Færsluflokkur: Dægurmál

Aumingja bangsi litli...eða hvað?

polarbearEr Púkinn einn um að finnast það vera svolítið órökrétt að það megi lögum samkvæmt skjóta hvítabirni, en síðan megi ekki nýta kjötið, því þetta sé friðuð dýrategund?

Það er dapurlegt að það skuli hafa þurft að skjóta dýrið, en var nokkuð annað hægt að gera í stöðunni?  Stjórnvöld voru búin að klúðra málinu, með því að sjá ekki til þess að til væri í landinu búnaður til að ná svona dýrum lifandi.  Fjölmiðlar voru búnir að auka hættuna með því að auglýsa tilvist dýrsins.  Það var ekki hægt að vonast til að björninn myndi bara halda sig á ströndinni að veiða seli - það var ekki hægt að hætta á að dýrið réðist a fólk.

Var eitthvað annað hægt að gera eins og staðan var?

Það hefði verið gaman að ná dýrinu lifandi, skella því í búr og flytja það til óbyggðra eyja við norðurhluta Grænlands eða Kanada - nota tækifærið og gera svolítinn fjölmiðlasirkus úr þessu - svona til að reyna að bæta ímynd Íslands erlendis meðal þess hóps sem lítur svo á að Íslendingar séu hreinræktaðir villimenn.

Púkinn hefði samt alveg vilja þiggja góðan bita af birninum fyrst hann var skotinn - athuga hvort hann er eins góður og skógarbjörninn sem hann smakkaði eitt sinn á rússneskum veitingastað.  Synda og skömm að fara svona með mat.


mbl.is Einmana og villtur hvítabjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing fyrir lögreglunni?

Púkinn minnist þess tíma þegar almennt var borin virðing fyrir lögreglunni, en sú afstaða er á undanhaldi í dag, hvort sem því er um að kenna að þjóðfélagið er agalausara en áður, eða að lögreglan hefur glatað þeirri stöðu sem hún hafði í huga fólks, hvort sem er vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis.

Sú afstaða er líka að verða útbreiddari að lögreglustarfið sé ekki eins eftirsóknarvert og áður - það sé illa launað og vanþakklátt, þannig að minna af raunverulega hæfu fólki sæki í það.

Fjársvelti lögreglunnar bætir ekki úr og sést það á því að fjöldi lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki haldið í við íbúafjölgunina.

Lögreglan getur reyndar að hluta sjálfri sér um kennt um breytta afstöðu fólks - Púkinn gæti fjallað um það að lögreglumenn virðast ekki kunna að biðjast afsökunar þegar þeir eru að angra fólk að ástæðulausu, eða þegar lögreglan segir "það tekur því ekki að kæra þetta" þegar fólki finnst á sér brotið, en þannig atburðir hverfa í skuggann af tilvikum eins og því sem kom upp í 10/11.

Er það furða þótt margir spyrji sig hvort lögreglunni sé treystndi fyrir Taser byssum? 


mbl.is Lögregla fer yfir atvik í 10/11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eurovision og páfagaukurinn

cockatiel1Á heimili Púkans er páfagaukur sem hefur mikinn og ákveðinn tónlistarsmekk - ef hann heyrir lag sem honum líkar tístir hann hátt og dansar fram og aftur, en þegir annars þunnu hljóði. 

Í gær gerði Púkinn athugun - setti búrið þar sem páfagaukurinn gat fylgst með Eurovision og skráði niður hvaða lög fengu mestar undirtektir hjá gauknum.

Þau 10 lönd sem hann tísti eða dansaði mest við voru síðan tekin sem spá páfagauksins um hvaða þjóðir myndu komast áfram.

Skemmst er frá því að segja að 8 af þeim 10 sem páfagaukurinn valdi komust áfram - honum leist alls ekki á tyrkneska lagið og var lítið hrifinn af því portúgalska.

Púkinn hefði kannski átt að láta hann spá fyrir um úrslitin, og veðja samkvæmt því í einhverjum breskum veðbanka - hver veit nema páfagaukurinn gæti þannig unnið sér inn fyrir öllu því fuglafóðri sem hann hefur étið gegnum árin.


mbl.is „Kom skemmtilega á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taser og réttarlæknar

taserTaser fyrirtækið hefur nú skorið upp herör gegn þeim réttarlæknum sem voga sér að nefna rafstuðbyssurnar sem dánarorsök þegar fólk deyr skömmu eftir að hafa verið skotið með þeim.

Það sem fyrirtækið ætlast til að sé nefnt sem dánarorsök er "excited delirium" (sjá Wikipedia grein um það hér) en sú dánarorsök er ekki viðurkennd af læknavísindunum.

Þeir réttarlæknar sem nefna byssurnar mega eiga von á málssókn, eða eins og talsmaður fyrirtækisins, Steve Tuttle, segir:

We will hold people accountable and responsible for untrue statements.  If that includes medical examiners, it includes medical examiners.

Sjá nánar um málssóknirnar hér

Fyrirtækinu hefur tekist að fá dánarorsök breytt í um 60 tilvikum þar sem fólk hefur dáið skömmu eftir að hafa fengið rafstuð úr byssunum, en fjöldi málaferla stendur enn yfir þar sem aðstandendur fórnarlamba krefja fyrirtækið um skaðabætur. 

Það yrði jú afskaplega slæmt fyrir viðskiptin ef byssurnar yrðu viðurkenndar sem hættuleg vopn...þá gætu þeir jafnvel þurft að hætta að selja þær til almennings á vefnum (sjá pöntunarsíðuna hér).


mbl.is Taser International gerir athugasemd við Amnesty
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnfirskir brennuvargar?

sinubruniHvað er eiginlega á seyði í Hafnarfirði?  Hver sinubruninn eftir annan og hugsanlega bara spurning um tíma þangað til stórslys verður - eldur sem berst í hús eða skógarflæmi.

Eru þetta hafnfirskir krakkar og unglingar sem standa að þessu?  Standa foreldrarnir sig ekki í stykkinu, eða er þetta alvarlegra - fullorðnir brennuvargar sem þora ekki að kveikja í húsum og láta sér nægja sinu?

Púkinn er ekki viss, en veltir fyrir sér hvort það sé að verða nauðsyn á skipulögðu nágrannaeftirliti - fólk sem skiptist um á að vera á ferðinni og fylgist með íkveikjutilraunum, veggjakroti og öðru slíku.  Svo mikið er víst að ekki er lögreglan að sinna svona eftirliti á viðunandi hátt.


mbl.is Sinubruni í Setbergslandi í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ink Crew", "Cool Boyz" og önnur sóðagengi

graffitiVeggjakrotarar hafa almennt þá ímynd að þetta séu illa gefnir og illa siðaðir 10-14 ára strákaræflar, sem bera ekki virðingu fyrir eigum annarra, því þeim sé það fullljóst að þeir muni aldrei eignast neitt sjálfir og aldrei verða borgunarmenn fyrir þeim skemmdum sem þeir valda.

Þessi ímynd er að vísu ekki að öllu rétt, því þetta eru ekki allt stráklingar - í hópi sóðanna má líka finna eldra fólk, sem sumt er sjálfsagt með einhver geðræn vandamál.

Hvað er hægt að gera í þessu? 

Púkinn sér fram á aukningu á notkun öryggismyndavéla - ef hægt er að ná sóðunum á filmu, er möguleiki að hægt sé að hafa upp á þeim og krefja þá eða foreldra þeirra um skaðabætur.  Reyndar er Púkinn þeirrar skoðunar að það væri nú áhrifaríkara að reka þessi grey til að hreinsa ósómann eftir sig, en það er víst ekki hægt, því oft þarf sérstök hreinsiefni sem börn mega ekki nota.

Hegðun þessara krotara minnir Púkann svolítið á hegðun sumra hunda - ef þeir rekast á stað sem einhver annar hundur hefur migið á, þá þurfa þeir að merkja sér blettinn líka - yfirmíga og helst að reyna að ná hærra upp á vegginn en fyrri hundurinn - svona til að láta líta út fyrir að þeir séu stærri og merkilegri en þeir eru í raun.

Það er að vísu hægt að venja hundana af þessum ávana með því að gelda þá - synd og skömm að það má ekki nota þá aðferð á krotarana.

Kannski er bara áhrifaríkast að leggja fé til höfuðs þeim - 100.000 króna verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til handtölku viðkomandi? 


mbl.is Krotað á strætó í skjóli nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aprílgöbb erlendis

penguinsÍ dag hafa fjölmiðlar út um allan heim gert grín að lesendum sínum, eða að minnsta kosti fengið þá til að brosa út í annað.   Púkinn hefur verið að eltast við nokkur af göbbum dagsins, en það sem sendur upp úr var samstarfsverkefni BBC, The Daily Mirror og The Daily Telegraph um hóp mörgæsa sem hefði á ný þróað flughæfnina og tekið á loft fyrir framan hóp furðu lostinna sjónvarpsmanna.

Breska blaðið The Guardian birti frétt um að franska forsetafrúin, Carla Bruni-Sarkozy hefði tekið að sér að bæta breska fatamenningu og matargerðarlist og franskir ráðamenn voru einnig í sviðsljósinu hjá The Sun, sem  sagði Sarkozy vera á leiðinni í strekkingarmeðferð til að hækka sig um nokkra sentimetra.

Já, og svo var það The Daily Star, sem upplýsti lesendur sína um að í þágu jafnréttis yrði James bond hér eftir ekki bara kvennabósi, heldur jafn mikið gefinn fyrir karlkyns bólfélaga.


"Ég veit betur..."

Það eru alltaf einhverjir sem þykjast ekki þurfa að fara eftir viðvörunum um að vegir séu lokaðir, ana út í ófærðina, sitja fastir og þurfa svo á aðstoð að halda.

Púkinn er þeirrar skoðunar að í slíkum tilvikum ætti fólk að borga fyrir þjónustu björgunarsveita.  Sama gildir um rjúpnaskyttur og aðra þá sem koma sér í svipuð vandræði vegna eigin heimsku.

Ef fólk ber sjálft ábyrgðina á sínum vandræðum, er þá réttlátt að aðrir beri kostnaðinn af því að bjarga viðkomandi?


mbl.is Ekki hlustað á viðvaranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nonni nýríki...og bankinn hans

Það var óneitanlega athyglivert að hlusta á Jón Ásgeir hreinlega tala niður gengi bankanna.  Það var einnig athyglivert að dagana á undan voru sumir þeirra sem starfa við eignastýringu að ráðleggja viðskiptavinum sínum að losa sig við bréf í Glitni, því þau ættu eftir að lækka - og lækka meira en markaðurinn í heild.

Hvað er á seyði?  Hvað vita sumir sem sumir aðrir vita ekki?

Sumir halda að Jón Ásgeir sé að tala niður gengi bankanna og annarra félaga á markaði í þeim tilgangi að geta keypt allt saman á brunaútsöluverði - það munu víst nefnilega ennþá vera einhver fyrirtæki sem hann á ekki.

Aðrir túlka þessi orð hans sem svo að hann viti að allt sé á leiðinni í hundana og sé að reyna að losna undan því að vera sakaður um að tala upp gengi fyrirtækja þegar hann veit hve slæmt ástandið er.

Aðrar kenningar heyrast líka, en enginn virðist trúa því að hann meini bara það sem hann er að segja og engin dulin áætlun sé á bak við þetta ...  hvernig var annars málshátturinn "Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um græsku" eða þannig.

Púkanum fannst hins vegar furðulegt að heyra Jón Ásgeir hreinlega bera sig aumlega yfir því að allir íslenskir fjárglæ... eh.. athafnamenn væru settir undir sama hatt erlendis.  Málið er nefnilega það að burtséð frá Björgólfsfeðgum, þá eru Jón Ásgeir og fyrrverandi eða núverandi viðskiptafélagar hans nánast  þeir einu sem um er að ræða.  Það er eiginlega erfitt að vorkenna mönnum sem kvarta yfir ástandi sem þeir bera að stóru leyti ábyrgð á sjálfir.

Púkinn á engra hagsmuna að gæta, enda á hann engin hlutabréf í fyrirtækjum sem eru á markaði hérlendis, en hann er samt forvitinn að vita hvernig gengi bréfanna í Glitni breytist næstu daga.


mbl.is Skuldaálag úr takti við raunverulega stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumt er of ótrúlegt...

marriedFréttin á forsíðu Morgunblaðsins um að dómari hefði fyrst dæmt mann og síðan gifst honum var með ólíkindum, enda hefði dómarinn augljóslega verið vanhæfur í því máli.

Púkanum fannst þetta svona aðeins of ótrúlegt, þannig að hann athugaði staðreyndir málsins.

Það rétta í málinu var að dómarinn var James Mazzone og hann gifti þau Kevin Felder og Misty Johnson eftir að hafa dæmt Kevin til fangelsisvistar.

Það hefur einhver flýtt sér aðeins of mikið við að þýða þessa frétt. 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband