Færsluflokkur: Lífstíll

Reiðhjólastígar eru fín bílastæði

Púkinn er ekki mikill hjólreiðamaður, en það er nú að hluta vegna þess að venjulega er hundur Púkans með í för og hundar og hjól fara ekki alltaf vel saman.

Hvað um það - á ferð sinni milli heimilis og vinnustaðar liggur leið Púkans um Lönguhlíð, en meðfram þeirri götu er einn af fáum raunverulegum hjólreiðastígum borgarinnar.  Það virðist hins vegar regla frekar en undantekning að bílum sé lagt á hjólreiðastíginn - oft sömu bílunum.   Púkinn hefur til dæmis oft rekið augun í rautt bílkríli sem er reglulega lagt þar og alltaf á sama stað.

Nú skilur Púkinn ekki hvers vegna Reykjavíkurborg er að þykjast bjóða upp á hjólreiðastíga ef ekkert er gert til að hreinsa bíla af þeim - það hlýtur að vera hægt að sekta eigendur bílanna fyrir að leggja þeim á hjólreiðastígana í óleyfi.

Hvernig væri nú að stöðumælaverðir gerðu sér öðru hverju ferð eftir hjólreiðastígum borgarinnar og sektuðu þá bíla sem er lagt á þeim? 

Hvað segja hjólreiðamenn eins og Kári Harðarson um þetta mál?


Aspir, hundar, bílastæði og gervihnattardiskar

Púkinn heyrði í fréttunum í gær að meðal helstu ástæðna nágrannaerja væru aspir, hundar, bílastæði og gervihnattadiskar.

Púkanum varð þá hugsað til botnlangans þar sem hann á heima.  Þar eru 8-10 metra aspir í hverjum garði, hundar í 2 af 3 húsum, risavaxnir gervihnattardiskar á sumum húsum og þótt allir hafi sín bílastæði eru allnokkur stæði í sameign.

Semsagt, uppskrift að nágrannaerjum....en að hefur aldrei örlað á þeim.  Það skyldi þó ekki vera að það skipti líka máli hvernig nágranna maður á?


Loksins rigning!

Rain drops_ non-wettingLoksins, loksins er farið að rigna hér á suðvesturhorninu.  Púkinn var orðið meira en lítið þreyttur á ástandinu undanfarið - ekki þó beint þeyttur á sólskininu sem slíku, heldur á þeirri stöðu sem Púkinn hafði komið sjálfum sér í.  

Það var nefnilega þannig að fyrir mánuði voru þökur lagðar á stórt svæði í kringum sumarbústað Púkans, og til að þær skemmdust ekki í þurrkinum þurfti Púkinn að sjá til þess að þær fengju vökvun.

Þetta þýddi að tvisvar á dag varð Púkinn að skjótast upp í sumarbústaðinn til að færa til úðarana sem hafa verið í gangi nokkurn veginn linnulaust allan sólarhringinn síðustu vikurnar.

Úff...


Súludansari tekur á móti flugfarþegum

suludansEinhverjum þeirra flugfarþega sem leið hafa átt um Gatwick flugvöll nýlega mun hafa brugðið í brún þegar súludansmey tók á móti þeim.

Reyndar er ekki allt sem sýnist, heldur er hér um að ræða risavaxna auglýsingu, málaða á akur við eina af aðflugsleiðunum til flugvallarins.

Auglýsingin er tæplega sýnileg af jörðinni, en farþegar sem sitja réttu megin í vélum sem eru að koma inn til lendingar eða taka sig á loft munu víst margir hafa rekið upp stór augu.

Yfirvöldum í héraðinu er ekki skemmt, þar sem auglýsingin var sett upp í leyfisleysi og hóta þeir að beita dagsektum, verði hún ekki fjarlægð.  Fyrirtækið sem ber ábyrgð á auglýsingunni heitar hins vegar að fjarlægja hana, og eftir að fréttin af auglýsingunni hefur ratað í fjölmiðlana má gera ráð fyrir að heimsóknum á myprivatedance.com hafi fjölgað verulega.


Hámark brjálæðisins?

SkuggahverfiPúkinn hefur öðru hverju verið með bloggfærslur sem nefnast "Bruðl dagsins", þar sem hann veitir þeim aðstoð sem hafa of margar krónur í vasanum miðað við það vit sem þeir hafa í kollinum.

Nú virðist hins vegar sem svo að aðrir hafi tekið að sér að aðstoða þá nýríku við að koma peningunum sínum í lóg með því að selja "penthouse" íbúð á litlar 230 milljónir.

Það versta við þetta mál...

Púkinn er nokkuð viss um að hér á Íslandi megi finna fólk sem er reiðubúið að borga þessa upphæð.

Hvað um það - Púkinn er þeirrar skoðunar að svona hlutir marki topp brjálæðisins - það er erfitt að toppa þetta.


mbl.is Þakíbúð fyrir 230 milljónir? Skiptar skoðanir meðal fasteignasala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dóphausar og drykkjurútar

ecstasy_1bÍ tíð fyrrverandi ríkisstjórnarsamstarfs var talað um "Fíkniefnalaust  Ísland 2000".  Árið 2000 kom og fór, en ekki hurfu fíkniefnin - þvert á móti virðist meira um þau en nokkru sinni fyrr og fréttir dagsins um að fleiri séu stöðvaðir undir áhrifum fíkniefna en áfengis er eitt enn dæmið um þessa þróun.

En hvað er til ráða?  

Púkinn ætlar ekki að fara út í umræðuna um lögleiðingu kannabisefna - enda hefur hann mun meiri áhyggjur af sterku efnunum.

Það sem Púkinn myndi vilja sjá er eftirfarandi.

Meðferð

Stór hluti þeirra sem eru teknir með fíkniefni eru eingöngu með efni til eigin neyslu, eða þá smávægilega sölu til að fjármagna eigin neyslu.  Þetta fólk þarf á meðferð að halda, ekki refsingum, en meðferðarúrræði sem eru í boði eru takmörkuð og skortur virðist á að þeim sem hafa lokið meðferð sé veitt aðstoð við að koma undir sig fótunum á ný.   Þetta þarf að bæta - það er lítið gagn af því að henda mönnum bara aftur út á götuna eftir meðferð, í þeirra gamla umhverfi og kunningjahóp.  Meðferðin þarf líka að vera í höndum fagfólks, ekki trúarsamtaka, jafnvel þótt þau meini vel.

Refsingar

Það eru aðrir sem stunda fíkniefnaviðskipti ekki bara til að standa undir eigin neyslu heldur í ágóðaskyni.  Púkinn hefur enga samúð með slíku fólki.  Hann vil sjá það tekið úr umferð - varanlega, eða a.m.k. í einhverja áratugi.  Þessir aðilar stunda það að eyðileggja líf annarra.  refsingar við slíku ættu að samsvarandi og refsingar við morðum - jafnvel hærri, því fórnarlömbin geta verið fleiri.  Það má vera að það þurfi að byggja ný fangelsi, en Púkinn telur hreinan þjóðhagslegan ávinning af því aðkoma þessu liði úr umferð.  Refsiramminn í dag er of lágur, og er jafnvel ekki nýttur að fullu.  Þessu þarf að breyta.

Akstur undir áhrifum

Púkinn vill sjá hertar refsingar við akstri undir áhrifum - hvort sem þar er um að ræða áfengi eða fíkniefni.  Sér í lagi vill Púkinn að hér á landi verði tekið upp það kerfi sem tíðkast sums staðar að bílarnir séu gerðir upptækir (nema þeim hafi verið stolið, að sjálfsögðu).  Þessi aðferð er að vísu ekki áhættulaus - hún gæti leitt til aukningar á bílþjófnuðum og því að menn reyni að stinga lögregluna af með meðfylgjandi glæfraakstri, en jákvæðu áhrifin ættu að vega upp á móti því

Síðasta ríkisstjórn stóð sig ekki í þessum málaflokki.   Verður sú núverandi betri?


mbl.is Fleiri ökumenn stöðvaðir undir áhrifum fíkniefna en áfengis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykingamenn eru líka fólk (bara ekki eins lengi)

Púkinn er ekki hrifinn af reykingum og reynir eftir fremsta megni að forðast þá staði þar sem reykt er.  Það kemur þó fyrir að Púkinn neyðist til að sætta sig við reykingar annarra - nú síðast gerðist það á Stranglers-tónleikum sem voru haldnir hérlendis í vor. en þar reyndi Púkinn að njóta tónleikanna, þrátt fyrir loftmengunina, sem fór versnandi eftir því sem leið á kvöldið.

Þegar heim var komið lyktaði Púkinn eins og öskubakka, þannig að ekki var annað til ráða en að fara í sturtu og henda fötunum í hreinsun.

Svona uppákomur heyra nú vonandi sögunni til og fagnar Púkinn því að hér á landi muni aðrir ekki framar eyðileggja fyrir honum skemmtanir eða máltíðir með því að menga loftið umhverfis Púkann.

Sumir reykingamenn telja brotið á réttindum sínum og vilja halda uppteknum hætti, sem betur fer eru fleiri og fleiri komir á þá skoðun að þótt erfitt sé að banna fólki að reykja þar sem það skaðar enga aðra en sig sjálft, þá séu þeir tímar liðnir að fólk megi komast upp með að eitra fyrir öðrum.

Ja...nema þá börnunum sínum.

Það eru nefnilega ýmsir sem telja það eðlilegt að reykja innandyra heima hjá sér, þótt í fjölskyldunni séu börn eða aðrir aðilar sem ekki reykja.   Skítt með það að fólk kjósi að stytta sitt eigið líf - en þeir sem spúa tóbaksreyk yfir sín eigin börn eru einfaldlega óhæfir foreldrar - svo einfalt er það.


Ungfrú Barbiedúkka

icebarbieÍ tilefni af "Ungfrú Ísland" keppninni þar sem stúlkur ganga fram og aftur eins og Barbiedúkkur með innantóm bros, fannst Púkanum tilvalið að benda á þessa "Íslensku" Barbiedúkku sem er í boði á Ebay (sjá þennan hlekk). en hún mun víst vera 21 árs um þessar mundir og á sambærilegum aldri og keppendurnir.

Reyndar virðist hún bara nokkuð lík sumum þeirra. 


Ættleiðingar samkynhneigðra

flamingosCarlos og Fernando hafa verið par síðan þeir komu út úr skápnum fyrir fimm árum síðan.

Þar sem þeir geta af augljósum ástæðum ekki eignast afkvæmi saman, en hafa báðir mikinn áhuga á að sinna foreldrahlutverkinu er úr vöndu að ráða. 

Sem betur fer fyrir þá þurfa þeir ekki að standa í stríði við neinn varðandi þær óskir - þeir eru nefnilega flamingóar. 

Undanfarin ár hafa þeir rænt eggjum annarra fugla og ungað þeim út, en í ár bar svo við að ákveðið var að leyfa þeim að "ættleiða" egg sem foreldrarnir höfðu yfirgefið.

Að sögn dýravarða við Wildfowl & Wetlands Trust í Slimbridge, Englandi, eru Carlos og Fernando umhyggjusamir, skiptast á um að fóðra ungana sem þeir ala upp.

Nánari upplýsingar má finna á pinknews.co.uk, en starfsmenn munu víst vera nokkuð forvitnir um hvort ungar þeirra muni hneigjast til síns kyns eða þess gagnstæða - spurningin um erfðir og uppeldi.


Skemmdarverkahúsmæður

Það að vinna skemmdarverk á eignum annarra er ákveðið merki um vanþroska - flestir krakkar vaxa upp úr því um 5 ára aldurinn, en því miður eru einhverjir sem gera það ekki.

Sú staðreynd að umrædd kona var með barnastól í bílnum gæti bent til þess að hún ætti börn - og sé svo, þá vorkennir Púkinn því barni, að þurfa að alast upp hjá svona foreldri - það liggur við að manni finnist dapurlegt að það eru strangari kröfur gerðar til þeirra sem vilja eignast hund en til þeirra sem vilja eignast börn.

Púkinn hefur annars oft ritað um þann sóðaskap sem veggjakrot er og vill gjarnan sjá gripið til aðgerða, en eins og staðan er, þá má Púkinn ekki einu sinni setja upp eftirlitsmyndavél með upptökubúnaði á sínu eigin húsi til að fylgjast með skemmdarvörgum. 


mbl.is Kona „graffar" í skjóli nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband