, þá ætti bara að breyta einni grein í stjórnarskránni núna - það verður aldrei sátt um vinnu sem er gerð á hraðferð á síðustu dögunum fyrir kosningar og allt of líklegt að yrðu einhverjar breytingar barðar í gegn þá myndi nýtt þing ekki samþykkja þær, heldur bera því við að málið þurfi nánari skoðun.

Það er einfaldlega búið að klúðra þessu máli of illa.

Nei, það sem á að gera núna er að breyta þeirri grein stjórnarskrárinnar sem segir hvernig skuli breyta stjórnarskránni.

Í stað þess að þing sé rofið strax og breytingar hafa verið samþykktar, efnt til þingkosninga og síðan þarf nýtt þing að samþykkja breytingarnar, þá ætti að krefjast þess að breytingar njóti aukins meirihluta (t.d. 3/4) í þingi og séu síðan samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekkert þingrof - enginn æsingur við að samþykkja breytingar á örfáum dögum.


mbl.is Alþingi samþykki stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfarið í fréttum mbl.is

Það liggur við að Púkinn fái verki við að lesa sumt af því sem er skrifað á mbl.is. Skopum t.d. nokkur dæmi úr þeirri grein sem þessi bloggfærsla tengist.

"Hann til Danmerkur sl. föstudag."

Hér vantar orðið fór.

"E-töflurnar fundust í íbúð þar sem Íslendingurinn dvaldi í."

Hér átti væntanlega að standa "íbúð þar sem Íslendingurinn dvaldi" eða "íbúð sem Íslendingurinn dvaldi í".

"Á sama tíma handtók lögregla höfuðborgarsvæðisins 26 ára gamlan íslenska karlmanna við komuna til Íslands með flugi frá Kaupmannahöfn."

Hér átti væntanlega að standa "íslenskan karlmann".

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Púkinn rekur augun í hroðvirknislega unninn texta á mbl.is, en því miður virðist svona dæmum fara fjölgandi.


mbl.is Lögreglusamvinna til fyrirmyndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband